Gestagangur á Sögu
Hótel Saga er án efa ein af glæsilegustu byggingum á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Stórt og tignarlegt hús og eitt af helstu kennileitum Reykjavíkurborgar. Hótel Saga á sér áhugaverða sögu, ekki síst hvað varðar gestagang.
Upphaf Bændahallarinnar og Hótel Sögu má rekja allt aftur til 1939 þegar Sigurður Jónsson á Stafafelli lagði fram erindi á Búnaðarþingi um húsnæðismál Búnaðarfélags Íslands. Erindi Sigurðar var vísað til stjórnar Búnaðarfélagsins, sem lagði til að byggt yrði nýtt húsnæði og skyldi það verða höfuðsetur og heimili Búnaðarfélags Íslands auk þess sem þar gæti einnig verið aðsetur og samkomuhús bænda.
Ásgeir Ásgeirsson, forseti Íslands, ásamt Steingrími Steinþórssyni búnaðarmálastjóra þegar hornsteininn var lagður að Hótel Sögu árið 1961.Mynd / Úr safni Hótel Sögu.
Fyrsta skóflustungan tekin 11. júlí 1956
Árið 1941 var ályktað á Búnaðarþingi um að byggja bændahús í Reykjavík. Sama ár skrifaði svo búnaðarmálastjóri búnaðarsamböndunum í landinu bréf þar sem hann leitaði eftir stuðningi við byggingu húsnæðis undir starfsemi félagsins. Húsið átti jafnframt að vera gistiheimili fyrir sveitafólk sem ætti erindi til Reykjavíkur. Árið 1947 var kosin byggingarnefnd sem skyldi hafa forgöngu um málið og ári seinna fékk félagið lóð undir bygginguna við Hagatorg.
Stéttarsamband bænda gekk til liðs við Búnaðarfélagið árið 1953 og gerðist aðili að byggingu hússins. Halldór H. Jónsson byggingarmeistari var fenginn til að teikna húsið og fyrsta skóflustungan tekin 11. júlí 1956. Til þess að afla fjár var ákveðið að leita eftir því við Alþingi að á árunum 1958 til 1961 yrði svokallað búnaðarmálasjóðsgjald, sem innheimt var af útborgunarverði til bænda, hækkað um ½ prósent og rynni það fé sem þannig innheimtist til byggingarinnar. Voru lög um þetta samþykkt á Alþingi í mars
árið 1959.
Kostnaðurinn við byggingu Bændahallarinnar varð meiri en ætlaður var í fyrstu og innheimta viðbótargjaldsins framlengd til 1970, þegar það var lagt af.
Fyrstu hæðir hússins voru teknar í notkun fyrir hótelrekstur árið 1962 og tveimur árum síðar skrifstofur búnaðarsamtakanna.
Byggingu fyrri áfanga Bændahallarinnar lauk 1965. Eldri byggingin er á sjö hæðum auk kjallara og Stjörnusalarins, sem er áttunda hæðin. Á fyrstu hæð var og er enn afgreiðsla og veitingaaðstaða. Súlnasalur og aðrir veitingasalir eru á annarri hæð. Skrifstofur Bændasamtakanna eru á þriðju hæð og fjórða hæðin var öll leigð til Flugfélags Íslands. Gistirými voru á fimmtu, sjöttu og sjöundu hæð.
Á áttunda áratugnum var ákveðið að byggja við Bændahöllina að norðanverðu sjö hæða byggingu. Framkvæmdir við viðbygginguna hófust árið 1982 og lauk 1985.
Frægir gestir
Margir frægir gestir hafa gist á Hótel sögu, kóngar, stjórnmálamenn, leikarar, íþróttamenn, geimfarar, tónlistarmenn.
Sænska konungsfjölskyldan, Silvia drottning (Silvia Renate Sommerlath) og Carl XVI Gustaf. Mynd / Úr safni Hótel Sögu.
Hussein Jórdaníukonungur gisti tvisvar á Sögu þegar hann kom til landsins og mikið umstang og öryggisgæsla var í kringum komu hans. Á hótelinu hafa líka gist Ólafur Noregskonungur og Elísabet Englandsdrottning og var haldin mikil og glæsileg veisla þeim til heiðurs. Auk þess gistu Margrét Þórhildur Danadrottning og Hillary Clinton á forsetasvítunni á Sögu.
Hussein Jórdaníukonungur á Hótel Sögu. Mynd / Úr safni Hótel Sögu.
Joseph Luns, aðalritari NATO, var gestur og einnig tónlistarfólk eins og Dionnne Warwick, Rod Stewart, Ella Fitzgerald og Louis Armstrong, Leonard Cohen, Oscar Peterson, tenórinn Pavarotti, hljómsveitin Whitesnake og rithöfundar, eins og Doris Lessing og Fay Weldon. Boris Spassky gisti í svítunni á Sögu þegar hann atti einvígi við Bobby Fisher um heimsmeistaratitilinn í skák. Einnig gistu liðsmenn enska landsliðsins á Sögu fyrir ekki svo löngu.
Skemmtikrafturinn Jerry Sienfeld gisti einnig á Sögu þegar hann kom til landsins til að skemmta og sama er að segja um söngvarann og hjartaknúsarann Michael Bolton.
Eins og gefur að skilja var oft mikið umstang í kringum þessar heimsóknir, eins og kóngafólksins, og að sjálfsögðu settur út rauður dregill í tilefni komu þeirra.
Söngvari og leigubílstjóri
Ekki má gleyma því að mikill fjöldi íslenskra skemmtikrafta hefur komið fram á Hótel Sögu í gegnum árin. Allt of langt mál yrði að telja þá alla upp en líklega er Ragnar Bjarnason sá sem stóð vaktina lengst í Súlnasalnum. Að dansleiknum loknum brá Raggi sér svo í hlutverk leigubílstjóra og keyrði gesti heim.
Allsber með hatt
Karen Þórsteinsdóttir, sem var á sínum tíma umsjónarmaður einstaklingsbókana á Sögu, hóf störf í gestamóttökunni og kann margar sögur af gestum.
„Á Sögu kom alls konar fólk, bæði skemmtilegt og kátt og stundum miður skemmtilegt og erfitt í samskiptum, en sem betur fer var það sjaldgæfara en þeir sem voru kurteisir og glaðir.
Einu sinni var von á erlendum þjóðhöfðingja hingað til að gista. Bíllinn var að renna í hlað og allir í startholunum þegar lyftan kom niður. Út úr lyftunni stígur einn af okkar yndislegustu gestum, fremur smávaxinn maður, og greinilegt að hann hafði fengið sér aðeins of mikið í tána, enda stóð hann þarna kviknakinn og með hatt á höfðinu. Sem betur fer tókst okkur að koma karlinum í stóran frakka af einum dyraverðinum og á bakvið í gestamóttökuna áður en þjóðhöfðinginn gekk í hús.“
„... and I am a princess“
„Hingað kom líka einu sinni hópur af ungum mönnum sem höfðu komið til landsins á einkaþotu. Einn þeirra kom í móttökuna og pantaði nokkrar svítur. Í mínum huga voru þetta bara einhverjir smástrákar og mér leist ekki betur á þá en svo að ég lét þá greiða allt fyrirfram. Um nóttina var svo eitthvert partístand á þeim. Daginn eftir kallaði ég þá niður, talaði yfir þeim og bannaði þeim að hafa svona mikinn hávaða. Einn þeirra gekk þá að mér ansi mannalegur og sagði, „but I am Prince“. Ég hafði ekki hugmynd um hver þetta var og svaraði „yes, and I am a princess“.
Eftir að strákarnir voru farnir kom í ljós að þetta voru tónlistarmaðurinn Prince og vinir hans að skemmta sér.“
Bandarísk geimfaraefni komu til Íslands í júní 1967 til æfinga í Öskjuhrauni vegna undirbúnings ferða til tunglsins. Að sjálfsögðu gistu þeir á Hótel Sögu, en í þessum hópi voru fyrstu jarðarbúarnir sem lentu síðar á tunglinu 20. júlí 1969 í leiðangri Appolo 11. Það voru þeir Neil Armstrong og Edwin Aldrin, en með þeim í tunglferðinni var Michael Collins, sem beið í geimfarinu á braut um tunglið á meðan félagar hans lentu á yfirborði þess.
Ýtti öryggisverði út úr lyftunni
„Ólafur Noregskonungur kom hingað oftar en einu sinni og hefð fyrir því að ég fylgdi honum upp á svítuna. Eitt sinn þegar Ólafur rennir í hlað stöndum við Ingibjörg Ólafsdóttir, fyrrverandi hótelstjóri, ægilega virðulegar hlið við hlið og bíðum hans.
Allt í einu snýr Ingibjörg sér að mér og spyr mig hvort hún sé með mjólkurskegg. Ég fæ náttúrlega hláturskast. Í ofanálag fór lyftan ekki af stað þegar við ætluðum upp þannig að ég þurfti að ýta einum öryggisverðinum út.
Við vorum of þung fyrir lyftuna. Ólafur hafði greinilega gaman af þessu og hló, enda afalegur og góður karl. Ég átti því mjög erfitt með að hemja mig í lyftunni upp með kónginum,“ segir Karen.
Hélt á öskubakka drottningarinnar
Hörður Sigurjónsson, fyrrverandi gæða- og sölustjóri veitingasviðs Hótel Sögu, hóf fyrst störf á Sögu sem nemi í framreiðslu árið 1966. „Árið 1973, þegar Danadrottning kom í opinbera heimsókn til Kristjáns Eldjárn og Halldóru, var haldin veisla fyrir drottninguna í Súlnasalnum. Eins og margir vita reykir Margrét Þórhildur mikið og ég hafði það eina hlutverk um kvöldið að standa, ekki allt of nærri henni, með öskubakka og passa að hún dræpi í sígarettunum í honum.“
Konráð Guðmundsson hótelstjóri og Ella Fitzgerald á Sögu í febrúar 1962, en hún hélt ferna tónleika í Háskólabíói.
Mynd / Úr safni Hótel Sögu.
Johnson harður í prúttinu
Þegar Lyndon B. Johnson, þáverandi varaforseti Bandaríkjanna, gisti á Sögu voru uppi miklar varúðarráðstafanir. Haukur Gunnarsson í Rammagerðinni var fenginn til að koma með minjagripi á hótelið til þess að spara varaforsetanum og fylgdarliði hans það ómak að fara út að kaupa minjagripi. Johnson var harður við að prútta en Haukur kunni ekki við að þrátta við varaforsetann og hafði því lítið upp úr krafsinu.
Sagan segir að í veislu sem haldin var Johnson til heiðurs í Súlnasalnum hafi hann setið á milli Ásgeirs Ásgeirssonar forseta og Ólafs Thors. Johnson féll prýðilega við Ólaf, gleymdi þess vegna öllum mannasiðum og sneri bakhlutanum að Ásgeiri allan tímann.
Geimfarar gista
Áhöfn Apollo 13 geimflaugarinnar gisti á Hótel Sögu þegar geimfararnir heimsóttu Ísland ásamt eiginkonum sínum í október 1970. Þeir voru James A. Lovell, John L. Swigert og Fred W. Haise. Neil Armstrong, fyrsti maðurinn sem steig fæti á tunglið, gisti á Sögu í heimsókn sinni til landsins.
Í húsinu gistu einnig leikararnir Charlton Heston, Mia Farrow og André Previn píanóleikari. Alec Guinness leikari gisti reglulega á Sögu í nokkur ár ásamt eiginkonu sinni, Merula Sylvia Salaman. Guinness og Salaman sátu alltaf við sama borðið þegar þau borðuðu morgunmat á Grillinu.
Beatrix Wilhelmina Armgard Hollandsdrottning og prins Claus. Mynd / Úr safni Hótel Sögu.
Viðamiklar endurbætur
Árið 2016 var lagt í viðamiklar endurbætur á húsnæði Hótel Sögu. Húsnæðinu var breytt og 27 ný herbergi tekin í notkun á þriðju hæð norðurbyggingarinnar, skipt út lyftum, lagnir lagaðar og loftræsting endurbætt en þar höfðu áður verið skrifstofur.
Þar á eftir var ráðist í endurbætur á Súlnasalnum og herbergin á fjórðu hæð gömlu byggingarinnar hafa verið endurnýjuð að öllu leyti en með hliðsjón af upprunalegu hönnuninni.
Strax í framhaldi af þeim breytingum loknum var farið í endurgerð á fyrstu hæð hússins og nánast allt rifið út. Glerhúsið sem var við hliðina á aðalinnganginum og hýsti Skrúð var rifið og gestamóttakan tekin í gegn. Í staðinn fyrir Skrúð var settur upp bar og nýr veitingastaður fyrir hundrað manns.
Síðan kom Covid
Rekstur Hótel Sögu varð illa úti í Covid-faraldrinum og þrátt fyrir að allt sem mögulegt var væri gert til að halda rekstrinum gangandi dugði það ekki til og var hótelinu lokað 1. nóvember 2020.
Frá þeim tíma hafa átt sér stað viðræður við ýmsa aðila um framtíð Bændahallarinnar og hugmyndir verið um að halda þar áfram hótelrekstri eða breyta húsinu í hjúkrunarheimili en flest bendir nú til að ríkið muni festa kaup á húsnæðinu undir starfsemi Háskóla Íslands.
Bændahöllin mun því væntanlega fá nýtt hlutverk fljótlega sem hluti af Háskóla Íslands og þeirri starfsemi sem þar fer fram.
Hótel Saga og höggmyndin Íslandsmerki eftir Sigurjón Ólafsson. Mynd / HKr.