Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Svavar Halldórsson, framkvæmdastjóri Icelendic lamb, kynnti starf markaðsstofunnar og könnun Gallup meðal erlendra ferðamanna á fundi um markaðssetningu lamnbakjöts sem haldinn var á Hellu á þrettándanum.
Svavar Halldórsson, framkvæmdastjóri Icelendic lamb, kynnti starf markaðsstofunnar og könnun Gallup meðal erlendra ferðamanna á fundi um markaðssetningu lamnbakjöts sem haldinn var á Hellu á þrettándanum.
Mynd / HKr.
Fréttir 22. janúar 2018

Um 54% erlendra ferðamanna hafa borðað íslenskt lambakjöt einu sinni eða oftar

Höfundur: HKr. / SH
Samkvæmt nýrri Gallup-könnun hefur meirihluti erlendra ferðamanna, eða 54%, borðað lambakjöt á meðan dvöl þeirra stóð. Nákvæmlega helmingur hafði borðað lambakjöt á veitingastað en 13% keypt það í búð. Í sumum tilfellum höfðu ferðamennirnir gert hvort tveggja. Þetta er í fyrsta skipti sem könnun af þessu tagi er gerð. 
 
Í könnuninni kom einnig í ljós að 27% erlendra ferðamanna þekkja merki Icelandic lamb. Það merki hefur verið nýtt til að kynna lambakjötið í samstarfi við veitingastaði og verslanir. Svavar Halldórsson, framkvæmdastjóri Icelandic lamb og hugmynda­fræðingur verkefnisins, segir að menn hafi verið að vonast eftir því að fleiri en 10% ferðamanna myndu þekkja merkið. Þessi niðurstaða hafi því farið langt fram úr björtustu vonum. Um 73% þeirra ferðamanna sem þekkja merkið hafa nokkuð eða mjög jákvæða ímynd af því. Fjórðungur er hlutlaus. 
 
Markaðsstofan Icelandic lamb auglýsir ekki mikið í hefðbundnum miðlum en er þó með auglýsingasamninga við flugfélög og Leifsstöð. Aðaláherslan hefur verið á netið og samfélagsmiðla. Árangurinn hefur verið framar björtustu vonum. Netherferðin hefur nú skilað um 40 milljónum snertinga og var verðlaunuð af FÍT og tilnefnd til tveggja alþjóðlegra verðlauna fyrir Íslands hönd.
 
Aukið virði sauðfjárafurða
 
Nú er nýlokið fyrsta heila starfsári markaðsstofunnar Icelandic lamb. Hún var sérstaklega stofnuð utan um verkefnið „Aukið virði sauðfjárafurða“ sem á sér stoð í búvörusamningi. 
 
Þetta verkefni á sér enga hliðstæðu hérlendis en er til tíu ára og miðar að því að lyfta íslensku lambakjöti upp á hærri markaðshillu og auka verðmætasköpun.
 
Þetta er gert með markaðssetningu til erlendra ferðamanna og þátttöku í sérstökum útflutningsverkefnum á kröfuhörðum mörkuðum. Verkefnið hefur farið vel af stað, verið vel innan fjárhagsramma og ný könnun sýnir að tekist hefur að ná til erlendra ferðamanna.
 
150 samstarfsaðilar
 
Markaðsstofan er í víðtæku samstarfi við um 110 innlenda veitingastaði sem setja íslenskt lambakjöt í öndvegi. Meðal þeirra eru margir af fremstu veitingastöðum landsins og stærstu hótelkeðjurnar. Þeir nota merki Icelandic lamb og almenn ánægja hefur verið með samstarfið og talsverð söluaukning. Áfram er unnið að því að fjölga stöðunum og styrkja samstarfið. Einnig er samstarf við um 40 verslanir, framleiðslu­fyrirtæki, hönnuði, ferðaþjónustu­fyrirtæki o.fl. Það var meginverkefni ársins að koma á samstarfi við þessa 150 aðila og með því er lagður traustur grunnur að áframhaldandi velgengni á næstu árum. Icelandic lamb hefur tvisvar veitt samstarfsstöðum sínum viðurkenninguna Award of Excellence. Annars vegar til tíu veitingastaða í vor og svo til þriggja aðila í handverki og hönnun í byrjun desember. 
Útflutningur inn á betri markaði
 
Mikilvægur hluti af starfi markaðsstofunnar er leitun nýrra markaðstækifæra erlendis og samstarf við útflytjendur. Megin­áherslan er að byggja upp sjálfbæra markaði með sérstökum verkefnum undir merkjum Icelandic lamb. Sjónum hefur verið beint að nýjum mörkuðum í Japan, Þýskalandi, Kanada og Bandaríkjunum. Samvinna er við útflytjendur og horft á betri hluta markaðarins. 
 
Gerður hefur verið samstarfs­samningur við japanskt innflutningsfyrirtæki sem miðast við allt að 1.000 tonna viðskipti á ári eftir fimm ár. Hluti af því starfi er þátttaka í sýningum og samfélagsmiðlaherferð á japönsku. 
 
Á fyrsta ári hafa farið út um 200 tonn. Sambærilegur samningur hefur verið gerður við þýskt fyrirtæki sem miðast við sama magn. Þá er einnig unnið að nýjum verkefnum í Kanada og Bandaríkjunum þar sem unnið er samkvæmt sömu hugmyndafræði. Að auki hefur Whole Foods óskað eftir samstarfi við Icelandic lamb um markaðssetningu. Þá er einnig verið að vinna að markaðsgreiningu í Frakklandi, fýsileikakönnun á netsölu í gegnum Amazon Fresh og skýrslu um Kínamarkað. Þessu hafa fylgt heimsóknir kaupenda, kjötskurðarmeistara og erlendra blaðamanna.
 
Bætt ásýnd
 
Öflugt almannatengslastarf hefur skilað talsverðri umfjöllun í fjölmiðlum, bæði á Íslandi og erlendis. Icelandic lamb vinnur einnig að því með skipulegum hætti að fá ýmis vottorð og viðurkenningar fyrir greinina og afurðirnar í samstarfi við Landssamtök sauðfjárbænda. Má þar nefna vottun vegna banns við notkun á erfðabreyttu fóðri, kolefnisjöfnun o.fl. sem talið er að muni skipta sköpum við markaðssókn inn á kröfuharða markaði. Komið hefur verið upp rafrænum myndbanda-, mynda- og textabanka svo hægt sé að miðla efni með skipulegum hætti til innlendra og erlendra fjölmiðla og annarra hagsmunaaðila. Þar er m.a. að finna um 50 myndbönd á íslensku, ensku, þýsku og japönsku.
 
Samvinna um vöruþróun
 
Hópur matgæðinga og sérfræðinga hefur unnið að vöruþróun í samvinnu við Icelandic lamb og Matís. Horft er sérstaklega til þeirra hluta lambsins sem hafa verið þyngstir í sölu. Fyrsti afrakstur þeirrar vinnu var ný vörulína fyrir erlenda ferðamenn úr lærum. 
 
Leitað var samstarfs við Krónuna sem valdi Norðlenska til að framleiða vöruna. Framleiddar eru fimm mismunandi vörur í enskum pakkningum sem dreift var í allar verslanir Krónunnar í fyrsta skipti í september. Jafnframt var gerður uppskriftabæklingur í enskri og íslenskri útgáfu og myndbönd sem gengið hafa vel á samfélagsmiðlum. Sambærilegt verkefni með framparta er hafið í samvinnu við Samkaup. Afraksturinn má einnig nýta í útflutningi inn á velmegandi markaði og í þróunarvinnu við heimsendar máltíðir. Að auki hefur Icelandic lamb stutt við vöruþróun ýmissa frumkvöðla með ráðgjöf, markaðsefni og tengslamyndun.
 
Líkur á áframhaldandi árangri
 
Útflutningur á íslenskum sauðfjárafurðum hefur ekki gengið sem skyldi síðustu misseri. Forsvarsmenn bænda sáu þetta að hluta til fyrir og því var ráðist í verkefnið um aukið virði sauðfjárafurða þar sem tilgangurinn var annars vegar að ná til erlendra ferðamanna á Íslandi og hins vegar að skapa nýja og stöðuga markaði í útlöndum í stað þeirra afsetningarmarkaða sem stór hluti framleiðslunnar hefur farið inn á undanfarin ár. Þessir markaðir brugðust hins vegar hraðar en nokkurn óraði með lokun Noregsmarkaðar, Rússadeilunni, Brexit og háu gengi krónunnar. Afleiðingin kom fram í afleiddri afkomu afurðastöðva og mikilli verðlækkun til bænda.
 
 
Árangur markaðsstofunnar Icelandic lamb gefur þó tilefni til bjartsýni. Miðað við fyrsta árið af tíu eru ágætar líkur á að verkefnið muni skila tilætluðum árangri þegar fram líða stundir. Tilgangur þess er að skapa grunn fyrir hærra afurðaverði til bænda og skjóta styrkari stoðum undir greinina í heild með því að ná til erlendra ferðamanna og finna nýja markaði og betri í útlöndum. Frumniðurstöður úr könnun Gallup meðal erlendra ferðamanna benda til þess að Icelandic lamb sé að takast það ætlunarverk. 
Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins
Fréttir 11. júlí 2024

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur gert kauptilboð í allt hlutafé Kjarnafæðis Nor...

Ullarvika á Suðurlandi
Fréttir 10. júlí 2024

Ullarvika á Suðurlandi

Ullarvika á Suðurlandi verður haldin í þriðja sinn dagana 29. september til 5. o...

Mesta hamingjan í Skagafirði, á Snæfellsnesi og á Héraði
Fréttir 10. júlí 2024

Mesta hamingjan í Skagafirði, á Snæfellsnesi og á Héraði

Hamingja íbúa í Skagafirði, á Snæfellsnesi og á Héraði mælist mest á landinu í n...