Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Þorbjörg Oddgeirsdóttir
Þorbjörg Oddgeirsdóttir
Líf&Starf 15. júlí 2015

Hættir eftir 47 ára starf fyrir íslenska bændur

Höfundur: Erla H. Gunnarsdóttir

Það eru sennilega ekki margir sem geta státað af því að eiga heila starfsævi að baki á sama vinnustaðnum en það getur Þorbjörg Oddgeirsdóttir, sem lauk störfum um síðustu mánaðamót hjá Bændasamtökunum eftir 47 ára starf.

Tvítug að aldri hóf hún störf á Búreikningastofu landbúnaðarins þar sem hún starfaði þar til stofan var lögð niður árið 1990. Þá bauðst henni gjaldkerastaða hjá Búnaðarfélagi Íslands. Fimm árum síðar breyttist heiti þess í Bændasamtök Íslands og sinnti Þorbjörg gjaldkerastarfinu þar til 1. júlí síðastliðinn.

Þorbjörg er fædd í Ási við Kópasker, dóttir hjónanna Oddgeirs Péturssonar og Önnu Árnadóttur en hún ólst upp í hópi sjö systkina.

„Ás var læknisbústaður en þegar ég var á öðru ári flutti fjölskyldan á Vatnsenda á Melrakkasléttu sem er nýbýli út frá Oddsstöðum. Þar sinntu foreldrar mínir fjárbúi en rétt fyrir jólin árið 1957 flytjum við til Reykjavíkur. Það var erfitt í ári og pabbi var farinn í bakinu og veðurfar var erfitt, miklir snjóavetrar og allt á kafi í snjó svo það var löng leiðin inn á Kópasker. Pabbi var elsti sonurinn og því var ætlast til þess að hann yrði bóndi en allir þessir samverkandi þættir urðu til þess að foreldrar mínir fluttu suður og pabbi fékk vinnu í Reykjavík. Fyrst starfaði hann hjá Útflutningssjóði og síðan í fiskmjölsverksmiðjunni Kletti en síðustu árin var hann vaktmaður hjá Reykjavíkurborg,“ útskýrir Þorbjörg og aðspurð um hvort sveitastörfin hafi aldrei togað í hana svarar hún:

„Mér fannst alltaf yndislegt að vera í sveit en það sat aldrei í mér að verða bóndi sjálf. Við fórum oft í tjaldferðir með mömmu eftir að við fluttum suður og höfðum mjög gaman af því. Mamma var hörkukona og vann utan heimilis alla tíð. Hún vann á saumastofum og var mjög flink í höndunum.  Ég var ung þegar ég fór að vinna með skóla, eða 14 ára gömul og stóð þá vaktina í Laugarásbíói. En ég hafði áhuga á tilbreytingu, að standa á eigin fótum og langaði að læra ritarastörf. Ég fór því til Edinborgar árið 1966. Ég fór aðra leið að því en flestir því ég fór í breska sendiráðið hér og fór utan sem au-pair en ákvað að nota þann tíma sem ég hafði á kvöldin til að fara í ritaraskóla. Þar lærði ég ensku, hraðritun, vélritun og bókhald.“

Unnið með gataspjöld

„Þegar ég kem heim frá Edinborg árið 1968 má segja að það sé lítil kreppa hér og það var ekki auðvelt að fá vinnu. Ég leysti af í mánuð sem ritari veðurstofustjóra og var síðan að leita að vinnu og sótti um allt sem ég sá en lítið gekk. Góð vinkona mín vann á Búreikningastofu landbúnaðarins og hún lét mig vita að það vantaði starfskraft í tölvuskráningu. Ég sótti um og fékk starfið.  Við vorum tvær í götunardeildinni, við skráðum upplýsingar á löng gataspjöld. Það fyrsta sem við skráðum voru sauðfjárskýrslur og hrútaskýrslur ásamt bókhaldi bænda,“ segir Þorbjörg og bætir við:

„Á þessum tíma var tölvuvæðing Búnaðarfélags Íslands að byrja. Ég var tvítug þegar ég kom hingað til starfa og var langyngst á vinnustaðnum. Af eldri starfsmönnum þótti það algjör firra að ráða inn tvær stelpur og koma með eitthvað tæki fyrir þær að vinna á. Þetta var hugarfarið í þá daga en Ketill A. Hannesson, yfirmaður búreikningastofunnar og Sveinn Hallgrímsson sauðfjárræktarráðunautur, sem við unnum náið með, voru mjög almennilegir alla tíð.“

Móðurtölvan hjá Mjólkursamsölunni

Á þessum árum voru um 40 starfsmenn í Bændahöllinni og segir Þorbjörg starfsemina hafa líkst umhverfinu sem er í dag með tilkomu Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML).
„Ketill var sá sem forritaði allt en við þurftum að vinna allt í móðurtölvu úti í bæ sem var fyrst staðsett hjá IBM en lengst af hjá Mjólkursamsölunni við Laugaveg þar sem við vorum með aðstöðu. Við þurftum að fara með öll gataspjöldin þangað en síðan breyttist það og stór tölva kom með stórum floppídiskum á undan stóru pc-tölvunum,“ útskýrir Þorbjörg og segir jafnframt:

„Við vorum með aðstöðu á annarri hæðinni í Bændahöllinni þar sem jafnframt var kaffistofa fyrir starfsmenn eftir að Upplýsingaþjónusta ameríska hersins og bókasafn þeirra flutti út úr húsi. Við vorum hluti af tölvudeild fyrirtækisins. Þetta var öðruvísi þá því það voru tveir nautgriparáðunautar, tveir sauðfjárræktarráðunautar og tveir jarðræktarráðunautar og því má segja að Búnaðarfélagið hafi verið meira eins og RML er í dag. Hér voru reiknaðar út jarðræktarskýrslur og hér var líka Vélasjóður sem var með skurðgröfumenn í vinnu úti um allt land og var í nánu samstarfi við ræktunarsamböndin.“

Með viftureimar í skottinu

Árið 1973 eignaðist Þorbjörg son sinn og fyrsta barn, Oddgeir Isaksen, sem er nú fornleifafræðingur hjá Minjastofnun. Þá var fæðingarorlofið einungis þrír mánuðir og þegar Þorbjörg kom aftur til vinnu fékk hún nýtt starfsheiti.

„Nú var ég orðin fulltrúi á Búreikningastofunnni, sem fulltrúi í búreikningum og gegndi því starfi þar til stofan var lögð niður. Ég eignaðist mitt annað barn árið 1977, Aðalheiði Gígju Isaksen, sem er lífefnafræðingur hjá Blóðbankanum í dag. Ég ætlaði að vera heimavinnandi en síðan var haft samband við mig og ég var beðin um að koma aftur tæpum tveimur árum seinna. Í millitíðinni skúraði ég hluta af Búnaðarfélaginu, eða aðra hæðina, þar sem tölvudeildin var svo ég hætti í raun aldrei.“

„Sem fulltrúi fór ég ferðir og hitti bændur um allt land. Síðan voru upplýsingarnar skráðar á gataspjöld og menn fengu áramótayfirlit upp úr áramótum til að geta talið fram. Þetta var síðan gert upp í bókarformi og þannig fengu bændur búreikninginn.  Fyrstu árin vann ég fyrir bændur í Borgarfirði og á Snæfellsnesi og var þá líka með Austurland. Síðar breyttist það og ég vann fyrir bændur á öllu Suðurlandi. Ég fór til allra sem voru með búreikninga, ég stoppaði mislengi á hverjum bæ. Ég þurfti að koma mönnum af stað ef eitthvað hafði komið upp á og menn dregist aftur úr í bókhaldinu. Ég var yfirleitt í 2–3 vikur í einu í þessum ferðum og fór oft tvær á sumri og líka í haustferð svo mitt sumarfrí var oftast í desember. Maður tengdist bændunum öðruvísi eftir að hafa hitt þá og sums staðar varð úr góður kunningsskapur og ég fékk gistingu hjá sumum sem ég þekkti vel. Þarna fór ég inn og út um alla dali og á þessum tíma var ekki malbikað. Eftir því sem vegir löguðust styttist hver ferð um hátt í viku hjá mér því þá komst ég hraðar yfir. Ég hafði gaman af þessu og var ein að þvælast en alltaf með eina til tvær viftureimar í skottinu og tvö varadekk. Ég lenti í því að þurfa að skipta um dekk og viftureim og varð að bjarga mér sjálf en ég var sterk og hraust í þá daga og þetta gekk allt vel.“

Ástin kviknar á göngum Bændahallarinnar

Búreikningastofan var lögð niður upp úr 1990 og stofnuð var Hagþjónusta landbúnaðarins á Hvanneyri en Erna Bjarnadóttir var fyrsti framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

„Þá voru starfsmennirnir í raun settir á biðlaun, Pétur Hjálmsson og Jóhann Ólafsson, en Ketill var hagfræðiráðunautur Búnaðarfélagsins og hélt því starfi áfram. Ég hefði átt að fara á biðlaun líka en var þá boðin vinna sem gjaldkeri hjá Búnaðarfélaginu og hélt því áfram þegar Bændasamtökin voru stofnuð ásamt því að sjá um skjalasafnið. Þá reiknaði ég líka út laun afleysingafólks hjá Ráðningarþjónustu landbúnaðarins sem Eiríkur Helgason stýrði“ útskýrir Þorbjörg og talið berst að Óttari Geirssyni, eiginmanni hennar til rúmlega 30 ára, sem starfaði lengst af sem jarðræktarráðunautur hjá Búnaðarfélagi Íslands og síðar Bændasamtökunum.

„Óttar byrjaði að vinna hér upp úr 1970 og þá var ég gift mínum fyrri manni og hann var líka kvæntur en missti síðar konuna sína. Það var síðan ekki fyrr en um 1984 sem við fórum að stinga saman nefjum, við vorum búin að vinna saman hérna lengi og vorum ekkert að spá í hvort annað en svona vill nú verða. Þar sem Óttar átti einn 16 ára son varð til fimm manna fjölskylda þegar við fórum að búa saman.  Þetta var mikil breyting á okkar högum en til góðs fyrir okkur öll.  Í vinnunni gekk lífið sinn vanagang og breyttum við ekki framkomu okkar hvort við annað né við aðra vinnufélaga þótt við værum orðin par.“

Gamlir karlar á flókaskóm

Þorbjörg á margar góðar minningar úr Bændahöllinni og minnist þess þegar starfsferillinn var að byrja. Þá þótti hótelið eitt flottasta hótel landsins og oft mátti sjá þekkt andlit á Mímisbar og á Hádegisbarnum á Grillinu í þá daga.

„Það er nú svolítið fyndið að rifja það upp, þegar ég byrjaði að vinna hér átti Búnaðarfélagið einn jeppa og eina Volkswagen-bjöllu. Einn starfsmaður sem bjó á Álftanesinu var mest með bjölluna því hann bjó fyrir utan Reykjavík og þurfti að komast í vinnuna því þá þótti þetta óravegalengd en ráðunautarnir höfðu alltaf aðgang að jeppanum. Síðan var gerður samningur við starfsmenn í kringum 1970 að þeir myndu nota sína eigin bíla og akstursbækur samhliða því. Það þótti mikið út úr að vera hér vestur í bæ, þeir sem bjuggu í Reykjavík fengu til dæmis bílastyrk og sérkjör ef þeir unnu uppi á Keldnaholti. Nú gerist þetta aftur að fyrirtækið á bíla svo allt fer þetta í hringi,“ segir Þorbjörg brosandi og heldur áfram að rifja upp gamla tíma:

„Þegar ég byrjaði hjá Búnaðarfélaginu unnu hér nokkrir fullorðnir menn, um og yfir 70 ára gamlir, þeir gengu allir um á flókaskóm og því var aðsetur þeirra kallað Flókadeildin. Þeim fannst gott að vera í mjúkum inniskóm og voru fínir og duglegir karlar. Ég ræddi stundum við þessa menn sem reyndust mjög ungir í anda. Einn þeirra sagði mér þegar hann kom heim frá námi í útlöndum og réði sig til Búnaðarfélagsins. Þegar hann kvæntist hækkaði hann í launum því gert var ráð fyrir að konan hætti að vinna og yrði heimavinnandi. Þetta átti við um karlmenn sem unnu hjá opinberum stofnunum. Svona var hugsunin á vinnumarkaðinum þá. Kona gifti sig og varð þá að fara heim.“

Sýndur mikill skilningur

Þorbjörg kveður nú vinnustaðinn með vissum söknuði en er ákaflega þakklát fyrir þann tíma sem hún hefur átt í Bændahöllinni og fyrir þann skilning sem henni hefur verið sýndur í veikindum sem hún hefur glímt við í mörg ár.

„Mér hefur alltaf fundist þetta mjög góður vinnustaður en ég lenti í því að ganga ekki alveg heil til skógar og mér hefur verið sýndur mikill skilningur. Ég er með mjög slæma gigt sem hefur herjað á mig síðan ég var 29 ára gömul. Ég hef oft verið mjög illa haldin af henni og er til dæmis eini Íslendingurinn sem hefur farið í stofnfrumumeðferð til að reyna að ná bata. Ég var einkennalaus í rúm þrjú ár en ég fékk síðan flensu og þá byrjaði þetta allt aftur. Þannig að veikindin hafa fylgt mér ansi lengi en ég hef alltaf sinnt minni vinnu og hef síðastliðin 12 ár verið í 50 prósent starfi. Ég hef þurft að vera dugleg að fara í sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun til að halda mér gangandi. Þetta hefur gengið mjög vel, þá vill maður vinna sem best fyrir þá sem sýna manni skilning,“ útskýrir Þorbjörg og segir jafnframt:

„ Ég er búin að vinna með ótrúlega mörgu og góðu fólki sem ég er afar þakklát fyrir. Við Óttar höfum alltaf verið virk, tekið þátt í því félagslífi sem hefur verið í gangi hverju sinni, hvort sem það snýr að starfsmannaskemmtunum eða til dæmis Búnaðarþingi. Við höfum haft það að leiðarljósi að mæta á slíkar uppákomur, vera með fólkinu og kynnast því. Það er skrýtið að koma ekki aftur eftir sumarfrí en lífið heldur áfram og nú er tími til að njóta þess hið ýtrasta sem ég mun og reyna að gera.“

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...

Verndarar láðs & lagar
Líf&Starf 14. mars 2022

Verndarar láðs & lagar

Þegar verndarar láðs og lagar ber á góma er gaman að rekast á þá þar sem maður á...

Réttalistinn 2024
29. ágúst 2024

Réttalistinn 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Göngur og góður reiðtúr
13. september 2024

Göngur og góður reiðtúr

Bændur selja Búsæld
13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Gerum okkur dagamun
13. september 2024

Gerum okkur dagamun