Asparglyttan (Phratora vitellinae) herjar á gulvíði, viðju og ösp. Vestfirðir eru nú eina asparglyttulausa svæði landsins og staðan verst á Suðurlandi.
Asparglyttan (Phratora vitellinae) herjar á gulvíði, viðju og ösp. Vestfirðir eru nú eina asparglyttulausa svæði landsins og staðan verst á Suðurlandi.
Mynd / Wikipedia-Val Ferret
Fréttir 10. október 2025

Skaðvaldar áttu gott sumar

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Skaðvaldar í skógum sóttu í sig veðrið á nýliðnu sumri. Birkiþélufaraldur varð á Héraði og asparglyttan er búin að hasla sér völl í Hallormsstað.

„Í heildina litið er ástand skóga nokkuð gott í ár,“ segja Brynja Hrafnkelsdóttir og Helga Ösp Jónsdóttir, sérfræðingar hjá Landi og skógi. „Það eru ekki bara skaðvaldarnir sem hagnast af svona góðu vori og hlýju, röku sumri, heldur fá plönturnar líka meiri orku til að berjast gegn meindýrum og sjúkdómum,“ segja þær.

Eftir sumarið bar hvað mest á skemmdum af völdum asparglyttu á víðitegundum og ösp, birkikembu og birkiþélu á birki ásamt ryðsveppum á birki, víði og ösp.

Birkið plagað af kembu og þélu

„Í ár var mikið um birkiryð á öllu landinu en það varð mjög áberandi eftir miðjan ágúst þegar birkið tók að gulna vegna þessa ryðsvepps. Birkiryð er mjög misjafnt eftir árum og fer það eftir veðurfari sem var hagstætt í sumar.

Birkikemba og birkiþéla halda áfram að valda skemmdum á birki en þó mismikið eftir landshlutum. Það má segja að alvarlegustu skemmdirnar á birki af völdum birkiþélunnar hafi verið á Héraði í ár en hún er tiltölulega nýkomin á Austurlandið og hefur valdið faraldri þar,“ segja Brynja og Helga. Á Norður- og Vesturlandi haldi birkiþélan áfram að dreifa sér og valdi þar miklu tjóni.

Birkiþéla (Scolioneura betuleti) er tiltölulega nýfundin á Austurlandi og hefur valdið skemmdum á birki á Héraði. Mynd / Wikimedia-Donald Hobern

Asparglytta komin á Austurland

Víðiryð er ryðsveppur sem leggst á víði og naut hann einnig góðs af hagstæðu tíðarfari í sumar þar sem mikið var af víðiryði, sérstaklega á gulvíði, í öllum landshlutum.

„Skemmdir af völdum asparryðs voru í heildina undir meðallagi á landinu í ár, að undanskildu Suðurlandi þar sem talsvert var af asparryði á öspum en þó er það svæðisbundið að einhverju leyti þar sem það hefur verið viðvarandi síðustu ár, t.d. í uppsveitum Árnessýslu,“ segja þær jafnframt.

Einna mest hafi borið á skemmdum á gulvíði, viðju og ösp af völdum asparglyttunnar. „Hún finnst orðið í öllum landshlutum, að undanskildum Vestfjörðum, þar sem hún fannst nú í fyrsta skipti á Austurlandi, bæði á Egilsstöðum og í Hallormsstað. Dreifing hennar þar er enn sem komið er mjög staðbundin svo skemmdir eru ekki miklar fyrir austan,“ segja þær enn fremur.

Faraldur hafi orðið á Vesturlandi og á Norðurlandi hafi asparglytta verið að aukast jafnt og þétt. Staðan sé hins vegar einna verst á Suðurlandi þar sem afleiðingar asparglyttufaraldra undanfarinna ára sjáist vel á gulvíði og viðju og töluvert sé af trjádauða á svæðinu vegna hennar. Að sögn Brynju og Helgu er einnig töluvert um illa farna ösp á Suðurlandi, líklega afleiðingar slæmra aðstæðna undanfarinna ára eins og veðurfarsskemmda, sérstaklega vorkalsins árið 2023, í samspili við endurteknar árlegar skemmdir af völdum asparryðs og asparglyttu.

Aðrar tegundir misvel staddar

Aðeins bar á veðurfarsskemmdum á trjágróðri eftir síðasta vetur, t.d. sviðnun á furu eftir vind- og saltskaða og gulnun eða visnun vegna þurrks í sumar á viðkvæmum trjátegundum.

„Í heildina er lerki að koma ágætlega út en þó ber á skemmdum sem eru afleiðingar veðurfars undanfarinna ára, sérstaklega vorhretsins árið 2023, þar sem töluvert má finna af illa útleiknum eða dauðum lerkiplöntum víðs vegar um landið. Einnig hefur aðeins borið á skemmdum af völdum lerkibarrfellis á lerki á Norður- og Austurlandi. Greni er almennt að koma vel út í ár og lítið um alvarlegar skemmdir, má þá einna helst nefna veðurfarsskemmdir, könguling og greniryð,“ segja þær.

Náttúrulegir óvinir óværunnar

Vesputegund sem lifir á birkiþélu (ekki komið tegundaheiti) heldur áfram að dreifa sér og finnst nú meira og minna í Reykholti í Borgarfirði, suður yfir landið upp í Skaftafell og einnig er hún komin í Eyjafjörðinn. Brynja og Helga segja greinilega sjást að birkið sé aðeins grænna á þeim stöðum þar sem hún er búin að nema land.

„Asparglytta virðist hins vegar ekki eiga marga náttúrulega óvini hérlendis en þó eru þeir einhverjir. Trjónutíta, sem lifir meðal annars á asparglyttueggjum erlendis, heldur áfram að dreifa sér um landið. Einnig hefur borið á því að sveppur sem lifir sníkjulífi á skordýrum hafi verið að leggjast á fullorðnar asparglyttubjöllur sem legið hafa í dvala yfir veturinn,“ segja þær.

Barkarbjalla veldur óvissu

Vorið 2024 fundust barkarbjöllur í fyrsta skipti í íslenskri náttúru. Enn sem komið er hafa þær einungis fundist á grenitrjábolum sem liggja úti í skógi og ekki utan höfuðborgarsvæðisins. Ekki er vitað hvaða afleiðingar þetta muni hafa á greniræktun á Íslandi en stefnt er á að fara í frekari rannsóknir næsta sumar.

Aðspurðar um útlitið fyrir næsta sumar segja þær Brynja og Helga að hitasumman hafi verið frekar há síðasta sumar og muni það líklega stækka suma meindýrastofna með þeim afleiðingum að það geti orðið meira um skemmdir næsta sumar.

„Sem betur fer er ekki mikill trjádauði af völdum skaðvalda enn sem komið er á Íslandi. Undantekningin þar á eru ef til vill afleiðingar ágangs asparglyttu á viðju og gulvíði á þeim svæðum sem hún hefur verið lengst. Einnig hafa nýir skaðvaldar á birki mjög líklega neikvæð áhrif á vöxt og fræframleiðslu þess og áhyggjuefni hvernig birkið bregst við síendurteknum áhrifum þar sem einhver áhrif mismunandi skaðvalda geta náð yfir nær allt vaxtartímabil þess,“ segja þær að lokum.

Leiðir til áburðarsparnaðar í landbúnaði
Fréttir 7. nóvember 2025

Leiðir til áburðarsparnaðar í landbúnaði

Leiðir til áburðarsparnaðar í landbúnaði, sem hluti af nýjum áherslum og forgang...

Dilkakjötsframleiðsla dróst saman um 12%
Fréttir 7. nóvember 2025

Dilkakjötsframleiðsla dróst saman um 12%

Dilkakjötsframleiðsla var 12% minni nú í september en í sama mánuði á síðasta ár...

Togstreita milli ríkja á COP30
Fréttir 7. nóvember 2025

Togstreita milli ríkja á COP30

COP30, þrítugasti aðildarfundur og ráðstefna Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðann...

Mun styrkja félögin verulega
Fréttir 6. nóvember 2025

Mun styrkja félögin verulega

Peder Tuborgh, forstjóri skandinavíska mjólkursamlagsins Arla Foods, segir að me...

Rúmlega þriðjungur skrokkanna rangt flokkaðir
Fréttir 6. nóvember 2025

Rúmlega þriðjungur skrokkanna rangt flokkaðir

Um 36% þeirra skrokka sem lagðir voru inn frá bændum í Arnarholti í Biskupstungu...

Bændasamtökin funda með bændum
Fréttir 6. nóvember 2025

Bændasamtökin funda með bændum

Fundaröð Bændasamtaka Íslands (BÍ) á landsbyggðinni, Við erum öll úr sömu sveit,...

Lagaumhverfi þarf að styrkja
Fréttir 6. nóvember 2025

Lagaumhverfi þarf að styrkja

Laxey, First Water, Samherji fiskeldi, Thor landeldi og Matorka eru fimm stærstu...

Tillaga um að framlengja gildandi búvörusamninga
Fréttir 6. nóvember 2025

Tillaga um að framlengja gildandi búvörusamninga

Á borði Bændasamtaka Íslands er nú tillaga frá stjórnvöldum um að gildandi búvör...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f