Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
STEC er samheiti yfir E. coli bakteríur sem geta myndað eiturefni og valdið sýkingum.
STEC er samheiti yfir E. coli bakteríur sem geta myndað eiturefni og valdið sýkingum.
Fréttir 19. júlí 2018

Sjúkdómsvaldandi bakteríur eru hluti af örveruflóru sauðfjár og nautgripa

Höfundur: Vilmundur Hansen

Komið hefur í ljós að E.coli bakteríur sem geta myndað eiturefni og valdið alvarlegum sýkingum eru hluti af örveruflóru sauðfjár og nautgripa hér á landi. Fyrstu niðurstöður skimunar á vegum Matvælastofnunar benda til að salmonella sé fágæt í svínakjöti á markaði. Hvorki salmonella né kampýlóbakter hafa greinst í kjúklingasýnum í skimununum sem nú standa yfir.

Evrópskar rannsóknir sýna að tíðni ýmissa sjúkdómsvaldandi örvera er að aukast hratt í afurðagefandi dýrum í Evrópu. Þetta er mikið áhyggjuefni þar sem rannsóknir hafa gefið vísbendingu um að slæmar bakteríur geta borist í gegnum afurðir í menn.

Matvælastofnun í samvinnu við Heilbrigðieftirlit sveitarfélaga hóf skimun á sjúkdómsvaldandi örverum í kjöti hér á landi fyrr á þessu ári. Til stendur að skima bæði innlent og innflutt kjöt.

Á árunum 2014 til 2015 vann Kristrún Sigurjónsdóttir MS-verkefni við Háskóla Íslands í samvinnu við Matís, Mast og Heilbrigðiseftirlitið. Tekin voru sýni úr umhverfi, saur nautgripa og sauðfjár og af kjöti og skimað var fyrir afbrigði E. coli baktería, sem geta myndað eiturefni sem kallast STEC. Í ljós kom að gen sjúkdómavaldandi baktería finnast í saur nautgripa og sauðfjár hérlendis. Einnig greindust genin í kjöti og hrámjólk.

Í framhaldi af því þótti ástæða til að skoða nánar tilvist og tíðni STEC í kjöti af nautgripum og sauðfé á markaði þar sem líklegt er að bakterían sé hluti af náttúrulegri örveruflóru íslenskra nautgripa og sauðfjár og svo hafi verið um langt skeið.

Meinvirknigen í lamba- og nautakjöti

Mast hefur lokið skimun á 111 kjötsýnum á markaði, 56 af kindakjöti og 55 af nautagripakjöti. Alls reyndust 23 sýni af kindakjöti og 9 sýni af nautgripakjöti innihalda eitt eða fleiri meinvirknigen og sum einnig bindigenið sem þarf til að sýking geti átt sér stað. 47 sýni af nautagripakjöti voru af íslenskum uppruna og 8 af erlendum uppruna. Eitt sýni af nautgripakjöti með erlendan uppruna innihélt meinvirknigen.

Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir að algeng sjúkdómseinkenni vegna STEC-sýkinga séu niðurgangur en í alvarlegum tilfellum getur sjúkdómurinn leitt til nýrnaskaða. Tíðni alvarlegra sjúkdómstilfella af völdum STEC er lág hér á landi.

Saurbakteríu í meltingarvegi

Svava Liv Edgarsdóttir, fagsviðsstjóri neytendaverndar hjá Matvælastofnun, segir að sýnin sem hafi verið rannsökuð séu tilviljanaúrtök úr verslunum.

„STEC er samheiti yfir E. coli bakteríur sem geta myndað eiturefni og valdið sýkingum. E. coli eru saurbakteríur sem eru náttúrulega til staðar í meltingarvegi dýra og manna og gegna þar ákveðnu hlutverki.

Hluti þessara E. coli baktería mynda eiturefni. Sermisgerðin O157, svokölluð hamborgarabaktería, er best þekkt og mest rannsökuð og þekkt fyrir það að hún getur valdið mjög alvarlegum sýkingum og í verstu tilfellum nýrnabilun og lífshættulegu ástandi.

Undanfarin ár hefur verið farið að skima eftir öðrum sermistýpum en O157 sem valdið hafa alvarlegum sýkingum á borð við nýrnabilun. Eins og O26, O111 og O145.“

Skimað fyrir fimm algengustu sjúkdómsvöldunum

Að sögn Svövu hefur í skimunar­verkefninu sem nú stendur yfir verið skimað fyrir fimm algengustu O-týpunum sem geta valdið sýkingum og athugað hvort þær finnist í kjöti á markaði hér.

„Undanfarin ár hafa sýkingar af þessum völdum verið núll til þrjár á ári og í mörgum tilfellum hafa þær verið raktar til útlanda en einnig er talið að um innlend smit hafi verið að ræða.“

Svava segir að smitleiðir í kjöti séu margar en að í mörgum tilfellum eigi hún sér stað við fláningu eða innanúrtöku sláturdýra ef gripirnir eru ekki nógu hreinir þegar þeir koma inn til slátrunar og ef ekki er gætt fyllsta hreinlætis.

„Til þess að geta myndað eiturefni þurfa O-sermisgerðirnar að hafa í sér svokölluð meinvirknigen. Byrjað er að skima eftir STEC meinvirknigenum, ef þau finnast er bakterían einangruð og reynt að týpugreina hana sem tekst ekki alltaf. Einnig er skimað fyrir ákveðnum bindigenum sem hjálpa bakteríunni að bindast við meltingarveg manna og dýra og auka þannig sýkingahættuna.“

Yfirborðsbaktería

„E. coli er yfirborðsbaktería sem fer ekki inn í kjöt. En sé kjöt hakkað, eins og til dæmis í hamborgara, blandast bakterían í auknum mæli við kjötið.  Við góða eldun drepast bakteríurnar en ekki ef hamborgararnir eru ekki nógu vel eldaðir. Auk þess sem gæta verður að krossmengun úr hráu kjöti í önnur matvæli.“

Skimun á svínakjöti

Fyrstu niðurstöður skimunar benda til að salmonella sé fágæt í svínakjöti á markaði hér á landi.

Í frétt frá Matvælastofnun segir að miklar forvarnir séu viðhafðar hérlendis við eldi og slátrun svína til að koma í veg fyrir að afurðir svínakjöts fari á markað sem síðar meir geta sýkt neytendur af salmonellu. Tekin eru sýni við slátrun til að fylgjast með ástandi afurða og sannreyna fyrirbyggjandi aðgerðir gegn mengun við slátrun.

Tíðni salmonellumengunar við slátrun svína hefur verið lág undanfarin ár, ef undanskilin er snögg aukning á árinu 2009, 11,2%. Síðan hefur tíðnin haldist lág og var 0,5% árið 2017.

Fyrir skömmu sendi Mat-vælastofnun frá sér tilkynningu vegna gruns um salmonellumengun  í spænsku svínakjöti eftir að salmonella greindist í sýni. Kjötið hefur verið innkallað.

Skimun á salmonellu og kampýlóbakter í alifuglakjöti

Hvorki salmonella né kampýlóbakter hafa greinst í kjúklingasýnum í skimununum sem nú standa yfir.

Mikill árangur hefur náðst í baráttu við salmonellu frá síðustu aldamótum. Á árunum 2005–2007 greindist engin salmonella í alifuglum og lengi tókst að halda tíðni smits um eða undir 1%. Árið 2010 jókst tíðni salmonellu talsvert í kjúklingaeldi, en þá þurfti að innkalla 3,6% sláturhópa vegna þess að salmonella greindist í þeim. Síðan þá hefur dregið úr tíðninni og var 0,1% sláturhópa innkallaður árið 2017.

Í dag er krafist vottorða um sýnatöku vegna salmonellu með erlendu kjöti og gerð krafa um að það hafi verið fryst í 30 daga.

Skylt efni: Mast | skimun | E. coli | kjötafurðir

Svínaflensa í Rússlandi
Fréttir 27. september 2022

Svínaflensa í Rússlandi

Afríska svínaflensan greindist á stóru rússnesku svínabúi í lok sumars. ...

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið
Fréttir 30. ágúst 2022

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið

Uppfærslur á verðskrám sláturleyfishafa, vegna sauðfjárslátrunar 2022, halda áfr...

Fjár- og stóðréttir 2022
Fréttir 25. ágúst 2022

Fjár- og stóðréttir 2022

Fjár- og stóðréttir verða nú með hefðbundnum brag, en tvö síðustu haust hafa ver...

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...