Bergvin Jóhannsson á Áshóli í Grýtubakkahreppi hefur stundað kartöflurækt í sextíu ár.
Bergvin Jóhannsson á Áshóli í Grýtubakkahreppi hefur stundað kartöflurækt í sextíu ár.
Mynd / Aðsendar
Viðtal 10. janúar 2025

„Byrjaði náttúrlega á að kaupa traktor“

Höfundur: Pálmi Jónasson

Hjónin Bergvin Jóhannsson og Sigurlaug Anna Eggertsdóttir eru með reynslumestu kartöflu- bændum landsins en þau hafa stundað slíka ræktun í sextíu ár. Bergvin er viðmælandi Pálma Jónassonar í verkefninu Brautryðjendur garðyrkjunnar.

Foreldrar Bergvins, Jóhann Bergvinsson og Sigrún Sigríður Guðbrandsdóttir, byggðu sér nýbýlið Áshól í Grýtubakkahreppi við austanverðan Eyjafjörð árið 1955 og það var móðir hans sem einkum hafði frumkvæðið að kartöfluræktun.

Bergvin útskrifaðist sem búfræðingur 1968, kvæntist Sigur­laugu Önnu og saman hófu þau félagsbúskap með foreldrum hans.

Á Áshóli eru ræktaðar kartöflur á 18 hekturum lands.

Bergvin segir að þetta hafi verið feikilega frumstæðar aðstæður í upphafi búskaparins. „Í upphafi byggir pabbi kartöflugeymslu 1953 en flytur svo út eftir og byrjar uppbyggingu á fjárhúsum og íbúðarhúsi 1955. Við bjuggum þarna í tjaldi yfir sumarið og síðan í bárujárnsskúr fyrsta veturinn. Og svo þróaðist þetta og það var flutt inn í nýtt íbúðarhús og svo héldu byggingarnar bara áfram að koma næstu ár.“

Frá upphafi voru þau í kart­öflurækt en einnig með hefð­bundinn búskap, kýr og sauðfé. „Kartöfluræktin var alltaf aðeins í meirihluta. En það var byrjað með sauðfé og kýr og var þannig alveg fram til 1974. Þá hættum við með kýrnar og breyttum þá fjósi og allri aðstöðu í kartöflugeymslur.“ Frumkvæðið að kartöfluræktinni var komið frá móður Bergvins. „Hún taldist eiginlega vera æðstráðandi í kartöfluræktinni. En pabbi var aftur með sauðféð og kýrnar. Þó allt væri unnið í sameiningu.“

Bergvin var fjórði í röð sex barna og tók snemma þátt í búskapnum. Hann lærði smíðar í Laugaskóla og árið 1966 fór hann í Bændaskólann á Hvanneyri í tvo vetur og útskrifaðist sem búfræðingur árið 1968.

Framfarir með vélvæðingu

Bergvin kom uppfullur af hugmyndum úr náminu og réðist strax í talsverðar breytingar. „Maður vildi vera svolítið stórtækari heldur en þeir eldri og byrjaði náttúrlega á að kaupa traktor. Þegar ég kom með hann í hlaðið kom pabbi á móti mér og spurði hvað ég ætlaði að gera með þetta. Ég gæti aldrei notað traktorinn því hann væri allt of stór. Þetta var nú Zetor sem er minnsti traktorinn í notkun á heimilinu í dag. En svo hélt maður bara áfram að breyta. Fór að spá meira í vélvæðingu en fram að þessu hafði allt verið unnið bara á handafli. Maður fór strax að spá í vélar og að kaupa vélar. Þær voru nú svo sem ekki allar mjög beysnar í byrjun. En þetta kom smátt og smátt.“

Upphaflega var erfitt að koma stórvirkum vinnuvélum að en það tókst með tíð og tíma. „Allt land er svolítið í halla og aðstæður erfiðar þannig að við byrjuðum á að hafa lyftutengdar upptökuvélar. Þá var þetta þannig að það voru kannski fjórar eða fimm manneskjur í kringum hverja vél og svo traktorsmaður og vorum með tvær í gangi. Seinna þróaðist þetta í stærri og öflugri vélar. Í dag eru þrír í garðinum að taka upp, þar sem oft áður voru fjórtán manns. En meðan við vorum í handafli var það oft upp í fimmtíu manns í garðinum hjá okkur.“

Bergvin segir að allt verklag hafi breyst gríðarlega frá því að allt var unnið með handafli þegar hann var að byrja fyrir nærri 60 árum. „Svo komu þessar vélar sem við sátum á og tíndum í hólf en það tók alveg heilan mánuð að setja niður á hverju vori. Svo fórum við að fá sjálfvirkar vélar og þá gekk þetta miklu hraðar og betur fyrir sig. Mestu munar að tætararnir eru núna orðnir miklu stærri. Svo eru vélarnar náttúrlega orðnar alveg sjálfvirkar í niðursetningunni. Það þarf bara einn mann á traktorinn.“

Verklag kartöfluræktar hefur breyst mikið vegna vélvæðingar.

Válynd veður

Veðurfar getur skipt sköpum í kartöflurækt og þar skiptast á skin og skúrir. „Veðurfar skiptir gríðarlega miklu máli. Stundum koma þrír góðir dagar með sunnangolu og átján stiga hita en svo heil vika sem er köld. Það er alltaf miklu betri uppskera af því sem sett var niður þessa þrjá góðu daga en þegar kalt var í veðri. Það getur munað mjög miklu.“

Sum ár hafa reynst kartöflubændum mjög erfið. „Það hafa komið mjög slæm ár. Árið 1979 var mjög erfitt og nánast algjör uppskerubrestur á öllu landinu. Þá vorum við að fá upp helmingi minna en við settum niður. Það var bara talin góð uppskera ef maður fékk eitthvað til að setja niður næsta ár. Sumir fengu ekkert.“ Árin á eftir voru líka erfið. „Það komu þarna ár sem við misstum allt undir snjó. Það fór bara að mokhríða á okkur um miðjan september og sá snjór tók aldrei upp. Eitt árið mokuðum við ofan af hryggjunum í marga daga og tókum upp. Svo kom í ljós að það var allt ónýtt.“ Bergvin tók virkan þátt í stofnræktun og það gekk mjög vel. Hins vegar lenti hann illa í því árið 1986 þegar bakteríusjúkdómurinn hringrot kom upp hjá honum en það barst með innfluttu útsæði. Hringrot barst hratt út með Premier­kartöflum og varð til þess að stofnræktun var lögð niður og ný hafin með nýjum útsæðisstofnum. Hringrotið var mikið áfall fyrir Bergvin. „Þá urðum við að breyta öllu og það var mikið bras í kringum þetta. Við þurftum að hreinsa allt út og sótthreinsa öll hús og hvíla í þrjú ár.“

Anna Bára Bergvinsdóttir að störfum.
Búum fækkar

Á Áshóli eru ræktaðar kartöflur á 18 hekturum. Meðaluppskera er um 250 tonn, fer niður í 200 tonn í slökum árum en getur líka farið yfir 300 tonn. Kartöfluafbrigðin eru Rauðar, Gullauga og Premier og eru seldar undir vöruheitinu Áshóll.

Bergvin segir að það hafi mikið breyst þegar Bónus kom inn á markaðinn og verst hafi ástandið verið upp úr 1990. „Áður seldu allir í gegnum kaupfélagið. Það gátu allir komið með sínar vörur þangað og kaupfélögin sáu bara um að selja þetta. Svo kom Bónus inn á markaðinn og þá fóru þeir strax að kýla verðið niður. Þetta fór mjög illa í kartöfluframleiðendur því að áður fyrr fékk kartöflubóndinn svona sjötíu prósent af verðinu. Með Bónus fór þetta alveg niður fyrir tuttugu prósent. Nokkrir kartöflubændur ætluðu sér að vera yfirgnæfandi stórir og fara alfarið í viðskipti við Bónus. Það endaði með því að þeir fóru í gjaldþrot og það má segja að öll stéttin hafi hrunið við þetta.“

Smám saman komst aftur á jafnvægi en það fækkaði verulega í stéttinni. „Nú eru þrjátíu kartöflubændur eftir en þeir framleiða jafnmikið og þegar þeir voru miklu fleiri. Þegar ég fór að taka saman skrár fyrir Landssamband kartöflubænda voru 230 innleggjendur.“

Þróunin í kartöflurækt er eins og annars staðar. „Búunum er enn að fækka og þau stækka. Menn eru að fara upp í það sem þeir mögulega ráða við í dag. Hér fyrir norðan getum við ekki stækkað mikið, við höfum ekkert land til þess. Í Þykkvabænum geta menn stækkað svolítið og í Hornafirði er einn aðili orðinn mjög stór.“ Bergvin segir að kartöfluræktin standi frammi fyrir fjölmörgum áskorunum. „Helsta áskorunin er hvað matarmenningin er að breytast mikið. Í dag þarf að framleiða allt öðruvísi kartöflur en var fyrir nokkrum árum. Nú gengur ekkert að selja stórar matarkartöflur. Menn þurfa bara ákveðna stærð og hitt þarf alltaf að fara í einhverja vinnslu.

En það er erfitt að eiga við þessa vinnslu. Þessar græjur eru svo stórvirkar og dýrar að það svarar varla kostnaði að setja upp slíkan búnað. Verksmiðjan í Þykkvabæ er hætt að framleiða franskar kartöflur. Þeir treystu sér ekki til að kaupa ný og rándýr tæki fyrir framleiðsluna. Ef það ætti að auka vélvæðingu enn frekar hjá kartöflubændum, þá þyrftu búin að stækka minnst um helming til þess að það gengi upp.“

Lengri útgáfu viðtalsins má nálgast á vef garðyrkjubænda á bondi.is.

Elsta skipulega kartöfluræktunin í Evrópu var á Tenerife

Kartöflur eru upprunnar í Andesfjöllunum í Suður-Ameríku en bárust til Evrópu með spænskum og portúgölskum landvinningamönnum á síðari hluta 16. aldar. Elsta skipulega kartöfluræktunin í Evrópu var á Tenerife sem margir Íslendingar þekkja af eigin raun. Talið er að Svíinn Friedrich Wilhelm Hastfer, eða Hastfer hrútabarón, hafi verið fyrstur til að rækta kartöflur á Íslandi og fyrsta uppskeran leit dagsins ljós á Bessastöðum árið 1758. Kartöflurækt varð ekki algeng á Íslandi fyrr en í upphafi 19. aldar á tímum Napóleonsstyrjaldanna þegar siglingar til Íslands urðu stopular. Kartöflurækt varð þó ekki almenn fyrr en um miðja tuttugustu öldina. Félag kartöflubænda á Suðurlandi var stofnað árið 1976 og Félag kartöflubænda við Eyjafjörð árið 1980. Saman mynduðu þessi tvö félög Landssamband kartöflubænda 1. maí árið 1981.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt