Þrýst á erfðabreytt matvæli vegna loftslagsvanda
Utan úr heimi 10. júní 2025

Þrýst á erfðabreytt matvæli vegna loftslagsvanda

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Evrópusambandið innleiðir nýja reglugerð um erfðabreytingar plantna til landbúnaðarnota með svokallaðri NGT-erfðabreytingatækni, þar sem framandi og óskyld gen koma ekki við sögu. Kínverjar eru í erfðabreytingaátaki.

Vísindamenn hafa síðan fyrir daga eiginlegrar erfðafræði á 19. öld reynt að breyta DNA erfðaefni plantna til að auka uppskeruþol. Fyrstu skrefin í erfðatækni voru þó stigin árið 1973, af bandarísku lífefnafræðingunum Boyer og Cohen, sem settu DNA úr einni bakteríu í aðra. Enn er deilt um öryggi og siðferði á bak við þessar erfðabreyttu eða breyttu lífverur, sérstaklega hvað varðar ræktun, um allan heim.

Kínversk stjórnvöld hrintu nýverið af stað átaki í eflingu líftækniræktunar, með áherslu á genabreytingartækni og þróun nýrra hveiti-, maís- og sojabaunaafbrigða. Er það sögð viðleitni til að tryggja fæðuöryggi og efla landbúnaðartækni. Reuters greindi frá.

Átakið stendur til ársins 2028 og miðar að því að ná fram stýranlegum fræuppsprettum fyrir lykilræktun, með áherslu á að rækta mjög gjöful uppskeruafbrigði fjölónæms hveitis, maíss, sojabauna og repja. Kína er með þessu m.a. að auka innlenda uppskeru lykiltegunda til að þurfa ekki í eins miklum mæli að treysta á innflutning frá öðrum löndum á viðsjálum tímum.

Auk þessa á að rækta afkastamikið kínverskt búfé, þar á meðal svín með mikla æxlunargetu og hátt fóðurnýtingarhlutfall, sem og sjúkdómsþolnari kjúklinga.

Nákvæmari og skilvirkari

Fyrir um tveimur áratugum inn - leiddi Evrópusambandið strangar reglur sem ná yfir leyfisveitingar, merkingar og áhættumat tengt erfðabreytingum á plöntum. Framkvæmdastjórn ESB hefur undanfarið beitt sér fyrir að þrengt sé að regluverkinu gagnvart nýjustu erfðabreytingatækni. Núgildandi reglur verða áfram við lýði fyrir hefðbundnar erfðabreytingar en nýtt og strangt regluverk er sett um nýja erfðatækni í plöntum til landbúnaðarnota, sem ryður sér æ meira til rúms, og kallast einu nafni NGT (e. New Genomics Techniques). Undir það fellur m.a. CRISPR-erfðatæknin sem sögð er mun nákvæmari og skilvirkari en hefðbundin genabreyting. CRISPR/Cas9 felst í að breyta erfðaefni lífveru beint, án þess að setja inn ný framandi gen. Hægt er að gera litlar breytingar, hratt og á tiltölulega ódýran hátt, svo sem að lagfæra genagalla og afvirkja gen. Er aðferðin sögð hnitmiðaðri en eldri aðferðir og minni hætta á skemmdum og aukaverkunum. ESB-reglur um NGT miða m.a. að því að greina skilmerkilega á milli erfðabreyttra plantna sem annars vegar hafa framandi gen og hins vegar þeirra sem búið er að erfðabreyta án slíks.

Þolnari erfðabreytt ræktun

Því hefur verið haldið fram að með því að banna skordýraeitur og erfðabreyttar lífverur séu ESBríkin að fljóta sofandi að feigðarósi fæðuöryggiskreppu. Í fyrra hvöttu 34 Nóbelsverðlaunahafar ESB í opnu bréfi til að slaka á harðri stefnu um erfðabreytingar og leyfa vísindamönnum að þróa erfðabreytta ræktun sem þoli loftslagskreppuna.

Í Euronews-tæknispjalli í apríl sl. var rætt um stöðuna á erfðabreytingatækninni innan Evrópu. Þar kom m.a. fram að líftæknisérfræðingar segi plöntur, sem erfðabreytt hefur verið skv. nýjustu tækni, vera ónæmari fyrir þurrkum og meindýrum og einnig þurfi þær minni áburð. Þær veki jafnframt minni heilsufarsleg vandamál, t.d. hvað varði ofnæmi og glútenóþol. Ýmsir forsvarsmenn evrópska landbúnaðargeirans telji erfðatæknina nauðsynlega til að tryggja framtíð matvælaframleiðslu innan álfunnar.

Efasemdaraddir hafa þó heyrst hvað þetta varðar. Evrópusamtök vísindamanna um félagslega og umhverfislega ábyrgð (e. European Network of Scientists for Social and Environmental Responsibility), eru ásamt mörgum öðrum afar gagnrýnin á áhrif erfðabreyttra lífvera á líffræðilegan fjölbreytileika og heilsu manna.

Ýmsir bændur og framleiðendur í Evrópu hafa sömuleiðis goldið varhug við þróun á erfðabreyttum afurðum og hafa áhyggjur af að hún geti skapað ójafnvægi í landbúnaðarkerfinu og haft slæm áhrif á úrval ræktaðra tegunda.

Evrópuráðið var t.a.m. klofið í afstöðu sinni til þess hvort veita ætti einkaleyfi á erfðabreyttu fræi, m.a. vegna þess að slíkt gæti takmarkað valmöguleika bænda og skapað einokun. Var það þó heimilað með ströngum skilyrðum. Áhyggjur eru af því að einkaleyfi á erfðabreyttum plöntum geti leitt til vaxandi aðstöðumunar milli stórbúa og minni býla. Við blasir sá veruleiki að ef fáein risafyrirtæki hafa einokunaraðstöðu á erfðabreyttu fræi keyrir það upp fræverð til bænda og takmarkar möguleika á þróun fræafbrigða með ræktun.

Nokkur ESB-lönd, svo sem Frakkland og Þýskaland, hafa bannað ræktun erfðabreyttra lífvera vegna áhyggna af umhverfisáhrifum og heilsufarsáhættu slíkrar ræktunar. Þrátt fyrir landsbundin bönn við ræktun erfðabreyttra lífvera í matvæli, flytja sömu ESB-lönd þó inn erfðabreyttar lífverur, m.a. í dýrafóður, t.d. erfðabreyttar sojabaunir.

Spunagervigreind í erfðatækni

Árið 2023 voru Bandaríkin leiðandi framleiðandi erfðabreyttra lífvera í heiminum, með 74,4 milljónir hektara í erfðabreyttri ræktun; Brasilía kom á eftir með 66,9 milljónir ha og Argentína með 23,1 milljón ha. Aftur á móti var Evrópa þá með rétt yfir 48.000 hektara undir erfðabreytta ræktun og rúmlega 95 prósent hennar fara fram á Spáni. MON810-maís er eina erfðabreytta uppskeran sem er samþykkt til ræktunar í atvinnuskyni innan ESB, enn sem komið er. Hið umdeilda bandaríska Monsanto-fyrirtæki á einkaleyfið.

Fram kom hjá Euronews að í könnun sem gerð var meðal ítalskra landbúnaðarvísindamanna árið 2021 taldi 81% þeirra að erfðabreyttar lífverur væru almennt öruggar til neyslu, en aðeins 54% ítalsks almennings trúði að svo væri. Á síðustu árum hefur verið vaxandi áhugi fyrir matvælum sem eru ekki genabreytt (þekkt sem „Ekki erfðabreytt“ (e. Non-GMO), bæði meðal neytenda og fyrirtækja í Evrópu, sem hefur stuðlað að vaxandi eftirspurn eftir lífrænum og staðbundnum matvælum.

Erfðatæknin er svo enn að stíga ný skref þegar kemur að matvælaframleiðslu. Vísindamenn eru nú farnir að skoða hvernig hægt sé að beita svokallaðri Generative AI (tegund spunagervigreindar sem getur komið með hugmyndir að eigin frumkvæði til úrbóta) í erfðafræði plantna og vekur það blendin viðbrögð. 

Ræktun og erfðabreytingar

Hefðbundin ræktunartækni: M.a. krossræktun skyldra plantna til að styrkja æskilega eiginleika. Nú til dags er ferlinu oft hraðað með efnum eða geislun til að fá fram stökkbreytingar.

Hefðbundin erfðabreytingatækni (GMO): Erfðaefni plöntu er breytt með því t.d. að setja í hana framandi DNA til að ná fram æskilegum eiginleikum.

Ný erfðatækni (NGT): Erfðamengi plöntu er breytt á völdum stað, eða röð (e. sequence) frá sömu eða náskyldri tegund sett inn í mengið.

concilium.europa.eu

Skylt efni: erfðabreytt matvæli

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...