Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Togveiðar skila hlutfallslega mestum verðmætum í sjávarútvegi. Hér eru nýjustu og að sumra mati einhverjir fallegustu togarar íslenska flotans, þeir Páll Pálsson ÍS 102 og Berki VE 61. Þeir komu í fyrsta sinn til heimahafna sinna, Ísafjarðar og Vestmannae
Togveiðar skila hlutfallslega mestum verðmætum í sjávarútvegi. Hér eru nýjustu og að sumra mati einhverjir fallegustu togarar íslenska flotans, þeir Páll Pálsson ÍS 102 og Berki VE 61. Þeir komu í fyrsta sinn til heimahafna sinna, Ísafjarðar og Vestmannae
Fréttir 18. maí 2018

Þrjú veiðarfæri með um 80% aflaverðmæta

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Botntroll ber höfðuð og herðar yfir önnur veiðarfæri íslenskra skipa. Fiskur veiddur í trollið skilaði um 43% aflaverðmæta árið 2016. Línan, sem er í öðru sæti, nær því ekki einu sinni að vera hálfdrættingur á við trollið.

Í aldaraðir var handfærið eina veiðarfærið sem íslenskir sjómenn notuðu og hélst það svo að mestu leyti allt fram undir lok 19. aldar. Í byrjun 20. aldar ryðja skipsvélar sér til rúms sem kunnugt er, skipin stækka og síðast en síst koma ný og öflugri veiðarfæri til sögunnar.

Þrjú veiðarfæri með tæp 80%

Íslenska sjávarauðlindin er gjöful og þau aflaverðmæti sem þangað eru sótt nema eitthvað á annað hundrað milljörðum króna á ári. Á síðasta ári voru aflaverðmætin um 110 milljarðar en árið 2016 um 133 milljarðar. Bæði árin losaði aflinn rúmlega milljón tonn. Til að ná þessum afla nota Íslendingar nokkrar mismunandi tegundir veiðarfæra. Um einn tugur veiðarfæra er tiltekinn í sundurliðun Hagstofunnar yfir afla og aflaverðmæti eftir veiðarfærum.

Val á veiðarfærum ræðst af mörgum þáttum. Sum þeirra eru sérhæfð eftir fisktegundum, fiskimiðum og árstímum. Önnur eru nokkuð alhliða og þá fer það stundum eftir kenjum kokksins, ef svo má að orði komast, hvort valin eru net, troll, lína eða dragnót við veiðar á nokkrum algengum nytjategundum. Fjölbreytnin er þó minni en ætla mætti við fyrstu sýn því þrjú veiðarfæri, þ.e. botntrollið, línan og flottrollið, eru með tæp 80% verðmætanna.

Hér á eftir verður gerð grein fyrir aflaverðmæti eftir veiðarfærum árið 2016 en tölur fyrir árið 2017 liggja ekki fyrir á vef Hagstofunnar. Það kemur væntanlega ekki að sök því notkun veiðarfæra breytist ekki svo mikið á milli ára.

Botntrollið, stórbætt aflameðferð

Árið 2016 voru veidd um 272 þúsund tonn af fiski í botnvörpu að verðmæti um 57 milljarðar króna, sem er um 43% af heild eins og áður er komið fram. Þar af voru 124 þúsund tonn af þorski að verðmæti rúmir 26 milljarðar, eða um 45% verðmæta þorsksins.

Tími botntrollsins kom þegar Íslendingar hófu togaraútgerð í byrjun síðustu aldar. Bátar nota þetta veiðarfæri einnig, eingöngu eða hluta úr ári. Trollið hefur, þrátt fyrir mikilvægi þess, ekki notið mikillar virðingar. „Togarafiskurinn“ þótti hér í eina tíð vart boðlegur á matborð Íslendinga. Stórbætt aflameðferð um borð í togurum og styttri veiðiferðir hafa meðal annars gert það að verkum að togarafiskurinn þykir nú herramannsmatur.

Botnvarpan er nær einráð við veiðar á vissum fisktegundum, svo sem á karfa. Um 93% alls karfaafla eru veidd í trollið. Vandséð er að þessi fisktegund verði nýtt án botnvörpunnar.

Línan í mikilli sókn

Línan er í öðru sæti yfir aflaverðmæti eftir veiðarfærum með um 18% af heild. Um 117 þúsund tonn af fiski rötuðu á króka línunnar að verðmæti 23,5 milljarðar. Línan var í mikilli sókn í loks síðustu aldar og hefur hún tekið yfir hlutverk netanna sem lengi vel komu næst botntrollinu að mikilvægi við þorskveiðar. Um 30% af aflaverðmæti þorsks er tekið á línu, tæp 40% af ýsu og um 55% af steinbít. Alla jafna er línufiskur eftirsóttasta hráefnið til vinnslu.

Línuveiðar skiptast í tvennt eftir útgerðarflokkum. Annars vegar eru stærri bátar með sjálfvirkar beitningarvélar um borð og veiðiferðirnar taka nokkra daga. Hins vegar eru smábátar sem stunda dagróðra. Þeir eru ýmist með beitningarvélar eða línu í bölum sem beitt er í landi.

Flotvarpan veiðir mest í tonnum talið

Flotvarpan er í þriðja sæti yfir aflaverðmæti. Hún  gaf rétt rúma 23 milljarða, eða rúm 17% af heildinni. Flotvarpan er einnig það veiðarfæri sem veiðir mest í tonnum talið, eða rúm 470 þúsund tonn.

Flotvarpan er ákaflega sérhæft veiðarfæri. Hún er dregin miðsævis eða uppi í sjó og er nú nær eingöngu notuð við veiðar á uppsjávarfiski, kolmunna, loðnu, makríl og síld. Hér á árum áður var flotvarpan einnig stórtæk við veiðar á úthafskarfa á Reykjaneshrygg áður en sá fiskstofn hrundi.

Kolmunni er eingöngu tekinn í flottroll sem og norsk-íslensk síld og megnið af makrílafla. Loðna er einnig veidd í flottroll framan af vertíð, oft í miklum mæli þegar kvótinn er stór. Ennfremur er íslenska síldin veidd í flottroll þegar hún er ekki inni á fjörðum.

Netin mega muna fífil sinn fegurri

Netin eru í fjórða sæti. Í þau veiddust um 34 þúsund tonn að verðmæti tæplega 8 milljarðar sem eru aðeins 6% af heildinni. Netin mega muna fífil sinn fegurri. Sú var tíðin að þau voru mikilvægasta veiðarfærið á vetrarvertíð sunnanlands. Um tíma á síðustu öld voru netabátarnir svo margir við veiðar á miðunum við Vestmannaeyjar að siglutré þeirra voru eins og skógarþykkni að sjá úr fjarska. Nú eru aðeins örfáir netabátar gerðir út á vertíðinni og netin skila aðeins um 9% af aflaverðmæti þorsks.

Netafiskurinn var ekki hátt skrifaður fremur en togarafiskurinn vegna þess að ekki var alltaf vitjað um netin daglega. Í seinni tíð eru netin aldrei látin liggja lengur en eina nótt og um hávertíðina eru netin iðulega lögð og dregin samdægurs og aflinn spriklandi ferskur.

Einstaka fisktegundir eru aðeins veiddar í net eins og grásleppan og stór hluti skötuselsaflans er veiddur í net.

Dragnótin veiðir allt sem að kjafti kemur

Dragnótin skapar fimmtu mestu aflaverðmætin eða rúma 7 milljarða og rúm 5% af heildinni. Dragnótin er botndregið veiðarfæri en er aðeins notað á mjúkum botni ólíkt trollinu. Dragnótin er alhliða veiðarfæri og veiðir nánast allt sem að kjafti kemur ef svo má að orði komast.

Dragnótin er notuð við veiðara á helstu tegundum eins og þorski og ýsu. Þá hentar hún sérstaklega vel við veiðar á kolategundum. Þess má geta að 65% skarkolaaflans eru veidd í dragnót.

Handfærin í endurnýjun lífdaga

Handfærin eru í sjötta sæti. Þau skiluðu tæpum 26 þúsund tonnum að verðmæti tæpir 5 milljarðar sem eru tæp 4% af heildinni. Hér er einkum um þorsk og makríl að ræða. Færaþorskurinn var tæp 16 þúsund tonn árið 2016 og makríllinn tæp 8 þúsund tonn.

Handfæraaflinn dróst verulega saman þegar dagakerfið svonefnda fyrir smábáta var aflagt fyrir rúmum áratug. Árið 2008 nam færaþorskurinn aðeins um 3.700 tonnum, en hafði lengst af áður verið 15 til 25 þúsund tonn á ári. Með tilkomu strandveiða gengu handfærin í endurnýjun lífdaga. Handfærabátar hafa einnig blandað sér í veiðar á makríl, hinum nýja nytjafiski Íslendinga.

Nótin veiðir loðnu og síld á grunnslóð

Nótin er í sjöunda sæti. Í hana voru veidd 100 þúsund tonn að verðmæti 4,7 milljarðar og tæp 4% af heildarverðmætum. Nótin er eingöngu notuð við veiðar á uppsjávarfiski, loðnu og síld, og var lengi vel eina veiðarfærið á því sviði svo heitið gat, áður en flotvarpan blandaði sér í leikinn.

Loðnan er yfirleitt veidd í flotvörpu fyrri hluta vertíðar eins og áður segir, þar sem henni verður við komið, en í nót þegar loðnan hefur þétt sig og er komin á grynnri sjó. Hér áður fyrr, þegar loðnukvótinn var stærri en nú er, veiddist óhemjumagn af loðnu í nótina.

Íslenska síldin er einnig veidd í nót ef og þegar hún gengur á grunnin eða inn í firði til vetursetu.

Önnur veiðarfæri

Rækjuvarpan er í áttunda sæti með tæp 2% af aflaverðmæti og humarvarpan í því níunda með 1,5%.

Önnur veiðarfæri skila hverfandi verðmætum í saman­burði við heildina en þar er einkum um að ræða plóga, sem veiða sæbjúgu og hörpudisk, og gildrur sem fanga beitukóng og krabba.

Skylt efni: veiðar | aflaverðmæti

Stjórnlaus skógareyðing
Fréttir 17. janúar 2022

Stjórnlaus skógareyðing

Þrátt fyrir allt tal stjórnvalda í Brasilíu um verndun skóga sýna loftmyndir að ...

Viðurkennd verndandi arfgerð gegn riðu finnst í sex einstaklingum
Fréttir 17. janúar 2022

Viðurkennd verndandi arfgerð gegn riðu finnst í sex einstaklingum

Sex einstaklingar fundust fyrir skemmstu með tiltekna verndandi arfgerð (ARR) ge...

Vegagerðin greiðir 70% kostnaðar
Fréttir 17. janúar 2022

Vegagerðin greiðir 70% kostnaðar

Skrifað hefur verið undir samkomulag milli Svalbarðsstrandarhrepps og Vegagerðar...

Frægasta jólafuran kom úr Laugalandsskógi
Fréttir 17. janúar 2022

Frægasta jólafuran kom úr Laugalandsskógi

Feðgarnir Bradley og Barney Walsh voru meðal þeirra fjöl­mörgu sem heimsóttu Lau...

Gæti orðið mikilvægt framlag í orkuskiptum samgangna á Íslandi
Fréttir 14. janúar 2022

Gæti orðið mikilvægt framlag í orkuskiptum samgangna á Íslandi

Greint var frá því í Bændablaðinu fyrir jól að áform væru um að reisa áburðarver...

Verkmenntun í garðyrkju á tímamótum
Fréttir 14. janúar 2022

Verkmenntun í garðyrkju á tímamótum

Framtíðarstaða garðyrkjunáms á Reykjum er enn óljós og hægt gengur með yfirfærsl...

Fimm íslensk náttúruverndarsvæði tilnefnd til evrópskra verndarsvæða
Fréttir 14. janúar 2022

Fimm íslensk náttúruverndarsvæði tilnefnd til evrópskra verndarsvæða

Ísland hefur tilnefnt fimm íslensk náttúruverndarsvæði sem hluta af neti verndar...

Fyrsti vetnisknúni trukkurinn til að keppa í Dakar-rallinu verður Gaussin
Fréttir 13. janúar 2022

Fyrsti vetnisknúni trukkurinn til að keppa í Dakar-rallinu verður Gaussin

Franski vinnuvéla­fram­leið­andinn Gaussin afhjúpaði í nóvember síðastliðnum H2 ...