Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Hópur á vegum SSNE í kynnisferð í Hamar í Noregi á síðasta ári, þar sem dýraleifar í áhættuflokki 1 eru meðhöndlaðar.
Hópur á vegum SSNE í kynnisferð í Hamar í Noregi á síðasta ári, þar sem dýraleifar í áhættuflokki 1 eru meðhöndlaðar.
Mynd / Aðsendar
Fréttir 14. mars 2024

Söfnunarkerfi fyrir áhættumestu dýraleifarnar

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Vinna er hafin við útfærslu á samræmdu söfnunarkerfi á landsvísu fyrir þær dýraleifar sem teljast vera áhættumestar, í áhættuflokki 1, með tilliti til smithættu frá þeim.

Markmiðið er að koma þessum málum í lögformlegan farveg, með viðeigandi tiltækum úrræðum til förgunar á dýraleifunum, sem að miklu leyti eru urðaðar í dag sem er í trássi við þær evrópsku reglugerðir sem Íslendingar hafa undirgengist. Í þessum áhættuflokki 1 eru meðal annars hræ af jórturdýrum eldri en 12 mánaða.

Verkefnið er sett af stað að frumkvæði matvælaráðuneytisins og umhverfis-, orku- og loftslags- ráðuneytis í samstarfi við Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE). Er það liður í viðbrögðum stjórnvalda við úrskurði EFTA-dómstólsins um að Ísland hafi ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt EES-samningnum hvað varðar meðferð dýraleifanna.

Uppfyllir skilyrði hringrásarhagkerfis

Gert er ráð fyrir að tillögu að samræmdu söfnunarkerfi verði skilað í byrjun sumars og hún unnin í samstarfi við finnska ráðgjafarfyrirtækið GMM með fyrirmyndir frá Finnlandi og Noregi.

Kristín Helga Schiöth.

Verkefnisstjórn verður í höndum Kristínar Helgu Schiöth, sem hefur um nokkurt skeið unnið hjá SSNE að undirbúningi að því að líforkuver rísi í Dysnesi í Eyjafirði sem gæti tekið á móti slíkum áhættuúrgangi. Hún segir að það verkefni snúist um að koma dýraleifum til vinnslu, með efnahagslegum og umhverfislegum ávinningi. „Við höfum lagt áherslu á þessar tilteknu dýraleifar í vinnunni við líforkuverið, ekki síst vegna skorts á löglegum úrræðum fyrir þetta efni, sem samræmast hugmyndafræði hringrásarhagkerfis hér á landi,“ segir Kristín.

Sjálfstætt verkefni

„Verkefnið um söfnunarkerfið er sjálfstætt verkefni þar sem byggt er á þeirri forvinnu og þekkingu sem hefur verið aflað í tengslum við vinnu við undirbúning líforkuversins og leitað til þeirra aðila sem við höfum átt farsælt samstarf með í öðrum verkþáttum.

Verkefnið er þó algerlega sjálfstætt að því leyti að ekki er fyrir fram ákveðið hver verður endastöð efnisins sem á að safna,“ heldur Kristín áfram. „Fyrst og fremst snýst verkefnið um að yfirfæra þá tækni og aðferðafræði sem hefur verið til staðar um langa hríð í nágrannalöndum okkar þannig að henti sem best þeim aðstæðum sem uppi eru á Íslandi og sú vinna sem þegar hefur verið unnin vegna fyrirhugaðs líforkuvers mun nýtast inn í þetta verkefni.“

Hópurinn í kynnisferð á vegum SSNE, haustið 2023, við CAT1-vinnsluna í Honkajoki, Finnlandi.

Dýraleifar hvergi brenndar

Kristín segir að við undirbúningsvinnu líforkuversins hafi verið leitað til GMM, finnsku ráðgjafanna, sem hafa áralanga reynslu af uppsetningu og vinnslu á dýraleifum úr öllum áhættuflokkum – auk vinnslu annars lífræns úrgangs. „Við munum nýta þekktar tæknilausnir, en í nágrannalöndunum hafa hræ verið unnin á þann hátt sem við horfum til í áratugi, og hvergi eru dýraleifar brenndar – enda kostar það mikla orku að brenna blautt efni.

Réttara er að vinna efnið á þann hátt að úr komi orkugjafar; kjötmjöl sem nota má sem orkugjafa í brennslu og hráfita sem nýta má áfram í lífdísilframleiðslu,“ segir hún.

Að sögn Kristínar reka GMM eina vinnslu í Finnlandi sem tekur við dýrahræjum í áhættuflokki 1. „Við höfum einnig kynnt okkur sérstaklega hvernig málum er háttað í Noregi, en þar eru tvær vinnslur fyrir þennan áhættuúrgang sem eru reknar af sama aðilanum, sú sem tekur við miklum meirihluta efnisins er í Hamar og sú minni er í Norður-Noregi og sinnir afskekktari svæðum. Það er margt sem Ísland, Finnland og Noregur eiga sameiginlegt, hvort sem horft er til regluverks eða umhverfisaðstæðna og því rökrétt að horfa til þeirra landa eftir fyrirmyndum.

Finnland og Noregur nota sama hugbúnað þegar kemur að söfnun dýraleifa sem við fengum sérstaka kynningu á í ferðinni okkar út. Með honum er haldið utan um söfnun dýrahræja heim á bæi, samskipti við bændur og skráningu inn í gagnagrunna matvælaeftirlits hvort lands fyrir sig. Kerfið er notendavænt; bændur tilkynna þegar gripur drepst, gefa upp númer hans og innan fárra daga er gripurinn sóttur á fyrir fram ákveðinn stað. Ekki er þörf á að bóndinn sé heima við þegar bíll kemur og sækir gripinn, gefinn er upp fyrir fram ákveðinn staður – gjarnan steypt plan eða viðarpalletta á skuggsælum stað, gripurinn sóttur, skráður í kerfi og tekið heilasýni úr jórturdýrum eldri en 12 mánaða. Sums staðar eru sérstakir kúplar settir yfir hræin, en það er undir hverjum bónda komið hvernig hann vill haga frágangi á hræi þar til það er sótt.“

Dýraleifar eru nú að mestu leyti urðaðar í trássi við evrópska löggjöf. Mynd / ál

Mikilvægt skref

Kristín telur að stórt skref hafi nú verið tekið við að leggja grunn að samræmdu söfnunarkerfi dýraleifa. „Handhafar dýraleifanna bera meginábyrgð á að efnið sé meðhöndlað á réttan hátt, sveitarstjórnum ber að sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir dýraleifarnar – eftir atvikum í samstarfi við aðra, og matvælaráðuneytið ber síðan ábyrgð á skyldum Íslands gagnvart Evrópuregluverkinu. Samkvæmt því ber aðildarríkjum meðal annars skylda til að sjá til þess að viðunandi kerfi sé til staðar sem tryggir að dýrahræjum sé safnað, skráð og flutt i viðunandi úrræði.

Málaflokkurinn hefur um langa hríð verið í ólestri hér á landi og verkefninu kastað á milli eins og heitri kartöflu. Þetta hefur haft sínar afleiðingar og orðið aðkallandi að koma á söfnun dýraleifa sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru. Verkefnið er fyrst og fremst mikilvægt fyrir heilsu dýra og manna og ímynd íslensks landbúnaðar, en er einnig mikilvægt loftslagsmál.

Aðkoma umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins að verkefninu skiptir miklu máli, þar sem losun vegna urðunar dýrahræja er losunar- þáttur sem er á beinni ábyrgð Íslands og hægt að draga úr með söfnun og vinnslu sem samræmist innleiðingu hringrásarhagkerfis. Þannig getur verkefnið stuðlað að loftslagsvænni landbúnaði á Íslandi þegar til lengri tíma er litið og skapað verðmæti úr því sem fer til spillis.

En fyrsta skrefið er að leggja grunn að söfnunarkerfinu og ánægjulegt að sú vinna sé loksins hafin.“

Skylt efni: hringrásarhagkerfið

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...