Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Útivist í Miklaholtshelli II.
Útivist í Miklaholtshelli II.
Fréttir 24. febrúar 2016

Strangar kröfur um fóður, rými og útivist

Höfundur: smh
Í síðasta Bændablaði var greint frá því að Nesbúegg ehf. hefði fengið lífræna vottun fyrir eggjaframleiðslu sína í Miklaholtshelli II í Flóahreppi. Nesbúegg er fyrsti stórframleiðandinn sem hlýtur slíka vottun, en vottunin tekur til framleiðslunnar sem kemur frá þeim tólf þúsund varphænum sem eru á eggjabúinu í Miklaholtshelli II. Undirbúningsferlið hefur staðið yfir frá árinu 2013.
 
Að sögn Gunnars Gunnarssonar hjá Vottunarstofunni Túni, sem hefur vottað eggjaframleiðsluna, er aðlögunartími fugla sem aldir eru til lífrænnar eggjaframleiðslu að lágmarki sex vikur. „Á þeim tíma þurfa fuglarnir að uppfylla settar kröfur, þar á meðal um aðbúnað og fóðrun. Aðstæður eru mismunandi sem kann að valda því að teygst getur á aðlögunartímanum. Vottun eggjaframleiðslu Nesbús er með umfangsmeiri verkefnum á sviði vottunar lífrænna afurða hér á landi, því framleiðslan er stærri í sniðum en almennt gerist í lífrænni frumframleiðslu hér á landi. Hún er þess vegna flokkuð með þörungaframleiðslu, söfnun villtra jurta, ræktun byggs og gulróta – þar sem verulegt magn, stór svæði eða hvoru tveggja eru undir. Þá er sömuleiðis um að ræða sérhæfða framleiðslu undir stjórn aðila sem býr yfir reynslu, þekkingu og öðrum björgum sem eru til þess fallnar að auka líkur á langtíma árangri.
 
Nokkrir íslenskir bændur hafa á liðnum tveimur áratugum alið varphænur og haft vottun til framleiðslu og sölu á lífrænum eggjum. Í öllum tilvikum hefur verið um að ræða litlar einingar, sem þó hafa gegnt mikilvægu hlutverki í heildarmynd viðkomandi bújarðar. Þar má sérstaklega nefna eggjabúið á Sólheimum og Skaftholtsbúið, sem á þessu sviði sem mörgum öðrum hafa ljáð öðrum fyrirmyndir um góða lífræna búskaparhætti.
 
Lífræn eggjaframleiðsla þarf að uppfylla kröfur sem settar eru í vottunarreglum og byggja annars vegar á grunngildum lífræns landbúnaðar um sjálfbærni, velferð og heilbrigði innan allrar fæðukeðjunnar, og hins vegar á nánar tilgreindum verklagsreglum og vinnubrögðum sem skilgreind eru í íslenskum og evrópskum reglugerðum sem Vottunarstofan Tún vinnur eftir,“ segir Gunnar. Hann vísar til ritlingsins Lífræn eggja- og kjúklingaframleiðsla: Aðlögun og aðferðir, sem vinnuplaggs. Sjá meðfylgjandi klausu hér á síðunni úr þessum ritlingi, þar sem greint er frá kröfum varðandi fóðrun og inni- og útivist – auk skilyrða fyrir lyfjagjöf. 
 
Ekki meiri hætta á salmonellusmiti
 
Í skilyrðunum fyrir lífrænni vottun í alifuglaeldi er gert ráð fyrir því að alifuglar skuli njóta útivistar þegar veður leyfir, á að minnsta kosti einum þriðja hluta líftímans. Lágmarksrými á útisvæði skal vera fjórir fermetrar á hverja varphænu. Vegna þessara krafna um útiveru er eðlilegt að spurt sé hvort tíðari salmonellusmit sé á lífrænt vottuðum alifuglabúum. Brigitte Brugger, dýralæknir alifuglasjúkdóma hjá Matvælastofnun, segir að ætla mætti að hætta á salmonellusmiti muni aukast í hænum með aðgang að útisvæði, en samkvæmt munnlegum upplýsingum sem hún hefur frá dönskum starfssystkinum virðist sú ekki vera raunin. Hún vitnar líka til þýskra rannsókna sem benda til þess sama. „Eftirlit með campylobacter og salmonellu er með sama hætti á öllum alifuglabúum landsins, óháð því í hvers konar húsi fuglarnir eru aldir,“ segir Brigitte um eftirlitið með salmonellusmiti á alifuglabúum. „Það þýðir að allir sem dreifa eggjum á markað þurfa að fylgjast með því hvort salmonella finnist í hænunum þeirra, með því að taka saursýni á 15 vikna fresti. Ekki er talin hætta á að campylobacter berist í fólk með neyslu eggja, og er þess vegna ekki gerð krafa um eftirlit með campylobacter í varphænum,“ segir Brigitte Brugger.
 
Nesbúegg ehf. var stofnað árið 1971 og er einn stærsti eggjaframleiðandi landsins. Fyrirtækið sérhæfir sig í eldi á varphænum, allt frá ungaeldi til eggjaframleiðslu. Starfsemi þess fer annars vegar fram í Vogum á Vatnsleysuströnd, og hins vegar í Miklaholtshelli í Flóa. Þá rekur fyrirtækið einnig pökkunar- og vinnslustöðvar á báðum stöðum fyrir fersk, gerilsneydd og soðin egg – og ýmsar aðrar eggjaafurðir.
 
Nýjasta viðbótin er aðgreind starfstöð í Miklaholtshelli II þar sem lífrænt vottuð eggjaframleiðsla fer nú fram. Í tilkynningu frá Stefáni Má Símonarsyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, segir: „Ákvörðun okkar um að hefja lífræna framleiðslu með stofnun sérstakrar lífrænnar eggjaframleiðslustöðvar er rökrétt framhald og liður í þeirri stefnu okkar að bæta aðbúnað fuglanna. Jafnframt viljum við með þessu koma til móts við hinn ört vaxandi hóp neytenda sem kallar eftir lífrænum afurðum.“ 

Kröfur í lífrænni aðlögun fyrir eggja- og kjúklingaframleiðslu

 
Fóðrun
 
Allt fóður fyrir alifugla skal vera vottað lífrænt eða af landi sem er vottað í lífrænni aðlögun. Heimilt er að nota ýmsar tegundir af fóðri, bæði kjarnfóðri og gróffóðri, að því tilskildu að það sé vottað lífrænt, eða að það sé samþykkt sem leyfileg aðföng, og að ekki séu í því óleyfileg efni svo sem kemisk rotvarnar-, litar- eða þráavarnarefni, eða efni úr erfðabreyttum lífverum (GMOs). Eldistími, kjúklinga til kjötframleiðslu skal vera 81 dagur að lágmarki.
 
Innivist – Útivist
 
Alifuglar, bæði varphænsni og kjúklingar í kjötframleiðslu, skulu njóta sem mest eðlilegs atferlis eftir því sem aðstæður leyfa. Bannað er að halda fugla í búrum og óheimilt er að stýfa gogga og vængi. Húsakostur skal halda veðrum og vindum og þannig hannaður að velferð fuglanna sé tryggð. Því skal undirburður, afrennsli og hreinsun vera með þeim hætti að fuglarnir geti legið á þurru undirlagi og þess skal gætt að birta og loftræsting sé nægileg. Gluggaflötur skal nema 5% gólfflatar og hámarksbirtutími með raflýsingu er 16 klukkustundir samfleytt.
 
Hámarksfjöldi varphæna í hverju húsi skal vera 3.000 fuglar og hámarksfjöldi kjúklinga til kjötframleiðslu í húsi 4.800 fuglar. Hámarksflötur kjúklingahúsa til kjötframleiðslu skal vera 1600 m2 á hverju býli. Hænur í eggjaframleiðslu skulu vera mest 6 á m2, priklengd skal vera 18 cm fyrir hverja hænu og 7-8 hænur um hvert hreiður, eftir kyni og stærð (120 cm2/hænu). Í varanlegum kjúklingahúsum til kjötframleiðslu er að hámarki heimilt að hafa 10 fugla á m2 (mest 21 kg lífþunga/m2) en í færanlegum húsum má fara í allt að 16 fugla á m2 (mest 30 kg lífþunga/m2 þar sem hámarksgólfflötur hússins er 150 m2, enda sé opið að nóttu til).
 
Alifuglar, bæði í eggja- og kjötframleiðslu, skulu njóta útivistar þegar veður leyfir, a.m.k. 1/3 líftímans. Útigönguop skulu hæfa stærð fugla og vera minnst 4 m á hverja 100 m2 gólfflatar, lágmarksrými á útisvæði skal vera 4 m2/varphænu en fyrir kjúklinga í kjötframleiðslu 4 m2 í varanlegu húsi og 2,5 m2 í færanlegu húsi. Fyrir báðar tegundir fugla skal miðað við að frá dritinu komi að hámarki 170 kg af N/ha/ári.
 
Sjúkdómavarnir og lyfjagjöf
 
Áhersla er lögð á að fyrirbyggja sjúkdóma og efla mótstöðuafl gripanna með góðri umönnun, réttri fóðrun og aðstæðum sem samrýmast eðlislægri hegðun þeirra, í stað þess að treysta á lyf og hefðbundnar lækningar. Nota ber náttúrulegar aðferðir við lækningar hvenær sem kostur er.Lögboðnar bólusetningar eru heimilar. Þá getur vottunarstofa leyft notkun tiltekinna lyfja í samráði við dýralækni ef aðrar og náttúrulegri aðferðir koma ekki að gagni. Útskilnaðartími lyfja, þ.e. sá tími sem líður frá síðasta degi lyfjagjafar þangað til selja má afurðir fuglsins, skal þó vera a.m.k. tvisvar sinnum lengri en sá sem tilgreindur er fyrir hefðbundna notkun og aldrei skemmri en 14 dagar. Ekki er heimilt að meðhöndla einstakling eða hóp oftar en einu sinni á tólf mánaða tímabili.
 
Athuga skal að þetta eru einungis þær kröfur í bæklingnum sem eru tilgreindar um þessa þrjá þætti aðlögunarinnar. 

 

10 myndir:

Skylt efni: lífræn vottun | eggjabú

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins
Fréttir 11. júlí 2024

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur gert kauptilboð í allt hlutafé Kjarnafæðis Nor...