Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Íslenska landnámshænan er komin um borð í Bragðörk Slow Food-hreyfingarinnar.
Íslenska landnámshænan er komin um borð í Bragðörk Slow Food-hreyfingarinnar.
Mynd / smh
Fréttir 17. nóvember 2015

Sauðkindin, forystufé og landnámshænan um borð í Bragðörk Slow Food

Höfundur: smh
Stofnun Slow Food um líffræðilegan fjölbreytileika hefur samþykkt umsóknir Slow Food Reykjavík um skráningu á íslensku búfjárkynjunum sauðkindinni, forystufé og landnámshænunni um borð í Bragðörkina (Ark of Taste). 
 
Um þetta var tilkynnt upp úr miðjum októbermánuði síðastliðnum. 
 
Í Bragðörkinni er safnað saman gæðamatvælum sem eru talin búa yfir menningarlegu verðmæti og séu í útrýmingarhættu; til að mynda búfjárkynjum, ávaxta- og grænmetistegundum, ostum, verkuðu kjöt- og fiskmeti og kornafurðum. Um 2.700 skráningar eru nú yfir matvæli í Bragðörkinni og eiga Íslendingar 13 þeirra – flestar Norðurlandanna. Íslenska mjólkurkýrin er í umsóknarferli, en áður hafa eftirfarandi matvæli og búfjárkyn fengið skráningu: íslenska geitin, kæstur hákarl, sólþurrkaður saltfiskur, hjallaverkaður harðfiskur (ýsa), hjallaverkaður harðfiskur (steinbítur), hangikjöt, hveraverkað salt, lúra, magáll og rúllupylsa.
 
Dr. Ólafur Dýrmundsson.
Dr. Ólafur Dýrmundsson, fyrrverandi landsráðunautur Bændasamtaka Íslands, hefur haft veg og vanda af nokkrum umsóknanna. „Hin alþjóðlegu Slow Food-samtök, sem eru ítölsk að uppruna, hafa meðal annars á stefnuskrá sinni að stuðla að viðhaldi og verndun líffræðilegs fjölbreytileika. Þau beita til dæmis þeirri aðferð að veita sérstökum búfjárkynjum viðurkenningu með því að skrá þau og afurðir þeirra í svokallaða Bragðörk. Í framhaldi af henni er hægt að sækja um enn frekari viðurkenningu að uppfylltum frekari skilyrðum og færist þá búfjárkynið í Slow Food Presidia.  Fyrir um áratug fór íslenska geitin, fyrst allra landnámskynjanna, í Bragðörkina og er nýlega samþykkt líka í Presidia. Í sumar var haldið áfram að sækja um viðurkenningu fleiri landnámskynja í Bragðörkina og bárust þau ánægjulegu tíðindi í október að búið væri að taka íslensku sauðkindina, íslenska forystuféð og íslensku landnámshænuna um borð og er þess vænst að íslenska mjólkurkýrin komist einnig fljótlega um borð í Bragðörkina.
 
Ég hef komið við sögu allra umsóknanna, fyrst fyrir geitina í samvinnu við Jóhönnu B. Þorvaldsdóttur á Háafelli fyrir um áratug og síðan á þessu ári fyrir hin kynin ásamt Dominique Plédel Jónsson og fleiri félögum í Íslandsdeild Slow Food,“ segir Ólafur.
 
Ítarlegt umsóknarferli
 
Hann segir að í umsókninni þurfi að gera allítarlega grein fyrir viðkomandi búfjárkyni, uppruna, útlitseiginleikum, afurðaeiginleikum, útbreiðslu, stofnstærð og bæði afurðum og afurðasemi. „Þá þarf að gera grein fyrir stöðu kynsins og afurða þess í landinu, hvort það sé í útrýmingarhættu eða geti lent í henni, til dæmis vegna samkeppni við innflutt búfjárkyn eins og hefur skeð um heim. Þá þarf sá Slow Food-félagi sem leggur fram slíka umsókn að gera grein fyrir persónulegum áhuga á viðkomandi kyni og afurðum þess. Slík greinargerð er sérlega ánægjuleg viðbót við rökstuðning fyrir verndun kynsins og þeim gæðaafurðum sem það gefur af sér,“ segir Ólafur. Hann bætir því við að hugmyndafræði Slow Food að baki bæði Bragðörkinnni og Presidium sé byggð á veigamiklum undirstöðuþáttum sjálfbærrar þróunar, bændum og neytendum til hagsbóta. Hann segir að áður en umsóknirnar voru afgreiddar hafi fulltrúar frá Slow Food á Ítalíu komið til Íslands til að sjá viðkomandi landnámskyn og kynnast afurðunum af eigin raun.
 
Viðurkenningar sem skapa ýmis tækifæri
 
„Það er alþjóðlega viðurkennt að besta leiðin til að varðveita búfjárkyn og erfðaeiginleika þeirra sé að nýta þau til framleiðslu í landbúnaði.  Þessi leið hefur verið farin hér á landi þar sem íslenskir bændur hafa búið við landnámskynin um aldir og hafa viðhaldið mikilli erfðafjölbreytni í þeim öllum og stundað ræktun þeirra flestra til mikilla og góðra afurða.  Þar sem Slow Food tengir verndun erfðaefnis við nýtingu afurða, sem oft og tíðum eru mjög sérstakar eða jafnvel einstakar, geta viðurkenningarnar skapað ýmis tækifæri fyrir framleiðendur slíkra afurða, sérstaklega þegar  neytendur geta keypt slíkar upprunamerktar vörur beint frá býli. Slow Food hvetur eindregið til fjölbreytni og leggur áherslu á staðbundna matarmenningu þar sem sérkennin fá að njóta sín og umfram allt að neytendur geti treyst því að vörurnar séu af tilteknum gæðum. 
 
Ekki eru sett skilyrði um lífræna vottun við framleiðsluna en þó er óheimilt að nota til dæmis fóður með erfðabreyttu hráefni við hana og mikil áhersla er lögð á góða dýravelferð. Þá kemur sér vel hve lítið er notað af lyfjum í íslenskri búfjárframleiðslu eins og greint var vel frá í síðasta Bændablaði. Bændur sem fá viðurkenningar Slow Food fá því kærkomin tækifæri til að auka verðmæti afurða sinna um leið og þeir stuðla að líffræðilegri fjölbreytni, og neytendur fá gæðavörur á sanngjörnu verði. Þar með geta skapast tækifæri á búvörumarkaði til að treysta betur tengsl bænda og neytenda,“ segir Ólafur um hugsanlegan ávinning af þessum skráningum.
 
Hann telur ekki hættu á að skráningarnar geti haft neitt neikvætt í för með sér. „Sú fjölbreytni sem þarna er verið að stuðla að er tvímælalaust til bóta og vegur að einhverju leyti gegn einsleitni í fæðuframboði massaframleiðslunnar í heiminum. Að mínum dómi geta hvorki  bændur né neytendur skaðast á þeirri „grænu“ og umhverfisvænu hugmyndafræði sem einkennir Slow Food-samtökin. Þau eru hreint og beint að stuðla að fæðu- og matvælaöryggi í tengslum við bætta hollustu og matarmenningu,“ segir Ólafur. 
 

3 myndir:

Skylt efni: bragðörkin | Slow Food

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...