Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Ástrós Ýr Eggertsdóttir og Pétur Snær Ómarsson ásamt eins árs dóttur sinni, Berglindi Lilju. Þessi unga fjölskylda tók við sauðfjárbúinu að Hrísum í Flókadal í lok síðasta árs. Þetta er önnur jörðin sem þau keyptu á árinu, en þau þurftu að rifta kaupsamningi þeirrar fyrri eftir að fasteignirnar
reyndust skemmdar.
Ástrós Ýr Eggertsdóttir og Pétur Snær Ómarsson ásamt eins árs dóttur sinni, Berglindi Lilju. Þessi unga fjölskylda tók við sauðfjárbúinu að Hrísum í Flókadal í lok síðasta árs. Þetta er önnur jörðin sem þau keyptu á árinu, en þau þurftu að rifta kaupsamningi þeirrar fyrri eftir að fasteignirnar reyndust skemmdar.
Mynd / ál
Viðtal 5. febrúar 2025

Ungt fólk tekið við Hrísum

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Pétur Snær Ómarsson og Ástrós Ýr Eggertsdóttir keyptu sauðfjárbúið Hrísa í Borgarfirði í lok síðasta árs. Þetta var önnur jörðin sem þau tóku við á árinu, en stór galli á fasteignum þeirrar fyrri varð til þess að þau létu kaupin ganga til baka. Fyrir tilviljun komust þau að því að fyrri ábúendur á Hrísum voru að leita að arftökum.

Ástrós Ýr Eggertsdóttir og Pétur Snær Ómarsson tóku við sauðfjárbúinu á Hrísum í Flókadal í Borgarfirði í byrjun desember á síðasta ári. Þar bjuggu áður Þórdís Sigurbjörnsdóttir og Dagbjartur Dagbjartsson. Ástrós er þrítug og Pétur 24 ára og saman eiga þau eins árs dóttur, Berglindi Lilju. Leið unga parsins í búskap hefur ekki gengið þrautalaust fyrir sig, en á árinu 2024 fluttu þau fimm sinnum og voru Hrísar önnur jörðin sem þau tóku við.

Ástrós og Pétur segjast bæði hafa dreymt um að gerast bændur síðan í æsku, en Pétur tekur fram að hann hafi viljað vera sauðfjárbóndi frá því hann man eftir sér. Ástrós menntaði sig á sviði íþróttablaðamennsku í Englandi og starfaði sem íþróttafréttamaður hjá Vísi um nokkurra ára skeið. Hún segist hafa fengið nóg af því að búa í Reykjavík og því hafi hún farið í nám á Hvanneyri. Ástrós er alin upp í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og er Pétur úr Borgarfirði.

Pétur hefur viljað vera sauðfjárbóndi frá því hann man eftir sér. Hann er Íslandsmeistari í rúningi.

Fundu jörð fyrir norðan

Þau vöktuðu auglýsingar á fasteignasölum um árabil, en Pétur segist helst hafa viljað kaupa bújörð í rekstri þar sem erfitt sé að byggja upp frá grunni. Á seinni hluta ársins 2023 var jörð í Austur-Húnavatnssýslu auglýst sem þau töldu sig ráða við að kaupa, en þar var starfandi sauðfjárbú og nautgripaeldi. Unga parinu tókst að semja um kaup á þeirri jörð sem gengu í gegn síðasta vor.

Tilviljun réði því að Ástrós og Pétur hittu Þórdísi og Dagbjart, bændur á Hrísum, á förnum vegi í Borgarnesi rétt eftir að þau höfðu skrifað undir kaupsamninginn á áðurnefndri jörð fyrir norðan. Pétur hafði kynnst þeim eftir að hafa sinnt rúningi á þeirra fé og barst í tal að Þórdís og Dagbjartur væru farin að huga að því að selja Hrísar. Eldri bændurnir spurðu unga parið hvort þau hefðu ekki áhuga á að taka við, en það samtal var ekki tekið lengra þar sem Ástrós og Pétur höfðu sett stefnuna norður.

Hrísar eru innarlega í Flókadal í Borgarfirði. Þar bjuggu áður Þórdís Sigurbjörnsdóttir og Dagbjartur Dagbjartsson.

Mygluskemmdir í íbúðarhúsinu

Um leið og Ástrós og Pétur tóku við eigninni í Austur-Húnavatnssýslu sáu þau stóran rakablett á gólfdúknum í einu herbergi íbúðarhússins. „Eftir að við sáum þetta fórum við að leita betur og fundum helling á öðrum stöðum þar sem var raki. Við fengum því vinafólk okkar sem var að koma daginn eftir til að koma við í Húsasmiðjunni og kaupa myglupróf,“ segir Ástrós. Sýnin sem þau tóku sýndu að mygla var útbreidd. Ástrós segir að dóttir þeirra hafi verið sex mánaða á þeim tíma og þau hafi ekki viljað búa í húsnæði með mögulega heilsuspillandi myglu. Unga parið var í húsinu í þrjá daga, en sveitarfélagið gat útvegað þeim dvalarstað skammt frá.

Þau höfðu samband við fasteignasöluna og tilkynntu að þau hefðu fundið alvarlegan galla á eigninni og báðu um að fá matsmann þar sem þau töldu tjónið verulegt og að þau ættu rétt á bótum til að standa undir viðgerðarkostnaði. Sem varakost sögðust Ástrós og Pétur vilja láta kaupin ganga til baka. Seljendurnir vildu ekki gangast við bótagreiðslum og var því farin sú leið að bjóða öðrum að taka yfir kaupsamninginn, en fólk sem hafði sýnt jörðinni áhuga í upphafi var enn áhugasamt.

Meginhluti fóðursins er gefinn í gjafagrindum sem spara vinnu.

Bændur í nokkrar vikur

Ástrós og Pétur voru hins vegar búin að taka við öllum skyldum sem fylgdu búrekstrinum og sinntu því heyskap og skepnuhaldi þetta sumar, enda var ekki orðið ljóst á þeim tíma hvort þeim tækist að losa sig undan kaupunum. Meðan á þessu stóð hafði Pétur samband við Þórdísi á Hrísum til þess að athuga hvort þau væru enn þá að leita að kaupendum að búinu, sem var raunin. Um verslunarmannahelgina fóru Ástrós og Pétur aftur að norðan og tóku hinir við jörðinni sem höfðu sýnt áhuga í upphafi.

Unga parið fékk inni í húsnæði í Skorradal sem vinafólk gat lagt til tímabundið. Um leið og þau fluttu aftur í Borgarfjörðinn hófust viðræður við bændurna á Hrísum. Samningar voru langt komnir í lok sumars og fór haustið í að undirbúa ábúendaskiptin og varði Pétur miklum tíma með Dagbjarti og Þórdísi til að læra á landið og aðstöðuna.

„Ástæðan fyrir því að við gátum keypt þetta var að [Þórdís og Dagbjartur] vildu halda þessu í byggð og voru tilbúin til að selja þetta á raunhæfu verði fyrir okkur. Þau hefðu getað fengið miklu meira,“ segir Ástrós. Hrísar voru aldrei auglýstir.

Pétur bætir við að það sé skiljanlegt að fólk velji frekar að selja fjársterkum aðilum sem eru tilbúnir til að kaupa jarðir á háu verði. En til þess að bú haldist í rekstri segir hann nauðsynlegt að bændur taki á sig að selja næstu kynslóð á verði sem hún ræður við.

Til þess að geta stjórnað fóðruninni er hluti heysins gefinn með höndum.

Þakklát fyrir Byggðastofnun

Unga parið fjármagnaði kaupin í gegnum Byggðastofnun eftir að hafa byrjað á því að reyna að fá lán hjá almennum viðskiptabönkum. „Sauðfjárrækt er vonlaus í augum bankanna,“ segir Pétur og tekur fram að það sé gott að hafa þessa stofnun, þó svo að hlutirnir þar gangi stundum hægt. Parið tekur fram að fjárhagsleg aðstoð frá foreldrum þeirra hafi verið nauðsynleg til að brúa bilið, en þau töpuðu nokkurri fjárhæð fyrir norðan, bæði í beinum útgjöldum sem fengust ekki endurgreidd og óbeinu tapi við að vinna þar launalaust.

Að þessu sinni fengu Pétur og Ástrós fagmann til þess að skoða ástand íbúðarhússins á Hrísum til þess að fullvissa sig um að allt væri í lagi. Þau brýna fyrir ungum fasteignakaupendum að hafa þetta í huga til þess að lenda ekki í sömu vandræðum og þau við kaup jarðarinnar fyrir norðan.

Í lok nóvember var búið að ganga frá öllum lausum endum, nema að unga parið átti eftir að fá veðskuldabréfið frá Byggðastofnun í hendurnar, en það er sent með bréfpósti. „Við vorum orðin svolítið óþreyjufull að skrifa undir kaupsamning, af því að við vildum fara að taka við til að geta farið að sæða og svoleiðis, þannig að Pétur ákvað að keyra á Sauðárkrók og sækja bréfið,“ segir Ástrós.

Eigendaskiptin gengu í gegn í byrjun desember og fluttu Ástrós og Pétur að Hrísum 15. þess mánaðar á meðan Dagbjartur og Þórdís fluttu í Melahverfið í Hvalfjarðarsveit. „Af því að það hefur verið svo mikið rót á okkur var öll búslóðin ofan í kassa þannig að flutningarnir voru okkur tiltölulega auðveldir. Þetta voru fimmtu flutningarnir á árinu 2024,“ segir Ástrós.

Fjárhúsin að Hrísum voru byggð árið 2008.

Nútímaleg fjárhús og 500 kindur

Jörðin Hrísar er samtals þúsund hektarar og eru ræktuð tún 30 hektarar. Á bænum eru 500 kindur og eru þar nútímaleg fjárhús byggð árið 2008. Þar eru jafnframt eldri útihús sem Pétur og Ástrós sjá fram á að geta innréttað ef þau vilja stækka bústofninn.

Ástrós og Pétur eru bæði búfræðingar og Pétur búinn með grunnnám í búvísindum við Landbúnaðarháskóla Íslands. Ástrós er jafnframt í framhaldsnámi í búvísindum sem hún stefnir á að klára í ár. Þau tóku saman þegar þau voru bæði starfsmenn á búum skólans sumarið 2020. Pétur er Íslandsmeistari í rúningi og ætlar að halda áfram á þeim starfsvettvangi ásamt því að sinna einhverri vélaverktöku. Ástrós reiknar með að hún muni sækja vinnu að einhverju leyti utan bús þegar hún verður búin í náminu.

Parið segir ákveðna kosti felast í því að vera í sauðfjárbúskap í samanburði við kúabúskap. Þó svo að tekjurnar séu lægri er bindingin minni og auðveldara að fá afleysingu. „Ef þú ert í þeirri stöðu að geta búið sem bóndi án þess að vera í aukavinnu þá stjórnarðu tímanum þínum mjög mikið sjálfur,“ segir Ástrós. „Ég held að þú fáir miklu meiri ánægju af þessari vinnu heldur en að vera á skrifstofunni frá níu til fimm og stimpla eitthvað inn í tölvuna,“ heldur hún áfram. Það sé jafnframt mikill kostur að búa úti á landi og þurfa ekki að vera fastur í umferð í klukkutíma á dag.

Pétur bætir við að það sé eins gott að það séu margir sem hafi áhuga á því að gerast bændur til þess að framleiða mat. „Af því að þetta er ekki beint það gáfulegasta sem er hægt að gera,“ segir hann glettinn.

Á Hrísum eru 500 kindur.

5 hlutir sem Pétur og Ástrós geta ekki verið án

1. Dúkahnífurinn: Til þess að skera plastið utan af heyrúllunum.

2. Sexhjólið: Það er sérstaklega nytsamlegt í smalamennskum og girðingavinnu.

3. Dráttarvélin: Þarfaþing í heyskap.

4. Liðléttingurinn: Með honum eru sóttar rúllur og gefið inni í fjárhúsum.

5. Internetið: Ekkert farsímasamband er í fjárhúsunum eða íbúðarhúsinu og því gott að geta hringt í gegnum netið.

Skylt efni: sauðfjárrækt

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt