Sameinar MAST, Fiskistofu og Verðlagsstofu
Til stendur að sameina Matvælastofnun, Fiskistofu og Verðlagsstofu skiptaverðs. Tilfærsla verður á verkefnum heilbrigðiseftirlita sveitarfélaga, hvað varðar eftirlit með matvælum, til stofnunarinnar.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra áformar að leggja fram á vorþingi 2026 frumvarp þar sem lagt er til að Matvælastofnun, Fiskistofa og Verðlagsstofa skiptaverðs verði sameinaðar í eina stofnun.
Í frétt frá atvinnuvegaráðuneyti segir að frumvarpið geri jafnframt ráð fyrir tilfærslu á verkefnum heilbrigðiseftirlita sveitarfélaga hvað varðar eftirlit með matvælum til stofnunarinnar. Áform frumvarpsins séu í samræmi við áherslur sem birtist í stjórnarsáttmála um einföldun stjórnsýslu, hagræðingu í ríkisrekstri og aukna skilvirkni í samskiptum fyrirtækja og hins opinbera.
„Í fýsileikagreiningu sem unnin var fyrir atvinnuvegaráðuneytið vegna mögulegrar sameiningar Matvælastofnunar, Fiskistofu og Verðlagsstofu skiptaverðs kom fram að fyrrgreindar stofnanir sinna allar opinberu eftirliti á sviði matvæla sem megi samþætta enda mikil líkindi í viðfangsefnum og starfsstöðvar reknar á svipuðum stöðum á landinu. Að auki skapi sameining forsendur fyrir samræmda stefnumótun og framkvæmd í matvælaframleiðslu og fiskveiðum. Jafnframt skapist tækifæri til að bæta þjónustu, draga úr skrifræði og bæta þjónustu við atvinnulífið. Horft er til þess að til verði öflug eftirlitsstofnun á sviði matvælaframleiðslu og fiskveiða þar sem starfsstöðvar verði staðsettar um allt land,“ segir í fregn ráðuneytisins.
Á haustmánuðum kynntu atvinnuvegaráðherra og umhverfis-, orkuog loftslagsmálaráðherra áform um einföldun regluverks, þar sem gert er ráð fyrir að færa eftirlit með matvælaframleiðslu, hollustuháttum og mengunarvörnum til viðeigandi ríkisstofnana. Ráðgert er að matvælaþáttur þess verkefnis verði hluti af fyrrgreindu frumvarpi atvinnuvegaráðherra. Atvinnuvegaráðuneytið og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið munu áfram vinna saman til að tryggja skilvirka og árangursríka tilfærslu frá sveitarfélögunum varðandi mannauðsmál o.fl.
Fyrirhugaðar breytingar hafa þegar verið kynntar starfsmönnum viðkomandi stofnana. Gert er ráð fyrir að ný sameinuð stofnun taki til starfa í janúar 2027.
