Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Þaulhugsað frumvarp sem stækkar landbúnaðinn
Skoðun 1. júní 2015

Þaulhugsað frumvarp sem stækkar landbúnaðinn

Höfundur: Baldur Helgi Benjamínsson

Dr. Ólafur R. Dýrmundsson ritar grein í Bændablaðið 16. apríl sl. sem nefnist „Vanhugsað og varasamt frumvarp á Alþingi“. Vísar hann þar til frumvarps til breytinga á lögum um innflutning dýra nr. 54/1990 sem lagt var fram á Alþingi 24. mars sl. og verður vonandi tekið til umræðu þar hvað úr hverju.

Grein Ólafs og rangfærslurnar í henni eru þess eðlis, að það verður að teljast áhyggjuefni að þessi fyrrum starfsmaður samtaka bænda skuli sjá ástæðu til að leggja stein í götu nautgriparæktarinnar með skrifum sínum. Enn ríkari ástæða er þó til þess að hafa áhyggjur af því, að dr. Ólafur R. Dýrmundsson virðist sjaldnast sjá ástæðu til að beina sjónum að þeim atriðum sem eflt geta nautgriparæktina og skotið styrkari stoðum undir afkomu þeirra bænda sem hana stunda.

Í vinnslu frá 2009

Í fyrirsögn segir að frumvarpið sé bæði vanhugsað og varasamt. Frumvarp þetta er nú ekki vanhugsaðra en svo, að það byggir á tveimur skýrslum um stöðu holdanautabúskapar hér á landi sem báðar leiða til sömu niðurstöðu: innflutningur á erfðaefni er forsenda þess að búgreinin fái þrifist til framtíðar hér á landi. Í skýrslu til ráðherra frá 2013 kemur fram að eina leiðin sem greinin getur borið sjálf, sé beinn innflutningur á sæði. Fagráð í nautgriparækt telur þetta skilvirkustu leiðina við innflutning erfðaefnis. Þá liggur einnig til grundvallar áhættumat Matvælastofnunar um innflutning sæðis frá Geno Global, samhliða því vann stofnunin tillögur að áhættuminnkandi aðgerðum vegna innflutnings af þessu tagi. Málið hefur verið í vinnslu frá því haustið 2009, í hálft sjötta ár. Þá þegar lá fyrir nauðsyn þess að gripið yrði til aðgerða í þessum efnum. Holdanautabændur hafa vakið athygli á málinu að undanförnu, bæði á síðum Bændablaðsins og í öðrum fjölmiðlum. Í máli þeirra allra kemur skýrt fram að nýtt erfðaefni í holdanautastofnana er algert forgangsmál.

Ályktanir sex aðalfunda LK

Í greininni er fullyrt að frumvarpið sé einungis lagt fram vegna þrýstings frá stjórn Landssambands kúabænda. Fullyrðing af þessu tagi nálgast að vera met í óboðlegum málflutningi. Á þeim tíma sem málið hefur verið til meðferðar, hefur það verið á borði þriggja ráðherra landbúnaðarmála. Allir hafa þeir þokað málinu áfram, misjafnlega ötullega þó. Um nauðsyn þessa innflutnings hefur aðalfundur Lands­sambands kúabænda ályktað sex aðalfundi í röð! Á grundvelli þeirra ályktana hefur stjórn Lands­sambands kúabænda unnið að málinu. Yfirdýralæknir hefur þar að auki úrskurðað að lagabreytingar séu forsenda þess að innflutningur erfðaefnis nýtist holdanautabændum sem skyldi. Varðandi þingsályktunartillögu Unnar B. Konráðsdóttur, Brynjars Níelssonar og Péturs H. Blöndal um innflutning á mjólkurkúakyni, þá hefur stjórn Landssambands kúabænda ekki tekið afstöðu til hennar. Fullyrðingar Ólafs R. Dýrmundssonar um annað eru því úr lausu lofti gripnar.

Kröfur vegna innflutts sæðis

Eins og fram kom á aðalfundi LK í mars sl., átti formaður samtakanna sæti í starfshópi sem skipaður var af ráðherra landbúnaðarmála og var ætlað það hlutverk að móta reglur um meðferð á innfluttu sæði og þær kröfur sem gerðar yrðu til búanna sem það myndu nota. Í stuttu máli sagt gerir tillaga Sigurðar Loftssonar, sem skilað var 31. mars sl., ráð fyrir meiri smitvörnum, meira eftirliti dýralækna, annarri meðferð úrgangs, meira eftirlits í sláturhúsum og meiri varkárni í tengslum við viðskipti með lífgripi en gert er á hefðbundnum búum. Þessar kröfur bætast við mjög ítarlegar kröfur um einangrun og sjúkdómavarnir hjá Geno og TYR í Noregi, að ógleymdum niðurstöðum beinna prófanna gagnvart margvíslegum sjúkdómum, sem gerðar eru reglulega á sæðisgjöfunum þar ytra. Þá er gert ráð fyrir að ekki megi nota sæðið fyrr en 60 dögum eftir sæðistöku. Tillagan, sem og allt starf LK undanfarin misseri varðandi þetta mál, byggir á niðurstöðum vandaðs og ítarlegs áhættumats norsku dýralæknastofnunarinnar, Veterinærinstituttet, fyrir LK. Það tekur til nærri 50 búfjársjúkdóma (allra nautgripasjúkdóma á skrá alþjóða dýraheilbrigðisstofnunarinnar, auk margra annarra) og er niðurstaða þess sú, að hverfandi líkur séu á innflutningi sjúkdóma með norsku holdanautasæði. Áhættumatið í heild sinni er aðgengilegt á heimasíðu LK og hvet ég alla til að kynna sér það. Því skal viðurkennt, að ég átta mig ekki á hvaða hvatir liggja að baki fullyrðingunni um að innflutt sæði fari inn á „venjuleg kúabú“. Enn síður er hægt að henda reiður á fullyrðingum um að „engin holdanautabú á Íslandi geta uppfyllt þær kröfur og gerðar eru á sérhæfðum einangrunarstöðvum. Þá er ólíklegt að önnur kúabú geti svarað þeim kröfum“. Ólafur leggur samt til að tilraunabúið á Stóra-Ármóti verði gert að einangrunarstöð. Það bú er í sjálfu sér bara hefðbundið kúabú í eigu búnaðarsambands, rekið af verktökum, þar sem gerðar hafa verið margvíslegar fóðrunartilraunir á mjólkurkúm í gegnum tíðina. Þaðan er stutt í höfuðstöðvar Matvælastofnunar á Selfossi. En það er stutt í fleira. Eftir því sem ég kemst næst er stundaður kúabúskapur á aðliggjandi jörð, í rúmlega kílómeters fjarlægð. Auk margra annarra í næsta nágrenni. Flóinn er þéttbýll. Hvernig samræmist það hugmyndum Ólafs um einangrunarstöð?

Fósturvísir 200.000 kr – sæði 6.000 kr

Fyrir utan að vera óheyrilega kostnaðarsamar, eiga þær leiðir sem viðhafðar hafa verið við innflutning á erfðaefni holdanautgripa það sameiginlegt, að þær útiloka í reynd innlenda framleiðendur frá því að stunda skipulegt kynbótastarf. Framleiðendur í greininni hafa aldrei haft beinan aðgang að afkvæmaprófuðum gripum með þekkt kynbótamat, heldur einungis 2. kynslóð innfluttra gripa. Þeir gripir hafa með öllu óþekkt kynbótagildi, þó vel ættaðir séu. Þessari stöðu má líkja við það ef mjólkurframleiðendur hefðu einungis aðgang að heimanautum til kynbóta á hjörðum sínum. Engri annarri kjötframleiðslugrein hér á landi er boðið upp á þessa stöðu og við hana verður ekki búið til lengri tíma. Við þetta má bæta að kostnaður við innfluttan fósturvísi er um 200.000 kr/stk á meðan sæðisskammtur kostar 6.000 kr. Kostnaður við uppsetningu fósturvísis er margfaldur á við sæðingu.

Svínaeldi í afþreyingarskyni

Þulan um einangruðu svínabúin hljómar kunnuglega, en er engu að síður alröng. Á síðasta ári slátraði t.a.m. SS á Selfossi ríflega 100 „sparigrísum“ frá um 80 aðilum sem búa vítt og breitt um Suður- og Vesturland og halda þá við margvíslegar aðstæður. Snemma á jólaföstu 2014 greindi mbl.is frá því að grísinn Sólmundur hefði tekið upp á því að mæla göturnar í Mosfellsbæ og á sama tíma hefði ættingi hans, í eigu þingmannsins Ásmundar Einars Daðasonar, brugðið sér út fyrir hússins dyr að eigin frumkvæði. Í nýrri reglugerð um velferð svína, nr. 1276/2014 er einnig ákvæði um útivist (þar sem ekki er minnst einu orði á girðingar) og í viðauka er tiltekið að svínahald með fleiri en tveimur fullorðnum svínum eða fleiri en 20 grísum sé hvorki tilkynningar- né úttektarskylt. Útivist er hluti af vistvænu eldi á grísum. Á grundvelli framangreinds reglugerðarákvæðis stunda fjölmargir einstaklingar, víða um land, svínahald í afþreyingarskyni. Flest eiga þessi svín ættir sínar að rekja út fyrir landsteinana, enda tilkomin af beinum innflutningi á erfðaefni frá Noregi. Í framhjáhlaupi má bæta því við, að árlegur innflutningur á nokkur hundruð lifandi kynbótahögnum frá Danmörku, er einn grundvöllur þess að íslenskir loðdýrabændur framleiða næst verðmætustu skinnin í heiminum.

Varnarlínur og karakúlfé

Ef hugleiðingar Ólafs varðandi innflutning holdanauta og „varnarlínur“ Bændasamtakanna ættu við einhver rök að styðjast, þá mætti, í ljósi þess sem að framan greinir, gagnálykta sem svo að „varnarlínurnar“ væru þegar brostnar. Að mínu mati er algerlega fráleitt að blanda þessu saman; annars vegar innfluttu kjöti úr einhverjum hjörðum, þar sem ekki hefur í öllum tilfellum verið hægt að sannreyna af hvaða dýrategund það er, og hins vegar innflutningi á erfðaefni úr viðurkenndri einangrunarstöð, sem er undir stöðugu eftirliti dýralækna og viðhefur ströngustu sóttvarnir sem þekkjast.

Skugginn af karakúlfénu er orðinn langur. Liðin eru rúm 80 ár frá því að lifandi sauðfé var flutt til landsins og geymt úti í Þerney í tvo mánuði, uns íslenskur dýralæknir gaf því fararleyfi vítt og breitt um landið, með alkunnum afleiðingum. Það sér hver sæmilega sanngjarn maður, að samanburður á því sem nú stendur til og því sem þá var gert, er algerlega fjarstæðukenndur og fráleitur.

Stækkum landbúnaðinn

Eftir því sem næst verður komist, eru það nautgripabændur sem bera ábyrgð á framleiðslu nautgripaafurða hér á landi. Ekki Dýralæknafélag Íslands. Það eru bændur sem bera ábyrgð á því að markaði fyrir þær afurðir sé sinnt með sómasamlegum hætti. Það eru forsvarsmenn þeirra sem þurfa að svara fyrir ef útaf bregður í þessum efnum. Það hafa þeir þurft að gera mjög ríkulega undanfarin misseri vegna stöðu á nautakjötsmarkaði. Vilji bænda til að bæta þar úr hefur ítrekað komið í ljós og það er fyrst og fremst hann sem ræður för. Smitvarnir eru vissulega mjög mikilvægur hluti af málinu sem hér um ræðir. Fleira skiptir máli. Það þarf að vera efnahagslegur grundvöllur undir þeim leiðum sem farnar eru. Þær þurfa að skila bændum betri gripum; meiri fallþunga og betri flokkun, aukinni fóðurnýtingu, léttari burði. Þær eiga að bæta afkomu bænda. Þær eiga að stækka landbúnaðinn.

 

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...