Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Skýrsluhald í hrossarækt – Nýjungar
Á faglegum nótum 26. október 2016

Skýrsluhald í hrossarækt – Nýjungar

Höfundur: Þorvaldur Kristjánsson ábyrgðarmaður í hrossarækt thk@rml.is
Skýrsluhald er einn mikilvægasti þáttur búfjárræktar og grunnurinn að öllu kynbótastarfi. Skipulagt skýrslu­hald í hrossarækt var tekið upp árið 1991 með tilkomu tölvukerfisins Fengs þar sem öllum hesteigendum voru sendar afdrifa-, fang- og folaldaskýrslur til árlegrar útfyllingar. 
 
Með tilkomu WorldFengs, þar sem hrossaræktendur gátu gengið frá skýrsluhaldsupplýsingum með rafrænum hætti, var hins vegar hætt að krefjast árlegra skila á þessum upplýsingum með skipulögðum hætti en því er nú hugmyndin að breyta.
 
Hvað skýrsluhald í hrossarækt varðar eru nú í burðarliðnum nokkrar nýjungar sem verða kynntar í þessum pistli. Ein helsta breytingin er sú að nú verða tekin upp árleg skil á skýrsluhaldi í hrossarækt sem allir hesteigendur eiga að framkvæma. Þessi skil munu fara fram í gegnum Heimaréttina í WorldFeng en uppsetningu heimaréttar verður breytt til að auðvelda þessi skil og gera mögulegar frekari skráningar. Það á m.a. við um skráningar á fyljun hryssna sem hryssueigendur eiga nú að framkvæma árlega en það mun vonandi færa okkur verðmætar upplýsingar um frjósemi stofnsins. 
 
Heimaréttinni í WorldFeng er skipt í nokkra flipa sem innihalda mismunandi aðgerðir. Þeir eru Hrossin mín, Fyljanaskráning (Nýtt), Fang- og folaldaskráning (Nýtt), Fargað, Selt, Útflutt, Umráðamaður, Um mig og Skýrsluhaldsskil (Nýtt). Í flipunum Hrossin mín, Fyljanaskráning, Fang- og folaldaskráning og Skýrsluhaldsskil verður hægt að framkvæma aðgerðir og sýsla með hrossin en fliparnir Fargað, Selt, Útflutt, Umráðamaður og Um mig innihalda mismunandi yfirlit.
 
Árleg skil á skýrsluhaldi
 
Nú má segja að eiginleg árleg skil á skýrsluhaldi í hrossarækt hafa ekki verið við lýði til fjölda ára, þar sem eigendur þurfa að gera grein fyrir afdrifum sinna hrossa með skipulögðum hætti. Afleiðingin er sú að tölur um t.d. fjölda lifandi hrossa í landinu eru ekki áreiðanlegar og ekki er hægt að treysta því að allir eigendur hrossa gangi frá skráningum á afdrifum með reglubundum hætti. Markmiðið er að hrossaeigendur gangi frá fullnægjandi skýrsluhaldi í heimarétt WorldFengs árlega og uppfæri upplýsingar um sín hross. Það sem hægt er að uppfæra í flipanum Hrossin mín (og er fyrsti flipinn sem fólk kemur inn í þegar heimaréttin er opnuð) eru m.a. upplýsingar um afdrif (hvort hrossið sé á lífi eða ekki), geldingar og eignarhald. Þetta er fyrsti flipinn sem fólk þarf að fara í gegnum og uppfæra þessar grunnupplýsingar um hvert hross ef á þarf að halda.
 
Upplýsingar um frjósemi stofnsins
 
Nú eru einu upplýsingarnar sem við höfum um frjósemi á formi fyljunarvottorða og stóðhestaskýrslna en þær gefa okkur ekki fullnægjandi yfirlit yfir frjósemi stofnsins, t.d. um fjölda hryssna sem haldið er árlega og árangur þess.
 
Til að ná viðunandi upplýsingum um frjósemi stofnsins á hverjum tíma verður hryssueigendum nú uppálagt að skrá niður árlega hvað þeir gerðu með sínar hryssur: var þeim haldið eða ekki og ef þeim var haldið, undir hvaða hest þær fóru og hver var árangur fyljunarinnar. Þetta verður hægt að gera endurtekið með hverja hryssu innan árs ef hún fór undir fleiri en einn hest og um að gera að skrá allt niður. Þetta verður gert í nýjum flipa í heimarétt sem mun heita Fyljanaskráning. Þar fá hrysseigendur heildarlista yfir sínar hryssur og fara í gegnum hvað var gert með hverja og eina. Með þessu fáum við yfirlit yfir fjölda hryssna sem er haldið árlega og árangur fyljana. Þessar upplýsingar verða í raun ekki opinberar fyrsta kastið en eru til þess að safna upplýsingum fyrir skýrsluhaldið og hryssueigendur. 
 
Þau folöld sem fæðast svo á árinu eru skráð í flipanum Fang- og folaldaskráning. Þar fær notandinn lista yfir þær hryssur sem var haldið árið áður og skráir það sem við á: 1 folald, 2 folöld, Geld, Lét, Dauðfætt folald, Hryssan lést. Ef staðfesting frá stóðhestseiganda liggur fyrir (stóðhestaskýrsla eða fyljunarvottorð) verður hérna einnig hægt að skrá folaldið, þ.e. grunnskrá það í WorldFeng. 
 
Í flipanum Fyljanaskráningar mun einnig koma listi yfir þá stóðhesta sem eru í eigu viðkomandi þar sem fyllast inn sjálfkrafa fyljanaskráningar hryssueiganda (hvort sem hryssan fékk eða ekki). Þessar skráningar getur stóðhestseigandinn staðfest og sé það gert getur hryssueigandinn skráð folaldið að ári í sinni heimarétt (sem er núna bara hægt í heimarétt liggi fyrir stóðhestaskýrsla eða fyljunarvottorð). Einnig mun hérna verða möguleiki fyrir stóðhestseigendur í framtíðinni að fylla út rafrænar stóðhestaskýrslur. 
 
Ástæður förgunar
 
Önnur nýjung sem verður nú tekin upp er að safna upplýsingum um ástæður þess að hross er fellt eða slátrað en þær geta verið margs konar og snert ræktunarstarfið á ýmsan hátt. Þegar gert er grein fyrir afdrifum hvers hests og merkt við fellt eða slátrað, þá koma nú upp valmöguleikar þar sem hægt er að gera grein fyrir ástæðum förgunar, valmöguleikarnir eru:
  • Aldur
  • Kjötframleiðsla
  • Slysfarir 
  • Veikindi
  • Spatt
  • Sköpulagsgalli
  • Vöntun á hæfileikum
  • Geðslagsbrestir
  • Veit ekki
  • Annað (gluggi þar sem hægt er að skrifa inn aðrar ástæður)
 
Nú þegar hross eru send í sláturhús kemur listi frá sláturhúsum um hrossin og skráð í WorldFeng að búið sé að slátra hrossinu. Í þeim tilvikum mun þá koma melding í heimarétt viðkomandi að hann eigi eftir að gera grein fyrir ástæðum slátrunar. Þetta eru áhugaverðar upplýsingar til að taka saman til framtíðar.
 
Skýrsluhaldsskil
 
Þegar notendur eru búnir að fara í gegnum sín hross og skrá viðeigandi afdrif er að endingu farið í flipann Skýrsluhaldsskil. Þar fara hin eiginlegu skil á skýrsluhaldinu fram og verður miðað við að hver og einn skili sinni skýrslu fyrir 20. nóvember ár hvert. Þar birtist yfirlit yfir hrossaeign viðkomandi (öll lifandi hross) og með því að skila skýrslunni er viðkomandi að staðfesta að allar upplýsingar í Heimarétt séu réttar. Til þess að geta skilað skýrslunni er nauðsynlegt að búið sé að gera grein fyrir fyljana- og folaldaskráningu ársins og einnig ástæðum förgunar þeirra hrossa sem búið er að fella/slátra. 
 
Í þessum flipa fá hesteigendur einnig lista yfir þau hross sem búið er að taka DNA-sýni úr en hafa ekki fengið staðfest ætterni. Þetta verður þeim til upplýsingar til að fylgja þeirra vinnslu eftir. 
 
Einnig kemur hér áminning um að skila haustskýrslu í Bústofn en þau skil þarf að framkvæma fyrir 20. nóvember. Matvælastofnun er heimilt að gera talningu á hrossaeign á kostnað eiganda ef haustskýrslu er ekki skilað á tilsettum tíma í Bústofn (Sjá lög um búfjárhald nr. 38/2013). Hesteigendum til hægðarauka sjá þeir nú fjölda hrossa í þeirra eigu þegar gengið er frá haustskýrslu í Bústofni. Þá er líka um að gera að vera búinn að uppfæra allar upplýsingar í WorldFeng því fjöldatölurnar sem birtast í Bústofni byggja á tölum úr WorldFeng á þeim tíma sem gengið er frá haustskýrslu. Rétt er að vekja athygli á því að aðeins eru sóttar upplýsingar um lifandi hross sem viðkomandi er skráður eigandi að í WorldFeng. Engin tenging er við búið (búsnúmer) þar sem þær upplýsingar eru ekki skráðar í WorldFeng. Ef hross eru í eigu fleiri fjölskyldumeðlima þarf að taka tillit til þess við skráningu á haustskýrslu í Bústofni og eru hrossaeigendur hvattir til að leita til dýraeftirlitsmanna Matvælastofnunar, Búnaðarstofu Matvælastofnunar eða ráðgjafa hjá RML til að fá aðstoð við þessa útfyllingu.  
 
Þessar breytingar á skýrsluhaldinu eru gerðar í því augnamiði að safna verðmætum upplýsingum í ræktunarstarfinu og tryggja að WorldFengur gefi okkur á hverjum tíma sem raunsannasta mynd af stofninum. Við vonum að þessi skil á skýrsluhaldinu verði notendum WorldFengs auðveld í framkvæmd, unnin af metnaði og auki þau not sem fólk hefur af sinni heimarétt. 
Hretið seinkar vorverkum
Fréttir 13. júní 2024

Hretið seinkar vorverkum

Óveðrið sem gekk yfir Norður- og Norðausturland á dögunum hafði aðallega þau áhr...

ESA spyr um óvissuatriði breytinga á búvörulögum
Fréttir 13. júní 2024

ESA spyr um óvissuatriði breytinga á búvörulögum

Í byrjun maí sendi ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, erindi til matvælaráðuneytisins þ...

Viðbragðshópur vegna kuldatíðar
Fréttir 13. júní 2024

Viðbragðshópur vegna kuldatíðar

Matvælaráðherra hefur sett á laggirnar viðbragðshóp vegna þeirra erfiðleika sem ...

Bein og langvinn áhrif á búgreinar
Fréttir 13. júní 2024

Bein og langvinn áhrif á búgreinar

Matvælaráðherra stofnaði þann 7. júní sérstakan viðbragðshóp vegna ótíðarinnar á...

Sjálfbærninám á háskólastigi
Fréttir 12. júní 2024

Sjálfbærninám á háskólastigi

Fulltrúar Háskóla Íslands (HÍ) og Hallormsstaðaskóla hafa staðfest samstarfssamn...

Ætla að virkja sólargeisla og senda til jarðarinnar
Fréttir 11. júní 2024

Ætla að virkja sólargeisla og senda til jarðarinnar

Íslenska loftslagsfyrirtækið Transition Labs er komið í samstarf við breska fyri...

Gjaldskráin einfölduð
Fréttir 11. júní 2024

Gjaldskráin einfölduð

Matvælaráðherra hefur undirritað nýja gjaldskrá fyrir eftirlit og önnur gjaldsky...

Staða sníkjuormasýkinga metin
Fréttir 10. júní 2024

Staða sníkjuormasýkinga metin

Kortleggja á stöðu sníkjuormasýkinga hjá íslenskum nautgripum á næstu misserum.