Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Falleg vetrarmynd af Framhaldsskólanum á Laugum í Reykjadal, sem fagnar 100 ára afmæli sínu 25. Október en hann var einmitt settur fyrsta vetrardag 1925 í fyrsta sinn.
Falleg vetrarmynd af Framhaldsskólanum á Laugum í Reykjadal, sem fagnar 100 ára afmæli sínu 25. Október en hann var einmitt settur fyrsta vetrardag 1925 í fyrsta sinn.
Mynd / Aðsend
Viðtal 1. október 2025

Framhaldsskólinn á Laugum fagnar 100 ára afmæli

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Framhaldsskólinn á Laugum í Reykjadal fagnar 100 ára afmæli sínu miðvikudaginn 25. október næstkomandi, sem er fyrsti vetrardagur, en skólahald hefur verið samfleytt á Laugum í Reykjadal allt frá árinu 1925 eða frá því að Alþýðuskóli Þingeyinga hóf göngu sína. 

Haldið verður upp á tímamótin með hátíðardagskrá í skólanum fyrsta vetrardag, sem er 25. október. Skólameistari skólans er dr. Sigurbjörn Árni Arngrímsson.

Jónas frá Hriflu

„Laugaskóli var upphaflega héraðsskóli eða alþýðuskóli eins og þeir sem voru stofnaðir á fyrri hluta tuttugustu aldar, flestir að undirlagi Jónasar frá Hriflu.

Það var Samband þingeyskra ungmennafélaga (forveri Héraðssamband Suður-Þingeyinga og nú Héraðssamband Þingeyinga), sem byggði skólann í sjálfboðavinnu og afhenti sýslunni hann árið 1925 til þess að mennta þingeysk ungmenni. Vissulega nutu ungmenni mun víðar um landið skólans og hefur hann ávallt menntað fólk um allt land. Suður-Þingeyjarsýsla eða sýslunefnd hennar rak svo skólann allt til 1974 þegar hann var afhentur ríkinu sem hefur rekið hann síðar. Skólinn hefur gengið í gegnum mjög mörg rekstrarform enda fræðslulög og menntakerfi Íslendinga breyst oft og mikið í gegnum árin en alltaf hefur hann menntað ungt fólk. Árið 1988 runnu svo Héraðsskólinn á Laugum og Húsmæðraskólinn á Laugum (sem stofnaður var 1929 í sama tilgangi og Laugaskóli nema einungis til að mennta konur) saman í Framhaldsskólann á Laugum. Laugaskóli hefur því borið þrjú nöfn (Alþýðuskólinn á Laugum, Héraðsskólinn á Laugum og Framhaldsskólinn á Laugum) en er alltaf kallaður Laugaskóli þó svo að hann hafi aldrei formlega borið það nafn,“ segir Sigurbjörn Árni aðspurður um sögu skólans.

Einstakur skóli

Sigurbjörn Árni segir að skólanum hafi alltaf gengið vel þó stundum hafi líf hans hangið á bláþræði. Þetta sé eini „Jónasarskólinn“ sem honum vitanlega tókst að lifa af samfélagsbreytingar síðustu aldar og menntar enn ungmenni. „Það var vegna aðlögunarhæfni skólans, framsýni þeirra sem að honum stóðu og samstöðu þess fólks sem býr í hinum dreifðu sveitum Þingeyjarsýslu. Í dag er skólinn einstakur í framhaldsskólaflórunni á Íslandi og bestur á landinu í því sem hann er að gera,“ segir Sigurbjörn stoltur með skólann sinn.

115 nemendur í skólanum

Í dag eru um 115 nemendur í skólanum. 100 þeirra eru í dagskóla, sem þýðir að þau mæta á hverjum degi í Laugaskóla eða á starfsstöðina á Vopnafirði og 92 búa á heimavistinni. Boðið er upp á Almenna braut, sem er hugsuð fyrir þið þá sem ekki hafa lokið námsmarkmiðum grunnskólans. Svo eru fjórar brautir til stúdentsprófs, sem er 200 einingar eða 3,4 ár en það eru Félagsvísindabraut, Íþróttabraut, Kjörsviðsbraut þar sem nemandinn getur sett saman sitt eigið kjörsvið til stúdentsprófs og Náttúruvísindabraut.

60% nemenda eru stúlkur

Sigurbjörn Árni segir að í dag séu 60% nemenda við skólann stúlkur og 40% drengir. „Þau koma alls staðar af landinu og algengt er að við höfum nemendur úr um 45 póstnúmerum. Tiltölulega hefðbundin skipting er helmingur af svæðinu Eyjafjörður til Vopnafjörður, þriðjungur kemur af höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum og afgangurinn annars staðar af landinu, þó fæstir af Suðurlandi enda er þar sterkur heimavistarskóli í sveit, Menntaskólinn á Laugarvatni. Samt má til gamans geta að einn nemandi frá Laugarvatni stundar nám við skólann í dag,“ segir Sigurbjörn Árni.

Öflugt og gott félagslíf

 Mjög gott og öflugt félagslíf er í skólanum. „Já, já, þar sem svo mikið af ungu fólki býr saman verður óhjákvæmilega gott félagslíf, bæði það formlega, sem stýrt er af nemendafélaginu eða undirfélögum, sem og hið óformlega sem skapast á heimavistinni. Stærsti viðburðinn ár hvert er „Tónkvíslin“, sem er söngkeppni Framhaldsskólans á Laugum og grunnskólanna í kring en hún er framleidd fyrir sjónvarp og hefur m.a. verið send beint út á N4 sjónvarpsstöðinni sálugu. Aðrir stórir viðburðir eru, árshátíðin, menningarferð, skíðaferð og „Laugadraumurinn“, sem er tveggja vikna keppni í þrautum þar sem heimavistirnar keppa hver við aðra í stigasöfnum í anda Ameríska draumsins“, segir Sigurbjörn Árni og bætir við að það sé einnig mikið félagslíf í kringum íþróttirnar og aðeins af afreksíþróttafólki sé í skólanum.

Hvetur alla til að mæta í afmælið

 Þegar Sigurbjörn Árni er spurður út í framtíð skólans og hvernig staða hans verði eftir önnur hundrað ár er hann fljótur til svars. „Já stórt er spurt. Ég vona að hér verði skóli í einhverri mynd og stjórnvöld hafi þá framsýni að reka hér skóla með sérstöðu. Hvernig menntamálin á Íslandi munu þróast er erfitt að segja en auðvelt væri að reka hér eitthvað, sem er líkt lýðháskóla í dag sé ekki vilji til að reka framhaldsskóla. Ungt fólk í dag er afar gott og skynsamt og mun betra en mín kynslóð var svo ég get ekki tekið undir þá umræðu, sem virðist tröllríða samfélaginu að í dag sé allt á leið til helvítis í menntamálum og hjá ungu fólki. Að lokum hvet ég bara alla til að koma á 100 ára afmæli skólans fyrsta vetrardag núna í október,“ segir Sigurbjörn Árni fullur tilhlökkunar til afmælisins. Í dag starfa 32 við skólann í 25 stöðugildum.

Skylt efni: skólamál | afmæli

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt