Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Rósir og hindarblóm
Á faglegum nótum 4. maí 2015

Rósir og hindarblóm

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Oft er gaman að rifja upp tengsl sögufrægra persóna við þann skrautgróður sem við ræktum í híbýlum og görðum. Sagnfræði af því tagi gefur oftast nýja vídd í ræktunaránægjuna og glæðir áhugann.

Hér verður nú litið til tveggja kvenna sem voru mjög í sviðsljósinu í lok átjándu aldar og vel fram á þá nítjándu. Þær voru mæðgur sem upplifðu allfjölbreytt umrót sögunnar í landi sínu. Oftar en ekki dramatísk og stundum skall hurð nærri hælum þeirra þeim sviptingum. Þetta eru þær mæðgur Jósefína og Hortensa dóttir hennar. Enn í dag eiga þær afkomendur sem ber fyrir í opinberri umfjöllun um kónga og kóngafólk Evrópu. Því þótt að ekki hafi þær verið konungbornar við fæðingu, þá líður litningum þeirra ágætlega í hinu bláa blóði sem rennur um ríkjandi konungsættir álfunnar.

Jósefína fæddist 23. júní 1763 á plantekru foreldra sinna á eldfjallaeynni Martiník í Antilleyjaklasa Karíbahafsins. Á stað sem kallast Þristnes í héraði sem enn er kennt við fjölskyldu hennar og kallast La Pagerie. Fullu nafni hét hún Marie Josėphe Rose Tascher de la Pagerie. Í uppeldinu og af fjölskyldu sinni var hún aldrei kölluð annað en Rose. Kannski hefur það haft sín áhrif á brennandi en óslökkvandi áhuga hennar á rósum þegar á ævi hennar leið. Ekki þótti hún hafa miklar akademískar gáfur og fríðleik hennar var ekki við brugðið. En hún var iðin, fjörug og aðlaðandi í tilsvörum sem framkomu. Og einkar lagin var hún í hannyrðum og smekklegri útsjónarsemi þegar kom að innréttingum og umhverfi mannvistarsvæða. Líklega hefði hún gengið brautir landslagshönnuða og blómaskreyta í LbhÍ ef þær hefðu staðið henni til boða í hennar samtíma.

Góður kvenkostur

Svona kvenkostur stóð víst ekki víða til boða, enda giftist hún ung franska trúnaðargreifanum Alexandre de Beauharnais sem einnig hafði einnig alist upp á þessari frönsku nýlendu og var þrem árum eldri en hún. Alexander var dálítill ævintýramaður og kom víða við. Ævi hans endaði þó í fallöxinni á dögum ógnarstjórnar Robertspierres í Frakklandi hinn 23. júlí 1794. Þá var hann aðeins 34 ára gamall og þar með var líka endi bundinn á 15 ára sambúð hans við Jósefínu. Sú sambúð hafði samt verið farsæl og ávöxtur hennar voru börnin Eugėne, sem er einn af öfum norrænu konungsættarinnar, og Hortensu, sem sagt verður frá hér að neðan. Jósefína slapp naumlega við fallöxina. Því einnig henni hafð verið varpað í fangelsi og var þar þegar bónda hennar var styttur aldur. Og þar beið hún dauða síns. En heppnin var með henni. Robertspierre var handtekinn og úr honum murkað lífið áður en til þess kom. Og því gekk hún úr fangelsinu frí og frjáls fimm dögum eftir fráfall bónda síns. Þá var hún 31 árs. Unga ekkjan hafði nú úr að spila ríflegum arfinum sem eiginmaðurinn skildi eftir sig – og virðist hafa leitað áfallahjálpar hjá ýmsum mektarmönnum hins nýja stjórnkerfis. Svona fyrst á eftir.

Napóleón

En svo hitti hún Napóleón Bónaparte, sem var fjórum árum yngri en hún. Og þá small það. Í mars 1796 voru þau gift eftir stutta trúlofun. Og í þessu nýja lífi fannst Napóleóni fara mun betur á að Rósa hans myndi eftirleiðis aðeins gegna nafninu Jósefína. Þannig kom það til. Um samlíf Napóleóns og Jósefínu hefur margt verið flimtað og flímað. Og víst er um það að ástarbréfin sem Napóleón skrifaði henni meðan hann var í herferðum sínum, myndu varla vera lesin upp í sjónvarpi nema að guli bletturinn efst til hægri yrði settur á skjáinn. En þrátt fyrir fjöruga og margendurtekna tímgunartilburði varð þeim ekki barna auðið. Og ekki bætti úr skák að einhverju sinni varð Jósefína málþola og létti sér þrautina með ungum og laglegum aðstoðarmanni úr hirðliðinu. Ekki var víst mikið meiri alvara á bak við það. En Napóleóni mislíkaði atburðarásin svo að nokkuð sljákkaði í ástarbréfasendingunum eftir þetta. Og þar kom að að ráðgjafar hans lögðu til að hann sliti hjónabandinu og tæki sér konu sem fætt gæti honum erfingja. Því varð það að Napóleón, með hag Frakklands í huga, tilkynnti konu sinni í kvöldverðarboði að þannig yrði þetta að vera. Og með samþykki Jósefínu gekk skilnaðurinn í gegn, með nokkurri viðhöfn, hinn 10. janúar 1810 og tveim mánuðum síðar hafði María-Lovísa, prinsessa frá Austurríki, tekið sæti Jósefínu hvað hjónabandið áhrærði. En satt að segja var Napóleón sjálfur ekkert uppveðraður yfir skiptunum og lét staðgengil sinn mæta fyrir sig við hjónavígsluna. En í fyllingu tímans kom árangur þessa fyrirkomulags í ljós. María-Lovísa stóð við sína plikt og eignaðist son. Enginn efaðist um faðernið. Sonurinn var skírður Napóleon eftir föður sínum, hans saga verður ekki sögð hér.

Rósirnar í Malmaison

En Napóleón hélt samt sem áður tengslum sínum við Jósefínu og lét hana halda keisaradrottningartitli sínum, þótt hún slyppi við þær embættisskyldur sem honum fylgdu. Hann fékk henni vegleg húsakynni í Malmaisonkastala rétt utan við Parísarborg. Og nú fékk Jósefína útrás fyrir rósaástina og skipulagshæfileikana. Þar lét hún gera garð sem enn er við lýði og þangað safnaði hún öllum þeim rósategundum og rósatilbrigðum sem hún frétti af og komst yfir. Þar var í engu sparað, hvorki í garðyrkjumeisturum né innkaupum á rósagersemunum. Napóleóni þótti jafnvel um of og hafði orð á því. En Jósefína fékk samt að fara sínu fram og dró ekkert úr. Og það er því mikið henni að þakka að frá rósunum í Malmaisongarðinum er kominn mikill ættbogi rósa sem prýða garða um allan heim og án hennar gerða værum við fátækari en ella í „rósalegu tilliti“ svo notað sé hagfræðingamál. Ein þeirra Malmaisonrósa sem enn er við lýði er búrbonrósin 'Souvenir de la Malmaison‘.

Óhamingjusöm Hollandsdrottning

En þá er komið að Hortensu, dóttur Jósefínu. Hún fæddist 10. apríl 1783. Ekki mun faðirinn, Alexander de Beauharnais, hafa tekið barninu fagnandi og brigslaði konu sinni, Jósefínu (sem reyndar þá var bara kölluð Rósa), um framhjáhald. En málið settlaðist, svo að ekki kom til skilnaðar. En þegar Jósefína hitti svo hann Napóleón, seinni mann sinn, þá varð hann hrifinn af telpunni og gekk henni í föðurstað, þrettán ára gamalli. Og Hortensa átti eftir að reynast honum betri en enginn þegar dró að sögulokum hans.

Móðirin var metnaðargjörn og hugsaði sitt. Þegar Hortensa varð gjafvaxta lagði Jósefína til að hún giftist yngri bróður Napóleóns, Louis Bónaparte. Þetta þótti henni góð hugmynd og vel til þess fallin að koma litningum sínum inn í genamengi Bónapartana þótt þeim Napóleóni lukkaðist ekki að eignast afkvæmi saman. Og þetta varð úr. Hortensa og Louis voru gefin saman með pomp og prakt á keisaralega vísu í janúarmánuði 1802. Litlu var um það skeytt að Hortensa hafði aðrar áætlanir í huga og varð að gefa hinn eiginlega kærasta sinn upp á bátinn. En hún þekkti skyldur sínar og var öll af vilja gerð að þóknast móður sinni. Og þær mæðgur voru mjög samrýndar og deildu svipuðum áhugamálum. Níu mánuðum eftir brúðkaupið kom til veraldarinnar sonur þeirra Hortensu og Louis. Sá varð skírður Napóleón Karl Bónaparte. Nú þóttist Jósefína hafa öll tromp á hendi og að vegna þessa viðburðar myndi ekkert verða úr hjónaskilnaði þeirra Napóleóns. En það fór á annan veg, eins og rifjað var upp hér að ofan.

Ýmsir atburðir urðu til þess að Napóleón setti Louis bróður sinn sem kóng yfir Hollandi. Þar hafði Napóleón unnið hernaðarsigur og vildi nú gera Holland að leppríki í keisaradæmi sínu. Og auðvitað fór Hortensa með Louis, þótt henni þætti hann leiðinlegur og að hún ætti í erfiðleikum með að fá hann til við sig. Það skrifaði hún í bréfi til bróður síns. Samt varð henni nokkuð ágengt með það, því þeim fæddust þrír synir. Sá yngsti þeirra, Charles Louis, varð síðar Napóleon III Frakkakeisari.

Díönudýrkun þess tíma

Þegar Hortensa var orðin drottning í Hollandi gerði hún allt til að falla hollensku þjóðinni í geð og varð nokkuð ágengt með það eins og allt annað sem hún tók sér fyrir hendur. Hún varð vinsæl og dáð svo að næstum jaðraði við Díönudýrkunina bresku fyrir nokkrum árum. Hún hafði allt til að bera sem til þarf á þeim vettvangi. Og ekki skorti hana skipulagshæfileikana og útsjónarsemina til að rækta almenningstengslin.

Louis maður hennar, sem nú skrifaði nafn sitt upp á hollensku og tók sér konungsnafnið Lodewijk Napoleon var svo sem ekki mikill átakamaður. Og honum rann satt að segja til rifja framkoma bróður síns gagnvart Hollendingum og rétti þeirra. Hann var þess vegna sífellt að nöldra og mögla við stóra bróður og biðja hann nú blessaðan að láta ekki svona við „sína ástsælu þjóð, Hollendinga“. En allt kom fyrir ekki. Napóleon þreyttist á nöldrinu og setti hann af sem kóng árið 1810 eftir fjögurra ára valdatíma. Og nú sá Hortensa engan tilgang í að hanga lengur í þessu tilþrifalitla hjónabandi. Fékk skilnað við Louis, sem hrökklaðist öllum stuðningi sviptur suður til Ítalíu og dró þar fram lífið við lítil efni uns hann geispaði golunni. Þar með lýkur sögu hans.

Áhrifakona í útlegð

En Hortensa sneri aftur til hirðarinnar í París og návista við móður sína í Malmaison. Hún giftist ekki aftur en eignaðist einn son (í lausaleik) til viðbótar með „manninum í lífi sínu“ og átti innihaldsríka og ævintýralega ævi tengda áhrifafólki síns tíma, bæði vestanhafs sem austan. Og ekki spillti það fyrir henni að vera móðir Lúðvíks-Napóleóns, fyrsta forseta Annars Franska Lýðveldisins og síðar sem Napóleón III keisari Annars Franska Keisaraveldisins meðan það ástand varaði. Hún endaði daga sína samt í hálfgerðri útlegð á setri sínu, Arenberg í Thurgau í Sviss, hinn 5. október 1837 aðeins 54 ára gömul. Þá hafði nú hrifning Hollendinga á henni eitthvað dofnað, enda annað kóngahús komið til sögunnar í Konungshöllinni í Amsterdam. En andláts hennar var getið í þrem línum í neðanmálsdálki í helsta dagblaði landsins.

Eftir útúrdúrinn

Og þá kemur að því hvernig Hortensa tengist garðagróðrinum. En einmitt þegar hinn hollenski drottningarljómi stóð sem hæst kom til sögunnar planta austan úr Asíu. Vísindamenn gáfu henni nafnið Hydrangea macrophylla, sem útleggja má „blaðstór drykkjusvoli“. Ekki þótti hollenskum garðyrkjumönnum þetta gott sölunafn svo þeir gripu til þess ráðs að finna plöntunni söluvænlegra heiti til að selja sem mest af henni á blómatorgunum. Og hvað var nærtækara en nafn nýju og vinsælu drottningarinnar? Og þess vegna þekkjum við tegundina Hydrangea macrophylla, og flestar systur hennar, best undir heitinu „hortensía“, þótt einhver hafi þóst bæta um betur með því að kalla hana hindarblóm á íslensku.

Skylt efni: Garðyrkja | ræktun

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032
Fréttir 15. apríl 2024

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032

Í nýrri landsáætlun verður stefnt að því að hverfandi líkur verði að upp komi ri...

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa
Fréttir 15. apríl 2024

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var í Ásgarði Landbúnaðarháskóla Ísla...

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa
Fréttir 12. apríl 2024

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa

Matvælastofnun lagði stjórnvaldssektir á þrjú kúabú á Vesturlandi á dögunum vegn...

Dregur úr kaupvilja
Fréttir 12. apríl 2024

Dregur úr kaupvilja

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun apríl sýna að ja...