Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Sauðfjárbændur vilja banna erfðabreytt fóður
Fréttir 29. ágúst 2016

Sauðfjárbændur vilja banna erfðabreytt fóður

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Í grein sem Bændablaðinu hefur borist frá Landssamtökum sauðfjárbænda er afgerandi krafa um að notkun erfðabreytts fóðurs verði bönnuð á Íslandi.

Er þetta í takt við vaxandi andstöðu víða um heim við ræktun á erfðabreyttum eiturefnaþolnum kornafbrigðum, en þeirri ræktun hefur fylgt óhófleg notkun gróðureyðingarefna og skordýraeiturs. Það er einnig í takt við samþykkta stefnu samtakanna. Þannig var samþykkt á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda, sem haldinn var á Hótel Sögu 7.–8. apríl 2016, að skora á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að banna notkun á erfðabreyttu fóðri í sauðfjárbúskap. Með því hafi íslensk sauðfjárrækt sóknarfæri til að undirstrika sérstöðu sína.

Síðasta vetur gengu samtökin á fund þáverandi landbúnaðarráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar, og óskuðu eftir því að bann yrði sett við erfðabreyttu fóðri í aðbúnaðarreglugerð fyrir sauðfé. Ráðherra tók vel í þá málaleitan og fól embættismönnum sínum að vinna verkið. Bannið hefur ekki enn tekið gildi.

Í fréttaskýringu á blaðsíðu 20–21 er einmitt fjallað um bann Rússa við notkun á erfðabreyttum kornafbrigðum þar í landi. Er afstaða Rússa talin geta orðið fordæmisgefandi, þótt fleiri þjóðir hafi reyndar stigið skref í þessa átt. Greinin frá Landssamtökum sauðfjárbænda er svohljóðandi:

Framsýni íslenskra bænda

„Þökk sé framsýni og staðfestu íslenskra bænda er bannað að nota hormóna eða vaxtarhvetjandi lyf í íslenskum landbúnaði. Notkunin er hins vegar leyfð víða um lönd og í sumum Evrópulöndum keyrir lyfjagjöf algerlega úr hófi fram. Á stórbúum er sýklalyfjum blandað í fóður til að örva vöxt og kemur þá í raun í stað hormóna. Sums staðar er notkunin svo mikil að í óefni stefnir.

Alþjóðleg umhverfisógn

Hættan er margþætt. Þegar lyfjunum er blandað í fóður fer nokkur hluti þeirra út í umhverfið. Fjölónæmar stökkbreyttar bakteríur, sem ekki er hægt að ráða niðurlögum á með hefðbundnum lyfjum, ógna nú lýðheilsu um allan heim og stórauka hættu á óviðráðanlegum farsóttum. Heilbrigðisyfirvöld, læknar og sérfræðingar hafa ítrekað lýst miklum áhyggjum vegna þessarar umhverfisvár.

Strangari reglur hér á landi

Sýklalyf eru í sjálfu sér ekki hættuleg umhverfi eða heilsu ef þau eru nýtt á réttan hátt til að lækna menn eða dýr. Á Íslandi og í lífrænni framleiðslu um allan heim má nota sýklalyf í slíkum tilfellum undir ströngum reglum og eftirliti dýralækna eða samkvæmt opinberu skráningarkerfi. Með skipulagðri sýnatöku er þess vandlega gætt að lyfjaleifar rati ekki í neysluvörur. Þetta á þó ekki við með sama hætti alls staðar, en Ísland, Noregur og Svíþjóð hafa sérstöðu samanborið við flest önnur Evrópuríki.

Innflutt kjöt og vaxtarörvandi lyf

Ekki liggur fyrir með óyggjandi hætti hvort eða hvaða áhrif neysla á afurðum dýra sem alin eru með vaxtarhvetjandi lyfjum hefur á heilsu neytenda. Að minnsta kosti 2/3 af því kjöti sem hingað er flutt kemur frá löndum þar sem lyfjanotkunin á hvert kíló er 20 til 60 sinnum meiri en hérlendis vegna notkunar lyfjanna til vaxtarörvunar. Mikilvægt er því að gangskör verði gerð að því að tekin séu sýni úr öllu kjöti og öðrum dýraafurðum sem fluttar eru hingað til lands.

Erfðabreytt matvæli í mikilli sókn

Ræktun á erfðabreyttum matvælum (GMO) hefur breytt landbúnaði vestan hafs og víða annars staðar á síðustu árum. Fyrstu vörurnar komu í verslanir í Bandaríkjunum árið 1994 og farið var að rækta erfðabreytt hveiti tveimur árum síðar. Nú er svo komið að bróðurpartur korn- og sojauppskeru þar í landi er erfðabreytt. Helstu kostir erfðabreyttu GMO afbrigðanna voru í upphafi taldir mikil uppskera og þol gegn alls kyns plágum. Sérstaklega var þó horft til þols þeirra gegn eitri. Það þýddi að nota mátti stóra eiturskammta til að drepa illgresi og skordýr en nytjaplönturnar lifðu það af.

Eiturefnanotkunin eykst ár frá ári

Undanfarin ár hefur verið deilt um þessar ræktunaraðferðir. Þrátt fyrir að erfðabreyttu GMO afbrigðin þoli eitur betur (t.d. glýfósat) hafa skordýr líka aðlagast eitrinu. Innan við áratug eftir að fyrst var farið að rækta erfðabreytt GMO korn fundust fyrstu aðlöguðu skordýrin sem þola hina miklu eiturefnanotkun sem fylgir þessari ræktun. Svar framleiðenda erfðabreytta útsæðisins var að auka enn eiturnotkunina. Nú er rætt um að taka af bannlista enn öflugri plöntueitur (t.d. Agent Orange) sem úthýst var fyrir hálfri öld vegna hrikalegra umhverfisáhrifa.

Risafyrirtæki fer sínu fram

Þekktasta fyrirtækið í þessari grein eiturefnalandbúnaðar er án efa bandaríska risasamsteypan Monsanto. Fyrirtækið hefur verið sakað um að hneppa bændur nánast í ánauð, en hlutfall útsæðis í rekstri hefur hækkað mikið hjá akuryrkjubændum vestra eftir að erfðabreytt GMO ræktun varð umfangsmikil og kjör þeirra og afkoma versnað að sama skapi. Monsanto og álíka fyrirtæki nýta sér hefðbundnar baráttuaðferðir og hefur m.a. tekist að fá reglur um eiturefnanotkun í bandarískum landbúnaði rýmkaðar töluvert.

Baráttuaðferðir þeirra þykja um margt minna á aðferðir tóbaksrisanna áratugina á undan. Reyndar vinna sömu hagsmunagæsluskrifstofur fyrir fyrirtæki í báðum greinum. 

Erfðabreytt víða bannað

Erfðabreytt ræktun er bönnuð eða verulega takmörkuð mjög víða, þ.m.t. í flestum Evrópuríkjum. Sum ríki banna líka innflutning á erfðabreyttu skepnufóðri. Strax árið 1997 voru settar reglur í Evrópu um að merkja skuli allar vörur með erfðabreyttum innihaldsefnum, hvort sem um er að ræða skepnu­fóður eða matvæli. Sama hefur gilt hér á landi frá því í ársbyrjun 2012. Eftirlit með erfðabreyttu innihaldi matvæla virðist þó haldlítið hér á landi. Samkvæmt rannsókn Neytendasamtakanna og fleiri aðila á bandarískri pakkavöru sem var til sölu í íslenskum verslunum innihéldu 75% eitthvað erfðabreytt. Sýnin voru rannsökuð af óháðri stofnun í Þýskalandi. Ekki kom fram á umbúðum að vörurnar innihéldu erfðabreytt hráefni.

Áhöld um áhrif á heilsu

Monsanto og aðrir framleiðendur erfðabreytta útsæðisins segja að ekki sé hægt að rekja neina sjúkdóma til GMO ræktunarinnar og fulltrúar þeirra hafa sagt að efnin sem notuð eru í þessari tegund eiturefnalandbúnaðar berist ekki í neytendur og valdi skaða. Þetta hefur hins vegar verið mjög umdeilt og árið 2011 fannst eitur í blóði þungaðrar konu í kanadískri rannsókn og talið var mögulegt að það gæti borist í fóstrið. Fréttir af þessu vöktu mikla og harða umræðu um erfðabreyttan mat og erfðabreytt skepnufóður, en hlutdeild þess hefur aukist gríðarlega síðustu ár.

Hrein íslensk fjallalömb

Íslensk fjallalömb fá ekki fóðurbæti eða erfðabreytt fóður og því hægt að fullyrða að í íslensku lambakjöti séu ekki snefilefni frá bandarískum eiturefnalandbúnaði. Íslenskt sauðfé er alið á fjallagróðri, grasi og heyi yfir vetrartímann. Þó fá dýrin stundum tilbúinn fóðurbæti þegar þau eru á húsi. Fyrir rúmu ári sendu Landssamtök sauðfjárbænda öllum söluaðilum fóðurbætis fyrir sauðfé formlegt erindi og óskuðu eftir samstarfi við að útrýma með öllu erfðabreyttu fóðri úr greininni. Sum höfðu þegar hætt innflutningi og sölu á því en önnur lýstu samstarfsvilja við að útrýma með öllu erfðabreyttu fóðri úr greininni."

Skylt efni: Sauðfé | Erfðabreytt

Heitt vatn finnst á Ströndum
Fréttir 1. desember 2023

Heitt vatn finnst á Ströndum

Heitt vatn fannst nýlega við borun á Drangsnesi á Ströndum.

Tímamót í baráttunni gegn riðuveiki
Fréttir 1. desember 2023

Tímamót í baráttunni gegn riðuveiki

Tímamót eru í baráttunni gegn riðuveiki í sauðfé með nýrri nálgun stjórnvalda þa...

Birgðir kindakjöts aldrei minni
Fréttir 1. desember 2023

Birgðir kindakjöts aldrei minni

Birgðir kindakjöts í lok ágústmánaðar hafa aldrei verið minni en á þessu ári.

Samningaviðræðum við Miðfjarðarbændur ekki lokið
Fréttir 30. nóvember 2023

Samningaviðræðum við Miðfjarðarbændur ekki lokið

Í umræðum á Alþingi á mánudaginn um riðuveiki í sauðfé og bætur vegna niðurskurð...

Sala sýklalyfja dregst saman
Fréttir 30. nóvember 2023

Sala sýklalyfja dregst saman

Sala sýklalyfja fyrir búfé og eldisfiska í Evrópu dróst saman um 12,7% milli ára...

Stefnir í að tap verði 525 krónur á kílóið
Fréttir 30. nóvember 2023

Stefnir í að tap verði 525 krónur á kílóið

Í nýlegri skýrslu Ráðgjafar­miðstöðvar land­búnaðarins um rekstrarafkomu nautakj...

Kortlagning ræktunarlands
Fréttir 30. nóvember 2023

Kortlagning ræktunarlands

Gert er ráð fyrir að þings­ályktunar­tillaga um nýja lands­skipulagsstefnu til 1...

Fagstaðlaráð í umhverfis- og loftslagsmálum
Fréttir 27. nóvember 2023

Fagstaðlaráð í umhverfis- og loftslagsmálum

Nýtt fagstaðlaráð hefur verið stofnað undir hatti Staðlaráðs Íslands. Það verður...