Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Undirbúningur gengur vel og miðasalan komin á skrið
Mynd / HKr.
Fréttir 19. mars 2020

Undirbúningur gengur vel og miðasalan komin á skrið

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Eiríkur Sigurðarson, fram­kvæmda­stjóri Landsmóts hesta­manna, segir áfram unnið á fullu að undirbúningi lands­mótsins í sumar, þrátt fyrir að kórónaveiran og COVID-19 sjúkdómsfaraldurinn hafi stungið sér niður á Íslandi.

Mótið verður að öllu óbreyttu haldið á veglegu mótssvæði á Gaddstaðaflötum á Rangárbökkum við Hellu 6. til 12. júlí á komandi sumri.

Eiríkur Sigurðarson.

„Við keyrum fulla ferð áfram, það er engin spurning. Meðan það koma ekki einhver tilmæli um að viðburðurinn verði ekki haldinn, þá höldum við bara áfram. Auðvitað erum við þó meðvitaðir um við­búnað gegn útbreiðslu COVID-19, annað væri ábyrgðarleysi. Undirbúningur gengur vel og miðasalan er komin vel á skrið,“ segir Eiríkur.

Engar afbókanir frá erlendum gestum

Eiríkur var starfandi sem markaðs- og kynningarfulltrúi Rangárþings ytra, en fékk ársleyfi frá störfum til að stjórna framkvæmd Landsmóts hestamanna 2020. Venjan er að á slík mót komi líka fjöldi útlendinga sem þarf að liðsinna.

– Má ekki búast við að það verði færri erlendir gestir á mótinu vegna COVID-19 faraldursins?
„Það er eiginlega ómögulegt að segja. Það hefur enginn afboðað komu sína enn og ég hef ekki fengið neinar fréttir af afbókunum í gistingu. Ég er því bara bjartsýnn á framhaldið.

Þá býst ég við vegna stöðunnar sem uppi er að Íslendingar ferðist meira innanlands í sumar en ella. Þá er Landsmót hestamanna algjörlega „geggjaður viðburður“ til að fara á með fjölskylduna. Þar fyrir utan verður flughátíðin Allt sem flýgur“ haldin á sama tíma á Hellu á vegum Flugmálafélagsins. Það er því óhætt að segja að Hella verði miðdepill alheimsins í júlí. Þá held ég að hátíðirnar tvær muni styðja vel hvor aðra og engin spurning að hér á Hellu verður mikið fjör.“

Búist við 8–10 þúsund manns

– Hvað eruð þið að reikna með mörg­um á Landsmót hestamanna?
„Ég geri ráð fyrir um átta þúsund manns, en reynslan sýnir að talan geti hæglega farið í tíu þúsund. Metið var sett á mótinu 2008 þegar hingað komu um eða yfir 14.000 manns. Við getum svo sem alveg tekið á móti þeim fjölda inn á svæðið í sumar. Hér eru næg bílastæði og allar akstursleiðir greiðfærar.
Þá má geta þess að áhorfenda­brekkurnar á mótssvæðinu eru afskap­lega vel gerðar til að mikill fjöldi gesta geti fylgst þar með mótinu. Í góðu veðri er þetta fallegasti staður á landinu,“ segir Eiríkur.

Mikið og gott gistiframboð á svæðinu

– Eruð þið vel sett með gistirými á svæðinu til að taka við öllum þessum fjölda?
„Gistiframboðið er mjög gott. Það er samt auðvitað að verða þéttbókað gistirými í kringum landsmótið. Á Hellu erum við með Stracta hótel, Hótel Hellu og Árhús. Svo erum við með í kringum okkur, Land hótel uppi í Landsveit, Leirubakka og Hótel Rangá. Síðan er Hótel Hvolsvöllur auk margra minni gistieininga á svæðinu. Þá er ekki nema hálftíma akstur í hótel og aðra gistiþjónustu á Selfossi.

Fyrir utan gistirýmið sem til staðar er, munum við byggja upp stórt tjaldstæði á mótssvæðinu. Alla jafna er hægt að taka þar á móti 250 hjólhýsum, en við verðum með aðstöðu fyrir töluvert fleiri vegna mótsins. Þess vegna aukum við salernisaðstöðu og alla þjónustu sem til þarf og allt aðgengi að svæðinu er mjög gott.“

Fjöldi kynbótasýninga á Hellu í sumar

Eiríkur segir að nú sé verið að skipuleggja uppsetningu á mótssvæðinu sjálfu. Hvaða fram­kvæmd­um þurfi að vera lokið á tilteknum tíma. Þá sé ekki bara verið að horfa til landsmótsins sjálfs, því svæðið sé afskaplega vinsælt fyrir kynbótasýningar og keppni þess utan. 

„Fyrir utan landsmót erum við þarna með fyrstu þrjár vikurnar í júní í kynbótasýningum. Síðan erum við með úrtökumót þar sem nokkur félög taka sig saman. Þá erum við með eina viku í kynbótasýningar fyrir utan landsmót í júlí og eina viku í ágúst, auk allavega tveggja móta í hverjum mánuði. Það verður því í nógu að snúast og uppsetning á svæðinu þarf auðvitað að vera skipulögð í kringum alla þessa viðburði,“ segir Eiríkur.

Fyrirtæki sýna vörur sínar í 900 fermetra tjaldi

Á landsmótum hefur verið venjan að fjöldi fyrirtækja sýni þar vörur af ýmsu tagi. Eiríkur segir að gert sé ráð fyrir uppsetningu á 900 fermetra markaðstjaldi á svæðinu.

„Það er einmitt komið töluvert af fyrirspurnum um bókanir í því tjaldi. Gaman er að finna að það sé engan bilbug að finna á fólki þrátt fyrir ástandið í þjóðfélaginu. Menn vilja halda ótrauðir áfram. Þar verða því fjölbreyttar vörur á boðstólum.“

Kvöldskemmtanir þrjá daga í röð

Gleðin spilar líka veglegan sess á landsmótum hestamanna og böllin eru landsfræg.
„Það verða hér kvöldskemmtanir á fimmtudeginum, föstudeginum og á laugardeginum. Það er að verða búið að staðfesta alla samninga við skemmtikrafta sem munu koma fram á mótinu,“ segir Eiríkur Sigurðarson. 

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...