Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Sveitarstjórnin á Blönduósi á bökkum Blöndu.  Valdimar O. Hermannsson sveitarstjóri er fjórði frá hægri á myndinni.
Sveitarstjórnin á Blönduósi á bökkum Blöndu. Valdimar O. Hermannsson sveitarstjóri er fjórði frá hægri á myndinni.
Fréttir 14. ágúst 2019

Tækifæri á svæðinu til að auka við ferðaþjónustuna á Blönduósi

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Það eru mikil tækifæri fyrir hendi hér í héraði að auka við í ferðaþjónustunni,“ segir Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri á Blönduósi. Umsvif hafa aukist umtalsvert á Blönduósi og svæðinu í kring undanfarin misseri og menn eru bjartsýnir til framtíðar litið, næg atvinna fyrir hendi og bygging nýrra íbúða stendur yfir.
 
Í Austur-Húnavatnssýslu hefur áhersla um tíðina verið lögð á hinar hefðbundnu atvinnugreinar og menn einkum treyst á þær. Uppbygging ferðamannastaða hafi aðeins setið á hakanum, en nú eru menn að vakna og taka til hendinni í þeim efnum. 
 
Gríðarleg umferð er í gegnum sýsluna, um Blönduós fara yfir 700 þúsund bílar árlega. Í flestum tilfellum er um gegnumkeyrslu að ræða og fæstir staldra lengi við. „Við merkjum það eftir jákvæða umfjöllun um Blönduós og nágrenni í fjölmiðlum á liðnum vetri að þá eru mun fleiri sem stoppa og njóta, nýta sér þá þjónustu sem í boði er og skoða sig um,“ segir Valdimar. Og bætir við að vissulega séu fjölmargir áhugaverðir staðir fyrir ferðafólk að skoða.
 
Heilmikið í gangi
 
Hann nefnir að gönguleiðir séu alltaf vinsælar, bæði lengri og styttri, fuglaskoðun hafi aukist mikið og á ferðinni séu einstaklingar en einnig hópar sem vilji skoða fugla. „Svæðið hér um kring hentar mjög vel til fuglaskoðunar og menn eru að uppgötva það,“ segir hann. Eins nefnir hann að margir vilji skoða seli og kjörin svæði til þess finnist í sýslunni. „Það er líka að aukast að fólk komi hingað og leigi stöng og fari á veiðar í þeim fjölmörgu vötnum sem alls staðar eru hér um kring. Við verðum mjög vör við að allir þeir sem starfa við ferðaþjónustu á svæðinu vinna að því að bæta sína þjónustu,“ segir Valdimar.
 
Gamla Blöndubrúin  fær nýtt hlutverk
 
Meðal staða sem njóta vinsælda eru Kálfshamarsvík á Skaga, Spákonuhofið á Skagaströnd og Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi sem bæði eru einstök sinnar tegundar á Íslandi. Þá fari menn mikið í gönguferðir í Hrútey. Til stendur að setja gömlu Blöndubrúna þangað yfir og verður eflaust mikil lyftistöng. Vatnsdalurinn þykir einnig einstakur og stoppa margir við Kattarauga þar sem aðstaða hefur verið bætt. Þá er unnið að því að bæta aðstöðu fyrir ferðamenn við Þrístapa en þar átti sér stað síðasta aftaka á Íslandi þegar Agnes og Friðrik voru tekin af lífi fyrir morðin á Illugastöðum. „Það er heilmikið í gangi um þessar mundir og menn vilja fyrir alla muni gera eins vel og hægt er,“ segir Valdimar. 
 
Uppbygging á orlofsbyggð
 
Til marks um aukningu í komum ferðamanna inn á svæðið nefnir hann að bara á Blönduósi séu reknir fjórir veitingastaðir og tvö kaffihús auk vegasjoppunnar. „Það hefur færst í aukana að menn dvelji hér og fari í dagsferðir um svæðið og lengra til. Ferðaþjónustan er að aukast og við sjáum fyrir okkur tækifæri á að bæta enn við,“ segir hann og nefnir í því sambandi að stækkun hafi verið á tjald- og orlofshúsasvæðinu Glaðheimum á Blönduósi þar sem nýtt þjónustuhús hefur verið tekið í notkun. Góð tjaldsvæði og vel sótt eru einnig rekin á Húnavöllum,  Húnaveri og Skagaströnd. 
 
Á liðnu ári festi Blönduósbær kaup á jörðinni Enni sem er skammt frá bænum og er þar m.a. verið að skipuleggja göngu- og útivistarsvæði og jafnvel kemur til greina að þar rísi orlofshúsabyggð. Byggð af því tagi er ekki fyrir hendi í austursýslunni og telur Valdimar að hún muni verða ferðaþjónustunni lyftistöng og auka við þann fjölda ferðamanna sem stoppar um lengri tíma á svæðinu. 
 
Aukin afþreying
 
Í kringum íþróttamiðstöðina og Grunnskólann á Blönduósi hefur verið byggð upp góð aðstaða fyrir börn til að leika sér. „Við höfum lagt áherslu á að auka við afþreyinguna þannig að fólki hafi ástæðu til að stoppa og njóta þess sem í boði er,“ segir Valdimar.
 
Gagnaver kærkomin viðbót við atvinnulífið
 
Hann segir atvinnulíf í ágætum blóma, fyrir séu á svæðinu öflug fyrirtæki með nokkurn fjölda starfsmanna og það hafi svo verið kærkomin viðbót þegar nýtt gagnaver var tekið í notkun á vordögum. Gagnaverið er um 4000 fermetrar að stærð í alls 6 byggingum ásamt þjónustuhúsi og tengibyggingu. Gagnaverið er sérhæft í reiknigetu.  Það var byggt á mettíma, rétt ár tók frá fyrstu skóflustungu þar til formleg vígsla þess var. 
 
Blönduósbær mun á þessu ári sjá um að leggja veitur að gagnaverinu, vatns- og fráveitu ásamt öðrum lögnum frá bænum að gagnaverssvæðinu, sem mun styrkja núverandi starfsemi og frekari uppbyggingu.  „Bygging og rekstur gagnavers við Blönduós hefur verið kærkomin viðbót við atvinnulíf á svæðinu, og hefur nú þegar örvað fasteignamarkað og húsbyggingar, en einnig aukið bjartsýni íbúa á svæðinu,“ segir Valdimar. 
 
Samkvæmt skipulagi er gert ráð fyrir að það sem þegar hefur verið tekið í notkun sé aðeins fyrsti áfangi að frekari uppbyggingu á þessu sviði. Valdimar segir að vissulega geti þó tekið einhver ár þar til framhald verði á. Það sé m.a. háð uppbyggingu á öðrum innviðum sem unnið verði að á komandi árum.
 
Endurbætur á Blönduskóla
 
Blönduósbær er með fleiri verkefni á sinni könnu, en eitt það stærsta er endurbygging Blönduskóla ásamt því að reisa viðbyggingu við skólann. Framkvæmdir eru hafnar og munu standa yfir í sumar.  Um er að ræða endurbyggingu á bakhúsi aftan við eldri byggingu skólans, þar sem áður var yfirbyggð sundlaug með búningsklefum. Í nýrri viðbyggingu verða verknámsstofur, aðstaða fyrir smíðakennslu og heimilisfræði og að auki tvær fjölnota kennslustofur. Þar sem sundlaugin var í kjallara hússins verður geymslu- og lagnarými. Þá verður aðstaða fyrir framleiðslueldhús við mötuneyti skólans stækkað.
 
Heildarstærð viðbyggingar er að sögn Valdimars 619 fermetrar, tæplega 440 fermetra hæð og ríflega 180 fermetrar í kjallara. Framkvæmdum við það verður dreift á þrjú til fjögur ár. Heildarkostnaður sem leggst á framkvæmdatímann nemur um 300 milljónum króna en í sumar verður á bilinu 60 til 90 milljónum varið í framkvæmdir. 
 

7 myndir:

Innflutningur á úkraínsku kjúklingakjöti
Fréttir 9. febrúar 2023

Innflutningur á úkraínsku kjúklingakjöti

Hátt í 80 tonn af frosnu kjúklingakjöti voru flutt hingað til lands frá Úkraínu ...

Langflestir íbúar á höfuðborgarsvæðinu
Fréttir 8. febrúar 2023

Langflestir íbúar á höfuðborgarsvæðinu

Samkvæmt tölum Byggðastofnunar fyrir árið 2022 var íbúafjöldi landsins 376.248. ...

Samband neysluverðs og framleiðsluverðs í matvælum
Fréttir 8. febrúar 2023

Samband neysluverðs og framleiðsluverðs í matvælum

Bændur og hinn almenni neytandi hafa lengið staðið bökum saman við að tryggja sa...

Rannsakar skyggnar konur
Fréttir 7. febrúar 2023

Rannsakar skyggnar konur

Dr. Dalrún Kaldakvísl Eygerðardóttir sagnfræðingur rannsakar sögu skyggnra kvenn...

Of algengt að hestunum sé gefinn óþverri
Fréttir 6. febrúar 2023

Of algengt að hestunum sé gefinn óþverri

Margeir Ingólfsson og Sigríður Jóhanna Guðmundsdóttir, bændur á bænum Brú í Blás...

Tíu ára starfsafmæli
Fréttir 3. febrúar 2023

Tíu ára starfsafmæli

Tíu ár eru síðan Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) var sett á laggirnar. Af ...

Innlend fóðurframleiðsla gæti nýtt jarðhita sem fer til spillis
Fréttir 3. febrúar 2023

Innlend fóðurframleiðsla gæti nýtt jarðhita sem fer til spillis

Fjárfestingafélag Þingeyinga hf. hefur unnið að skýrslu í samstarfi við verkfræð...

Markaðssetning utan hefðbundins sláturtíma
Fréttir 2. febrúar 2023

Markaðssetning utan hefðbundins sláturtíma

Nýlega var Sláturhúsi Vesturlands í Borgarnesi veittur styrkur úr markaðssjóði s...