Amma náttúra kenndi ungviðinu ræktun
Jóhanna Borghildur Magnúsdóttir, garðyrkjufræðingur og ötull talsmaður náttúruverndar, lét draum sinn rætast árið 2011 þegar hún stofnaði ræktunar- og fræðslusetur að Dalsá í Mosfellsdal.
Að Dalsá eru kjöraðstæður til lífrænnar ræktunar og námskeiða sem styrkja tengsl fólks við náttúruna. Jóhanna, sem fædd er í Reykjavík árið 1946, hefur alla tíð haft sterka tengingu við gróður og umhverfismál. Hún lauk stúdentsprófi og umhverfisnámi árið 1990 og hefur starfað meðal annars sem umhverfisfulltrúi Ferðamálaráðs, hjá Landvernd og sem framkvæmdastjóri Garðyrkjufélags Íslands. Áherslur hennar snúast um sjálfbæra ræktun, fræðslu og verndun ósnortinnar náttúru.
Jóhanna ólst fyrstu árin upp í Reykjavík og á Snæfellsnesi, en síðar í Biskupstungum. Hún bjó með fjölskyldu sinni; eiginmanni og þremur sonum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og í Biskupstungunum en þau fluttu í Mosfellsbæ árið 1976. Hún keypti sér svo hús og landskika að Dalsá í Mosfellsdal 1993 þegar drengirnir voru farnir að heiman og þau hjón skilin.
„Ég var alin upp við garðyrkjustörf og stundaði þau í Biskupstungunum. Fór síðan að vinna á Tilraunastöðinni á Keldum, sá um skólagarða fyrir Mosfellsbæ og vann einnig á skrifstofu Mosfellsbæjar sem jafnréttisfulltrúi og umhverfisfulltrúi,“ útskýrir Jóhanna, aðspurð hvenær hugur hennar hafi hneigst til ræktunar.
Hún útskrifaðist af umhverfisbraut Garðyrkjuskólans árið 1988. „Í framhaldi af því vann ég um tíma hjá Náttúruverndarráði, var umhverfisfulltrúi hjá Ferðamálaráði og einnig hjá Skaftárhreppi. Um svipað leyti stofnaði ég ásamt vinum „Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd“. Við unnum við að minnka álag á ferðamannastaði, laga göngustíga, merkja leiðir og ýmislegt annað,“ bætir hún við.
Í Mosfellsdalnum rak hún ræktunarog fræðslustöð, ræktaði grænmeti fyrir veitingahús og hélt námskeið, aðallega um matjurtaræktun. „Við matjurtaræktunina, og ekki síður við kennsluna, legg ég mikla áherslu á umhverfisvæna ræktun. Nemendur mínir komu víða að, þó aðallega frá höfuðborgarsvæðinu. Kennslan var að mestu leyti verkleg og nemendur m.a. sáðu og plöntuðu út.“
Markmið með starfseminni að Dalsá kveður Jóhanna vera að hjálpa fólki við að tengjast náttúrunni, að efla lífræna ræktun í heimilisgörðum og að reka gróðrarstöð með lífræna grænmetisframleiðslu.
Amma náttúra
Um árabil kenndi Jóhanna íslensku ungviði að leggja fræ í frjóa jörð og hlú að uns matjurtir spruttu og döfnuðu. Gekk hún þá gjarnan undir nafninu „Amma náttúra“.
„Á þessum árum bauð ég leikskólum upp á þjónustu við að nýta matjurtagarða sína. Þá mætti ég í skólana og leiðbeindi börnunum við að rækta upp sínar eigin plöntur, fylgjast með fræjunum spíra og plöntunum vaxa,“ útskýrir hún.
Hún segir matjurtagarða við leikskóla hafa mikið uppeldislegt gildi. „Garðyrkjan hefur í raun tengingu við flest þau námssvið sem aðalnámskrá leikskóla kveður á um að unnið sé eftir. Vinna við matjurtagarð byggir undir félagsfærni barnanna og hæfni til að lesa í umhverfið, stuðlar að heilbrigðum lífsháttum og góðri hreyfingu og einnig virðingu fyrir umhverfinu og náttúrunni,“ segir Jóhanna. Garðyrkja sé skapandi og lifandi starf sem veki upp gleði og undrun, örvi skynjun og styðji við sköpunarkraft barnanna. „Hún er einnig þakklátt og gefandi starf sem gerir líf og starf leikskólans ríkara, bæði fyrir börnin og starfsfólk leikskólanna,“ hnýtir hún við.
Andi og náttúra eitt
Jóhanna heldur úti vefsíðunni dalsa.is. Þar má sjá að ekki einasta hefur hún um árabil haldið úti fjölbreyttum ræktunarnámskeiðum heldur einnig fóstrað námskeið í náttúrutengdri myndlist, hugleiðslu og 5rythmadansi, svo fátt eitt sé nefnt. Hún hefur sömuleiðis ræktað eigið lín og spunnið og ofið í myndarlegum vefstól sínum, ásamt því að jurtalita íslenskt band.
Hin síðari ár hefur hún fengist við að vinna liti til vatnslitamálunar úr íslensku bergi. Þá heggur hún mismunandi bergtegundir sem hún hefur safnað hér og þar um landið niður og malar í duft og úr verða fjölbreyttir og fallegir litir sem sóma sér vel í málverki.
„Allt mitt líf hef ég verið mjög tengd náttúrunni. Var alin upp í sveitinni og kannski má segja að tengingin hafi elst og styrkst þegar ég var tíu eða ellefu ára og nágranni okkar bauð okkur krökkunum í göngutúr þar sem hann fræddi okkur um nöfn plantnanna í móanum. Eftir það var ég með augun á íslensku plöntunum og greindi þær með hjálp „Flóru Íslands“ eftir Stefán Stefánsson (útg. 1948),“ lýsir hún.
Hún segist hafa áhyggjur af verndun íslenskrar náttúru: „Ég er hrædd um að peningar og gróði vegi of þungt þegar kemur að nýtingu landsins. Það er geysilega mikilvægt að minnka loftmengun í heiminum.“
Öll hennar andlega iðkun tengist náttúrunni. „Mér finnst ég, og auðvitað allt fólk, vera hluti af náttúrunni, ekki að það sé ég/við annars vegar og náttúran hins vegar. Fyrir þó nokkrum árum voru haldin námskeið hér á Dalsá um tengslin við náttúruna og andlegt líf. Nú orðið fögnum við, ég og vinkonur mínar, fullu tungli þegar færi gefst, kveikjum eld og þökkum fyrir tengslin við náttúruna,“ segir hún.
Garðurinn ævintýraland
Garður Jóhönnu að Dalsá er ævintýralegur, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Ræktunarbeðin hafa t.d. gjarnan verið í mandölu-formi og höggmyndalist prýðir flatir. Garðurinn er mjög gróinn og lífríki þar afar fjölbreytt. „Ég er svo heppin að hér í garðinum mínum hafa verið reist listaverk eftir Gerhard König og fleiri listamenn. Það færir orkuna hér upp í hæðir. Áður en ég setti upp stóran garð til framleiðslu grænmetis bjó ég m.a. til hringlaga matjurtagarð.“
Jóhanna er virkur þátttakandi í félagslífi Mosfellsbæjar, formaður FaMos (félag aldraðra í Mosfellsbæ) og kórsins Vorboðanna. Hún hefur mikla ánægju af söng, hannyrðum og listsköpun. Á Dalsá heldur hún áfram að rækta grænmeti og skapa vettvang fyrir fræðslu og samveru og er sannkölluð fyrirmynd í umhverfisog ræktunarmálum.
„Í matjurtagarðinum eru fimm vinkonur með tvö beð hver, þær sjá um beðin sín en ég er til staðar ef eða þegar þær þurfa á að halda,“ útskýrir Jóhanna og er enn afar virk í lífi og starfi þrátt fyrir að vera á áttugasta aldursári.
Jóhanna er beðin um innlegg í anda jóla og kærleika að lokum: „Ég óska þess að mannfólkið sýni hvert öðru virðingu og kærleika.“
