Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Verndun erfðafjölbreytileika til kynbóta
Mynd / Magnús Göransson
Fréttir 17. september 2021

Verndun erfðafjölbreytileika til kynbóta

Höfundur: Vilmundur Hansen

Villtar erfðalindir ræktaðra nytjaplantna eru tegundir plantna sem eru formæður nytjaplantna eða skyldar tegundir.
Ólíkt nytjaplöntunum lifa þessar tegundir í náttúrunni án aðkomu og viðhalds mannanna og geta því innihaldið erfðaefni sem geta komið sér vel við kynbætur.

Magnús Göransson plöntukynbótamaður hefur í sumar starfað á vegum NordGen við að safna slíkum plöntum hér á landi. „Verkefnið er samnorrænt og þríþætt. Í fyrsta lagi er verið að skrá og safna upplýsingum um vaxtarstað villtra plantna á Norðurlöndunum sem eru skyldar nytjaplöntum. Í öðru lagi að safna erfðaefni af völdum tegundum og rannsaka erfðafjölbreytni þeirra. Í þriðja lagi að safna fræjum fyrir ex situ varðveislu í NordGen og þar með gera erfðaefni plantnanna aðgengilegt fyrir plöntukynbætur dagsins í dag og framtíðarinnar.

Villtir stofnar þessara tegunda munu halda áfram að þróast og mæta síbreytilegum vaxtarskilyrðum og loftslagsbreytingum og því er jafnframt mikilvægt að varðveita þá in situ, eða í sínu náttúrulega umhverfi.“
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér þessar plöntur og mikilvægi þeirra betur er bent á að um þessar mundir er uppi sýning í Grasagarði Reykjavíkur sem fjallar um villtar erfðalindir ræktaðra nytjaplantna. Hugmyndin með þessari sýningu er að hún muni ferðast um landið næsta sumar og verði sett upp á svæðum þar sem þessar plöntur megi finna.

Skráning og söfnun innan Vatnajökulsþjóðgarðs

Magnús segir að samstarf við þjóðgarða sé mikilvægur hluti af verkefninu þar sem margir þeirra hafa innan svæða sinna fjölmargar þessara tegunda. Eitt af langtímamarkmiðum verkefnisins er að umsjónarmenn verndaðra svæða séu meðvitaðir um þessar tegundir og sérstöðu þeirra við gerð verndaráætlana.

„Í sumar höfum við Hjörtur Þorbjörnsson, forstöðumaður Grasa­garðsins í Reykjavík, skráð vaxtar­stað þessara plantna á nokkrum stöðum innan þjóðgarðsins og einnig safnað lífsýnum sem verða notuð til að rannsaka erfðamun þeirra milli vaxtarstaða og milli landa. Við söfnum einnig fræjum til varðveislu hjá NordGen í Alnarp í Svíþjóð auk þess sem öryggiseintök verða send í fræbankann á Svalbarða. Söfnunin hefur gengið vel en þar sem þroskatími fræja er mismunandi verðum við sennilega að fara aðra söfnunarferð á næsta ári.“

Mikill fjölbreytileiki á Norðurlöndum

„Á Norðurlöndunum er fjölbreyti­leiki villtra plantna sem eru skyldar fóðurgrösum og berjategundum mikill og einnig að finna tegundir sem eru skyldar ýmsum korn- og grænmetistegundum. Tegundum á Norðurlöndunum sem telja má til villtra erfðalinda ræktaðra nytjaplantna hefur verið forgangsraðað á lista eftir mikilvægi þeirra og inniheldur listinn 115 tegundir og undirtegundir en til að komast á listann verða plöntur að vera skyldar efnahagslega mikilvægum nytjaplöntum,“ segir Magnús.

Loftslagsbreytingar og breyttar aðstæður

Með áframhaldandi loftslagsbreyt­ingum koma skilyrði til landbúnaðar til með að breytast og til að mæta þessum breytingum verður þörf á nýjum eiginleikum hjá ræktuðum nytjaplöntum. Náinn skyldleiki landbúnaðarplantna og ýmissa villtra tegunda gerir mögulegt að kynbæta eftirsótta eiginleika villtu tegundanna inn í landbúnaðarplönturnar og þannig er hægt að aðlaga ræktunarafbrigði að breyttum skilyrðum og neytendakröfum.
Magnús segir að sýnileg áhrif mannsins á jörðina og lífríki hennar á borð við loftslagsbreytingar og eyðingu búsvæða sé ógn við fjölbreytileika villtra erfðalinda ræktaðra nytjaplantna og að því þurfi að vernda þessar villtu tegundir og fjölbreytileika þeirra.

„Erfðamengi villtra plantna er hluti af erfðamengi ræktaðra ættingja þeirra og því hægt að nota þær til kynbóta og eftirsóttir eiginleikar sem verið er að leitast eftir geta meðal annars verið aukið þol gegn sjúkdómum, aukið kulda-, þurrka- og flóðaþol og einnig aðlögun að stuttum vaxtartíma og björtum sumarnóttum. Villtar erfðalindir ræktaðra nytjaplantna eru því mikilvægar til að tryggja fæðuöryggi mannkyns í framtíðinni.“

Varðveisla

Helsta leiðin til að varðveita þessar tegundir er að viðhalda þeim í sínu náttúrulega umhverfi, in situ, en einnig er hægt að varðveita fræ í genabanka, ex situ, svo hægt sé að endurheimta þær deyi þær út á vaxtar­svæðum sínum.
„Aðferðir við að varðveita tegundir eru í samræmi við varðveislu villtra plöntutegunda almennt. Sumar tegundirnar lifa án sérstakrar verndunar á meðan aðrar tegundir munu þurfa verndun. Á mörgum friðlýstum svæðum eins og þjóðgörðum og fólkvöngum vaxa í dag margar plöntutegundir sem jafnframt eru villtar erfðalindir ræktaðra nytjaplantna. Hagkvæmasta leiðin til að vernda þær er að gera það á vaxtarstaðnum en á sama tíma er nauðsynlegt að tryggja aðgengi ræktunar-, kynbóta- og rannsóknarfólks að villtum erfðalindum ræktaðra nytjaplantna svo unnt sé að nýta erfðalindirnar til kynbóta,“ segir Magnús Göransson plöntukynbótamaður.

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...