Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Vísindamenn vara við innflutningi á fersku kjöti og ógerilsneyddum ostum
Mynd / BBL
Fréttir 14. mars 2019

Vísindamenn vara við innflutningi á fersku kjöti og ógerilsneyddum ostum

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Drög að frumvarpi til laga um breytingar á lögum um dýra­sjúkdóma og matvæli hefur vakið hörð viðbrögð meðal sérfræðinga í sýkla- og veiru­fræðum sem og hjá bændum. 
 
Bent er á að ef heimilaður verði innflutningur á fersku kjöti og ostum úr ógerilsneyddri mjólk, þá geti það leitt til hraðrar útbreiðslu á fjölónæmum bakteríum sem og alvarlegum smitsjúkdómum eins og mæði-visnuveiru. Hún er landlæg í öllum Evrópulöndum og olli gríðarlegum skaða á Íslandi fyrir nokkrum áratugum. Þá þurfti að farga um 650 þúsund fjár.
 
WHO varar við útbreiðslu fjölónæmra baktería
 
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) leggur nú mikla áherslu á að íbúar heimsins vakni til vitundar um þá miklu hættu sem stafar af aukinni útbreiðslu lyfjaónæmra örvera, m.a. frá búfé. Beitt verði  ýtrustu úrræðum til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu ofurbaktería. 
 
Frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem nú er til umfjöllunar, felur í sér breytingu á lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum nr. 93/1995 um matvæli og lögum nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Segist ráðherra vera þar að ljúka máli sem rætur á að rekja til ársins 2007. Þá tóku íslensk stjórnvöld ákvörðun um að heimila innflutning á ófrystu kjöti frá öðrum ríkjum EES og afnema þannig skilyrði fyrir innflutningi á tilteknum landbúnaðarafurðum innan EES í því skyni að tryggja stöðu Íslands á innri markaði EES. Þá skuldbindingu staðfesti Alþingi árið 2009 en þrátt fyrir það hafi íslenskum lögum ekki verið breytt til samræmis við þá skuldbindingu. 
 
Verið að bregðast við EFTA-dómi
 
Í útskýringum með frumvarps­drögunum segir m.a. að á síðustu tveimur árum hafa bæði EFTA-dómstóllinn og Hæstiréttur Íslands staðfest að íslensk stjórnvöld hafi með þessu brotið gegn skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum. Þá hafi skaðabótaskylda íslenska ríkisins vegna þessa verið staðfest. Með hliðsjón af því er lagt til með frumvarpi þessu að núverandi leyfisveitingarkerfi verði afnumið.
 
Vísindamenn vara við
 
Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði við Læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir við sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, hefur varað við áformum um innflutning á fersku kjöti og öðrum landbúnaðarafurðum. Hann óttast útbreiðslu fjölónæmra baktería sem ekki sé hægt að ráða við með sýklalyfjum. Það geti haft hrikalegar afleiðingar fyrir lýðheilsu á Íslandi með stórauknum kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið. Þá geti það líka haft mikil áhrif á heilbrigði dýrastofna í landinu. Í sama streng hafa fjölmargir aðrir vísindamenn tekið, eins og bandaríski prófessorinn Lance Price, sem hér hélt fyrirlestur fyrir skömmu. Þær áhyggjur eru á svipuðum nótum og Alþjóða-heilbrigðismálastofnunin hefur sent frá sér að undanförnu.
 
Mikil hætta á mæði-visnuveirusýkingum 
 
Valgerður Andrésdóttir, sameinda­erfðafræðingur í Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, gagnrýnir frumvarpið harðlega í umsögn á samráðsgátt. Þar segir hún m.a.:
 
„Ég tel mjög varasamt að leyfa innflutning á hráu kindakjöti og ostum úr ógerilsneyddri sauðamjólk frá Evrópulöndum, þar sem mæði-visnuveiran er landlæg í öllum Evrópulöndum, á Ítalíu, Spáni og í Frakklandi eru 50–100% hjarða sýktar.
 
Mæði-visnuveiran barst hingað til lands með innflutningi á fé af Karakúlkyni frá Þýskalandi árið 1933. Faraldsfræðilegar rannsóknir benda til að af 20 kindum sem fluttar voru inn hafi tvær verið sýktar af mæði-visnuveiru. Þessi veira er af sömu fjölskyldu og HIV-veiran og hegðar sér líkt að því leyti að sjúkdómseinkenni koma ekki fram fyrr en eftir að dýrið hefur gengið með veiruna í mörg ár. Þegar þessara sjúkdóma varð vart hafði veiran því náð að dreifa sér um stórt landsvæði.
 
Erlend sauðfjárkyn eru aðlöguð að þessari veiru, en íslenska féð er mjög næmt, og voru um 30% afföll á hverju ári á bæjum þar sem þessi veiki kom upp og á endanum þurfti að slátra um 650.000 fjár og tók næstum 30 ár áður en tókst að útrýma veirunni. Það er því ljóst að aðeins ein sýkt kind getur valdið ómældu tjóni.
 
Í tilraunasýkingum á Tilrauna­stöð Háskólans í meinafræði að Keldum hefur verið sýnt fram á að aðeins þarf eina veiruögn í barka til þess að sýkja. Veiran er í mjólk, blóði, eitlum og beinmerg. Ef kindur komast í úrgang af hráu kindakjöti eða ógerilsneyddum sauðaosti, t.d. frá veitingastað á landsbyggðinni, má fastlega gera ráð fyrir að fyrr eða síðar muni veira berast í kindur. Eins og áður segir þyrfti ekki nema ein kind að sýkjast til þess að valda miklu tjóni. Þess má geta að við höfum fundið erfðaefni mæði-visnuveiru í frönskum sauðaosti sem keyptur var í búð í Reykjavík.
 
Staða okkar er ekki sambærileg við aðrar þjóðir að því leyti að íslenska sauðfjárkynið er næmara fyrir þessari veiru en nokkur önnur fjárkyn,“ segir Valgerður.
 
WHO biður fólk að velja aðeins ósýkt matvæli
 
Alþjóðaheilbrigðismálastofn­unin (WHO) tekur í sama streng og fjölmargir læknar m.a. á Íslandi, sem óttast mjög áhrifin á lýðheilsu og heilbrigðiskerfið í heild. Þá hefur WHO líka gefið út ráðleggingar til almennings. Þar segir m.a.:
 
„Veldu einungis matvæli sem eru framleidd án sýklalyfja og vaxtarhvata og þar sem sjúkdómavarnir heilbrigðra dýra eru í lagi.“ 
 
– Sjá nánar á bls. 2-4 og 20-21 í nýju Bændablaði.
 
Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...

Samræmt söfnunarkerfi
Fréttir 27. febrúar 2024

Samræmt söfnunarkerfi

Vinna á tillögu um útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu se...

Áhyggjur af myglu, tollum og garðyrkjunámi
Fréttir 27. febrúar 2024

Áhyggjur af myglu, tollum og garðyrkjunámi

Deildarfundur garðyrkjubænda innan Bændasamtaka Íslands var haldinn 12. febrúar ...

Fjölbreytt verkefni
Fréttir 27. febrúar 2024

Fjölbreytt verkefni

Margþættar umræður sköpuðust á deildarfundi hrossabænda. Stofnverndarsjóður, hro...

Hugað að nýrri afurðastöð
Fréttir 27. febrúar 2024

Hugað að nýrri afurðastöð

Sláturfélag Suðurlands (SS) undirbýr nú uppbyggingu á nýrri afurðastöð fyrirtæki...

Ákall um meiri stuðning
Fréttir 27. febrúar 2024

Ákall um meiri stuðning

Deildarfundur geitfjárbænda innan Bændasamtaka Íslands var haldinn 12. febrúar. ...

Óberon besta nautið
Fréttir 26. febrúar 2024

Óberon besta nautið

Óberon 17046 frá Skeiðháholti 1 á Skeiðum hlaut nafnbótina besta naut fætt árið ...