Hjónin Þorbjörg Konráðsdóttir og Hákon Bjarki Harðarson rækta geitur á Svertingsstöðum í Eyjafjarðarsveit. Hákon tók við embætti formanns deildar geitfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands í vor. Íslenski geitastofninn er talinn vera í útrýmingarhættu og miða mörg verkefni deildarinnar að því að tryggja stöðu tegundarinnar.
Hjónin Þorbjörg Konráðsdóttir og Hákon Bjarki Harðarson rækta geitur á Svertingsstöðum í Eyjafjarðarsveit. Hákon tók við embætti formanns deildar geitfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands í vor. Íslenski geitastofninn er talinn vera í útrýmingarhættu og miða mörg verkefni deildarinnar að því að tryggja stöðu tegundarinnar.
Mynd / ál
Viðtal 25. nóvember 2025

Geitastofninn var nánast horfinn

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Hjónin Hákon Bjarki Harðarson og Þorbjörg Konráðsdóttir stunda geitfjárrækt á Svertingsstöðum í Eyjafjarðarsveit. Hákon tók við embætti formanns deildar geitfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands í byrjun árs. Að auki við þær 19 huðnur og tvo hafra sem hjónin verða með í vetur þá eru jafnframt 70 mjólkurkýr og 100 kindur á Svertingsstöðum.

Hákon hefur tekið virkan þátt í félagsmálum bænda undanfarin ár. Ekki á sviði geitfjárræktar, heldur á vettvangi sauðfjárbænda og kúabænda. Geitfjárbændur leituðu til hans í aðdraganda deildarfundar búgreinarinnar sem haldinn var í mars og hvöttu hann til að gefa kost á sér í formannsembættið. Eftir smá umhugsun ákvað hann að láta slag standa.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem Hákon hefur voru um 2.300 geitur í landinu í fyrra á 119 bæjum. „Þetta er aðeins á reiki og menn eiga það til að sleppa því að setja geiturnar á forðagæsluskýrslur. Eru kannski með tvær, þrjár og finnst ekki taka því,“ segir Hákon. Íslenski geitastofninn er talinn vera í útrýmingarhættu.

Af hverju geitur?

Aðspurður af hverju hjónin eru með geitur segir Hákon: „Okkur langaði til að prufa þetta fyrir fimm árum síðan. Við fengum geitur haustið 2020 frá Grænumýri í Skagafirði. Þá vorum við geitabændur í tvær vikur, en lóguðum þeim öllum eftir að upp kom riða í sauðfé í Grænumýri. Haustið 2021 fengum við aftur geitur,“ segir Hákon og hafa hjónin unnið að því að byggja upp sinn stofn síðan þá.

„Núna eru langflestir geitfjárbændur í þessu til gamans. Sárafá bú, sem vinna sínar afurðir sjálf, hafa upp úr þessu einhverjar tekjur,“ segir Hákon. Helstu afurðir geita eru kjöt, mjólk og fiða (ull). Hjónin á Svertingsstöðum nýta kjötið af geitunum til eigin nota og selja smáspunaverksmiðjunni Uppspuna fiðuna. Hægt er að senda geitur og kið í sláturhús, en afurðastöðvar kaupa ekki kjötið. Bændur þurfa því að taka allt kjötið til baka, ýmist til eigin nota eða til að selja áfram.

Hákon telur ekki sennilegt að hjónin muni stækka mikið við sig í geitfjárræktinni, enda næg verkefni í kringum kýrnar og kindurnar. Aðspurður hvort hann telji raunhæft í þeirra tilfelli að skipta kúnum og kindunum út fyrir geitur og halda rekstrinum áfram góðum svarar Hákon neitandi. Þorbjörg bætir við að þá þyrftu þau að nálgast sinn rekstur allt öðruvísi og skapa sér tekjur á fjölbreyttari máta. Samt sem áður vill formaður deildar geitfjárbænda hvetja fólk til að fá sér geitur. „Þetta eru skemmtileg dýr og umgengnin við þau ákveðin leið til að ná núvitund,“ segir Hákon.

Þeir sem ætli sér að fara í geitabúskap þurfi að vera með hentugt húsnæði, en þær mega ekki vera úti allt árið eins og kindur. Á Svertingsstöðum eru geiturnar tímabundið í byggingu sem áður hýsti sauðfé. Helstu breytingarnar sem hjónin hafa gert er að koma fyrir gömlu leðursófasetti í krónum sem gefur geitunum færi á að príla.

Efla þarf hafrastöðina

„Ég held að það þurfi að breyta hugsuninni í kringum geitfjárrækt þannig að bændur geti gert sér eitthvað úr þessu. Ríkið þyrfti að koma betur að málum þegar kemur að stuðningi við greinina,“ segir Hákon. Geitfjárrækt sé ekki með sérstakan samning innan búvörusamninganna líkt og sauðfjárrækt, nautgriparækt og grænmetisrækt. Því fái geitfjárræktin greiðslur úr rammahlutanum sem séu rúmlega tuttugu milljónir á ári. Gripagreiðslur fyrir hverja geit sé í kringum 7.700 krónur á ári. Eins fá bændur beingreiðslur fyrir fiðu sem þeir senda frá sér. Jafnframt standi bændum til boða beingreiðslur á hvern mjólkurlítra sem þeir framleiða. „Þegar ég skoðaði þetta síðast sýndust mér fjórir aðilar hafa fengið beingreiðslur fyrir mjólk og átta fengið beingreiðslur vegna fiðunnar,“ segir Hákon.

„Af þessum 22,5 milljónum fara um þrjár milljónir í rekstur hafrastöðvarinnar í Þórulág á Hvanneyri.“ Hákon segir lítið fara fyrir hafrastöðinni og viðurkennir að starfsemi hennar hafi farið alveg fram hjá honum þangað til að hann tók við embætti formanns. „Ég held að ansi margir viti ekki af þessu, enda sést það á aðsókninni. Það var einn geitabóndi sem nýtti sér sæði á síðasta ári.“

Hákon bendir á að hafraskrána megi nálgast inni á geit.is, en hún hafi ekki verið uppfærð síðan 2022. „Eftir langan tíma fékk ég hafraskrána frá 2024 senda í tölvupósti og erum við búin að panta sæði sem tekið var úr höfrum í fyrra. Nautastöðin á Hesti hjálpar til við að frysta erfðaefnið og fáum við sæðið sent í köfnunarefniskút.“

Rekstur hafrastöðvarinnar heyrir undir Geitfjárræktarfélag Íslands, en Hákon bendir á að virkni þess félags sé lítil. Tæknilega séð eigi stjórn þess að vera sú sama og hjá deild geitfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands, en þar sem ekki hefur verið hægt að halda aðalfund hefur hann ekki enn tekið við embætti formanns þar. Skynsamlegast telur Hákon að fella áðurnefnt félag inn í Bændasamtökin. Jafnframt telur Hákon betra ef rekstur hafrastöðvarinnar yrði í höndum fagráðs sem deild geitfjárbænda stofnaði í vor.

Skýrsluhald mikilvægt í litlum stofni

„Skýrsluhaldskerfi geitfjárbænda heitir Heiðrún. Það er byggt á Fjárvís, sem er skýrsluhaldskerfi sauðfjárbænda, en núna er að fara af stað vinna við að gera nýtt kerfi sem er hannað í kringum geiturnar. Mjög mikilvægt er að halda upp á ætternisupplýsingar, því að þetta er stofn sem er í útrýmingarhættu og við þurfum að passa upp á skyldleikann.

Eitt af þeim málum sem við höfum unnið mest í á þessu ári er að reyna að fá ríkið til að taka yfir reksturinn á Heiðrúnu, en Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins rekur þetta í dag. Árgjaldið er 27 þúsund fyrir þá sem eru í Bændasamtökunum, en rúmlega 55 þúsund fyrir þá sem eru utan samtakanna. Það eru svo margir sem eru með örfáar geitur sem hobbí og sjá því ekki hag sinn í að borga fyrir aðgang að skýrsluhaldskerfinu,“ segir Hákon.

Til þess að betri yfirsýn náist yfir stofninn þurfi að niðurgreiða þennan kostnað, en Hákon bendir á að ríkið sé búið að skuldbinda sig til að koma íslenska geitastofninum úr útrýmingarhættu með aðild sinni að samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika. „Núna eru til hjarðir þar sem vantar allar ætternisupplýsingar. Flest eru þetta lítil bú, en svo eru til stærri bú sem eru ekki að skrá inn í Heiðrúnu.“

Þó svo að skyldleikaræktunin hafi minnkað á undanförnum árum standi geitastofninum enn þá ógn af henni. „Árið 1960 var stofninn kominn niður fyrir hundrað geitur. Fram að því voru geitur mikilvægar til að framleiða mjólk þar sem þær þurftu hvorki mikið pláss né fóður. Við tankvæðinguna stækkuðu kúabúin og hrundi geitastofninn í kjölfarið.“

Kiðin fæðast gæf

Hákon segir að vinnan í kringum geitfjárrækt sé á margan hátt sambærileg við sauðfjárbúskap, en atferli þessara dýra ólíkt. Geiturnar leiki sér mikið og geti klifrað upp á allt. Þær hafi farið upp á fjögurra hæða hálmrúllustæðu án vandræða og eins stökkvi þær upp á heyvinnutæki ef þær komast í návígi við þau.

„Þetta eru yfirleitt gæfari skepnur og kiðlingarnir fæðast margir spakir. Kiðlingar eru miklu skemmtilegri en lömb og sækja miklu meira í fólk. Ef maður heldur geitunum spökum er mun auðveldara að smala þeim en sauðfé. Þú labbar bara að þeim og hristir brauðpoka og þá elta þær þig.

Geitur éta oft annan gróður en sauðfé. Þær vilja ekkert endilega vera á túni, heldur vilja þær frekar bíta í skurðbökkum og á óræktuðum svæðum. Á veturna fá þær sama fóður og rollurnar, en við reynum að láta þær alltaf fá einhver tré til að naga. Á þrettándanum söfnum við saman jólatrjám hérna í sveitinni sem geiturnar narta í fram á vor.

Hjá geitunum er miklu skýrari goggunarröð en hjá kindunum. Það er ein sem stjórnar hópnum, eins og í konungsríki, og hún er með aðstoðarmann sem er næstæðst. Sú sem lendir í að vera neðst í virðingarstiganum er bara hirðfíflið.“ Aðspurður um birtingarmynd goggunarraðarinnar segir Hákon: „Þær reka af garðanum og hika ekki við að berja í hver aðra.“ Eins fá þær geitur sem njóta virðingar að vera í friði uppi á pöllum en reka aðrar niður sem reyna að príla þangað líka.

Farveg vantar fyrir afurðir

Þorbjörg segir að geitakjöt sé nánast fitulaust og skrokkarnir aðeins léttari en hjá sauðfé. „Í ár var fallþunginn hjá okkur frá 12 upp í 14 kíló, sem er fínt. Undanfarin tvö ár höfum við látið frysta skrokkana og við fengið þá sagaða niður í sjö parta. Við tvíreykjum lærin, en búum til hakk og steikur úr öðru,“ segir hún. Hjónin segja kjötið vera bragðmeira en annað kjöt, en þau finni ekki hið svokallaða ullarbragð sem oft er sagt vera af geitakjöti.

Þar sem geitfjárrækt fær bara greiðslur úr rammahluta búvörusamninganna sé ekki hægt að sækja um framkvæmdastyrki eins og í öðrum búgreinum. „Svoleiðis styrkir myndu gagnast geitabændum, því að sláturhús kaupa ekki af okkur kjötið og þurfum við að koma upp vottaðri aðstöðu ef við ætlum að vinna það fyrir sölu. Ég held að það sé hægt að færa rök fyrir því að svona matvælavinnsla sé hluti af búskapnum, því að án hennar er ekki hægt að koma afurðunum í verð,“ segir Hákon.

Jafnframt geti bændur ekki selt mjólkina án þess að koma sér upp sinni eigin mjólkurvinnslu. „Geit getur mjólkað mjög lengi samanborið við sauðfé og kýr og á stórum mjólkurgeitabúum erlendis þurfa geiturnar ekki að bera nema annað hvert ár því að mjólkin minnkar ekkert í þeim. Geitamjólk er öðruvísi vara en kúamjólk og er til fólk sem þolir geitamjólk en getur ekki drukkið kúamjólk. Því held ég að það geti verið markaður fyrir þessa afurð,“ segir Hákon.

Skylt efni: geitaafurðir | geitabændur

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt