Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Ingvi Stefánsson formaður búgreinadeildar svínabænda hjá Bændasamtökum Íslands.
Ingvi Stefánsson formaður búgreinadeildar svínabænda hjá Bændasamtökum Íslands.
Mynd / Bbl
Fréttir 9. janúar 2025

Svínabændur fá frest til aðlögunar

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Svínabændum hefur verið gefinn lengri frestur til aðlögunar að tilteknum skilyrðum í reglugerð um velferð svína. Framleiðendur sem eru með framkvæmdir í ferli til þess að uppfylla aðbúnaðarkröfur, eru stopp í kerfinu vegna leyfismála.

Matvælastofnun (Mast) getur veitt svínabændum frest til aðlögunar að skilyrðum er varða húsakost og aðbúnað svína, í reglugerð um velferð svína, samkvæmt bráðabirgðaákvæði sem Bjarni Benediktsson, fv. matvælaráðherra, samþykkti í desember.
Reglugerð þess efnis tók gildi 17. desember en í henni er tilgreint að veiting slíks frests sé háð því að framleiðandi leggi fram gögn sem sýni fram á að hann hafi sannanlega gripið til ráðstafana til að uppfylla kröfur ákvæðanna en ekki orðið ágengt af ástæðum sem eru ekki á ábyrgð framleiðanda sjálfs.

„Við mat á þessu skal m.a. líta til þess hvort framleiðandi hafi eftir atvikum hannað byggingarkosti, sótt um tilskilin leyfi og gripið til þeirra ráðstafana sem með sanngirni hefði mátt ætlast til af honum. Umsókn um viðbótarfrest skal hafa borist Matvælastofnun eigi síðar en 1. september 2025,“ segir í reglugerðinni.

Eftirlitsheimsóknir á öll bú næstu vikurnar

Samkvæmt reglugerð um velferð svína eiga gyltur að vera í lausagöngu, og óheimilt er að binda svín eða halda þau í básum nema í undantekningartilvikum. Samkvæmt upplýsingum frá Mast eru svínabú á Íslandi nítján talsins og þar af eru níu bú með gyltum.
„Eitt gyltnabú, sem var byggt árið 2024, uppfyllir allar kröfur reglugerðarinnar um aðbúnað svína. Flest önnur bú hafa tekið upp lausagöngu gyltna. Eitt bú hefur gyltur í lausagöngu að hluta til og eitt bú uppfyllti ekki kröfur varðandi lausagöngu við eftirlit í lok árs 2024,“ segir í svari Mast við fyrirspurn.

Gotdeildir í svínabúi sem samræmast nýjustu aðbúnaðarreglugerðum.

Þar segir einnig að eftirlitsfólk Mast muni heimsækja öll svínabú á fyrstu mánuðum ársins 2025 til að kanna hvort ákvæði reglugerðarinnar, um lágmarkslegurými og lágmarksgólfrými, og um lausagöngu, séu uppfyllt.

Búgrein í sjálfheldu

Ingvi Stefánsson, formaður búgreinadeildar svínabænda hjá Bændasamtökum Íslands, segir að brýnt hafi verið að setja bráðabirgðaákvæðið.

„Það er ýmislegt sem kemur til. Fyrir það fyrsta held ég að það þekkist vart að gefa einungis tíu ára frest. Reglugerðin er sett árið 2014 og þá boðað að allt yrði að vera klárt tíu árum síðar. Á sama tíma var sett reglugerð um velferð nautgripa, en þar var gefinn frestur til 2034, eða til tuttugu ára í stað tíu.

Bændur sem eru með framkvæmdir í ferli, til þess að uppfylla nýjar aðbúnaðarkröfur, eru stopp í kerfinu vegna leyfismála. Því var óhjákvæmilegt annað en að bregðast við því. Þá hjálpar ekki til að Umhverfisstofnun hefur í einhverjum tilvikum verið að banna svínabúum, bæði á Kjalarnesi og Vatnsleysuströnd, að nota ákveðnar lausnir til meðhöndlunar á svínaskítnum. Allt er þetta gert án nokkurs fyrirvara og því setur þetta rekstur viðkomandi búa í ákveðið uppnám.“

Ingvi undirstrikar að í raun sé ekkert í velferðarlögum sem framleiðendur geta ekki uppfyllt. Hins vegar eru breytingarnar það viðamiklar að flestir meta stöðuna þannig að best sé að byggja ný hús frá grunni í stað þess að gera endurbætur á gömlum húsum. Nýjum húsum þurfi að finna nýja staði.

„Það er þar sem málin fara að verða flókin. Því miður er búið að setja svo íþyngjandi regluverk varðandi fjarlægðarmörk að mjög erfitt er að fá leyfi fyrir svínabúum á nýjum stöðum,“ segir Ingvi. Þannig séu aðbúnaðarkröfur hér á landi mun strangari en víða í nágrannalöndum. Til dæmis séu kröfur um fjarlægðarmörk frá eldishúsum hér þrefaldar miðað við í Danmörku.

„Þannig er upplifunin sú að stjórnvöld séu meðvitað eða ómeðvitað að koma greininni í ákveðna sjálfheldu. Sem er auðvitað ótrúlega sorglegt þar sem við erum að taka mjög stór skref í bættum aðbúnaði og aukinni dýravelferð,“ segir Ingvi.

Sjálfur hóf hann undirbúning að uppbyggingu á sínu svínabúi haustið 2016. „Það tók mig fjölda ára að fá öll leyfi og verjast fyrir dómstólum. Þannig að það var ekki fyrr en á síðasta ári að búið var tekið í notkun.“

Skylt efni: aðbúnaður | Svínarækt | Svín

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda
Fréttir 4. desember 2025

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda

Frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta, gjöld o.fl. felu...

Úthlutun í fyrsta sinn
Fréttir 28. nóvember 2025

Úthlutun í fyrsta sinn

Fyrsta úthlutun úr frumkvæðissjóðnum Fjársjóði fjalla og fjarða fór fram á dögun...