Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Ýmis tækifæri til að draga úr losun frá landbúnaði
Fréttir 22. nóvember 2016

Ýmis tækifæri til að draga úr losun frá landbúnaði

Höfundur: Vilmundur Hansen

Landbúnaðarháskóli Íslands hefur sent frá sér skýrslu með greiningu á losun gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum landbúnaði. Skýrslan er hluti af verkefni innan sóknaráætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum.

Í skýrslunni kemur fram að ýmis tækifæri eru til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði til dæmis með vinnslu metans úr búfjáráburði og með því að draga úr eldsneytisnotkun. Einnig kemur fram að frekari rannsókna er þörf til að leggja mat á umfang losunar gróðurhúsalofttegunda úr beitilandi.

Losun í landbúnaði

Samkvæmt því sem segir í skýrslunni tengist losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði tveimur meginþáttum. Annars vegar er um að ræða losun úr framræstum jarðvegi sem notaður er til ræktunar. Hins vegar er losun sem verður vegna annarra þátta innan hvers býlis. Þar af vega þyngst losun metans vegna innyflagerjunar búfjár og losun vegna áburðarnotkunar. Við það bætist losun vegna geymslu og meðhöndlunar búfjáráburðar og losun vegna eldsneytisnotkunar.

Losun úr túnum á framræstum jarðvegi hér á landi metin ígildi tæplega 1.800 kílótonn (kt) CO2. Losun vegna annarra þátta innan býla er metin sem ígildi 734 kt CO2. Þar af vega þyngst losun metans vegna innyflagerjunar búfjár 294 kt CO2 ígildi, og losun vegna áburðarnotkunar 260 kt CO2 ígildi. Það sem eftir stendur er losun vegna geymslu og meðhöndlunar búfjáráburðar 92 kt CO2 ígildi, og losun vegna eldsneytisnotkunar 88 kt CO2 ígildi. Þessu á móti kemur örlítill þáttur þ.e. binding kolefnis í þann hluta túna sem eru á steinefnajarðvegi. Þessi binding er metin upp á 0,7 kt CO2.

Metanvinnsla

Í skýrslunni segir að ýmis tækifæri sé til að  draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá býlum. Þar má meðal annars nefna vinnslu metans úr búfjáráburði. Mögulega má vinna úr þeim búfjáráburði sem hér fellur til um 17 kt CH4. Þessi metanvinnsla svarar til orkuinnihalds í 20 kt af díselolíu, en áætluð notkun á allar dráttarvéla í landbúnaði hér á landi er 12,8 kt af díselolíu.

Metanvinnsla úr búfjáráburði getur einnig verið farvegur fyrir önnur lífræn úrgangsefni og bætt þannig næringarefnum inn á býlin, sem ella væru ekki nýtt. Með þessu mætti því bæði draga úr þörf á tilbúnum áburði og bæta hringrás mikilvægra næringarefna eins og til dæmis fosfórs.

Endurheimt votlendis

Draga má úr losun með því að draga úr framræslu votlendis og beina nýrækt fremur að öðrum jarðvegi og huga að því hvort ekki sé unnt að væta aftur í mýrum sem þegar hafa verið ræstar fram og minnka þar með losun frá þeim. Þessar aðgerðir gætu verið liður í því að innleiða meðhöndlun ræktarlands sem hluta af aðgerðapakka Íslands innan loftslagssamningsins sem gerður var í París á síðasta ári.

Losun frá beitarlandi

Mat á losun gróður­húsalofttegunda úr landi, sem nýtt er til beitar, er í skýrslunni annars vegar byggt á mati á losun og bindingu úr öllu landi utan býlanna, að undanskildum, ám og vötnum, uppistöðulónum og búsetulandi. Hins vegar er það byggt á mati á því hve stór hluti þessa lands er nýttur til beitar.

Samkvæmt einni sviðsmynd sem sett er fram í skýrslunni gæti losun frá landi utan býlanna svarað til ígilda 47.500 kt CO2. Af þeirri losun eru um ígildi 18.100 kt CO2 áætluð innan beitarlanda. Í annarri sviðsmynd er heildarlosun úr landi utan býla metin ígildi 10.800 kt CO2 og þar af um 6.000 kt CO2 úr landi sem nýtt er til beitar. Þarna munar mjög miklu og brýnt að bæta mat á losun úr almennu mólendi, en óvissa í þeim þætti ræður mestu um þennan mun.

Af heildarlosun lands utan býlanna eru ígildi 8.000 kt CO2 metin vegna framræstra votlenda og af því eru 4.500 kt CO2 ígildi metin innan beitarlanda. Þar sem endurheimt votlenda er orðið sérstakt átaksverkefni má gera ráð fyrir að þeim þætti verði sinnt. Eftir stendur samt umtalsverð losun sem mikilvægt er að reyna að draga úr.

Losum úr mólendi

Losun úr almennu mólendi eru metin í skýrslunni á tvenns konar hátt. Annars vegar vegna beins taps á jarðvegi af þessum svæðum í gegnum margskonar rof á landinu. Hins vegar er losun vegna þess að gróður á landinu hefur rýrnað og nær ekki að halda í við niðurbrot á lífrænum efnum í jarðvegi. Þetta umfram kolefni sem er að brotna niður hefur væntanlega safnast í jarðveginn þegar gróðurinn var öflugri. Með öðrum orðum kolefnisforði jarðvegsins er að minnka á ákveðnum hlutum þessa lands.

Verndun jarðvegs

Landgræðsla er vel þekkt aðgerð til að endurheimta gróður á lítt eða ógrónu landi. Það er einnig vel staðfest að með þeim hætti binst kolefni bæði í gróðri og jarðvegi. Landgræðsla er talin binda um 150 kt CO2 á ári miðað við árið 2014. Þessi binding svarar til upptöku á 560 kt CO2. Með því að beina landgræðslu í auknum mæli að því að stöðva rof í grónu landi og styrkja gróður þar sem hann nær ekki að viðhalda kolefnisforða jarðvegsins má mögulega draga stórlega úr núverandi losun úr almennu mólendi.

Skógrækt er einnig vel þekkt aðferð til að binda kolefni. Bindingin er mest í viði trjánna en einnig í steinefnajarðvegi. Binding í skógum landsins er bæði vegna ræktaðra skóga og vaxtar náttúrulegra birkiskóga. Skógar á Íslandi voru árið 2014 taldir binda um 80 kt CO2, sem svarar til upptöku á 300 kt CO2.

Í þessu ljósi þá er tvennt sem blasir við sem aðgerðir til að draga úr þessari losun. Í fyrsta lagi að hindra með öllum ráðum að jarðvegur tapist úr landinu. Í öðru lagi að styrkja gróður á þeim svæðum þar sem hann nær ekki að vega upp á móti þeirri losun sem er þar vegna niðurbrots lífrænna efna.

Verkefnastjórn um loftslagsvænni landbúnað

Greining Landbúnaðarháskólans var unnin fyrir verkefnisstjórn um loftslagsvænni landbúnað og er liður í samstarfsverkefni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Bændasamtaka Íslands og atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðuneytisins um gerð vegvísis um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði.
Skýrsluna í heild má finna á vef umhverfisráðuneytisins:

https://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/taekifaeri-til-ad-draga-ur-losun-fra-landbunadi

Skoða mögulegar lausnir

Næstu skref í verkefninu er að skoða betur mögulegar lausnir til að draga úr losun og hvar þekkingu vantar, en kolefnisbókhald sem tengist landbúnaði og landnotkun er um margt flóknara en á öðrum sviðum. Einnig er gert ráð fyrir að leitað verði samstarfs við bændur um greiningu á losun frá einstökum búum og möguleikum til að draga úr henni.

 

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...