Úr stríðshörmungum í vistráðningu í Hornafirði
Karl Skírnisson hefur sent frá sér bók um lífshlaup móður sinnar, Margotar Gamm.
Frá Hamborg að Borgum – Um lífshlaup Margotar Gamm, er ný bók sem Karl Skírnisson var að senda frá sér. Karl er doktor í líffræði og starfaði lengstum við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, við rannsóknir á sníkjudýrum og dýrasjúkdómum.
Hann hefur áður sent frá sér bók ásamt Hákoni Ingva Hanssyni dýralækni og frænda sínum: Frá Brekkum á Rangárvöllum að Borgum í Hornafirði, útg. 2017, og er í þeirri bók fjallað um afa þeirra, Hákon Finnsson (1874–1946). Karl hefur auk þess skrifað óteljandi greinar og ritgerðir tengdar vísindastörfum sínum, svo sem kunnugt er, þ.á m. um árabil í Bændablaðið greinar um m.a. mítla, vöðvasull, bandorma og hundasníkjudýr.
Fátækt og hörmungar
Í nýju bókinni er sagt frá viðburðaríkri ævi Margotar Gamm (1931–2007), móður höfundar. Tildrögin eru þau að Karl flutti fyrirlestur um ævi Margotar fyrir Félag eldri Hornfirðinga haustið 2023 og tókst í kjölfarið það verk á hendur að skrifa bók um hana.
Segir í formála bókarinnar að „efnistökin miða ekki hvað síst að því að segja í máli og myndum frá viðburðaríkri ævi Margotar í Borgum. Segja frá fátækri stúlku sem lifði af hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar, segja frá ungri konu sem greip tækifærið þegar henni bauðst að gerast au-pair-stúlka 17 ára gamalli, í Kaupfélagshúsinu á Höfn í Hornafirði, rifja upp hvernig hún kornung giftist árið 1950 sér tuttugu árum eldri manni, Skírni Hákonarsyni (1911–1979) og varð í framhaldinu bóndakona á gamalgrónu sveitaheimili.“
Tvær ólíkar veraldir
Fjallað er um uppvöxt Margotar og fjölskyldu, m.a. í skugga stríðsins, líf hennar sem bóndakonu og fimm barna móður á Íslandi, þar sem hún þurfti oft að bíta í skjaldarrendur vegna þrældóms og eftirsjár.
„Fljótlega kom í ljós að tilveran í dreifbýlinu reyndist erfiðari heldur en Margot hafði búist við. Hún hafði flutt á bóndabæ langt uppi í sveit þar sem þægindi voru lítil, einkum fyrstu árin. Olíukynding kom í húsið 1951, rafmagn var leitt í bæinn 1960 og hreint rennandi vatn var tengt þar í krana árið 1965. Kæliskápur kom 1978. Margot tókst á við þessar aðstæður með jákvæðni, óbilandi dugnaði og góðum aðlögunarhæfileikum. Hún skirrðist ekki við að þræla myrkranna á milli. Lítill tími gafst til að velta sér upp úr fortíðinni, sem varð fljótt býsna fjarlæg og óraunveruleg. Stundum var hún þó við það að bugast á aðstæðunum, sem hún hafði fjötrað sig í ung að árum,“ segir í kynningu.
Hún varð ekkja 48 ára gömul, hætti upp úr því búskap og kenndi handmennt og þýsku við grunnskólann í Hornafirði. Á sumrum vitjaði hún barna sinna og barnabarna erlendis og kom gjarnan við í Hamborg á æskuslóðum.
Í bókinni er einnig rakin leit höfundar að ættingjum í Þýskalandi, en eftir stríðslok spurðist lítt eða ekki til þeirra. Jafnframt er að nokkru rakin saga forfeðra Margotar í Gamm-ættinni og fylgdi fjölskyldunni að fólkið var jafnan einkar hneigt til tónlistariðkunar.
Ritaði endurminningar sínar
Karl segir ýmsar heimildir hafa fundist sem hægt var að nota við bókarskrifin.
„Fyrst ber að nefna endurminningar Margotar sem hún ritaði að minni áeggjan, eftir að hún komst á eftirlaun. Þar var hreinskilnin í fyrirrúmi. Textann ritaði hún á móðurmálinu og fjallar hún þar meðal annars um uppvaxtarárin í Þýskalandi, komuna til landsins 1949 og lífið sem beið hennar eftir að hún gerðist húsfreyja í Borgum. Ég studdist einnig við viðtöl í Héraðsfréttablaðinu Eystrahorni og 60 sendibréf sem Margot hafði ritað vinkonu sinni í Hamborg á árunum 1970 til 1987. Bréfunum hafði verið safnað saman, raðað í tímaröð og þau send til Íslands með þeim orðum að þau bæri að varðveita því þau geymdu ómetanlegar samtímaheimildir um líf og störf Margotar í Borgum,“ segir hann.
Í febrúar 2019 birtist á síðum Bændablaðsins grein eftir Karl um hundrað Þjóðverja sem komu til landsins árið 1949 til að vinna hér. Var móðir hans meðal þeirra fyrstu sem komu, með Brúarfossi til Reykjavíkur 1. apríl það ár.
Bókin er 164 bls., í stóru broti, skiptist í 18 meginkafla og er prýdd 123 ljósmyndum. Höfundur gefur út.
