Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Karítas Hreinsdóttir og Pétur Diðriksson, bændur á Helgavatni í Þverárhlíð. Þau segja litlu hlutina skipta máli í öllum rekstri, en með því að halda skuldum í lágmarki hafa tvær fjölskyldur getað haft atvinnu af búinu.
Karítas Hreinsdóttir og Pétur Diðriksson, bændur á Helgavatni í Þverárhlíð. Þau segja litlu hlutina skipta máli í öllum rekstri, en með því að halda skuldum í lágmarki hafa tvær fjölskyldur getað haft atvinnu af búinu.
Mynd / ÁL
Viðtal 5. maí 2023

Ekki byggt á einni nóttu

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Á Helgavatni í Þverárhlíð starfrækja tvær fjölskyldur kúabú sem hafa getið sér orðstír fyrir fyrirhyggju í rekstri, að ryðja brautina í stæðuverkun heys og nýlega fengu þau verðlaun fyrir besta kynbótanautið. Síðastnefnda atriðið segja þau ráðast af tilviljun, en athygli vekur að þau hafa ekki notað heimanaut í tvo áratugi. Breytingar eru í vændum með kynslóðaskiptum síðar á árinu.

„Ég er búinn að vera viðloðandi þetta síðan 1975 – þá kláraði ég B.S.-prófið á Hvanneyri,“ segir Pétur Diðriksson, en til ársins 1992 rak hann, ásamt eiginkonu sinni, Karítas Hreinsdóttur, býlið með föður Péturs, þegar bróðir hans keypti sig inn í búskapinn. Hin hjónin á bak við reksturinn heita Vilhjálmur Diðriksson og Ágústa Gunnarsdóttir.

Pétur er uppalinn á Helgavatni, en Karítas er frá Ljósavatni. „Hvanneyri leiddi mann hingað suður,“ segir Karítas, en þar stundaði hún búfræðinám og tók verknám á Helgavatni. „Ég fór ekkert aftur. Ég framlengdi bara verknámið – það eru að verða fjörutíu ár.“

Heitavatnið grunnurinn

Pétur segir grunninn að býlinu hafa verið lagðan fyrir áratugum síðan, en árið 1963 tóku pabbi hans og afi í notkun 72 kúa básafjós, sem var mjög stórt á sínum tíma. „Afi minn, Jón Kjartansson, keypti þessa jörð á frjálsum markaði árið 1947, meðal annars út af heita vatninu. Hann átti heima í Reykjavík, en á þeim árum var byrjað að leggja hitaveituna og sá hann möguleikann í því. Pabbi kom árið 1951,“ segir Pétur, en Diðrik var tengdasonur Jóns Kjartanssonar.

Uppbygging búsins hefur ekki gerst á einni nóttu, en Pétur segir almennt hafa verið leitast við að framkvæma fyrir eigið fé. Skuldabaggi fylgi því ekki rekstrinum sem geri tveim fjölskyldum kleift að hafa atvinnu af búinu. „Þegar þú fjárfestir mikið og tekur mikið af lánum þarftu að hagræða svo það verði sem minnst vinnuafl og þá hagræðirðu aðra fjölskylduna af búinu. Við höfum ekki þurft að fara þá leið.“

Sífellt vakandi fyrir kostnaði

Þau hafa gætt að því að halda húsakosti og ræktun í góðu standi með viðhaldi og endurræktun. Pétur segir einnig nauðsynlegt að endurnýja og fjárfesta í nýjum húsakosti með reglulegu millibili. Síðustu stóru framkvæmdina fóru þau í árið 2010, en þá hafi árað þannig að mjög auðvelt hafi verið að ná hagstæðum samningum við byggingaverktaka.

Annað atriði sem Pétur segir skipta máli sé að vera sífellt vakandi yfir kostnaði. Við fjárfestingar á vélum er gætt að því að þær hæfi bústærðinni og reynt er að velja tæki sem ganga ekki úr sér af tækniástæðum. „Maður þarf að gera sér grein fyrir því þegar maður umgengst svona vélar að maður ætlar að hitta þær aftur á vorin,“ segir Pétur, en rétt meðferð á vélum segir hann dýrmæta.

Aðspurður um einhver dæmi nefnir hann heyhleðsluvagn sem var keyptur árið 2006 fyrir 3,6 milljónir og er enn í fullri notkun. Pétur segir hann gera jafnmikið og tæki sem kosta tuttugu milljónir í dag. Þau áttu ekki nógu öfluga dráttarvél fyrir heyvagninn, en vissu af traktor sem þau gátu tekið í skammtímaleigu eftir þörfum og var hann einungis notaður í heyskap. „Á þessum árum skapaði það okkur tugi milljóna að hafa ekki fjárfest í dráttarvél, en á meðan keyptum við kvóta og byggðum fjósið.“

Snemma með áburðar - og fóðuráætlanir

„Upp úr 1985 fór ég að gera áburðaráætlanir út á skítinn til að spara áburð. Í gegnum áratugina hefur maður sparað um eina og hálfa milljón króna á núvirði í áburð á hverju vori vegna skítsins. Ef þú gerir þetta í tuttugu – þrjátíu ár, þá ertu kominn með fimmtíu – sextíu milljónir í sparnað sem þú ert búinn að ná þér í með því að liggja yfir tölum og vinna eftir planinu.

Við höfum gert þetta líka með fóðuráætlanir fyrir kýrnar – maður hefur verið harður í því að gefa kjarnfóður á réttan stað. Við erum búin að vera með tölvutækni í kjarnfóðrinu síðan 1998. Sú vinna skilar kannski hundrað til tvö hundruð þúsund krónum á mánuði í sparnað á kjarnfóðri. Á tíu árum eru þetta hátt í tuttugu milljónir. Þetta eru hlutirnir sem skipta máli – þarna renna stóru tölurnar í gegn. Bændur eru á mjög góðu kaupi ef þeir setja sig inn í þetta.“

Vinnuafl og afkastaminni vélar

Pétur segir einnig að í ljósi þess að á bænum séu tvær fjölskyldur og vinnuafl, þá sé hægt að gefa sér meiri tíma í verkefnin og því hafi þau komist upp með að nota minni vélar. Þau mjólka til að mynda í fjósi byggðu árið 1979. Tólf tækja mjaltabásinn er að grunni til frá þeim tíma, en var uppfærður með nýjustu tölvutækni árið 1998.

Aðspurður segir Pétur að verkaskiptingin sé ekki mikil, heldur geta allir gengið í öll verk. „Við höfum rekið þetta á þeim grunni að við höfum verið jafngild. Við höfum alltaf getað leyst hvert annað af án þess að þurfa að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir,“ segir Pétur.

Bændurnir hafa ekki stuðst við neitt vaktaskipulag, heldur láta þeir hlutina ganga með góðu samkomulagi. Ef þeir eru heima segir Pétur þá vera á vakt allan sólarhringinn. Bændurnir hafa ekki reiknað sér tímakaup, heldur er alltaf föst upphæð í hverjum mánuði sem hvor fjölskylda fær.

Hann segir einhug í rekstri ekki sjálfsagðan, heldur þurfi að hafa fyrir því. „Það þarf bara að nota höfuðið til að velta fyrir sér hvort er verðmætara að stúta þessu eða að reyna að semja um hlutina og tala saman. Þú getur farið hina leiðina – farið í kergju og kálað þessu. Þá er þetta bara búið, eftir atvikum reksturinn eða samstarfið, og þú þarft að vinna meira. Þetta er valið og þú hefur þetta í hendi þér. Ég hef alltaf sagt að það er yfirleitt hægt að fá fólk með sér í miklu fleiri hluti heldur en maður getur ímyndað sér, bara með því að tala um hlutina opinskátt, af rökfestu og heilindum.“

Bróðursynir taka við

„Ég verð að hætta, en það vill svo til að ég verð sjötugur í sumar,“ segir Pétur, en nú liggur fyrir að bróðursynir hans, Diðrik og Bjarki Vilhjálmssynir, taka við búinu.

„Það eru tvær leiðir í þessu – að hætta og láta þetta lifa áfram, eða láta þetta deyja með sér. Ég vil gera þetta á meðan maður hefur enn þá mikinn áhuga og hefur verið að passa reksturinn. Þá er allt á fullu og auðvelt að taka við. Þannig á það að vera í svona fyrirtækjum. Þetta er ekkert ósjálfsagðara en að taka þá ákvörðun að byrja.

Hausinn á mér er enn þá í lagi og þar er vitneskja sem fólk getur sótt í ef það vill – en ég hef engar áhyggjur ef þau vilja það ekki. Ég hef sagt þeim sem taka við að ég vilji sjá hvað þau eru að gera, en þau geta tekið loforð af mér að ég ætla ekki að skipta mér af því.“

Aðspurður hvort erfitt sé að sleppa hendinni af ævistarfinu, segir Pétur að þetta snúist ekki um neitt annað en hugarfar. „Lífið er ekki bara vinna, það er líka svo margt annað. Þú getur bara fundið þér eitthvað annað verkefni sem tekur hugann þinn.

Um leið og þú lætur frá þér verkið verður þú að hafa það hugarfar að þú ræður því heldur ekki hvernig það er gert. Þú getur haft skoðun á því, en þetta er ekki þitt verkefni lengur. Ég verð að viðurkenna að ég kvíði þessu ekki. Ég hef miklu meiri áhyggjur af því að dagurinn muni ekki endast í allt það sem mig langar til að gera.“

Ekki heimanaut síðan 2002

Búið á Helgavatni fékk verðlaun fyrir besta kynbótanautið á búgreinaþingi fyrir nokkrum vikum. „Þetta er bara tilviljun,“ segir Pétur aðspurður um ástæður árangursins. Eftir að sæðingar urðu mjög útbreiddar er sjaldgæft að sami bærinn fái þessa viðurkenningu oftar en einu sinni. „Öll hjörðin á Íslandi er einn erfðahópur. Samsetningin í þessu tilfelli var rétt – það er ekki til neins að segja neitt um þetta.“

Árið 2002 tóku þau þá ákvörðun að hætta alfarið að nota heimanaut á bænum og hafa allar kvígur og kýr verið sæddar með sæði frá Nautastöðinni síðan þá. Þau keyptu hreyfiskynjara þegar þau létu slag standa og þakka þau góðri aðstöðu fyrir að geta haldið þessu til streitu. „Það breytir samt ekki því að þú þarft að hafa fyrir því að ná í kvíguna, í staðinn fyrir að láta nautið sjá um þetta.“

Viðtekin venja er að bændur hleypi heimanauti í kvígur sem hafa ekki haldið eftir aðra eða þriðju sæðingu. Pétur segir að ef kvígur hjá honum séu orðnar eldri en 400 daga, án þess að hann hafi séð þær yxna, eigi viðvörunarbjöllur að fara í gang. Allar heilbrigðar kvígur verða yxna. Hann segir skipta miklu máli hvernig kvígur eru fóðraðar á þessum aldri, en ef þær eru á of sterku fóðri eru þær fljótar að fitna, sem gerir erfitt að koma í þeim kálfi. Sé ekki gætt að fóðruninni endi þær sem „spikfeitir gripir í hamborgara“. Þau láta dýralækni skoða kvígur sem ekki festa fang og sker hann úr um hvort þær séu þess virði að halda í.

Pétur segir að erlendis hafi verið gerðir útreikningar sem sýna fram á að kostnaðurinn við að fá sæðingarmann og/eða dýralækni til að sæða alla gripi með besta erfðaefninu sem býðst á hverjum tíma, komi til baka með erfðaframförum. Einnig sé rétt að taka inn kostnaðinn sem fylgir því að fóðra og ala heimanaut.

„Mér fannst líka svo leiðinlegt að ná í sæðiskvígurnar og vera með einhvern bola þarna inn á milli sem enginn veit fyrir hvað stendur.

Það þarf að átta sig á því að heimanautið kemur yfirleitt aldrei til greina sem naut á sæðingastöð – það er oftast mörgum klössum fyrir neðan,“ segir Pétur.

Afi núverandi bænda keypti Helgavatn árið 1947, en hann sá mikla möguleika í heitu vatni á jörðinni.

Rúllutæknin fór framhjá þeim

Bændurnir á Helgavatni hafa verið frumkvöðlar í verkun heys í útistæður. Lengi vel var allur heyforðinn verkaður í yfirbyggðar flatgryfjur og þurrhey. Í kringum aldamótin var búið stækkandi og þörf fyrir meira fóður.

Þau gátu ekki hugsað sér að koma upp rúlluverkun og héldu því áfram að verka heyið í lausu, nema í stæðum utandyra. Hérlendis var enginn annar búinn að taka upp þessa aðferð, en Pétur hafði séð verklagið á ferðalagi til Danmerkur og innleiddu nokkrir bændur heyverkunaraðferðina rétt fyrir aldamót. Fyrsta útistæðan var gerð á Helgavatni árið 1999, og hafa þau útbúið slíkar á hverju sumri síðan þá. Þurrheysverkun var hætt 2004. „Við vorum auðvitað með flatgryfjurnar og áttum allan nauðsynlegan búnað. Þá lá beinast við að gera nákvæmlega það sama með útistæðurnar með sömu tækjunum, þannig að rúllutæknin fór framhjá okkur.

Það eru ákveðin lögmál sem þarf að virða. Í fyrsta lagi þarf að vera með almennilegt hey og í öðru lagi þarf að nenna að ganga frá þessu. Við tókum þetta strax föstum tökum, en við þekktum auðvitað flatgryfjuna.“

Hann viðurkennir að þetta sé ekki einfalt á snjóþungum vetrum og þessu fylgi ákveðnir gallar. Með því að vera með vetrarheyið fyrir mjólkurkýrnar í yfirbyggðum flatgryfjum nái þau að komast yfir helstu erfiðleikana. Í flestum útistæðunum er geldneytahey sem ekki þarf að nálgast á hverjum degi ásamt mjólkurkúaheyi sem hugsað er sem fóður á sumrin.

Ókostirnir við þetta samanborið við rúllurnar er að það þarf fleira fólk í heyskapnum á sumrin, en að lágmarki þarf þrjá á hverjum tíma til að láta þetta ganga nógu hratt. Þá einn niðri á túni til að raka og slá, annar á heyhleðsluvagninum og þriðji heima á bæ að jafna út og þjappa hey í stæðuna.

Á Helgavatni þurfti aukinn heyforða með stækkandi búi rétt fyrir aldamót og vildu bændurnir ekki innleiða rúllutæknina. Pétur sá útistæður á ferðalagi í Danmörku og hefur verkað hey með þeim hætti síðan 1999.

Má ekki kosta hvað sem er

„Ég held að einhver stærsta áskorunin fyrir okkur Íslendinga núna er að manna þessa grein. Við þurfum að fá fólk með þekkingu. Þjóðfélagið er orðið eitt allsherjar þekkingarsamfélag og landbúnaðurinn er ekkert undanskilinn. Það er mikil áskorun fyrir þessa grein að fá öflugt fólk, þar sem búin stækka og krafan um að hlutirnir gangi vel vex í hlutfalli við fjárbindingu. Þetta er púra rekstur þar sem menn eru að kaupa inn vörur til að skila frá sér afurðum. Bóndinn er ekkert annað en milliliður í þessari atburðarás.

Ég hef alltaf verið harður á því að bændur þurfa að leggja sitt af mörkum til að láta þennan rekstur ganga og við megum ekki láta það kosta hvað sem er. Eftir allar þessar tollabreytingar og aukinn innflutning, er eina leiðin til að láta landbúnaðinn lifa af að hann verði samkeppnishæfur.

Markaðurinn hefur áhuga á því að fá vöru á samkeppnishæfu verði og ef við ætlum að halda landbúnaði í landinu verðum við bændur að taka þátt í þessu. Það er bara lífið eða dauðinn í þessu máli. Það þýðir ekkert fyrir okkur bændur að vera með gamla íhaldssemi. Við verðum að vera þátttakendur í því að auka framleiðni í landbúnaðinum alveg eins og allt þjóðfélagið er á fleygiferð í.“

Skylt efni: kúabú | Borgarfjörður

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt