Hér sést flokkur skógarhöggsmanna í Heiðmörk sem vinnur að því að sækja og saga jólatré. Mest er höggvið af furu og nýtist jólatrjáaframleiðslan sem nauðsynleg grisjun. Á myndinni eru Halldór Indriðason, Þórveig Jóhannesdóttir, Sævar Hreiðarsson og Hjördís Jónsdóttir.
Hér sést flokkur skógarhöggsmanna í Heiðmörk sem vinnur að því að sækja og saga jólatré. Mest er höggvið af furu og nýtist jólatrjáaframleiðslan sem nauðsynleg grisjun. Á myndinni eru Halldór Indriðason, Þórveig Jóhannesdóttir, Sævar Hreiðarsson og Hjördís Jónsdóttir.
Mynd / ál
Viðtal 8. desember 2025

Innlend jólatré styðja við skógrækt

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Einn helsti annatíminn í starfi skógræktarfélaga á landinu er undirbúningur jólanna, enda sala jólatrjáa mikilvægur liður í rekstri félaganna. Hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur hefst undirbúningurinn á haustin og er síðasta jólatréð selt daginn fyrir Þorláksmessu.

Marcin Niźnik útbýr tröpputré sem henta til að skreyta utandyra. Undirstöðurnar eru úr sverum lurkum og í miðjuna borar hann gat fyrir fót trésins.

Fyrir hver jól selur Skógræktarfélag Reykjavíkur á bilinu 1.000 til 1.500 jólatré af öllum stærðum og gerðum. Flest eru þetta tré af stærð sem hentar inn á heimili fólks, en svo eru alltaf seldir nokkrir tugir af trjám sem eru meira en þrír metrar á hæð. Þau hæstu eru Oslóartréð sem er sett upp á Austurvelli og Færeyjatréð sem sent er til Þórshafnar. Það fyrrnefnda er yfirleitt á bilinu tólf til þrettán metrar, en til þess að Færeyjatréð komist fyrir í gámi má það ekki vera stærra en ellefu metrar.

Allar aðventuhelgar verður jólamarkaður í Heiðmörk þar sem hægt er að kaupa jólatré, heita drykki ásamt því sem handverksfólk verður með sölubása. Enn fremur er von á jólasveinum og harmónikuleikara. Síðustu þrjár helgarnar fram að jólum verður svokallaður jólaskógur á Hólmsheiði þar sem fólki verður boðið að saga sitt eigið jólatré ásamt því sem þar verður kaffisala í kofa. Enn fremur verður Skógræktarfélag Reykjavíkur með útibú á Lækjartorgi þar sem seld verða jólatré 12. til 14. og 17. til 22. desember.

Hvetja til kaupa á „stuttfluttum“ trjám

Hjördís Jónsdóttir, viðburða- og jólamarkaðsstjóri, bendir á að þeir sem kaupa eitt jólatré geti litið á það sem styrk fyrir gróðursetningu 50 trjáa. Jafnframt standi jólatrjáasala að miklu leyti undir umhirðu útivistarsvæðisins í Heiðmörk.

Aðspurð hvort það sé mikil samkeppni í sölu jólatrjáa svarar Þórveig Jóhannesdóttir skógfræðingur: „Ég held að við viljum að öllum skógræktarfélögum gangi vel. Aðalmarkmiðið er að stuðla að því að það séu seld íslensk jólatré frekar en að flytja þau inn.“ Að jafnaði sé meira en helmingur jólatrjáa sem seld eru á Íslandi innflutt. Hún bendir á að íslensk jólatré hafi þann kost að vera „stuttflutt“ og efla innlenda skógrækt. Jafnframt séu ekki notuð eiturefni eða áburður hérlendis, á meðan annars staðar tíðkist að þaulrækta jólatré á ökrum.

Halldór Indriðason sagar fallega furu og gefur þeim sem eru í kring betra færi á að vaxa.

Meira gróðursett en höggvið

Sævar Hreiðarsson, skógarvörður í Heiðmörk, segir framleiðslu jólatrjáa góða leið til grisjunar skógarins. Nú sé trjágróður í Heiðmörk í góðum vexti og eru ekki aðeins höggvin tré sem hafa verið gróðursett, heldur sé mikið sjálfsáð. „Þessi tré sem við tökum eru nauðsynleg grisjun, en yfirleitt gróðursetjum við margfalt meira en við tökum. Ef trén vaxa of þétt fara þau að skemma hvert annað,“ segir Sævar. Hann bendir á að Skógræktarfélag Reykjavíkur hafi gróðursett ríflega 140 þúsund þúsund tré á síðasta ári, bæði í Heiðmörk og víðar. Sum ár nái þessi tala yfir 200 þúsund.

Mesti undirbúningurinn fyrir jólin hefst í október. Nokkuð er á reiki hvenær fyrsta jólatré ársins sé höggvið, en eitthvað er um að þau séu pöntuð utan þessarar hefðbundnu árstíðar til kvikmynda- og auglýsingagerðar. Flest séu þau höggvin í nóvember og desember og það síðasta fellt í jólaskóginum á Hólmsheiði 22. desember.

Með aðstoð málaðs priks er auðvelt að ákveða í hvaða stærðarflokk viðkomandi tré á að fara.

Flokkurinn skiptir með sér verkum. Þórveig Jóhannesdóttir ber jólatrén í kerru skammt frá.

Skylt efni: Jólatré

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt