Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Fokker Friendship flugvél Flugfélags Íslands í aðflugi að Ísafjarðarflugvelli undir Kirkjubólshlíð í júlí 2013. Flugvöllurinn var tekinn í notkun 1963 og leysti  sjóflugvélar af hólmi. Hann er þó illa staðsettur og hafa reyndir flugmenn lengi bent á mun b
Fokker Friendship flugvél Flugfélags Íslands í aðflugi að Ísafjarðarflugvelli undir Kirkjubólshlíð í júlí 2013. Flugvöllurinn var tekinn í notkun 1963 og leysti sjóflugvélar af hólmi. Hann er þó illa staðsettur og hafa reyndir flugmenn lengi bent á mun b
Mynd / /HKr
Fréttir 25. mars 2019

Stærri kerfisbreytingar í fluginu en við höfum nokkru sinni séð

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Sigurður Ingi Jóhannsson sam­göngu­ráðherra segir að tillögu, sem samþykkt var á Alþingi fyrir skömmu, um að ISAVIA taki yfir rekstur allra millilandaflugvalla á Íslandi, sé ætlað að stórauka öryggi í fluginu. Þetta eigi líka að geta leitt til eflingar á uppbyggingu þessara valla sem og annarra innanlandsflugvalla. 
 
„Það var þannig á árum áður, þegar Flugstoðir sáu um flugvelli landsins, að þá var innheimt svokallað varaflugvallagjald. Því var ætlað að standa undir kostnaði við uppbyggingu varaflugvalla fyrir millilandaflugið í Reykjavík, á Akureyri og á Egilsstöðum. Ákveðið var að leggja þetta af árið 2009 og sameina í einni gjaldtöku í samskiptum við flugrekendur á hverjum tíma undir hatti ISAVIA. Það hefur gengið frábærlega að byggja upp í Keflavík og eiginlega ótrúlegt hvað það hefur gengið vel hjá ISAVIA að bregðast við þeirri áskorun að taka á móti frá tveim milljónum flugfarþega í gegnum völlinn upp í tæplega 10 milljónir í fyrra. 
 
Afnám varaflugvallalgjaldsins reyndist skaðlegt
 
Á sama tíma og þetta vara­flugvallagjald var lagt af vöruðu margir við, ekki síst þeir sem áður höfðu starfað í Flugstoðum, að hættan á því að treysta á að ríkisvaldið myndi koma með skattpeninga almennings til að byggja upp flugvellina, yrði alltaf háð því að það yrði keppni um þá peninga við eitthvað annað. Það hefur orðið reyndin. Það hafa verið settir of litlir fjármunir í þetta. Þannig að sú tillaga sem samþykkt var á þinginu núna um daginn, um að ISAVIA eða sambærilegu félagi yrði falið að reka alla millilandavelli landsins í einu grunnneti, snýst um flugöryggi. Það er að segja, að ef öll flugfélög sem fljúga til Íslands geta tilgreint öruggan varaflugvöll á Íslandi fyrir utan Keflavík, þá er það meira öryggi en að snúa við eða lenda í Skotlandi eða Írlandi. Það er einnig stórt umhverfismál og mun hagkvæmara því hægt er að flytja meiri farm í stað varaeldsneytis.“
 
Milljarða ávinningur af uppbyggingu varaflugvalla
 
„Ávinningur flugfélaganna að geta tilgreint varaflugvöll á Íslandi er umtalsverður og telst í milljörðum króna. Í þessari tillögu um að reka flugvellina fjóra í einu grunnneti,  þá mun ISAVIA bæði taka faglega ábyrgð með sinni þekkingu, reynslu og getu til að byggja upp flugvellina. Einnig er gert ráð fyrir að flugrekendur séu tilbúnir til að skipta ávinningi sem af þessu hlýst til að geta viðhaldið öruggum flugsamgöngum til Íslands.
 
Þarna er verið að tala um mögulegar tekjur upp á einn milljarð eða rúmlega það á ári. Á einhverju árabili myndi það duga til að byggja upp flughlöð eða samsíða brautir sem gætu nýst til að koma fyrir mörgum flugvélum, ef á þyrfti að halda. Einnig gæti það nýst fyrir aðra nauðsynlega uppbyggingu. Þannig yrðu allir þessir flugvellir betri sem alþjóðaflugvellir og stæðu betur undir þeim áherslum sem gerðar voru í tíð ríkisstjórnar á  árunum 2013 til 2017, um að opna fleiri gáttir inn í landið til að auðvelda dreifingu ferðamanna.“
 
Þjónustugjöld borgi uppbygginguna
 
Sigurður segir að tvær leiðir séu fólgnar í þessari tillögu varðandi gjaldtöku af flugrekstri. Auðvitað sé hægt að setja skatt, en ef um þjónustugjald er að ræða eins og er í dag, þá mun ISAVIA væntanlega semja um upphæð þess við flugrekendur. Einnig er gert ráð fyrir að þó farið verði í aukna uppbyggingu á varaflugvöllunum, þá eigi það ekki að hamla uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli. Gert er ráð fyrir að hagurinn af uppbyggingu varaflugvallanna geti numið um tveim milljörðum fyrir millilandaflugið á ári. Af því er gert ráð fyrir að um helmingurinn skili sér til reksturs á þeim flugvöllum, en ekki eingöngu til flugfélaganna. 
 
Fyrsta flugstefna Íslendinga er nú í vinnslu
 
– Nú er vitað að viðhaldi hefur verið ábótavant á öðrum innan­landsflugvöllum. Þá eru aðstæður mjög erfiðar víða eins og á Ísafjarðarflugvelli, sem er illa staðsettur fyrir flug. Hefur eitthvað komið til tals að fara í byggingu á nýjum flugvelli þar og uppbyggingu á öðrum flugvöllum?
 
„Á árinu 2019 verður haldið upp á 100 ára flugsögu á Íslandi. Í tengslum við það þá lét ég hefja vinnu í fyrra við mótun fyrstu flugstefnunnar hér á landi. Það plagg mun vonandi koma út síðsumars eða í haust. 
 
Við höfum aldrei mótað stefnu um hvar við ætluðum að hafa flugvelli, heldur voru það herir Bandaríkjamanna og Breta sem byrjuðu á því verkefni. Við höfum síðan tekið við og síðan hafa jafnvel áhugamenn á einhverjum stöðum tekið sig til við að búa til flugbrautir sem síðan hafa orðið að flugvöllum.“
 
 Efnahagsleg áhrif flugsins a.m.k.25% af landsframleiðslu – hvergi eins hátt
 
„Í væntanlegri flugstefnu verður m.a. fjallað um innanlandsflugvellina, einnig um millilandaflugið sem mikilvægan efnahagslegan þátt. Fyrir um 10 til 12 árum mat erlend ráðgjafarskrifstofa efnahagsleg áhrif flugsins sem 6,6% af landsframleiðslu. Núna eru áhrifin a.m.k. 25% að lágmarki. Hvergi í heiminum er hlutfallið eins hátt og hér á landi. Þetta er því orðinn gríðarlega mikilvægur þáttur í efnahagslífi landsins og þeim mun mikilvægara að við höfum þar einhverja stefnu. 
 
Varðandi innanlandsflugvellina, þá hefur hið opinbera gert þjónustusamning við ISAVIA um þá velli. Fjármagn sem til þeirra er ætlað verður ekki skorið niður þó ISAVIA taki að sér varaflugvellina. Þvert á móti ætti þá meira fé að renna til þeirra flugvalla sem eftir eru en áður var ætlað í alla flugvellina, þar með varaflugvallanna. Við komum með breytingartillögu varðandi þetta sem þingið samþykkti og kom frá starfshópi sem fjallaði um þessi mál. Hún snerist um að breyta þeim stuðningi sem verið hefur við innanlandsflugið.“
 
Varðandi Ísafjarðarflugvöll þá var lögð fram þingsályktunartillaga frá þingmönnum Norðvesturkjördæmis um að hugað yrði að nýju flugvallarstæði á Vestfjörðum sem jafnvel gæti nýst til millilandaflugs. Í væntanlegri flugstefnu vænti ég þess að þar muni koma fram hvert við eigum að stefna í þeim málum.“
 
Vonast til að skoska leiðin gjörbreyti stöðu innanlandsflugs
 
„Staðreyndin er sú að menn hafa verið að reyna að auka fjármuni til þessara mála, en engu að síður hefur farþegum fækkað. Fargjöld hafa farið hækkandi, flugfélögin hafa það skítt og flugvellirnir hafa drabbast niður. Með öðrum orðum, það kerfi sem við höfum verið með er ómögulegt. Þess vegna ætlum við að stokka upp þá fjármuni sem í þetta fara. Við ætlum að nota þá að hluta í þessa svokölluðu skosku leið. Hún felst í því að endurgreiða allt að 50% af fargjöldum á til að mynda átta leggjum, eða sem svarar vegna fjögurra ferða fram og til baka. Það er til að jafna aðstöðu fólks til að sækja þjónustu sem ákveðið var að byggja upp á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt byggðastefnu síðastliðin 150 ár. 
 
Hjá þeim sem farið hafa þessa leið, eins og Skotum og fleirum, hefur ávinningurinn orðið sá að flugfarþegum hefur fjölgað, flugferðum hefur fjölgað, farmiðaverð lækkað og um leið hafa tekjur flugvallanna aukist. Það tikkar því í öll jákvæðu boxin sem í núverandi kerfi tikkar í öll neikvæðu boxin. Þessi tillaga var samþykkt með mjög breiðum meirihluta á þingi og mun væntanlega taka gildi ef vel gengur einhvern tíma á árinu 2020. 
 
Áætlað er að í þetta geti farið 800 til 1.200 milljónir króna. Við verðum þó að fara varlega af stað eins og Skotar gerðu á sínum tíma. Mikilvægt er að við útfærsluna séu búnir til hvatar þannig að flugfélögin sjái sér hag í að fjölga flugferðum með lægri fargjöldum. Þannig geti fleiri nýtt sér bætta stöðu en bara þeir sem fá endurgreiðslu á hluta af sínum fargjöldum.“ 
 
Stærsta kerfisbreyting í fluginu frá upphafi
 
„Ég held að þessar breytingar sem gerðar verða varðandi flugið séu stærri kerfisbreytingar en við höfum nokkru sinni séð,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra. 

4 myndir:

Styrkir til vatnsveitna á lögbýlum
Fréttir 5. mars 2024

Styrkir til vatnsveitna á lögbýlum

Enn er opið fyrir umsóknir um framlög vegna vatnsveitna á lögbýlum sbr. regluger...

Tilboðsmarkaður opinn
Fréttir 4. mars 2024

Tilboðsmarkaður opinn

Markaður fyrir greiðslumark mjólkur verður haldinn þann 1. apríl næstkomandi.

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki
Fréttir 1. mars 2024

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki

Samkvæmt niðurstöðum verkefnis sem nýlega var unnið hjá Matís, um nýtingu og nær...

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...