Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Herdís Magna Gunnarsdóttir.
Herdís Magna Gunnarsdóttir.
Fréttir 24. júní 2022

Varanlegri lausnir brýnar

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Segja má að þrír af sex liðum í tillögum spretthóps til aðgerða á þessu ári snerti nauta- og kúabændur.

Fyrsta tillaga leggur til að greitt verði 65% álag á jarðræktarstyrki og landgreiðslur og deilist því á milli flestra búgreina. Í öðrum lið skýrslunnar koma fram tillögur að álagsgreiðslum sem snúa beint að nautgriparæktinni, bæði kjöti og mjólk. Sjötta tillaga snýr að endurskipulagningu og hagræðingu í slátrun og kjötvinnslu. Að sögn Herdísar Mögnu Gunnarsdóttur, formanns búgreinadeildar kúabænda, NautBÍ, hafa bæði mjólkur- og nautakjötsframleiðendur fundið verulega fyrir fordæmalausum aðfangahækkunum síðustu misseri.

Hún fagnar því tillögum um stuðning. „Fyrir nautakjötið er annars vegar lagt til að aukið álag sé greitt á nautakjötsframleiðslu og hins vegar verði greitt álag á gripagreiðslur fyrir holdakýr. Túlkun fólks hefur verið örlítið mismunandi um hvernig eigi að hátta álagsgreiðslunum á nautakjötið en það er skoðun okkar í stjórn búgreinadeildar nautgripabænda að viðbótar álagsgreiðslur UN gripa eigi ekki að einskorðast við þá gripi sem hljóta sláturálag nú heldur verði álagið greitt á alla UN gripi sem koma til slátrunar þar sem að aukinn framleiðslukostnaður kemur við alla nautakjötsframleiðendur. Við höfum nú þegar sent ráðuneytinu erindi þess efnis. Verði farin sú leið reiknast okkur til, miðað við fjölda UN sláturgripa síðasta árs, að greiðslur vegna tillagna spretthópsins verði um 14.000 kr. á hvern UN grip og að miðað við áætlaðan fjölda holdakúa aukist greiðslur á hverja holdakú um 9.800 krónur á þessu ári.“

Þá reiknast Herdísi til að miðað við tillögur spretthópsins og áætlaðan fjölda mjólkurkúa 2022 verða aukagreiðslur á hverja mjólkurkú um 7.600 kr.

„Út úr skýrslunni má lesa að hópurinn telji mjólkurframleiðsluna betur stadda en kjötgreinarnar, m.a. vegna þeirrar sérstöðu sem greinin býr við með opinbera verðlagningu. Ég hef sagt það áður en ítreka nú aftur að það er kúabændum nauðsynlegt að verðlagsnefnd starfi eftir lögum og nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að nefndin fundi og ákveði lágmarksverð til bænda með reglubundnum hætti. Ráðherra og ráðuneyti matvæla verða því að tryggja að verðlagsnefnd starfi eðlilega til að koma til móts við kúabændur.“ Stuðningurinn sem lagður er til dugi þó ekki alla leið og bændur þurfa að fá skilaboð úr fleiri áttum.

„Við þurfum að horfa til varanlegri lausna til að skjóta tryggari stoðum undir allar greinar landbúnaðarins. Nautakjötsframleiðslan stóð mjög veik fyrir umræddar aðfangahækkanir, nautgripabændur hafa gengið svo langt í hagræðingu í eigin rekstri að þeir hafa gengið á eigin launalið. Það er því lítið svigrúm til að takast á við aðfangahækkanir, hvað þá til frekari uppbyggingar og fjárfestingar. Á sama tíma hefur fagmennska og þróun íslenskrar nautakjötsframleiðslu verið á mikilli uppleið síðustu ár auk þess sem eftirspurn eftir úrvals nautakjöti eykst jafnt og þétt. Ef við horfum á stöðuna út frá þessari hlið eru að vissu leyti falin tækifæri fyrir bændur og uppbyggingu á landsbyggðinni í því að breikka íslenska matvælaframleiðslu og gefa í í íslenskri nautakjötsframleiðslu.

Það gefur að mínu mati augaleið að nautakjötsframleiðslan ætti að fá aukinn og varanlegri stuðning en hún fær nú í dag, án þess að þurfa að bíta þann stuðning af öðrum,“ segir Herdís.

Jafnframt telur hún að sjötta tillaga skýrslunnar leggi stoð að varanlegri lausnum í íslenskri matvælaframleiðslu.

„Þar er lagt til að kjötafurðastöðvum verði veitt heimild til samstarfs með það að markmiði að ná fram hagræðingu innan geirans. Ef rétt er að málum staðið ætti slík aðgerð að geta skilað bændum sanngjarnara verði og neytendum lægra verði líkt og gerðist við sam- einingu mjólkurafurðastöðva á sínum tíma. Aukið hagræði innan slátur- afurðastöðva ætti að gera þeim kleift að standa betur í samkeppni við erlendar og mun stærri afurðastöðvar. Þannig ættu einnig aukin tækifæri að opnast til að bæta og auka við vöruþróun ásamt því að nýting allrar afurðakeðjunnar gæti orðið betri.“

Skylt efni: spretthópurinn

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f