Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Staðfest gæði folaldakjötsins
Mynd / úr einkasafni
Fréttir 20. ágúst 2019

Staðfest gæði folaldakjötsins

Höfundur: smh
Matís gaf fyrir skemmstu út skýrslu um hestakjöt þar sem fjallað er um framleiðslu þess og niðurstöður á mælingum um næringarinnihald og eiginleika kjötsins. Skýrslan leiðir í ljós að folaldakjöt er hágæða kjötvara sem ætti að uppfylla allar helstu óskir neytenda hvað varðar gæði, hreinleika og næringargildi.
 
Meginmarkmið verkefnisins var að safna saman og koma á framfæri upplýsingum sem styðja við og greiða leið markaðsstarfs og sölu á kjötinu, en fyrri rannsóknir Matís hafa leitt í ljós að sóknarfæri eru fyrir hestakjöt á markaði.
 
Eva Margrét Jónudóttir, sem er í hópi skýrsluhöfunda, segir að rannsóknum um eiginleika hestakjöts sé mjög ábótavant um allan heim og Ísland sé engin undantekning. „Við hjá Matís gáfum út þessa skýrslu um niðurstöður rannsókna sem hafa verið í gangi síðustu misseri varðandi folaldakjöt.“
 
Staðfesta gæði hestakjötsins
 
Eva Margrét Jónudóttir.
„Mér finnst mikilvægt að það séu gefnar út þurrar vísindaskýrslur um tilraunir sem einn eða tveir Jónar úti í bæ munu lesa, vegna þess að til þess að geta haldið því fram að hestakjöt sé best í heimi þá þurfa að vera staðreyndir sem sanna það mál. Til þess að það sé hægt að taka mark á þeim þá þurfa þær að vera settar fram fyrst með ákveðnu fræðilegu lagi,“ segir Eva Margrét um tilurð skýrslunnar. Hún hafði áður skrifað lokaverkefni við auðlinda- og umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands um viðhorf íslenskra neytenda gagnvart hrossakjöti og kauphegðun þeirra á slíku kjöti.
 
„Bændur kvarta sáran yfir því að fá lítið greitt fyrir innlegg því afurðirnar séu seldar á uppsprengdu verði en afurðastöðvar kvarta yfir því að slegist sé um bestu bitana en setið uppi með framparta og vinnsluefni sem erfitt sé að losna við. Mér hefur margoft verið sagt að það fáist svo lítið fyrir frampartinn að það stæði ekki undir kostnaði að úrbeina hann og snyrta almennilega heldur borgar sig frekar að selja hann sem ljónafóður í dýragarða í Evrópu á klink. Framtíð folaldakjötsins er björt í Japan því eins og allir vita þá er Asía í framtíðinni og þeir eru búnir að kveikja á perunni hvað gæði hestakjöts varðar. Spurning hvenær við Íslendingar ætlum að gera það. 
 
Ef við erum tilbúin að greiða sama verð fyrir nautalund og hestalund, af hverju erum við þá ekki tilbúin að greiða sama verð fyrir nautahakk og hestahakk?“ spyr Eva Margrét. „Í rauninni væri eðlilegra að folaldakjöt seldist á uppsprengdu verði og þar myndi lögmálið „fyrstir koma, fyrstir fá“ gilda. Þetta er takmörkuð auðlind en staðan er því miður sú að ekki er borin nægileg virðing fyrir hestakjöti almennt og kjötvörur af því tagi ósýnilegar.“
 
Hrossakjöt og folaldakjöt ekki það sama
 
Eva Margrét segir að þörf sé á að breyta því hvernig talað sé um kjöt af hestum. „Hrossakjöt og folaldakjöt eru í eðli sínu mjög ólíkar vörur. Hrossið er grófara, dekkra, feitara og svipar meira til nautakjöts á meðan folaldið er mýkra, ljósara og vöðvaþræðirnir allir mikið fínni. Það á ekki við að tala um hrossakjöt sem hið eiginlega hrossakjöt af 6 vetra eða eldra og svo líka þegar er átt við hrossa- og folaldakjöt. Þess vegna skulum við tala um hestakjöt þegar átt er við bæði en annars hrossa- eða folaldakjöt.  
 
Í síðustu rannsóknum fengum við þrjú folöld sem slátrað var á Hellu 3. desember 2018. Við höfum áður sagt frá meyrnimælingum sem við gerðum í tengslum við þessar rannsóknir þar sem folaldakjötið kom mjög vel út. Þar kom fram að meyrni folaldavöðva breytist þannig lítið frá slátrun; strax á þriðja degi er kjötið meyrt og helst þannig fram á 14. dag og verður enn meyrara með tímanum. Í samanburði við lambakjöt eru vöðvarnir svipað meyrir úr lambi og folaldi á sjöunda degi frá slátrun, þótt á heildina litið sé folaldakjötið örlítið meyrara. Munar þar mest um meyrni hryggvöðva og lunda úr folaldaskrokknum.“
 
Hollustuhluti hestakjötsins
 
Að sögn Evu Margrétar inniheldur hestakjöt hátt hlutfall af Omega-3 fitusýrum sem eru að mestu komnar úr grasi. „Þá er kjötið auðugt af járni, próteinríkt og inniheldur hátt hlutfall af lífsnauðsynlegum amínósýrum. Að auki er það auðugt af B12 vítamíni. Lítill eða enginn munur er milli fituflokka í hlutfalli mettaðra, einómettaðra og fjölómettaðra fitusýra ólíkt því sem gerist hjá jórturdýrum þar sem hlutfall og magn mettaðrar fitu vex mjög mikið með vaxandi fitu. 
 
Þetta þýðir í raun að feitir hestar halda gæðum fitunnar en feit jórturdýr hafa lægra hlutfall af „hollu“ fitunni eftir því sem þau eru feitari. 
 
Samkvæmt landlækni er meðaltal ráðlags dagskammts af B12 fyrir fullorðinn einstakling 2µg. Manneskja sem skorti B12 þyrfti því ekki að neyta nema 2,9 g af folaldalifur eða 120–130 g af folaldakjöti á dag til þess að uppfylla vítamínþörf ráðlags dagskammts.“
 
Skortur á aðgengilegum upplýsingum 
 
Í ályktunum skýrslunnar kemur sem fyrr segir fram að folaldakjöt sé hágæða kjötvara sem ætti að uppfylla allar helstu óskir neytenda hvað varðar gæði, hreinleika og næringargildi. Það er hins vegar tekið fram að mikill skortur sé á frekari efnamælingum á bæði hrossa- og folaldakjöti sem ætti að vera hluti af Ísgem gagnagrunni, en ekki hefur fengist fjármagn til að uppfæra hann eins og þyrfti. 
 
Þar segir enn fremur að helst virðist skorta geymsluþolsrannsóknir, sem myndu ganga út á að lengja geymsluþol til að auðvelda leiðina fyrir sölu á fersku kjöti. „Það á að vera hægt að lengja geymsluþol töluvert með hagræðingu í vinnslu, pökkun og dreifingu en til þess að stilla saman strengi þurfa að vera til staðlaðar leiðbeiningar um þessa hluti. 
 
Þá sé skortur á veflægum upp­lýsingum um hestaafurðir þar sem finna mætti rannsóknir um hestakjöt, næringargildi, eldunarleiðbeiningar, uppskriftir, kjötskurð, eða brot úr sögu hestakjöts, geymsluleiðbeiningar og fleira.
 
Nokkrir punktar um hesta:
  • Hestar hafa mikið betri fóðurnýtingu en til dæmis sauðfé og nautgripir.
  • Hestar losa út minna af gróðurhúsalofttegundum per kg af kjöti samanborið við jórturdýr,  samkvæmt mörgum rannsóknum.
  • Hestum er hægt að beita á allskonar land líkt og blautar mýrar og úthaga sem oft nýtist ekki til annars. Þannig er hægt að koma upp nokkuð sjálfbæru kjötframleiðslukerfi.
  • Íslenski hesturinn er þannig aðlagaður að náttúrunni að ekki þarf að byggja húsakost til þess að framleiða hestakjöt né flytja inn áburð til fóðuröflunar.
  • Hestar geta geymt sum vítamín í fituforða yfir allan veturinn sem þeir fá úr græna grasinu á sumrin.
 

 

Sama sláturhús sektað þrisvar
Fréttir 17. maí 2024

Sama sláturhús sektað þrisvar

Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á sv...

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna
Fréttir 17. maí 2024

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga af rekstri félagsins á árinu 2023 reyndist rúml...

Vorverkum bænda seinkar
Fréttir 16. maí 2024

Vorverkum bænda seinkar

Veturinn sem leið var sá kaldasti frá vetrinum 1998 til 1999, samkvæmt tíðindum ...

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Fréttir 16. maí 2024

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
Fréttir 16. maí 2024

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði

Grunnur undir kornþurrkstöð í Eyjafirði er nú að taka á sig mynd í landi Laugala...

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu
Fréttir 16. maí 2024

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu

Kúabændur á starfssvæði Auðhumlu mega gera ráð fyrir arðgreiðslu frá samstæðunni...

Vetnisknúin skip í smíðum
Fréttir 15. maí 2024

Vetnisknúin skip í smíðum

Smíði er hafin á tveimur vetnis­ skipum á vegum Samskipa. Áætlað er að þeim verð...

Drómasýki í hrossum
Fréttir 13. maí 2024

Drómasýki í hrossum

Drómasýki er vaxandi vandamál í íslenskri hrossarækt. Til stendur að stofna star...