Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Sólblóm – fullkomið gullinsnið
Á faglegum nótum 1. febrúar 2016

Sólblóm – fullkomið gullinsnið

Höfundur: Vilmundur Hansen

Indíánar Norður-Ameríku voru fyrstir til að rækta sólblóm til matar, Spánverjar fluttu þau til Evrópu og ræktuðu sem skrautjurtir. Pétur mikli Rússlandskeisari féll kylliflatur fyrir plöntunni og setti í framkvæmd umfangsmestu ræktunaráætlun síns tíma til að rækta sólblóm. Eitt af dýrustu málverkum sögunnar er af sólblómi.

Sólblóm eru í fimmta sæti, á eftir soja, repju, bómull og jarðhnetum, þeirra plantna sem ræktaðar eru til framleiðslu á matarolíu.

Áætluð heimsframleiðsla á sólblómafræjum ræktunarárið 2014 til 2015 var um 44,5 milljón tonn og ætlað flatarmál ræktunarinnar var rúmir 25 milljón hektarar. Spár gera ráð fyrir því að ræktunin eigi eftir að stóraukast á næstu áratugum til að mæta aukinni eftirspurn eftir sólblómaolíu.

Úkraína framleiðir 11 milljón tonn af sólblómafræjum á ári, Rússland, 10,5, Argentína 3,1, Kína 2,4, Rúmenía 2,2, Búlgaría 1,9, Tyrkland 1,5 og Ungverjaland, Tansanía og Frakkland rúm 1,5 milljón tonn.
Landnotkunin undir sólblómafræjaræktun er mest í Rússlandi, tæpir 6,8 milljón hektarar, og Úkraínu, rúmir 5 milljón hektarar. Ísrael, sem framleiðir ekki nema rétt rúm 12 þúsund kíló á ári, er aftur á móti með bestu meðaluppskeruna á hektara.

Úr fræjunum er aðallega unnin sólblómaolía og var heimsframleiðsla á henni rúm 15 milljón tonn árið 2014 og er því spáð að eftirspurnin verði komin í 60 milljón tonn um miðja þessa öld. Hismið er mest notað sem dýrafóður.

Úkraína framleiddi allra þjóða mest af sólblómaolíu árið 2014, um 4,3 milljón tonn, Rússland, 3,6, lönd Evrópusambandsins 3,1, Argentína rúm ein milljón, Tyrkland 811 þúsund tonn, Kína 455 þúsund tonn, Suður-Afríka 356 þúsund tonn, Pakistan tæp 300 þúsund og Bandaríkin 174 þúsund tonn.

Úkraína er sú þjóð í heiminum sem flytur út mest af sólblómaolíu og koma tæp 60% af allri sólblómaolíu á markað þaðan. Árið 2008 bannaði Evrópusambandið innflutning á sólblómaolíu frá Úkraínu vegna heilbrigðissjónarmiða þar sem kom í ljós að olían var blönduð jarðefna- og vélaolíu. Bannið var ekki afnumið að fullu fyrr en árið 2014.

Indland er það land sem flytur inn mest af sólblómaolíu, 1,5 milljón tonn, lönd Evrópusambandsins samanlagt flytja inn 850 þúsund tonn, Egyptaland 800 þúsund tonn, Tyrkland 750 þúsund og Kína um 400 þúsund tonn.

Grasafræði og ræktun

Innan ættkvíslarinnar Heliantus eru um 70 tegundir sem allar, utan þrjár, eru upprunnar í Norður-Ameríku, undantekningarnar koma frá Suður-Ameríku. Margar tegundir Heliantus eru ræktaðar sem skrautjurtir og ein auk sólblóma til matar, H. tuberosum sem þekktust er sem rótarávöxturinn ætiþistill.


Sólblóm, eða sólfíflar eins og blómið er stundum kallað á íslensku, Helianthus annuus, eru einærar og hraðvaxta plöntur, einn til fjórir metrar hæð. Til er lýsing á rúmlega sjö metra háu sólblómi á Spáni frá 16. öld en hæsta skráða sólblómið samkvæmt heimsmetabók Guinness var 9,17 metrar að hæð og ræktað í Þýskalandi árið 2014.

Stilkur sólblóma er sver, ósléttur og loðinn. Plantan er með öfluga stólparót. Blöðin fölgræn, stakstæð, grófhærð og gróf viðkomu, breiðegg- eða hjartalaga, grófsaxtennt. Allt að 30 sentímetra löng og 20 sentímetra breið.

Villt sólblóm eru oftast margstöngla og bera mörg blóm en tegundir í ræktun yfirleitt með einn stöngul og eitt stórt blóm. Blómkróna er stórt og gul, stöku sinnum rauð eða appelsínugul, og af henni dregur plantan nafn sitt. Það sem í daglegu tali er kallað blóm sólblóma samanstendur af hundruðum eða yfir þúsund einstakra smáblóma sem saman mynda krónuna. Þvermál stærstu sólblóma er allt að 60 sentímetrar. Sé horft á blómin sést að þau raðast í spírallagað form með 137,5° halla út frá miðju krónunnar sem kallast gullinsnið Fibonacci.

Blómin snúast auðveldlega á stönglinum þannig þau horfa alltaf til sólar. Frjóvgast með hjálp býflugna.
Fræin dropalaga, hismið ljós, dögg eða ljós með dökkum röndum. 10 til 15 millimetra löng og 4 millimetra breið. Kjarninn er allt að 50% olía og úr honum er unnin sólblómaolía. Uppskera af fræjum á hektara er 900 til 1.600 kíló eftir aðstæðum en mesta skráða uppskera á hektara er 3.375 kíló.

Í heimkynnum sínum í Norður-Ameríku vaxa villt sólblóm á gresjum og þurrum opnum svæðum eins og vegköntum. Plantan er þolin á hitasveiflur en dafnar best á sólríkum stað í næringarríkum, rökum en vel framræstum og kalkríkum jarðvegi.

Helsta ræktunarbelti sólblóma er frá miðbaug að 55° norðlægrar breiddar eða á svipuðum slóðum og korn. Á suðurhveli dafna þau best í nokkur hundruð metra hæð yfir sjávarmáli.

Í stórræktun er fræjunum sáð 2,5 sentímetra niður í jörðina og með 45 sentímetra millibili. Sólblóm þurfa mikið vatn og mikinn áburð á meðan þau eru í mestum vexti.

Nytjar

Fræ, krónublöð og blómvísar jurtarinnar eru ætir. Bragðið af krónublöðunum og blómvísunum er svipað og af fræjunum en mildara. Gott er að rista fræin á pönnu en krónublöðin og blómvísarnir eru best hrá.

Indíánar Norður-Ameríku voru fyrstir til að nytja sólblóm og aðallega til matar. Í fyrstu var fræjunum safnað í náttúrunni en fornleifar benda til að indíánar hafi hafið ræktun sólblóma fyrir um fjögur þúsund árum. Í máli nokkurra þjóðflokka indíána í vestur hluta N-Ameríku er talað um sólblóm sem fjórðu systurina í ræktun en hinar systurnar eru maís, baunir og grasker.


Fræin voru þurrkuð og mulin í mjöl sem var notað í grauta og brauð.

Hopí-indíánar unnu bláa, svarta, fjólubláa og rauða liti úr sólblómafræjum og notuðu þá til litunar á listmunum og álnavöru og sem líkamslit. Fræ sólblómanna sem indíánarnir ræktuðu voru í ýmsum litum eins og svört, hvít, rauð og hvít með svörtum rákum og því líklegt að hver litur hafi verið unninn úr fræjum með ákveðinn lit.

Úr blöðum og stönglum voru ofnar mottur og körfur.

Seiðkarlar og -konur unnu græðandi smyrsl úr plöntunni. Sólblóm voru hluti af helgihaldi Asteka og Inka í Suður-Ameríku sem tákn sólarinnar. Þau eru tákn Kansasríkis í Bandaríkjunum og Kitakyushu-borgar í Japan og þjóðarblóm Úkraínu.

Þeir fáu sem komust af með hjálp bjarghringja þegar RMS Titanic sökk í jómfrúarferð sinni árið 1912 gátu þakkað sólblóminu lífbjörgina þar sem þurrkuð blöð og stönglar voru notaðir í björgunarhringi á þeim tíma.

Sólblóm eru víða ræktuð sem skrautplöntur í görðum.

Uppskera og vinnsla

Að öllu jöfnu tekur um fjóra mánuði að rækta sólblóm frá fræi þar til að hægt er að vinna olíu úr þeim. Þar sem blómhaus sólblóma er samsettur úr allt að fjögur þúsund smáblómum geta fræin sem myndast á hausnum verið jafnmörg nái öll blómin að frjóvgast og mynda fræ.

Til eru rússnesk yrki sem geta náð fullum þroska á 70 dögum við bestu skilyrði. Við uppskeru er blómhausunum safnað og þeir þurrkaðir áður en fræin eru hrist úr þeim.

Stór hluti sólblóma í dag eru ræktuð vegna fræjanna sem notuð eru til framleiðslu á sólblómaolíu. Við vinnslu er olían annaðhvort kald- eða heitpressuð. Kaldpressuð sólblómaolía er yfirleitt fölgul á litinn og með mildu bragði og lykt og hentar vel til matargerðar og út á salat. Heitpressuð sólblómaolía er aftur á móti rauðgul að lit, bragðsterkari og mest notuð í iðnaði.

Sólblómaolían er notuð sem íblöndunarefni í fjölda matvæla eins og hnetusmjör og smjörlíki auk þess sem hún er notuð sem salatolía og lífdísill. Úr sólblómaolíu er einnig framleidd sápa, sleipiefni og náttúrulegt gúmmí fyrir fólk sem hefur ofnæmi fyrir venjulegu gúmmíi.

Hluti fræjanna eru seld heil og þá oftar en ekki ristuð og sem snakk eða sem gæludýrafóður. Blöð, stönglar, blómhausinn og hismið eftir að kjarninn hefur verið fjarlægður eru notuð sem fóður fyrir búfé.

Sólblóm notuð til að hreinsa jarðveg

Þar sem sólblóm eru þurftarfrek á næringarefni verður fljótlega vart við jarðvegsþreytu séu þau ræktuð ár eftir ár á sama stað. Vegna þessa hafa þau í seinni tíð verið notuð til að draga eiturefni úr jarðvegi og reynst vel við hreinsun á geislavirkum efnum úr jarðvegi eftir kjarnorkuslysin við Chernobyl í Úkraínu og Fukushima í Japan.

Sólblómin hans van Gogh

Á níunda áratug þarsíðustu aldar málaði Vincent van Gogh nokkrar myndir af sólblómum. Myndirnar sýna blómin annaðhvort liggjandi á jörðinni eða í vasa. Van Gogh var þjakaður af þunglyndi á þeim árum og vistaður á geðveikrahæli um tíma og segir sagan að þar hafi hann málað mynd af sólblómi í vasa.

Myndin er 92,1 x 73 sentímetrar á kant og eitt af dýrustu málverkum í heimi í dag. Síðast þegar málverkið skipti um eiganda var verðið rúmir 82 milljón bandaríkjadalir eða 10.655 milljónir íslenskar krónur.

Spánverjar fluttu sólblóm til Evrópu

Spánverjar fluttu fræ sólblóma með sér frá nýja heiminum til gamla heimsins árið 1510. Plantan varð fljótlega vinsæl skrautjurt í vestanverðri Mið- og Suður-Evrópu auk þess sem hún var notuð til lækninga. Árið 1716 var gefið út einkaleyfi í Englandi til að vinna olíu úr fræjunum og á þriðja áratug 19. aldar er framleiðsla á sólblómaolíu orðin að iðnaði.

Árið 1697 lagði Pétur mikli Rússlandskeisari, sem ungur maður, af stað í ferðalag um Evrópu ásamt 260 manna fylgdarliði. Í tvö ár heimsótti Pétur hirðir margra konungsríkja til að kynna sér evrópska menningu og siði. Í Hollandi kynntist Pétur sólblómarækt og segir sagan að hann hafi keypt heilt vagnhlass af fræjum og látið flytja þau til Rússlands.

Í framhaldinu var hrint í framkvæmd fyrstu stóru einræktunaráætluninni í heiminum og sólblóm ræktuð í gríðarlega stórum stíl á hundruðum hektara. Rússneska rétttrúnaðarkirkjan tók þátt í því að auka neyslu á sólblómaolíu í keisaradæmi Péturs með því að undanskilja hana við banni á neyslu matarolíu á föstutímum.

Sólblómin döfnuðu vel í sínum nýju heimkynnum og snemma á 19. öld voru þau ræktuð á tæplega milljón hekturum í Rússlandi þess tíma. Rússar lögðu strax í upphafi mikla áherslu á kynbætur í sólblómarækt og náðu fljótlega að auka uppskeruna umtalsvert. Hversu vel gekk er aðallega að þakka landbúnaðarfræðingnum V. S. Pustovoit sem var ötull sólblómaáhuga- og sólblómakynbótamaður.
Í dag eru Pustovoid-verðlaunin mesti heiður sem nokkur vísindamaður getur fengið fyrir framlag sitt til framfara í sólblómarækt.

Þrátt fyrir að náttúruleg heimkynni sólblóma séu í Norður-Ameríku fluttu rússneskir innflytjendur til Bandaríkjanna og Kanada með sér sólblómafræ til nýju heimkynnanna skömmu fyrir miðja 19. öld. Þau fræ eru undirstaða sólblómaræktunar í Norður-Ameríku í dag. Í bandarískum frælistum frá 1880 eru boðin til sölu sólblómafræ af yrki sem kallast Mammút Rússi. Yrki var reyndar enn í talsverðri ræktun fram á áttunda áratug síðustu aldar.

Stórræktun á sólblómum til framleiðslu á matarolíu hófst í Kanada árið 1930 og var megnið af fræjunum sem sáð var fengið úr görðum rússneskra innflytjenda þar í landi. Árið 1964 skráði kanadíska stjórnin sér einkaleyfi á rússneska yrkinu Peredovik sem á þeim tíma taldist hafa óvenju mikið magn af olíu í fræjunum.

Í dag hefur olíumagnið í fræjunum verið aukið enn frekar með kynbótum og hjálp erfðatækninnar.
Eftirspurn eftir sólblómaolíu í Evrópu jókst mikið á áttunda áratug síðustu aldar vegna aukinna vinsælda jurtaolíu við matargerð.

Sólblóm í garðinn

Best er að sá sólblómum innandyra seint í mars og fram í maí. Fræin spíra á nokkrum dögum á sæmilega hlýjum og vel björtum stað. Sólblóm eru stórar og þurftarmiklar plöntur og þurfa því fljótlega stóran pott og mikið vatn. Um hásumar er ekkert því til fyrirstöðu að hafa sólblóm úti í garði í potti eða beði á sólríkum og skjólsælum stað og helst þarf að veita þeim stuðning.

Hvað hefur áhrif á líðan bænda?
Fréttir 6. desember 2024

Hvað hefur áhrif á líðan bænda?

Valgerður Friðriksdóttir stendur fyrir rafrænni könnun þar sem hún skoðar hefðir...

Lök kornuppskera á landinu
Fréttir 6. desember 2024

Lök kornuppskera á landinu

Samkvæmt bráðabirgðatölum bendir allt til að uppskera af þurru korni sé umtalsve...

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð
Fréttir 5. desember 2024

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð

Ný skýrsla Landbúnaðarháskóla Íslands, þar sem fjögur erlend kúakyn voru borin s...

Skrásetja sögu brautryðjenda
Fréttir 5. desember 2024

Skrásetja sögu brautryðjenda

Sögur brautryðjenda í garðyrkju varpa ljósi á þá miklu þróun sem hefur átt sér s...

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland
Fréttir 5. desember 2024

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland

Eigendur Friðheima, Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir, munu taka við ...

Áfrýjar dómi
Fréttir 5. desember 2024

Áfrýjar dómi

Undanþágur kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum féllu úr gildi með dómi Héraðsdó...

Fuglaflensa á íslensku búi
Fréttir 5. desember 2024

Fuglaflensa á íslensku búi

Á þriðjudaginn greindist fuglaflensa af gerðinni H5N5 á kalkúnabúi Reykjabúsins ...

Mismunur bændum í óhag
Fréttir 5. desember 2024

Mismunur bændum í óhag

Í dag kostar 306 krónur að framleiða lítra af mjólk samkvæmt nýsamþykktum verðla...