Gabríel Auðunsson ætlar að taka við garðyrkjustöð foreldra sinna á næstu misserum og ætlar sér stóra hluti
Gabríel Auðunsson ætlar að taka við garðyrkjustöð foreldra sinna á næstu misserum og ætlar sér stóra hluti
Mynd / smh
Viðtal 6. júní 2025

Tuttugu prósent framleiðsluaukning á ári

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Á Böðmóðsstöðum 4 í Bláskógabyggð er ein mesta kálframleiðsla landsins. Þar búa þau Auðunn Árnason og Maria Wang – og sonurinn Gabríel hefur komið af krafti inn í starfsemina síðustu fimm árin og hyggst á næstu misserum taka reksturinn alveg yfir.

Þegar blaðamaður settist niður með þeim feðgum einn blíðviðrisdaginn í maí, þá höfðu þeir á orði að líklega hafi einungis tvisvar á síðasta sumri viðrað til kaffidrykkju á veröndinni.

Um 50 tonna blómkálsuppskera

Við lentum einstaklega illa í slæma veðrinu í júní. Mikið af dúk eyðilagðist og talsvert af plöntum. Við sóttum um bætur til atvinnuvegaráðuneytisins, en höfum fengið synjun um bætur þrátt fyrir gríðarlegt tjón. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að við lentum einna verst í þessu óveðri og tjónið mikið – og því skýtur það skökku við að hafa fengið þetta svar frá ráðuneytinu,“ segir Auðunn.

„Við settum niður undir einn dúk núna um helgina, sem eru um 24 þúsund blómkálsplöntur,“ segir Gabríel. „Það er um einn sjötti af því blómkáli sem við munum rækta, en við vonumst eftir að heildaruppskerumagn verði um 50 tonn.

Á aðalræktunarsvæði okkar erum við með um átta hektara lands og svo aðeins á öðrum stöðum líka á landinu okkar. Stykkin þarf að hvíla því ekki er hægt að rækta í þeim aftur og aftur – jarðvegurinn verður rýrari og hætta á ýmsum vandamálum í ræktun.

Einn dúkur er um 250 metra langur en til að fullnýta stykkið sem við ræktum í þurfum við að bæta við um 80 metrum á hvern dúk. Aðaltilgangurinn er að halda stöðugum aðstæðum undir dúknum á fyrstu vikunum eftir að plantað hefur verið út úr forræktuninni.“

Um 20 prósent aukning á ári

Þeir feðgar telja að mest sé ræktað á þeirra stöð af blómkáli á landsvísu og reyndar kínakáli líka en Auðunn var einn af upphafsmönnum í ræktun þess hér á Íslandi. „Ætli við séum ekki með helming af öllu því blómkáli sem er í boði hjá Sölufélagi garðyrkjumanna,“ segir Auðunn.

„Öll okkar framleiðsla selst í gegnum Sölufélag garðyrkjumanna undir nafninu Öndvegi og höfum við verið mjög ánægð með samstarf okkar við Sölufélagið.“

Gabríel segir að blómkálið sé mjög eftirsótt grænmeti á Íslandi. Við byrjuðum að auka við okkur almennt í útiræktuninni aftur fyrir svona fimm árum – og aukningin hefur verið mest í blómkálinu,“ segir hann.

„Áður vorum við mjög stór í útiræktun, en hún minnkaði jafnt og þétt af ýmsum ástæðum og gekk hreinlega illa um tíma að selja vegna offramleiðslu,“ bætir Auðunn við. „En með innkomu Gabríels fyrir um fimm árum höfum við verið í stöðugri sókn með um 20 prósent aukningu á ári.“

Blómkálið viðkvæm markaðsvara

„Það er auðvitað alltaf ákveðin stærðarhagkvæmni sem er hvetjandi,“ segir Gabríel. „Svo hefur neysla á grænmeti bara aukist – og við höfum fundið það sérstaklega í blómkálinu. Fyrir tveimur árum skapaðist reyndar sérstakt ástand þegar ekki tókst að koma allri framleiðslunni á markað, sem við höldum að hafi bara verið vegna offramleiðslu. En blómkálið er reyndar óvenju viðkvæmt og minna hægt að stýra því með geymslu hvenær það fer í búðir miðað við margt annað grænmeti. Raunar er geymslutíminn bara tvær vikur, það skemmist bara eftir það. Við stillum ræktuninni upp mjög taktískt á því og erum með þetta í nokkrum stigum í forræktuninni – eftir því hvenær við viljum fá það á markað,“ segir Gabríel enn fremur.

Aðallega hefur fjölskyldan sjálf borið hitann og þungann af störfum í kringum ræktunina á Böðmóðsstöðum. Þau þrjú sjá að mestu um hana en fá svo auka starfskraft í útplöntun og uppskeru. Það er í mörg horn að líta þar sem þau eru öflug í sumarblómaræktun og laukblómum líka, samhliða matjurtunum. Blómin eru seld í gegnum grænan markað undir nafninu Öndvegis Blóm.

Auk þess eru þau með minna af ýmsu öðru káli; hvítkáli, rauðkáli – og hafa verið að prófa minna þekktar tegundir líka eins og blöðrukál og kóralkál. „Það er alveg markaður fyrir svona tegundir líka en við erum líka alltaf að læra á markaðinn. Til dæmis virðist vera að verðið á blöðrukálinu hafi verið of lágt miðað við uppskerumagn. Svo erum við spennt að prófa að auka við kóralkálið. Ýmsar nýjar tegundir virðast eiga markaðsmöguleika hjá mörgu af því aðflutta fólki sem sest hefur að hér á undanförnum árum – og þekkir þessar tegundir,“ segir Gabríel.

Auðunn segir ljóst að það sé ekki fyrir hvern sem er að halda lengi út í útiræktun grænmetis, það þurfi ákveðnar manngerðir í þetta. Það geti reynt á andlegt þrek eins og óvissan hefur verið í greininni. Hann telur að Gabríel búi yfir mörgum þeim eiginleikum sem prýða megi góðan grænmetisbónda – sé andlega sterkur og hafi ástríðu fyrir að fara líka ótroðnar slóðir í ræktuninni – leita tækifæra. Gabríel segist spenntur fyrir framtíðinni og að taka alveg við stöðinni. „Ég hef alveg áhuga á að auka framleiðsluna enn meira og prófa fleiri tegundir.“

Aukningin hefur verið mest í blómkálinu á Böðmóðsstöðum.

Matjurta- og blómaframleiðsla

Þeir segja að þetta fari vel saman að mörgu leyti, útiræktunin og blómaframleiðslan, hægt sé að nýta kæligeymslurnar vel því kálið sé allt farið úr geymslum í desember þegar laukarnir eru teknir inn í kælingu.

Þá var ylræktarstöð á Böðmóðsstöðum alveg til 2014, að hluta til í eigu foreldra Auðuns og að hluta til í eigu Auðuns og Mariu þar sem rósir og svo tómatar voru ræktuð. Á undanförnum árum hafa verið hugmyndir á lofti um að reisa ný gróðurhús og koma fleiri stoðum undir framleiðsluna, sem getur verið ótrygg eingöngu í útiræktun. Gabríel segist hafa skoðað þetta fyrir stuttu, en komist að því að líklega væri ekki heppilegur tími til slíkra fjárfestinga. „Ég sá að ljósabúnaðurinn sem er notaður í dag er á útleið á næstu árum – það hafi verið ákveðið hjá Evrópusambandinu. Eins hefur gríðarleg hækkun á rafmagnsverði haft töluverð áhrif. En við erum stöðugt að skoða og endurmeta möguleikann á þessari framkvæmd.“

Brenglað stuðningskerfi

„Við erum í raun ekkert ósátt við afkomuna almennt, nema auðvitað þegar koma sumur eins og í fyrra – en þá lentum við í talsverðu tjóni.

Við erum búin að vera lengi í þessu hér og því er fjármagnskostnaður ekki að sliga okkur en nýjasta fjárfesting okkar var árið 2023 þegar við réðumst í fjögurra milljóna króna fjárfestingu í útplöntunarvél. Að því leytinu til verða ættliðaskiptin bærilegri fyrir Gabríel, sem við áætlum að taki yfir alveg á næstu árum. En við eigum eftir að fara í gegnum það allt með Byggðastofnun og fleiri aðilum og skoða hvaða möguleikar eru í stöðunni. Því þetta er alveg heilmikið fyrir hann að takast á við,“ segir Auðunn, en hann stofnaði nýbýli á Böðmóðsstöðum árið 1983, var fyrst í útirækt en síðan reistu hann og Maria 1.300 fermetra gróðurhús árið 1993. Keyptu þau síðan stöð foreldra Auðuns árið 2000. Sú stöð var ylræktarstöð sem fyrr segir og seldu þau hana árið 2014.

Þeir feðgar segja að margt þurfi að laga í stuðningsumhverfi garðyrkjubænda, til að mynda sé mjög óaðgengilegt fyrir nýliða í flestum tilvikum að taka við garðyrkjustöðvum í rekstri – eins og dæmin sanni þar sem það sé mjög fátítt. „Við viljum líka breyta opinbera stuðningnum við útiræktendur og fara frá þessum jarðræktarstyrkjum – þar sem greitt er úr ákveðnum potti til bænda eftir umfangi ræktunar þeirra – og yfir í beingreiðslur. Við segjum þetta þó að við séum mjög stórir og njótum góðs af því, við teljum einfaldlega að hitt kerfið væri miklu réttara og væri þá um leið framleiðsluhvetjandi,“ segir Auðunn.

„Núverandi fyrirkomulag er líka gallað að ýmsu leyti, til dæmis hvetur það bændur frekar til að þenja út sína landnotkun í stað þess að gera hana skilvirkari á færri hekturum eins og við viljum gjarnan gera. Það býður einfaldlega upp á að það sé misnotað,“ bætir Gabríel við.

Auðunn bendir einnig á að ef stjórnvöld breyti fyrirkomulaginu þá aukist líkurnar á því að skráð uppskerumagn verði rétt. „Í dag er það ekki svo, það verður bara að segja þetta eins og það er. Bændur áætla sína uppskeru sjálfir þegar þeir sækja um jarðræktarstyrkinn sem getur verið mörgum mánuðum áður en skorið er upp. Margt getur síðan gerst í millitíðinni. Í ylræktinni skráist uppskeran jafnóðum og hún er seld – og það er auðvitað það fyrirkomulag sem ætti að vera í útiræktinni líka.“ 

Skylt efni: Garðyrkja

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt