Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Í dag eru þeir fáir sem heyja með sláttutætara.
Í dag eru þeir fáir sem heyja með sláttutætara.
Fréttir 19. ágúst 2021

Sláttutætarinn – eins manns heyönn

Höfundur: Bjarni Guðmundsson 

Þegar halla tók á sjötta áratuginn var sláttutætarinn kynntur íslenskum bændum. Hugmyndin að honum mun hafa kviknað fyrir vestan haf. Norrænar búvélasmiðjur, einkum danskar og norskar, gripu hana á lofti og smíðuðu sláttutætara í þúsundavís.

Margir kannast til dæmis við hina dönsku Taarup- og norsku Serigstad-sláttutætara. Á ensku kölluðust þeir flail harvester. „Flail“ merkir þúst, það eldforna handverkfæri – bareflið – sem notað var til þess að þreskja korn.

Í sláttutætaranum er nefnilega þverstæður öxull settur þústum eða spöðum sem tæta eða rífa grasið við sláttinn. Spaðaöxullinn setur af stað mikinn loftstraum um belg og stýristút tætarans sem flytur slægjuna upp í tengivagn. Enn var komin vinnuvél sem byggð var á hinar nýju heimilisdráttarvélar með þrítengis-vökvalyftu og aflúttaki.

Danskir en þó einkum norskir bændur steinlágu fyrir hinu nýja heyskapartæki. Með því mátti slá gras og grænfóður; þá mátti einnig hreinsa burtu rófukál og kartöflugrös fyrir upptöku. En það sem meira var: Með sláttutætaranum gat heyskapurinn orðið eins manns verk. Það kom sér vel á þeim árum er fækka tók í sveitum og æ færra varð um kaupafólk.

Um árabil var sláttutætarinn til dæmis einkennistæki í sveitum Noregs og ekki dró úr vinsældum hans þegar lærifaðir minn og prófessor við norska landbúnaðarháskólann, Kristian Aas, hannaði afar lipran búnað til þess að úða maurasýru í grasið við sláttinn. Norskir fóðurfræðingar höfðu nefnilega sýnt fram á að fátt var betra en maurasýra til þess að beina gerjun í votheyinu á rétta braut.

Í sláttutætaranum er þverstæður öxull settur þústum eða spöðum sem tæta eða rífa grasið við sláttinn.

Hérlendis sló sláttutætarinn ekki í gegn með sama hætti og gerði í nágrannalöndum. Með einni undantekningu þó: Strandamenn tóku honum báðum höndum. Þeir höfðu náð góðu taki á votheysgerð og sláttutætarinn hentaði bústærðum þar sem og veðráttu prýðilega. Í flestum sveitum öðrum réði þurrheysgerðin ríkjum, enda margar ágætlega væddar súgþurrkunarvélum. Og svo var kappið víða lagt á að stækka búin sem örast og þá þótti ýmum afköst sláttutætarans takmörkuð. Ég minnist rannsóknaferðar norður um Strandir sumarið 1976 þar sem bændur sýndu mér vinnubrögð og heyöflunarbúnað sinn: dráttarvél, sláttutætara og heyvagn við tvær þrjár votheysgryfjur gjarnan í halla fast ofan við fjárhúsin. Einfaldari gat heyskapurinn varla orðið.

Að lokum má nefna tilraunir með sláttutætara á Hvanneyri sumarið 1964 gerðar eftir danskri hugmynd: Að slá í þurrk með sláttutætara. Sláttutætt heyið þornaði að vísu afar hratt en þegar kom að því að raka saman heyinu kárnaði gamanið: Tvisvar til þrisvar sinnum meiri dreif lá eftir þar sem slegið var með sláttutætara en þar sem beitt hafði verið venjulegri sláttuvél. Hugmyndin reyndist ekki góð.

Í dag eru þeir fáir sem heyja með sláttutætara.

Bjarni Guðmundsson 

Skylt efni: sláttutæktarinn