Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Heimilt er að tína ber og sveppi án sérstaks leyfis á þjóðlendum og afréttum.
Heimilt er að tína ber og sveppi án sérstaks leyfis á þjóðlendum og afréttum.
Fréttaskýring 4. nóvember 2015

Uppruna almannaréttar má rekja til Rómarréttar um sameiginleg gæði

Höfundur: smh
Á Umhverfisþingi sem haldið var á dögunum flutti Aðalbjörg B. Guttormsdóttir erindið Almannaréttur – hvað felur hann í sér? í málstofunni Ferðamennska í náttúru Íslands – ógn eða tækifæri í náttúruvernd.  
 
Aðalbjörg B. Guttormsdóttir.
Að sögn Aðalbjargar, sem er teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun, var erindið að mestu unnið út frá nú­gildandi náttúruverndarlögum. Hún segir að málið sé þó ekki einfalt þar sem nú liggi fyrir Alþingi breytingarfrumvarp við ný náttúruverndarlög, sem ekki sé hægt að sniðganga með öllu í slíkri umfjöllun. 
Aðalbjörg segir að almenningi sé heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi. „Öllum er skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna þar ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt. Þetta eru fyrstu setningar almannaréttar í íslenskri löggjöf og eiga að endurspegla og gefa fyrirheit um þá ábyrgð sem almenningur hefur þegar hann nýtir sinn almannarétt. Það að öllum sé skylt að ganga vel um og sýna ýtrustu varúð er því eitthvað sem almenningur skal ávallt viðhafa þegar hann er á för um landið,“ segir Aðalbjörg.
 
 
 
För um ræktað land er háð samþykki 
 
„Almannaréttur  felur í sér að ekki þarf sérstakt leyfi landeigenda til útivistar, það er ef farið er gangandi, á skíðum, skautum eða á óvélknúnum sleðum um óræktað land. Á eignarlandi í byggð er hins vegar heimilt að takmarka eða banna með merkingum umferð á afgirtu óræktuðu landi. För um ræktað land er svo háð samþykki eigenda þess eða rétthafa. Fara skal eftir merktum leiðum og skipulögðum stígum og vegum eftir því sem auðið er, hlífa girðingum, fara um hlið eða göngustíga þegar þess er kostur og ef farið er um lokuð hlið skal loka þeim eftir að gengið hefur verið um þau. Sérstök aðgát skal höfð í nánd við búsmala, selalátur, varplönd fugla, veiðisvæði og veiðistaði,“ segir Aðalbjörg.
 
„Þá kveður almannaréttur á um rétt til að tjalda til einnar nætur á óræktuðu landi og við alfaraleiðir í óbyggðum má einnig tjalda en einnig utan þeirra, svo lengi sem aðrar reglur eigi ekki þar við. Í því sambandi má nefna til dæmis sérreglur sem gilda um friðlýst svæði, eins og til dæmis innan friðlands að Fjallabaki þar sem aðeins má tjalda á tjaldsvæðum og meðfram viðurkenndum gönguleiðum nema sérstakt leyfi Umhverfisstofnunar komi til. Ef sérstaklega stendur á þá getur eigandi lands takmarkað eða bannað að tjaldað sé á landi þar sem veruleg hætta er á að náttúra hafi beðið tjón af.  Af tillitssemi ættu menn þó að nýta sér merkt tjaldsvæði verði því við komið og ekki tjalda nærri bæjum án leyfis.
 
Almannarétturinn nær einnig til ferða manna á reiðhjólum og á hestbaki og segir í núgildandi lögum að fylgja skuli skipulögðum reiðhjóla- eða reiðstígum eins og kostur er. Raunveruleikinn er þó sá að á Íslandi er ekki mikið um skipulagða reiðhjóla- eða reiðstíga, hvað þá á hálendi Íslands sem laðar nú að sér sífellt fleiri ferðamenn. Hér má með sanni segja að rétti fylgi ábyrgð og að menn verði að velta því fyrir sér þegar hjólað er í viðkvæmri náttúru Íslands eða farið yfir viðkvæm svæði með stóra hópa á hestbaki, hvort íslenskri náttúru sé sýnd sú ýtrasta varúð sem lagt er upp með í inngangsorðum almannaréttar. 
 
Þegar skipulagðar eru hópferðir í atvinnuskyni um eignarlönd skal hafa samráð við eiganda lands eða rétthafa um umferð manna og dvöl á landi hans og tjalda skal á tjaldsvæðum séu þau til staðar,“ segir Aðalbjörg.
 
Hvað er ræktað land?
 
Hugtakið ræktað land virðist skipta miklu í umræðunni um almannarétt í náttúru Íslands. Aðalbjörg segir að í núverandi náttúruverndarlögum sé ræktað land skilgreint. „Það er gert á eftirfarandi hátt: Ræktað land: Garðar og tún og akrar, það er land sem hefur verið ræktað með jarðvinnslu, sáningu og reglulegri áburðargjöf, land í skógrækt eða land sem hvorki hefur þarfnast jarðvinnslu né sáningar til að verða slægjuland en er það vegna áburðargjafar og er notað sem slíkt.
 
Í frumvarpi um náttúruvernd sem liggur nú fyrir Alþingi eru lagðar til breytingar á skilgreiningunni og er þar lagt til að hugtakið ræktað land sé skýrt og þá sérstaklega með það í huga að kveða á um að ræktaður skógur teljist ræktað land. Með þessari breytingu er almannaréttarákvæði laganna jafnframt einfaldað þar sem lagt er til að sérstakt ákvæði um skógræktarsvæði falli brott. Í því skyni er breyting einnig gerð á 18. gr. laganna um umferð gangandi manna á þá vegu að þrátt fyrir að skógræktarsvæði teljist ræktað land, er för um svæðið og dvöl þar ekki háð samþykki eiganda þess eða rétthafa eftir að fyrstu stigum skógræktar er lokið. 
 
Almannarétt má rekja til Rómarréttar
 
Að sögn Aðalbjargar má rekja uppruna almannaréttar til reglna Rómarréttar um sameiginleg gæði. „Þær byggðu á þeirri hugmynd að sum gæði eins og andrúmsloftið, hafið og sjávarströndin væru svo mikilvæg í samfélagi manna að þau yrðu að vera aðgengileg almenningi til frjálsra og óheftra afnota. Hugmyndina um frjálsan aðgang almennings að mikilvægum náttúrulegum gæðum má finna í löggjöf allflestra Vestur-Evrópuríkja og á rétturinn sér víðast hvar langa sögu á Norðurlöndunum. 
 
Í Jónsbók, lögbók þeirri sem tók við sem meginundirstaða íslensks réttar af Járnsíðu árið 1281, er getið um víðtækan fararrétt almennings sem fól í sér að landeigendur urðu að þola, að meginstefnu bótalaust, för annarra manna um lönd sín og jafnvel greiða fyrir henni. Almennt hefur það verið talin forn venja í íslenskum rétti að hverjum sem er sé heimil för um land annars manns utan kaupstaða og kauptúna, þar sem ekki er ræktað land eða slægjuland – að minnsta kosti ef land er ógirt.“
 
Alls staðar heimilt að tína til neyslu á staðnum
 
Það er, að sögn Aðalbjargar, heimilt að tína ber, sveppi, fjörugróður og aðrar jurtir án sérstaks leyfis á þjóðlendum og afréttum. Hins vegar þarf leyfi á eignarlandi, nema vegna neyslu á staðnum. Hún segir að nokkrar jurtir sem vaxa í íslenskri náttúru séu fágætar og friðaðar og óleyfilegt sé að skerða þær. Upplýsingar um þær plöntur er að finna í gegnum vef Umhverfisstofnunar. 
 
„Hvað varðar tínslu í atvinnuskyni þá er í núverandi lögum ekki gerður greinarmunur þar á. Í lögunum segir aðeins að ráðherra sé heimilt að setja í reglugerð ákvæði um tínslu berja, sveppa, fjallagrasa, jurta og fjörugróðurs í atvinnuskyni, meðal annars um að tilkynna skuli Náttúrufræðistofnun Íslands um magn og tegund þess sem tínt er og tínslustað – og þegar sérstaklega stendur á að leyfi Umhverfisstofnunar þurfi til tínslu einstakra tegunda eða á ein­stökum svæðum,“ segir Aðalbjörg að lokum. Ítarefni um almannarétt má finna á vef Umhverfisstofnunar: http://ust.is/einstaklingar/nattura/almannarettur/. 

2 myndir:

Vilja flytja út færeysk hross
Fréttir 6. júní 2023

Vilja flytja út færeysk hross

Til þess að bjarga færeyska hrossastofninum frá aldauða hefur komið til skoðunar...

Árlegt rit Sögufélags Eyfirðinga komið út
Fréttir 5. júní 2023

Árlegt rit Sögufélags Eyfirðinga komið út

Sögufélag Eyfirðinga var stofnað árið 1971 með það fyrir augum að safna, skipule...

Framtíð jarðvangs hangir á bláþræði
Fréttir 5. júní 2023

Framtíð jarðvangs hangir á bláþræði

Sveitarfélögin á Suðurlandi geta ekki rekið Kötlu jarðvang án þátttöku ríkisins ...

Enginn tannlæknir á Hvolsvelli lengur
Fréttir 5. júní 2023

Enginn tannlæknir á Hvolsvelli lengur

Íbúar á Hvolsvelli og í sveitunum þar í kring eru nú án tannlæknis.

Innlit í kjúklingabú
Fréttir 2. júní 2023

Innlit í kjúklingabú

Kjúklingabændurnir Eydís Rós Eyglóardóttir og Ingvar Guðni Ingimundarson á Vatns...

Vaxandi áhugi bænda og smáframleiðenda
Fréttir 2. júní 2023

Vaxandi áhugi bænda og smáframleiðenda

Sauðfjárbóndinn Jónas Þórólfsson og kjötiðnaðarmeistarinn Rúnar Ingi Guðjónsson ...

Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum
Fréttir 1. júní 2023

Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum

Nýstárleg tilraun var gerð við ósa Haffjarðarár síðasta sumar, þegar fuglavarnar...

Fjölgun nema í kjötiðn
Fréttir 1. júní 2023

Fjölgun nema í kjötiðn

Rúnar Ingi Guðjónsson segist finna fyrir mjög miklum áhuga hjá ungu fólki að lær...