Þúsundir heyrúlla í rofabörð
Mikil breyting hefur orðið á landgræðslusvæðum á Biskupstungnaafrétti á þeim þrjátíu árum sem Landgræðslufélag byggðarlagsins hefur verið starfandi.
Landgræðslufélag Biskupstungna fagnaði þrjátíu ára starfsafmæli á liðnu ári. Félagið var stofnað árið 1994 og er eitt elsta landgræðslufélag landsins. Starfsemin er enn í miklum blóma en formaður félagsins er Ingvi Þorfinnsson á Spóastöðum.

Ingvi segir aðdragandann að stofnun félagsins mega rekja til uggs Biskupstungnamanna gagnvart uppblæstri á Biskupstungnaafrétti. Áður höfðu ýmis félög eins og Ungmennafélag Biskupstungna og Lionsklúbburinn Geysir unnið að uppgræðsluverkefnum á afréttinum.
„Árangurinn af því var misjafn því verkefnum var ekki fylgt eftir eins og þörf var á. Þá var beitarálag mikið og veðráttan óhagstæð. Um 1970 hófst samstarf milli sauðfjárbænda, Biskupstungnahrepps og Land- græðslunnar um áburðardreifingu á stór ógirt landsvæði á afréttinum til að auka beitarþol svæðisins. Í framhaldi af því ákváðu áhugamenn um uppgræðslu á afréttinum að kanna áhugann á að stofna landgræðslufélag í Biskupstungum,“ segir Ingvi. Í nóvember 1993 var haldinn undirbúningsfundur í Aratungu með þáverandi landgræðslustjóra, Sveini Runólfssyni, til að kanna áhuga sveitunga og í framhaldi af því var Landgræðslufélag Biskupstungna stofnað 13. apríl 1994. Stofnfélagar voru fjörutíu talsins.

Notkun rúllutætara reyndist bylting
Fyrstu ár félagsins fólust einkum í áburðardreifingu og ýmsar tilraunir voru gerðar með það að markmiði að stöðva uppblástur úr rofabörðum. Ingvi segir að bylting hafi orðið í meðhöndlun á þeim þegar félaginu bauðst að fá að láni rúllutætara til prufu við verkið. Mun það vera í fyrsta skipti sem rúllutætari var notaður til að blása rúllum í rofabörð á Íslandi. „Þessi tilraun gekk svo vel að við keyptum rúllutætarann og erum búin að dreifa að jafnaði úr 250 heyrúllum á ári frá þeim tíma, eða á sjötta þúsund rúllum alls. Rúllurnar hafa farið í rofabörð og moldir á Biskupstungnaafrétti. Í fyrra bárum við á áburð á um 250 hektara lands inni á afréttinni,” segir Ingvi stoltur.
Hvetjandi að sjá árangur erfiðisins
Mikil breyting hefur orðið á landgræðslusvæðunum á Biskupstungnaafrétti á þessum þrjátíu árum. Sum eru að fullu gróin og aðgerðum lokið, önnur þurfa lítinn áburð og eru í bata. „Það er mjög hvetjandi þegar maður sér árangur erfiðisins. Eins og að geta hætt aðgerðum þar sem þeirra er ekki lengur þörf. Mikilvægt er að fylgjast með framvindu á svæðunum og vera tilbúinn að grípa inn í ef land fer að hopa á nýjan leik með uppgræðsluaðgerðum, þá rúlludreifingu og áburðardreifingu. Um tíma var samstarf við Grunnskóla Bláskógabyggðar þar sem farnar voru ferðir með einn árgang úr Reykholtsskóla inn á afrétt í ferðir þar sem þau voru frædd um uppgræðslu á afréttinum og tóku þátt í uppgræðslustarfi. Þetta starf hefur legið niðri um tíma,“ segir Ingvi.
Óbilandi trú á verkefninu
En hverju þakkar Ingvi þennan góða árangur á afréttinum? „Það er fyrst og fremst óbilandi trú á verkefninu. Allir vilja leggja hönd á plóg þó svo að launin séu oft ekki önnur en ánægjan og að sjá árangur af starfinu. Svo hefur það verið styrkur félagsins alla tíð að það eru ekki eingöngu sauðfjárbændur sem láta sig málið varða. Það er fólk úr öllum geirum samfélagsins sem hefur áhuga á starfseminni. Nú eru um fimmtíu bændur og aðrir, sem láta velferð afréttarins okkar sig varða, í félaginu. Gengið hefur vel að virkja bæði bændur og aðra sem hafa haft tæki og tól sem nýtast félaginu til uppgræðslustarfanna,“ segir Ingvi.
Halda ótrauð áfram
Ingvi segir að árið 2025 leggist vel í hann og félagsmenn Landgræðslufélags Biskupstungna. „Við munum dreifa um 50 tonnum af áburði í lok júní og um 200 rúllum norðan Árbúða síðsumars. Ég tek þó skýrt fram að þó að verulegur árangur hafi náðst á síðustu þrjátíu árum þá er nóg eftir af rofabörðum og öðru landi sem þarf að græða upp, svo við höldum ótrauð áfram. Hlutverk félagsins verður áfram sem hingað til að virkja áhuga allra þeirra sem vilja bæta ástand afréttarins í samráði við eigendur og notendur svæðisins í góðu samstarfi við Land og skóg.“