Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Árni Brattaberg frá Suðurey í Færeyjum hefur verið að safna ull allt frá árinu 2006. Jóhanna á Akri mátar efnismikla ullarkápu frá Sirri, fyrirtæki Árna.
Árni Brattaberg frá Suðurey í Færeyjum hefur verið að safna ull allt frá árinu 2006. Jóhanna á Akri mátar efnismikla ullarkápu frá Sirri, fyrirtæki Árna.
Mynd / ÓRD
Fréttir 2. desember 2015

Sauðfjár- og ullarráðstefna í Færeyjum

Höfundur: Ólafur Dýrmundsson
Veturinn 2010 hafði samband við mig Helga Tulloch (nú Scot) frá Orkneyjum og óskaði eftir stuðningi mínum við að undirbúa ráðstefnu um sauðfé og ullarnýtingu í löndunum við norðanvert Atlantshaf. 
 
Frumkvæðið hafði Karin Flatöy Svarstad í Noregi. Var ég m.a. beðinn að flytja erindi um íslenska sauðféð og nýtingu sauðfjárafurða hér á landi en ráðstefnan var haldin vorið 2011 á North Ronaldsay sem er nyrsta byggða eyjan í Orkneyjaklasanum.  Á eftir fylgdu svipaðar en fjölmennari ráðstefnur á Hörðalandi í Noregi 2012, í Leirvík á Hjaltlandseyjum 2013, á Blönduósi 2014 og sú 5. í Þórshöfn í Færeyjum nú í september.  Ég var eini Íslendingurinn á þeirri fyrstu en síðan hefur þátttaka héðan verið töluverð og í Færeyjum vorum við átta frá Íslandi.
 
Rík fjárbúskaparhefð í Færeyjum
 
Um 70.000 fjár er sett á vetur í Færeyjum ár hvert og er mest af því af gamla norræna stuttrófustofninum líkt og okkar fé. Víða er beitarálag mikið enda gengur mest af fénu úti með nokkurri fóðrun á vetrum, mest með votheyi, því að mjög torvelt er að þurrka hey á eyjunum. Þarna minna því búskaparhættir enn á þá sem tíðkuðust hér á landi fyrr á tímum.
 
Helsta afurðin er kjöt sem þurrkað er í hjöllum, skerpikjöt, en ullin hefur alltaf verið mikils metin í Færeyjum þótt þar hafi hallað nokkuð undan fæti á seinni árum. 
 
Erfitt að safna ullinni
 
Enn er mikið prjónað og unnið úr ull í Færeyjum en helsta vandamálið er söfnun ullarinnar frá bændum og öðrum fjáreigendum. Ull nýtur ekki neinna stuðningsgreiðslna og verð til bænda er mjög lágt. Því kemur hún illa til skila og er jafnvel brennd.  
 
Árni Brattaberg frá Suðurey hefur t.d. verið að safna ull allt frá 2006, um 10 tonnum á ári, strax eftir rúning í júlí. Hann og kona hans hafa nú aðstöðu í Landbúnaðarsetrinu (Búnaðarstóvan) í Kollafirði á Straumey, skammt  norðan Þórshafnar, þar sem þau flokka ullina, senda síðan til þvottar í Bradford í Englandi og þaðan til vinnslu í Litháen.
 
Bændur fá ekki greitt í peningum heldur í ullarflíkum af ýmsu tagi, allt frá vettlingum og sokkum upp í peysur, sjöl og jakka. En bændurnir vilja frekar fá peninga og urðu miklar og gagnlegar umræður á ráðstefnunni um leiðir til að safna ullinni frá þeim. Þar lýstu þau Gunnar R. Kristjánsson og Jóhanna E. Pálmadóttir frá Akri í Húnaþingi með glöggum hætti frá því söfnunarkerfi sem komið hefur verið upp hér á landi og gæti hugsanlega orðið að einhverju leyti til fyrirmyndar í Færeyjum.
 
Margt fróðlegt að heyra og sjá
 
Á ráðstefnunni, sem bar heitið  „The 5th North Atlantic Native Sheep and Wool Conference 2015“, voru flutt mörg fróðleg erindi frá ýmsum löndum og samhliða voru vel upp settar sýningar með fjölbreyttum munum úr ull, gærum, horni og beini, auk bóka og bæklinga, allt undir sama þaki í Hótel Föroyar þar sem margir hinna 77 þátttakenda bjuggu.
 
Að mínum dómi var framlag félaga minna prýðilegt og Daníel  P. Hansen frá Fræðasetri um forystufé á Svalbarið í Þistilfirði kom vel á framfæri haldgóðum upplýsingum um hið sérstæða íslenska forystufé. Á sýningunum var greinilega töluvert selt.
 
Ull líka notuð í einangrun
 
Á kynnisferðum um Þórshöfn og nokkrar eyjar vorum við heppin með veður, sluppum að mestu við rigningu.
 
Minnisstæð var heimsókn í hinn fornfræga Kirkjubæ. Við sáum víða fé, áberandi margt mislitt og kynntumst búskap á nokkrum stöðum, einkum á Straumey og Austurey. Þar komumst við lengst til norðurs í þorpið Gjá, um Eiðisskarð, sem nú er orðið fámennt.
 
Þá komum við í tvær ullarvinnslur á Austurey,  Navia á Tóftum og  Snælduna á Ströndum sem er gamalgróið fyrirtæki, stofnað 1949. Töluvert er um blöndun innfluttrar fínullar í þá tiltölulega grófu færeysku,  fólk í fjarlægum löndum, svo sem Jórdaníu og Perú, er jafnvel að prjóna fyrir þessi færeysku fyrirtæki, en athygli vakti mikil fjölbreytni varanna. Þarna sáum við m.a. húsaeinangrunarefni úr úrgangsull sem reynist vel en er töluvert dýrara en steinull.
 
Samgöngubætur með fleiri jarðgöngum
 
Færeyjar eru m.a. þekktar fyrir mikla jarðgangagerð sem hafa  stytt vegalengdir verulega og stuðlað að viðhaldi byggðar. Hafa ber í huga að  hinir 50.000 íbúar eyjanna búa fremur dreift og því er nú áformað nýtt átak í jarðgangagerð, m.a. vegna uppgangs í fiskeldi á ýmsum stöðum. Þá fer ferðaþjónusta vaxandi enda er margt að sjá í Færeyjum, 18 að tölu, með sína stórbrotnu náttúru.
Árið 2019 á að ljúka við  7,6 km jarðgöng, að mestu neðansjávar, frá Þórshöfn norður til Skálafjarðar, og síðan 2021 frá Kirkjubæ, sunnan Þórshafnar, yfir til Sandeyjar, 10,5 km, líka að mestu neðansjávar.
 
Næst fundað í Norður-Noregi
 
Ráðstefnan í Þórshöfn tókst vel og Færeyingar tóku prýðilega á móti okkur.
 
Rætt hafði verið um að halda næstu ráðstefnu á Grænlandi eða Suðureyjum (Hebrides). Það getur þó ekki orðið að ári. Frumkvöðullinn Karen greindi því frá þeirri ákvörðun við ráðstefnuslit að stefnt væri að 6. sauðfjár- og ullarráðstefnunni á Lófóteneyju í Norður-Noregi sumarið eða haustið 2016.
 
Dr. Ólafur R. Dýrmundsson
(oldyrm@gmail.com)

6 myndir:

Skylt efni: ullarnýting | ull

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...