Mjólkurflutningur hjá Mjólkurbúi Flóamanna á Selfossi
Mjólkurflutningar hjá Mjólkurbúi Flóamanna á Selfossi um miðja 20. öld. Ökumenn flutningabílanna lentu oft í honum kröppum þegar snjóþyngsli voru mikil um landið. Í Nýja dagblaðinu í febrúarmánuði árið 1938 segir „Yfir Hellisheiði hefir verið með öllu ófært í nokkra daga á venjulegum bifreiðum, en nokkrum mjólkurflutningum að austan hefir þó verið haldið uppi með snjóbíl og dráttarvél útbúinni með beltum á hjólum. Starfar hún á vegum Flóabúsins. En svo miklum örðugleikum eru þessar ferðir bundnar, að búast má við, að þeim verði hætt hvað úr hverju.“ Árið 1973 hófust mjólkurflutningar á tankbílum, en fram að því hafði allur flutningur á mjólk verið í mjólkurbrúsum. Varð þessi nýjung til þess að gæði mjólkurinnar héldust lengur, en á þessum tíma voru afurðastöðvar sautján talsins og kúabú vel yfir tvö þúsund. Árið 2005 sameinaðist Mjólkurbú Flóamanna Mjólkursamsölunni í Reykjavík undir nafninu MS.