Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Þorvaldur H. Þórðarson er framkvæmdastjóri Markaðsstofu Matvælastofnunar.
Þorvaldur H. Þórðarson er framkvæmdastjóri Markaðsstofu Matvælastofnunar.
Mynd / smh
Fréttir 5. janúar 2018

Smitleiðir til landsins eru fjölmargar

Höfundur: smh
Landbúnaðarháskóli Íslands (LbhÍ ) og Bændasamtök Íslands stóðu fyrir opnum fundi í húsakynnum LbhÍ á Hvanneyri í lok nóvember á síðasta ári í kjölfar dóms EFTA-dómstólsins, að íslenskum yfirvöldum væri óheimilt að banna innflutning á fersku kjöti, ferskum eggjum og afurðum úr ógerilsneyddri mjólk. 
 
Sæmundur Sveinsson, rektor LbhÍ, setti fundinn og lagði í setningarræðu sinni áherslu á að fólk hlyti að vera sammála um að æskilegt sé að matvælin séu sem heilnæmust; að hægt væri að treysta því að vara sem keypt sé út úr búð sé heilnæm og góð vara. Hann lagði líka áherslu á varðveislu á verðmætum íslenskum búfjárkynjum, það yrði að taka með inn í umræðuna um efni fundarins.
 
Möguleikarnir í almennum skilyrðum á Íslandi
 
Fyrsta erindið flutti Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og sagt var frá því að hluta til í 23. tölublaði síðasta ár. Hann fór sögulega yfir hvernig Ísland varð aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) árið 1994 og síðan að matvælalöggjöf Evrópusambandsins (ESB) með gildistöku 2010–2011.
 
Sigurður Eyþórsson.
Hann fór yfir innflutningstölur fyrir kjötafurðir og þar mátti sjá að mest er flutt inn af alifugla-, svína- og nautgripakjöti – í þessari röð – og hefur sá innflutningur farið heldur vaxandi á undanförnum misserum. Í lokin ræddi Sigurður um horfurnar og sagði að gæði íslenskra landbúnaðarafurða væru óumdeild og til að styrkja stöðu innlendrar framleiðslu í harðnandi samkeppni væri miðlun upplýsinga lykilatriði; til að mynda um upprunamál, framleiðsluhætti, lyfjanotkun, dýravelferð og aðbúnað starfsfólks. Auka þyrfti meðvitund íslenskra neytenda um stöðu þessara mála á Íslandi. 
 
Íslendingar yrðu að vera á varðbergi vegna aukinnar hættu á sýkingum, ekki síst vegna þeirra ógna sem verðmætum íslenskum bústofnum stafar af innflutningi á fersku kjöti. 
 
Sigurður lagði áherslu á að þótt innflutningur á ógerilsneyddri mjólk verði heimill með dómnum verður markaðssetning ekki leyfð hér á landi, þar sem á Íslandi eru í gildi almenn skilyrði um markaðssetningu á ógerilsneyddum mjólkurvörum. Hann velti því fyrir sér að síðustu möguleikanum á því hvort til staðar séu almenn skilyrði á Íslandi, líkt og gilda um markaðssetningu á ógerilsneyddri mjólk, sem Íslendingar gætu nýtt sér sem mótleik í stöðunni.
 
Eftirlit með dýraafurðum í framleiðsluríkinu
 
Þorvaldur H. Þórðarson er framkvæmdastjóri Markaðsstofu Matvælastofnunar (MAST). Hann flutti erindi um innflutningseftirlit, hlutverk MAST og mismunandi eftirlit eftir uppruna innflutnings. 
 
Þorvaldur H. Þórðarson.
Hann fór fyrst yfir gildandi löggjöf og regluverk á EES, þar sem fram kom að meginreglan sé sú að eftirlit með dýraafurðum sem fluttar eru milli aðildarríkja fer fram í framleiðsluríkinu. Lögbært yfirvald geti hins vegar með óhlutdrægum skyndikönnunum á viðtökustað athugað hvort heilbrigðiskröfum sé fullnægt. Það væri þá á verksviði heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga (HES) að fara í slík eftirlitsverkefni.
 
Varðandi innflutning frá ríkjum utan EES gilda aðrar reglur. Þá kemur það í hlut landamærastöðva að hafa eftirlit, en einnig er stuðst við viðskipta- og rekjanleikakerfið TRACES. Auk þess eru gerðar skjala-, auðkenna- og heilnæmisskoðanir með skynmati og sýnatökum. Í máli Þorvaldar kom fram að sáralítið af kjöti hefur verið flutt inn til Íslands frá ríkjum utan EES. 
 
Ísland ætti að sækja um viðbótarákvæði
 
Ólafur Valsson dýralæknir er annar tveggja höfunda skýrslu sem unnin var fyrir Félag atvinnurekanda um áhættuna við innflutning á fersku kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk til Íslands. Ólafur Oddgeirsson dýralæknir er meðhöfundur hans. Ólafur Valsson greindi meðal annars frá aðferðafræðinni við vinnslu skýrslunnar og efni hennar.  
 
Við skýrslugerðina var stuðst við skýrslur opinberra stofnana og áhrif innflutnings metin samkvæmt EES-löggjöf. Í skýrslunni var lagt upp með að sömu reglur gildi á öllu EES. Viðbótarákvæði fyrir hin Norðurlöndin eru um salmonellu, sem felur það í sér að þau geta krafist viðbótarvottana. Það er gert á þeim grunni að það er viðurkennt að það er betri staða í þessum löndum hvað salmonellusmit varðar en í öðrum löndum. Að sögn Ólafs ætti Ísland að skoða það að fara sömu leið og sækja um sams konar viðbótarákvæði. 
 
Ólafur Valsson dýralæknir.
Aðrar reglur gilda hins vegar um flutning lifandi dýra á milli landa – og sérstaða Íslands að því leyti virt þegar kemur að dýraheilsu. Ólafur ræddi líka um útbreiðslu á sýklalyfjaónæmi og sagði að það geti smitast með margvíslegu móti; þó hefði verið sýnt fram á það í Danmörku að tiltekin baktería á svínabúum (MÓSA) smitast í mannfólk að mestu leyti með beinni snertingu við lifandi dýr. Hann sagði að margt væri vitað um smitleiðir en einnig margt sem ætti ennþá eftir að rannsaka. Hugsanlega væri umhverfið vanmetið og rannsaka þyrfti frekar smitleiðir þar – til dæmis skólp- og frárennslismál. 
 
 
Veik vísindaleg rök fyrir frystiskyldunni
 
Ólafur vék síðan að nokkrum atriðum í efni skýrslu þeirra Ólafs Oddgeirssonar. Eitt þeirra er að frystiskylda hafi lítil ef nokkur áhrif á smitefni sem borist geta með kjöti, nema helst kampýlóbakter – og því séu veik vísindaleg rök fyrir frystiskyldunni. Helstu rökin væru þá helst það svigrúm sem fengist, ef upplýsingar um smit í vörunni kæmu fram á þeim tíma sem frystitíminn stæði yfir. Samanburður við Noreg, sem hefði um árabil fylgt reglum EES – og hefði ekki undanþágu frá innflutningi á lifandi dýrum – gæfi ekki til kynna að ástæða sé til að óttast áðurnefndan innflutning. 
 
Ólafur lagði mikla áherslu á að það færi fram ný áhættugreining á Íslandi um hættuna sem innflutningur, samkvæmt úrskurði EFTA-dómstólsins, hefði í för með sér. Einnig talaði hann um mikilvægi þess að almenningur væri upplýstur um rétta meðferð kjöthráefna til að forðast smit.
 
Smitleiðirnar geta verið fjölmargar
 
Eftir kaffihlé fjallaði Vilhjálmur Svansson, dýralæknir á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum á Keldum, um stöðu dýrasjúkdóma á Íslandi og þá smitsjúkdóma sem geta borist með innfluttum ferskum landbúnaðarafurðum. 
 
Vilhjálmur Svansson dýralæknir.
Hann rakti nokkur dæmi um alvarlega smitsjúkdóma sem bárust með innflutningi – aðallega með sauðfé – og tiltók nokkrar tegundir smitefna sem gætu orðið ógn við íslenska búfjárstofna. Sagði hann stöðu smitsjúkdóma í alifuglum á Íslandi vera einstaka í heiminum; kampýlóbaktersýkingar væru mjög fátíðar og sömuleiðis salmonellusýkingar. 
 
Vilhjálmur sagði að smit úr matvælum bærust í flestum tilvikum um meltingarveg, þótt smitleiðirnar geti í raun verið fjölmargar.
 
Sýklalyfjaónæmi vex og kampýlóbaktersýkingum fjölgar
 
Karl G. Kristinsson.
Karl G. Kristinsson, yfirlæknir  sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans og prófessor við Háskóla Íslands, var síðastur á mælendaskrá. Við greindum frá erindi hans í síðasta blaði, en meginþunginn í því var að hættan á sýklalyfjaónæmi muni vaxa, verði löggjöfin á Íslandi í samræmi við dóm EFTA-dómstólsins, og tíðni kampýlóbaktersýkinga mun stóraukast.  
 
Skökk samkeppnisstaða
 
Í lok fundarins sköpuðust nokkuð líflegar umræður, þar sem gestum var tíðrætt um að vinna þyrfti formlegt áhættumat fyrir þá nýju stöðu sem komin er upp. 
 
Einnig var bent á þá stöðu sem kæmi upp hjá íslenskum bændum, ef þeir þurfa að mæta samkeppnisaðilum sem ekki búa við sömu kröfur. Eiga þeir þá að bera kostnað af eftirliti með salmonellu og kampýlóbakter sjálfir áfram, eða munu þeir gera kröfu um að fylgja fordæmi að utan?
 
Tíðni opinbers eftirlits skal vera reglulegt 
 
Bændablaðið sendi fyrirspurn til MAST og spurði hvernig sýklaeftirliti væri háttað á Íslandi í dag. Í svarinu kemur fram að tíðni opinbers eftirlits skal vera reglulegt og í réttu hlutfalli við áhættu. 
 
Þar kemur einnig fram að MAST skipuleggur eftirlit með súnuvöldum í íslenskum matvælum ásamt því að framfylgja þeim sýnatökum sem bundnar eru í regluverki. 
 
Súnur eru sjúkdómar bæði í mönnum og dýrum
 
Svokallaðar súnur eru sjúkdómar sem geta verið bæði í mönnum og dýrum og einna algengastir súnuvaldar eru salmonella og kampýlóbakter.
 
Í svari MAST segir ennfremur: „Reglulegt eftirlit er haft með Salmonella spp. í svínum og afurðum þeirra og með Salmonella spp. og Campylobacter spp. í alifuglum og afurðum þeirra samkvæmt landsáætlunum um varnir og viðbrögð (LÁVV). Sýni eru tekin frá öðrum dýrum og/eða afurðum þeirra ef upp kemur grunur um smit eða vegna sérstakra eftirlitsverkefna. Eftirlitsverkefni eru framkvæmd reglulega til þess að fá nánari vitneskju um tilvist og útbreiðslu salmonellu, listeríu eða annarra súnuvalda í tilteknum dýrategundum og afurðum þeirra eða öðrum matvælum.
 
Eftirlit með frumframleiðslu grænmetis og ávaxta og matvæla í smásölu er í höndum Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna.
 
Að auki eiga matvælaframleiðslu­fyrirtæki að taka sýni (eftir eðli framleiðslunnar) samkvæmt reglugerð um örverufræðilegar viðmiðanir fyrir matvæli.“
 
Eftirlit með súnuvöldum í erlendum matvælum
 
Eins og fram kemur hér að ofan, í umfjöllun um erindi Þorvaldar H. Þórðarsonar frá Markaðsstofu MAST, þá er sýklaeftirlitið í dýraafurðum í framleiðsluríkinu á Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Í svari MAST segir ennfremur að „áður en aðili hyggst flytja til landsins hrátt kjöt verður hann að sækja um leyfi fyrir innflutningnum og leggja fram gögn um merkingu vörunnar. Síðan þegar kemur að sjálfum innflutningnum felst eftirlit  í að kanna hvort þau skilyrði sem lágu til grundvallar leyfisveitingu séu uppfyllt fyrir viðkomandi vörutegund og frá þeirri starfsstöð sem við á í upprunalandi innan EES. Vottorð vegna greiningar salmonellusýkla eru skoðuð og yfirlýsingar um frystingu. 
 
Hrátt kjöt verður að hafa verið frosið samfellt í a.m.k. 30 sólarhringa fyrir tollafgreiðslu hér á landi. Kröfur um frystingu og salmonelluvottorð byggja á reglum sem settar eru með stoð í lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim  og matvælalögum. Frekara eftirlit og  sýnataka við flutning til landsins  á  hráu kjöti frá ríkjum innan EES byggir á matvælalögum og er einungis heimil ef ofangreind skilyrði eru ekki uppfyllt eða á grundvelli skyndiskoðana vegna rökstudds gruns um að varan sé heilsuspillandi, óhæf til neyslu  eða geti valdið dýrasjúkdómum. Eftirlit og sýnataka á markaði er á höndum  Matvælastofnunar  hjá afurðastöðvum sem stofnunin hefur eftirlit með, en hjá Heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga hjá innflutningsaðilum og afurðastöðvum sem það kann að hafa eftirlit með og ef vara er komin í dreifingu og þar með smásölu.“
 
Þörf á frekari sýnatökum og rannsóknum 
 
MAST var einnig spurð út í hvernig staðan væri á sýklaeftirliti í grænmeti og öðru kjöti en alifugla-, svína- og nautgripakjöti. „Í útgjaldaáætlun Matvæla­stofnunar fyrir árið 2018 kemur fram að það sé mat stofnunarinnar að þörf sé á frekari sýnatökum og rannsóknum í grænmeti, gæludýrum, sauðfé og hrossum, en sauðfé og hross er ekki að finna í ákvörðun EB nr. 2013/652, enda er neysla á því kjöti almennt töluvert minni í öðrum löndum Evrópu en hér á landi. Þá sé einnig nauðsynlegt að taka inn sýnatöku á grænmeti sem er oft og iðulega borðað hrátt á meðan kjöt er almennt eldað,“ segir í svari MAST. 

 

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum
Fréttir 20. júní 2024

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum

Hvítlauksbændurnir í Neðri-Brekku í Dölum fengu nýlega tvo styrki úr Matvælasjóð...

Verðlaunuðu góðan árangur
Fréttir 20. júní 2024

Verðlaunuðu góðan árangur

Tabea Elisabeth Schneider hlaut verðlaun fyrir besta árangur á B.S. prófi þegar ...

Fuglum fækkar vegna óveðurs
Fréttir 20. júní 2024

Fuglum fækkar vegna óveðurs

Samkvæmt fuglatalningu varð algjört hrun í fjölda fugla á Norðausturlandi þegar ...

Óhrædd að takast á við áskoranir
Fréttir 19. júní 2024

Óhrædd að takast á við áskoranir

Tilkynnt var um ráðningu Margrétar Ágústu Sigurðardóttur í starf framkvæmdastjór...

Halla færir út kvíarnar
Fréttir 19. júní 2024

Halla færir út kvíarnar

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjuframleiðandi og eigandi garðyrkjustö...

Sala Búvís stöðvuð
Fréttir 19. júní 2024

Sala Búvís stöðvuð

Samkeppniseftirlitið hefur komið í veg fyrir að Skeljungur kaupi Búvís ehf. þar ...

Heitt vatn óskast
Fréttir 19. júní 2024

Heitt vatn óskast

Bláskógaveita, sem er í eigu sveitarfélagsins Bláskógabyggð, hefur óskað eftir t...

Minni innflutningur og meiri framleiðsla
Fréttir 19. júní 2024

Minni innflutningur og meiri framleiðsla

Um 300 tonn af nautakjöti voru flutt inn á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2024.