Bændur fá að kenna á tollastríði Trumps
Kjósendur í Argentínu brugðust kröftuglega við hótunum Trumps um að draga allan stuðning við landið til baka ef flokkur skoðanabróður hans og forseta, Javier Milei, hlyti ekki brautargengi í þingkosningunum um þarsíðustu helgi.
Flokkur argentínska forsetans, La Libertad Avanza, hlaut 40,7% atkvæða og bar sigur úr býtum. Fyrr í mánuðinum hafði Trump tilkynnt um 20 milljarða dollara aðstoð við Argentínu. Á sama tíma eiga bandarískir bændur á brattann að sækja, meðal annars vegna þess að Kínverjar eru hættir að kaupa sojabaunir af þeim og hafa snúið viðskiptum sínum til argentínskra bænda. Veruleikinn á bak við pólitík Trumps er í senn kaldhæðnislegur og hættulegur grunnatvinnuvegum á borð við landbúnað.
Ástæðan fyrir því að Kínverjar eru hættir að kaupa sojabaunir af bandarískum bændum er viðskipta- og tollastríð Trumps við þessa næstfjölmennustu þjóð heims. Kínverjar voru einn af stærstu viðskiptavinum sojabaunaframleiðenda í Bandaríkjunum. En þetta er ekki eina áfallið sem riðið hefur yfir bændur þar vestra frá því að Trump komst til valda.
Verð á dráttarvélum og áburði hefur hækkað verulega eftir að forsetinn hóf tollastríð sitt við aðrar þjóðir. Leiðandi vélaframleiðendur í Bandaríkjunum hafa sagt upp fólki, eins og komið hefur fram hér í blaðinu. Erfiðara er að fá fólk til starfa í landbúnaði eftir að erlent vinnuafl hefur verið gert brottrækt úr landinu. Og meira að segja vindmyllurnar, sem framleiða rafmagn fyrir marga bændur, eru í skotlínu forsetans, enda hefur hann lýst óbeit sinni á annarri orku en þeirri sem sprettur af jarðefnaeldsneyti.
Styrkjakerfið hefur svo verið skorið upp á undanförnum mánuðum sem hefur skilið marga bændur eftir með útgjöld vegna verkefna sem þeir voru styrktir til að ráðast í en eiga nú litla möguleika á að standa undir. Á síðustu mánuðum hafa þó fallið dómar þar sem Trump hefur verið gerður afturreka með niðurfellingu ákveðinna styrkja.
Iowa verður illa úti
Í fréttaskýringu í New York Times (NYT) er fjallað ítarlega um stöðu bænda í Iowa sem orðið hefur æ erfiðari eftir því sem á árið hefur liðið vegna aðgerða Trumps. Eftir að hafa kosið Obama tvisvar hafa íbúar Iowa-ríkis verið dyggir stuðningsmenn Trumps síðastliðinn áratug. Forsetinn hefur þó varla gert mörgum öðrum ríkjum þyngri búsifjar en Iowa. Fram kemur í grein NYT að á fyrsta ársfjórðungi 2025 hafi verg landsframleiðsla í ríkinu lækkað meira en í nokkru öðru ríki fyrir utan Nebraska sem er í næsta nágrenni.
Ástæðurnar fyrir minnkandi framleiðslu í ríkinu eru þær sem nefndar eru hér að ofan, tollastríð Trumps hefur hækkað verð á áli og stáli, sláturhús reiða sig að miklu leyti á vinnuafl af erlendum uppruna og ríflega helmingurinn af raforkuframleiðslu ríkisins er vindorka.
Vandamálin sem herjað hafa á efnahag og atvinnulíf Iowa hafa verið ærin fyrir. Veður hefur verið óhagstætt og vöruverð hefur almennt hækkað í heiminum en efnahagsaðgerðir Trumps hafa bætt gráu ofan á svart ef marka má hagfræðinga, búnaðarfélög og áhrifafólk í viðskiptalífi ríkisins, segir NYT.
Iowa framleiðir mest allra ríkja Bandaríkjanna af korni og næstmest af sojabaunum. Bandaríkin flytja út um það bil helminginn af sojabaununum sem framleiddar eru í landinu. Stærstur hluti þeirra hafði farið til Kína í viðskiptum sem voru 12,6 milljarða dollara virði árið 2024. Þá tölu má margfalda með 123 til þess að fá upphæðina í íslenskum krónum.
Fyrr á árinu hættu Kínverjar hins vegar að kaupa sojabaunir af Bandaríkjamönnum vegna tollahækkana Trumps. Bandarískir bændur hafa undanfarna áratugi byggt upp markað sinn í Kína og meðal annars þróað með þeim aðferðir til þess að nota sojabaunir í dýrafóður.
Í NYT er haft eftir formanni samtaka sojabaunaframleiðenda í Iowa að hann viti ekki hvernig eigi að koma aftur á viðskiptasambandi við Kínverja. Og bændur í ríkinu spyrja sig fyrir hvern forsetinn sé að vinna eftir að hann nú í október bauð Argentínu 20 milljarða dollara stuðning í kjölfar þess að Kínverjar sneru viðskiptum sínum til argentínskra sojabaunaræktenda fyrr á árinu.
Samkvæmt umfjöllun NYT er talið líklegt að margir kjósendur í Iowa muni beina sjónum sínum annað en til Repúblikana í þingkosningunum sem verða á næsta ári.
Lækkað kjötverð með innflutningi
Kjötbændur í Iowa hrukku svo illa við þegar Trump tilkynnti fyrir stuttu að hann myndi lækka verð á nautakjöti með því að auka innflutning frá Argentínu.
Samtök nautgripabænda í ríkinu brugðust hart við enda hafi yfirlýsing forsetans veiklað innanlandsmarkað með nautakjöt og gert bændum enn erfiðara fyrir að halda býlum sínum réttum megin við núllið. Trump brást við með því að segjast ætla að láta bændur hafa hluta af þeim tekjum sem hækkaðir tollar myndu skila alríkinu. Bændur sögðust þó frekar vilja standa á eigin fótum eins og þeir hafi hingað til getað gert undir venjulegum kringumstæðum. Minni bændur lýstu sömuleiðis áhyggjum af því að peningarnir frá alríkinu myndu fyrst og fremst rata til stórra verksmiðjuframleiðenda á nautakjöti.
Áhrifin finnast víða
Áhrifin af stefnu Trumps eru enn yfirgripsmeiri, segir í NYT. Bandarískir ræktendur hafa fundið fyrir hækkun á áburði og fræjum vegna hækkaðra tolla. Vélar og tæki hafa sömuleiðis hækkað í verði. John Deere, sem er stærsti framleiðandi landbúnaðarvéla í Bandaríkjunum, hefur á síðastliðnum mánuðum sagt upp hundruðum starfsmanna í Iowa-ríki einu saman. Starfsfólki í matvælaframleiðslu í ríkinu hefur fækkað, einkum vegna þess að fólki af erlendu bergi brotnu hefur verið sagt upp vegna breyttra reglna. Hagfræðiprófessor við Iowa State University segir að erfitt verði að finna innlent starfsfólk sem muni vilja ganga í þessi störf.
________________________________________
Segir Kínverja ætla að kaupa „helling af sojabaunum“
Trump Bandaríkjaforseti sagði eftir fund sinn með Xi Kínaforseta í Suður-Kóreu í síðustu viku að þeir hefðu náð samkomulagi um að Kínverjar myndu nú kaupa „heilan helling af sojabaunum“ og öðrum landbúnaðarvörum af Bandaríkjunum. Trump bætti við að bandarískir bændur yrðu „mjög ánægðir“ með þessar fréttir.
Enn hefur þó ekki verið skrifað undir neina samninga þessu viðvíkjandi.
Samkvæmt kínverskum fréttamiðlum á Xi þó að hafa lagt áherslu á það við Trump að tollastríð síðustu mánaða þjóðanna á milli ætti að verða þeim báðum dýrmæt lexía um að forðast slíka togstreitu.
Trump og Xi virðast sömuleiðis hafa náð einhvers konar samkomulagi um að draga úr tollastríði ríkjanna á milli. Fréttir herma að samkomulagið snúi að viðskiptum með góðmálma og lækkun tolla á vörur tengdar fentanýl innflutningi, að minnsta kosti til eins árs.
Trump tilkynnti stuttu fyrir fundinn að Bandaríkin myndu hefja kjarnorkuvopnatilraunir á ný eftir meira en þrjátíu ára hlé. Yfirlýsingin þótti vera til marks um það hversu viðkvæmt ástandið er í alþjóðamálum almennt með Trump sem forseta Bandaríkjanna.
