Sniglarækt sem aukabúgrein
Dagana 26.─27. september var viðburðurinn HönnunarÞing haldinn á Húsavík, þar sem áhersla var á hönnun, nýsköpun og mat. Meðal áhugaverðra dagskrárliða var kynning á verkefni um sniglarækt.
Verkefnið heitir „Sniglarækt, sjálfbær nýting glatvarma“ og hefur það meginmarkmið að kynna og innleiða sniglarækt sem raunhæfan, sjálfbæran og nýskapandi valkost fyrir bændur á Íslandi í leit að aukabúgrein.
Arðbær atvinnugrein í Evrópu
Eimur, sem er samstarfsvettvangur einkaaðila og opinberra aðila með áherslu á sjálfbærni og nýsköpun í atvinnulífi, hlaut styrk úr Lóu nýsköpunarsjóði á dögunum fyrir verkefnið og er það unnið í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins.
Sigurður Líndal, starfsmaður Eims og hugmyndasmiður sniglaverkefnisins, segir að sniglarækt hafi sannað sig sem arðbær atvinnugrein með hátt verðmætasköpunarhlutfall og lítil neikvæð umhverfisáhrif víða í Evrópu.
Sniglar séu eftirsóttir sem lúxusmatvara á alþjóðamarkaði, auk þess sem rannsóknir sýni möguleika á því að afurðir þeirra geti verið nýttar í hágæða próteinfóður fyrir fiskeldi, slím úr þeim er þegar eftirsótt innihaldsefni í snyrtivörur og skeljar þeirra eru muldar og notaðar í áburð.
Sjálfbær hliðarbúgrein fyrir bændur
Að sögn Sigurðar felst verkefnið í að kynna sniglarækt sem sjálfbæra hliðarbúgrein fyrir bændur, byggða á nýtingu glatvarma úr jarðhitavatni. Tilurð verkefnisins megi rekja til greiningar á möguleikum á sjálfbærri nýtingu glatvarma frá hitaveitublæðingum jarðhitaveitna.
Farið verður í fræðsluherferð á Norðurlandi ásamt staðnámi á Írlandi, með áherslu á að skapa verðmæti úr vannýttum auðlindum, bæta nýtingu hliðarstrauma og efla atvinnulíf með nýsköpun í matvælaframleiðslu.
„Sérstaða Íslands sem ómengaðs lands með hreina ímynd skapar góða möguleika á því að búa til virðisaukandi söluvöru sem fellur vel að kröfum nútímaneytenda.
Þörfin sem verkefnið mætir er margþætt: Í fyrsta lagi er um verulega vannýtta auðlind að ræða, þar sem jarðhitavatn sem þegar hefur þjónað tilgangi sínum við húshitun er í hitaveitukerfum í dreifbýli oftast látið renna til spillis án frekari nýtingar, oft eru þetta kallaðar blæðingar og hafa það að markmiði að halda hita á lögninni. Í öðru lagi eru mörg íslensk landbúnaðarhéruð að leita leiða til að fjölga atvinnumöguleikum og auka verðmætasköpun með nýjum og sjálfbærum búgreinum,“ útskýrir Sigurður.
Lífrænn úrgangur sem fóður
Að sögn Sigurðar verða fjórir fræðsluviðburðir haldnir á Norðurlandi, þar sem sérfræðingurinn Peter Monaghan frá írsku sniglaræktinni Inis Escargot mun kynna aðferðir og tækni sem henta íslenskum aðstæðum. Nánari upplýsingar um fundina má finna á vefnum eimur.is.
Á fundunum verður sérstök áhersla lögð á nýtingu glatvarma úr hitaveitulögnum, lífrænan úrgang og annað hráefni sem fellur til á Íslandi sem nýtist mögulega sem fóður fyrir sniglana.
Hagnýtt staðnám í sniglaræktun
Í kjölfar fundaraðarinnar verður hópur sex bænda valinn ásamt fulltrúum úr stoðkerfi landbúnaðar og þeim boðið í hagnýtt staðnám á Írlandi í um eina viku vorið 2026.
Sigurður segir að þar muni þátttakendur kynnast sniglaræktun í reynd, frá uppbyggingu og rekstri sniglabúa til markaðsmála og söluafurða. „Með þessu móti fá þátttakendur djúpa og raunhæfa innsýn sem gerir þeim kleift að taka fyrstu skref í áttina að því að hefja eigin ræktun á Íslandi, og stoðkerfin undirbúin með þau tæki og tól sem þau þarfnast til að geta veitt frumkvöðlum stuðning meðan að greinin slítur barnsskónum.
Á Íslandi fellur verulegt magn af glatvarma frá hitaveitum til spillis, sérstaklega í dreifbýli þar sem hitaveitur leiða heitt vatn, blessunarlega, um hinar strjálu byggðir. Hliðarafurð þessarar hitaveitulagnar í dreifbýli er mikið blæðingavatn sem ekki er hægt að nýta. Með því að nýta þessa auðlind opnast tækifæri til sjálfbærrar ræktunar sem krefst lítillar landnotkunar, hefur afar lágt kolefnisspor og dregur úr sóun mikilvægra auðlinda sem nú eru vannýttar. Við leggjum upp með að yfirfæra erlenda þekkingu á sniglarækt inn í íslenskt samhengi með það að markmiði að skapa nýja og sjálfbæra atvinnugrein fyrir íslenska bændur.“
Sniglasmakk á HönnunarÞingi
Kolfinna María Níelsdóttir, markaðsog nýsköpunarstjóri hjá Eimi, var í teyminu sem eldaði snigla frá írska sniglaræktandanum Inis Escargot ofan í gesti á HönnunarÞingi. Hún segir að fátt hafi vakið meiri athygli á viðburðinum en einmitt sniglasmakkið. „Við framreiddum snigla fyrir um það bil 150–200 gesti, sem gerði stemninguna á svæðinu sérstaklega skemmtilega. HönnunarÞingið, sem í ár var tileinkað mat og skapandi hugmyndum tengdum mat, var því hinn fullkomni vettvangur til að kynna snigla og sniglarækt – ekki bara í fræðilegri umræðu heldur líka með því að gefa fólki tækifæri til að smakka,“ segir hún.
„Það var ótrúlega gaman að sjá viðbrögðin – nær allir gestir HönnunarÞingsins komu við og smökkuðu, margir í fyrsta skipti á ævinni. Svo voru ófáir sem sneru aftur í röðina, sem segir sitt um áhugann. Fólk var bæði forvitið og hissa á því hversu bragðgóðir sniglarnir voru. Við heyrðum marga segja að þeir hefðu aldrei haldið að þeir myndu smakka snigla, hvað þá njóta þess. Sniglarnir kláruðust fljótt, sem undirstrikar að hér er á ferðinni hágæða hráefni sem á heima á bestu veitingastöðum heims. Fyrir okkur var þetta ekki bara kynning á nýrri tegund matvælaræktar heldur líka samtal um sjálfbærni, nýsköpun og fjölbreytileika í íslenskri matarmenningu.“
