Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Frá undirritun Rotterdam-mjólkuryfirlýsingarinnar, „The Dairy Declaration“.
Frá undirritun Rotterdam-mjólkuryfirlýsingarinnar, „The Dairy Declaration“.
Mynd / IDF
Fréttir 10. nóvember 2016

Samfélagslega ábyrgð og sjálfbær þróun aðila í mjólkuriðnaði

Höfundur: Snorri Sigurðsson sns@seges.dk Sviðsstjóri hjá SEGES P/S Danmörku
Hin árlega ráðstefna alþjóða­samtaka aðila í mjólkur­iðnaði, IDF - Inter­national Dairy Feder­ation, var haldin í Rotter­dam í Hollandi um miðjan október. Ráðstefnan var að venju vel sótt en um 1.200 manns frá 64 löndum, m.a. frá Íslandi, sóttu ráðstefnuna til þess að ræða hin margvíslegu sameiginlegu málefni sem tengjast mjólkuriðnaði og mjólkurframleiðslu. 
 
Ráðstefna þessi stendur alla jafna í þrjá daga og samanstendur af mörgum málstofum með ólíkum framsöguerindum auk margra funda nefnda og ráða. Ráðstefnan er eins og áður sagði haldin árlega og flyst á milli aðildarlanda IDF sem standa undir þorra allrar mjólkurframleiðslu heimsins.
 
Rúmlega 800 milljarðar kílóa
 
Mjólkurframleiðsla heimsins hefur aukist verulega undanfarin ár en sé horft til síðasta uppgjörsárs IDF, ársins 2014, þá nam framleiðsla þess árs 802,2 milljörðum kílóa. Litið til heildarframleiðslunnar þá er mjólkurframleiðslan þriðja umfangsmesta framleiðsluafurðin í landbúnaðinum, en sú verðmætasta þegar litið er til heildarveltunnar. Alls stendur mjólkurframleiðsla undir 27% allrar landbúnaðarframleiðslu með búfé.
 
Eykst stöðugt
 
Sé horft aftur til ársins 2000 hefur mjólkurframleiðslan í heiminum aukist um 2,3% að meðaltali ár hvert og er talið að þörfin verið áfram jafn mikil á komandi árum og áratugum, þ.e. að auka þurfi heimsframleiðslu mjólkur um 2–3% á hverju ári til þess að mæta eftirspurninni eftir mjólk og mjólkurvörum. Mest af mjólkurvörum fer til neyslu á heimamörkuðum, þ.e. í þeim löndum þar sem framleiðslan fer fram. Þó eru þónokkur viðskipti með mjólkurvörur á milli landa og vega mjólkurvörur 14% í árlegum heimsviðskiptum með landbúnaðarvörur. Langumfangsmestu viðskiptin eru með ýmiss konar duft sem unnið er úr mjólk og ekki nema 1% mjólkurframleiðslunnar er selt á milli landa sem ferskvörur.
 
Evrópa leiðir
 
Þegar skoðaðar eru framleiðslutölur í heiminum þá skiptist framleiðslan þannig að mjólkurkýrnar standa undir um 83% heimsframleiðslunnar og buffalóar undir um 13%. Ær, geitur og kameldýr reka svo lestina. Sé hins vegar litið til þess hvar mjólkin er framleidd þá stendur Evrópa undir stærstum hluta hennar, eða 33%, þá Asía með 28% með Indland sem langstærsta framleiðslulandið og raunar í heiminum öllum. Þá Norður- og Mið-Ameríka með 18%,  Suður-Ameríka með 11% og Afríka og Eyjaálfa með 5% hver.
 
150 milljón bú í mjólkurframleiðslu
 
Alls er talið að það séu 570 milljón bú í heiminum og að á um fjórðungi þessara búa sé stunduð mjólkurframleiðsla í einhverjum mæli og oft er um blandaðan búskap að ræða. Þannig er t.d. talið að kýr séu á 133 milljónum búa, geitur á 41 milljónum búa, buffalóar á 29 milljónum búa og ær til mjólkurframleiðslu á 19 milljónum búa. Kýrnar eru langflestar þegar horft er til mjólkurframleiðslu heimsins og eru langflest kúabúin með 1–3 kýr og ekki nema 0,3% kúabúa heimsins eru með fleiri en 100 kýr. Meðalfjöldi kúa á hverju búi er því ekki hár en talið er að meðalbúið sé með að jafnaði 2–3 kýr.
Fyrir áhugasama um hin sameigin­legu málefni mjólk­ur­iðnaðarins og mjólkur­fram­leiðslunnar má benda á heimasíðu ráðstefnunnar, www.idfwds2016.com, en þar má fræðast um ýmislegt sem tengist ráðstefnunni svo sem skoða flest erindin sem flutt voru og lesa útdrætti fyrir veggspjöld svo dæmi séu tekin.
 
Einstök yfirlýsing
 
Það sem stóð upp úr á þessari ráðstefnu, að mati greinarhöfundar, var sameiginleg yfirlýsing IDF og FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, um mjólkurframleiðslu og -vinnslu.
Yfirlýsingin sem kallast „The Dairy Declaration“ var undirrituð 19. október og snýst þessi sameiginlega yfirlýsing um samfélagslega ábyrgð og sjálfbæra þróun mjólkurframleiðslunnar svo hún gagnist allri heimsbyggðinni s.s. með því að taka tillit til félagslegra, efnahagslegra, heil­brigðis­legra og umhverfislegra þátta við mjólkurframleiðslu og mjólkurvinnslu. Er þessi yfirlýsing í anda markmiða Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2030 um framangreinda þætti almennt. Um leið undirstrika Sam-einuðu þjóðirnar, með því að koma að þessari yfirlýsingu, hve gríðarlega mikilvæg mjólkurframleiðsla er allri heimsbyggðinni og hve mjólk veitir mikilvæga næringu íbúum heimsins. Með aðkomu IDF að yfirlýsingunni er jafnframt viðurkennt að mjólkurframleiðslan í heiminum í dag er ekki gallalaus og hana þarf að þróa svo mögulegt verði að auka framleiðsluna með sjálfbærum hætti í takt við þarfir framtíðarinnar svo tryggt verði að íbúar heimsins geti treyst á að geta fengið mjólk um ókomna tíð. Yfirlýsingin er svohljóðandi, í snörun greinarhöfundar:
 
„THE DAIRY DECLARATION“
 
Mjólkurframleiðendur og -vinnslu­aðilar eru tilbúnir að takast á við áskorun sjálfbærninnar.
Við, fulltrúar þeirra eins milljarðs íbúa heimsins sem starfa að mjólkurframleiðslu og -vinnslu, sem erum hér saman komnir í Rotterdam á alþjóðaráðstefnu IDF, erum staðráðnir í því að þróa greinina í átt að sjálfbærni til að tryggja víðtæk jákvæð áhrif fyrir íbúa heimsins og jörðina.
 
 Við viðurkennum:
 • Áætlun Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, UN 2030, sem leiðarljós okkar í átt að aukinni sjálfbærni í greininni séð frá félagslegu, umhverfislegu, efnahagslegu og heilsufarslegu sjónarhorni;
 • Mikilvægt hlutverk greinarinnar fyrir fæðuöryggi, til þess að draga úr fátækt, sem  lífsviðurværi og fyrir framþróunarmöguleika fyrir bændafjölskyldur, smábú og hirðingja;
 • Hið mikilvæga framlag greinarinnar fyrir sjálfbæra þróun, þar á meðal:
 • Nauðsynlegt hlutverk mjólkur­vara fyrir fjölbreytt, næringarríkt og hollt mataræði;
 • Ná hagkerfi landanna, tekjur, atvinnu og lífsviðurværi;
 • Grundvallarhlutverkið að hlúa að vistkerfinu, að takast á við umhverfisspjöll og loftslagsbreytingar auk þess að styðja líffræðilega fjölbreytni;
 • Fjölbreytt framleiðslukerfi greinarinnar og notkun ólíkra framleiðsludýra, sem og ólíkar áherslur og forgangsröðun;
 • Þörfina fyrir stöðugar og opnar samræður og sameiginleg átaksverkefni á öllum stigum.
 
Við samþykkjum að:
 • Stuðla sameiginlega að sjálfbærni í greininni og að taka í sameiningu tillit til félagslegra, efnahagslegra, heilsufarslegra og umhverfislegra þátta;
 • Horfa sérstaklega til þarfa fjölskyldubúanna, smábúa og hirðingja;
 • Byggja, innleiða og miðla þekkingu og leiðbeiningum til að auðvelda skilgreiningu og upptöku á sjálfbærri þróun í greininni;
 • Stuðla að uppbyggingu á þekkingu á aðferðum sjálfbærrar þróunar og skapa rétt skilyrði til hennar;
 • Að meta árangurinn og birta upplýsingar um sjálfbærnina;
 • Efla umræðuna á breiðum grunni til þess að auka samstöðuna um verkefnið, að tryggja framfarir og framþróun.
Þó fullsnemmt sé um það að spá, töldu margir af þeim sem að þessari yfirlýsingu komu að líklegt væri að í framtíðinni yrði litið til baka til þessa dags, þ.e. 19. október 2016, sem sögulegs dags fyrir heimsbyggðina alla. Það á auðvitað eftir að koma í ljós en vissulega er hér verið að stíga einkar áhugavert skref.

13 myndir:

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna
Fréttir 13. júní 2022

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna

Nýlega skrifuðu forsvarsmenn Örnu í Bolungarvík og forsvars- menn Reykjavík...

Samdráttur í sölu á fræi
Fréttir 8. júní 2022

Samdráttur í sölu á fræi

Samkvæmt lauslegri könnun Bændablaðsins er búið að flytja inn rúm tvö tonn a...

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu
Fréttir 8. júní 2022

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu

Rúmlega tuttugu íslensk fyrirtæki sem tengjast landbúnaði og matvælaframleiðslu ...

Rafmagnsfjórhjól frá Tékklandi
9. nóvember 2020

Rafmagnsfjórhjól frá Tékklandi

Teppið Tólf ský
17. desember 2019

Teppið Tólf ský

Nautgripir – baulaðu, búkolla
15. febrúar 2016

Nautgripir – baulaðu, búkolla

Styðja nýliða
10. ágúst 2022

Styðja nýliða

Rifs- og sólber
22. ágúst 2014

Rifs- og sólber