Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Víðast hvar metuppskera á Suðurlandi
Fréttir 23. september 2016

Víðast hvar metuppskera á Suðurlandi

Höfundur: smh

Talsvert hefur birt yfir kornræktinni í sumar, eftir nokkur erfið samdráttarár. Tíðarfar hefur víðast hvar verið gott og útlitið varðandi uppskeru er eftir því.

Samdráttarskeiðið var afleiðing af nokkrum þáttum. Tíðarfar hefur verið greininni frekar óhagstætt, ágangur álfta og gæsa verið mörgum kornbændum afar erfiður og svo hefur minna fengist fyrir íslenska byggið á heimamarkaði vegna gengis- og verðþróunar á alþjóðlegum mörkuðum.

Bændablaðið leitaði til ráðunauta og starfsmanna búnaðarsambanda á helstu kornræktarsvæðum landsins til að kanna hvort ekki hafi hýrnað yfir kornbændum eftir gott sumar. 

Þremur vikum fyrr í Árnessýslu

Sveinn Sigurmundsson, hjá Búnaðar­sambandi Suðurlands, segir að á vesturhluta Suðurlands hafi þresking hafist víðast hvar í lok ágúst – eða allt að þremur vikum fyrr en alla jafna – og uppskeruhorfur séu almennt mjög góðar. Hann telur ekki meira um óværu eða illgresi samfara góðri tíð, en svo virðist sem ágangur álfta sé jafnvel enn harðari en í fyrra á sumum stöðum. Hann segir ástæðurnar vera þær að kornakrarnir sem þær hafi úr að moða séu færri og svo er líklegt að álftinni fjölgi hratt. Sveinn telur eðlilegt að kornbændur fengju leyfi – að uppfylltum skilyrðum – til að verja lönd sín fyrir þessum ágangi.

Guðmundur Sigurðsson, hjá Búnaðarsamtökum Vesturlands, segir að á Vesturlandi hafi kornræktin gengið mjög vel í sumar. „Víða er byrjað að þreskja kornið og nokkrir alveg búnir að þreskja. Uppskera er góð, til að mynda þrjú til fjögur tonn af þurru korni á hektara hjá einum. Fjórir aðilar eru með þurrkaðstöðu; Belgsholt, Langholt, Hurðarbak og Kolviðarnes. Langholt kom nýtt inn síðastliðið haust og er að endurbæta aðstöðuna. „Varðandi gæsir þá hef ég ekki heyrt mikið kvartað undan henni sem af er, enda er hún fyrst að koma í akra þessa dagana. Álftin er nokkuð staðbundin slæm í Reykholtsdal og Hálsasveit. Þeir sem ná að þreskja snemma sleppa við skaða af fugli. Varðandi svepp í korni þá eru margir sem eru farnir að úða og sleppa að mestu en sveppurinn er fyrst og fremst þar sem korn er mörg ári í sama akri. Þannig að ef vel á að takast með kornrækt verður að stunda skiptiræktun.

Ég er ekki með tölur um stærð akra en það mun liggja fyrir í október þegar búið verður að taka út jarðabætur. Þó er tilfinningin sú að eitthvað er minna um byggrækt í ár en síðastliðin ár þótt munurinn sé ekki afgerandi. Varðandi að heimila veiði á álft þá hefur sú umræða vissulega verið hér og er mikilvægt að vinna að þeim málum enn frekar,“ segir Guðmundur.

Mikið að magni og góð fylling

Eiríkur Loftsson, ráðunautur hjá Ráð­gjafarmiðstöð landbúnaðarins, segir að á Norðvesturlandi séu uppskeruhorfur góðar. „Almennt er kornið mikið að magni, fylling þess víðast góð en nokkuð misjafnt hve mikið það er farið að þorna. Þresking hófst í Skagafirði í síðustu viku. Fugl kemur í kornakrana strax og færi gefst, víðast er það ekki fyrr en byrjað er að þreskja og hann hefur svæði til að lenda. Hópar af fugli hafa sums staðar legið í túnum, mest nýræktuðum og einnig grænfóðri, bitið, traðkað og skitið – og spillt uppskeru bæði að magni og gæðum.

Blaðsveppur hefur verið áberandi í stöku ökrum en heilt yfir ekki til vandræða. Illgresi sækir mjög á í landi þar sem korn er ræktað samfellt í nokkur ár ef ekki er unnið á því.

Verkun korns er með líku móti og verið hefur en núna þegar það er meira þroskað og þurrara við þreskingu má búast við að meira verði þurrkað,“ segir Eiríkur.

Guðmundur Helgi Gunnarsson, hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins í Eyjafirði, segir að ekki sé búið að þreskja mikið á svæðinu.  „Það var sáð frekar seint í akra í vor, aðallega á tímabilinu 10.–20. maí,  vegna klaka og kulda framan af vori. Á síðustu vikum hefur verið talsverð úrkoma á svæðinu, sem einnig skýrir að hluta að ekki er meira búið að þreskja.

Þar sem búið er að skera er uppskeran misjöfn og virðist kornfyllingin sums staðar ekki nægilega góð – sem getur tengst veðurfarinu í sumar. En í júlímánuði var hér fremur sólarlítið og úrkomusamt.
Nokkuð hefur orðið vart við sveppasmit í ökrum og þá meira í þeim eldri, en á því hefur ekki verið gerð nein úttekt. Slíkt smit rýrir bæði gæði og magn uppskeru.

Kornþurrkurum hefur ekki fjölgað á svæðinu, enda erfitt að reka þá með svo litlu magni sem þurrkað er. Margir súrsa kornið, enda þarf það að vera vel fyllt svo það uppfylli lágmarks skilyrði sem söluvara,“ segir Guðmundur. Hann bætir því við að ekki sé vitað um mikið tjón af völdum álfta og gæsa, en það sé þó alltaf eitthvað um það á einstaka ökrum.

Metuppskera hjá flestum kornbændum á Suðurlandi

Kristján Bjarndal Jónsson kannaði stöðuna á Suðurlandi, austan Árnessýslu. „Það er nánast sama hvar við berum niður, það er metuppskera hjá flestum bændum í öllu.  Menn hafa t.d. þorað að nefna allt að 40 prósenta aukningu á hektara í korninu.

Að vísu var þurrt framan af og byggið spíraði seint og með þessum hlýindum hafa komið fram mikið af grænum hliðarsprotum og þeir bændur sem hafa lent í slíku hafa frekar viljað súrsa slíkt korn.  Það er dýrt að þurrka það og lítið verður úr því.

Snemma var hægt að fara að þreskja korn og urðu bændur því víða á undan fuglaplágunni. Vitað er til að byrjað var að þreskja 18. ágúst, en það er allt að tveimur vikum fyrr en í meðalári. 

Ég á von á því að allir hafi náð sex raða korninu, en það er viðkvæmara fyrir fyrstu óveðrunum en tveggja raða.  Öxin verða þyngri og því viðkvæmari í bleytu og stormi.

Þar sem tveggja raða kornið er orðið vel þroskað – og því þungt í þessari vætu sem nú er – hefur það tilhneigingu til að brotna niður, þar sem ekki er búið að þreskja það. Því er víða að bresta á barátta á milli fugla og bænda um það hvor hefur betur þegar það styttir upp og hægt verður að halda þreskingu áfram. Fuglinn er aðeins seinna á ferðinni í góðæri eins og nú.  Sem dæmi má nefna að ég veit til þess að einn bóndi lagði sig smá stund efir hádegismatinn sem varð til þess að hann tapaði orrustu við fuglinn. Þetta er því oft mjög fljótt að gerast.

Það er samdráttur í kornræktinni. Mér finnst það mikil synd af ýmsum búrekstrarlegum ástæðum,“ segir Kristján.

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
Fréttir 12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Fjár- og stóðréttir eru fram undan og venju samkvæmt birtir Bændablaðið lista yf...

Lækkað verð á greiðslumarki
Fréttir 12. september 2024

Lækkað verð á greiðslumarki

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun september sýna l...

Smalað vegna óveðurs
Fréttir 12. september 2024

Smalað vegna óveðurs

Fyrsta haustlægðin kom á dögunum, með gulum og appelsínugulum viðvörunum, norðan...

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
Fréttir 12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Raforkusamningum meirihluta garðyrkjubænda landsins hefur verið sagt upp. Í suma...