Lambakjöt frá Lofoten verndað afurðaheiti
Lofotlam er þriðja matvaran frá Noregi sem hlýtur verndun ESB samkvæmt landfræðilegri tilvísun.
Á bak við afurðaheitið standa 75 sauðfjárbændur frá Lofoten- eyjaklasanum í Norður-Noregi. Lofotlam raðar sér á lista yfir matvæli með vernduð afurðaheiti, eins og fenlår fra Norge (þurrkað og saltað lambakjöt) og tørrfisk fra Lofoten (þurrkaður saltfiskur).
Viðurkenningin var veitt á alþjóðlegu grænu vikunni í Berlín þann 17. janúar síðastliðinn. Geir Pollestad, ráðherra landbúnaðarmála í Noregi, sagði af því tilefni að þetta væri verðskulduð viðurkenning fyrir sauðfjárbændurna sem framleiða lambakjöt á heimsmælikvarða. Frá þessu greinir Stiftelsen Norsk Mat, samtök matvælaframleiðenda, í fréttatilkynningu.
Vernd afurðaheita (e. Geographical Indication) eru auðkennandi merki sem eru notuð til að einkenna vörur sem eiga uppruna frá tilteknu landi eða svæði þegar gæði, orðstír eða önnur einkenni vörunnar tengjast þeim landfræðilega uppruna.
Evrópusambandið stendur á bak við merkin. Vörur sem hafa hlotið vernd afurðaheita eru meðal annars Íslenskt lambakjöt og Parmigiano Reggiano-osturinn.