Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Framleiðendum og innflytjendum verður skylt að upprunamerkja kjötafurðir af svínum, sauðfé, geitum og alifuglum.
Framleiðendum og innflytjendum verður skylt að upprunamerkja kjötafurðir af svínum, sauðfé, geitum og alifuglum.
Mynd / Odd Stefán
Fréttir 7. október 2016

Reglugerð um upprunamerkingar á kjöti væntanleg frá landbúnaðarráðuneyti

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,  hefur sett fram drög að reglugerð þar sem að framleiðendum og innflytjendum er skylt að upprunamerkja kjötafurðir af svínum, sauðfé, geitum og alifuglum. 
 
Er þetta gert í því augnamiði að tryggja rétt neytenda til að vita frá hvaða landi þær kjötvörur eru sem þeir kaupa. Sambærilegar reglur eru nú þegar í gildi hér á landi um upprunamerkingar á nautakjöti, en hafa verið í gildi varðandi svína-, kinda-, geita- og alifuglakjöt í ESB ríkjunum síðan 2014.
 
Í kjölfar kúariðumálsins svokallaða úti í Evrópu árið 2000 setti Evrópusambandið (ESB) reglur um upprunamerkingar sem síðan voru innleiddar í EES regluverkið sem Ísland er aðili að. Hægt hefur gengið að innleiða þær hér á landi og hafa þær reyndar tekið margvíslegum breytingum hjá ESB síðan.
 
Eigum rétt á að vita hvaðan varan kemur
 
„Það hefur verið mér mikið kappsmál að vinna að bættum upprunamerkingum matvæla frá því ég kom í landbúnaðarráðuneytið. Þessi reglugerð er liður í þeirri vinnu. Við eigum rétt á að vita hvaðan varan kemur sem við neytum,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson í fréttatilkynningu um málið. 
 
Formaður Bændasamtakanna krafðist upprunamerkingar 2014
 
Mikil umræða hefur verið um upprunamerkingar matvöru á undanförnum misserum og árum. Hafa neytendur ítrekað m.a. kvartað yfir skorti á slíkum upplýsingum um uppruna á innfluttu kjöti sem framleitt er við aðstæður sem engin leið er að vita hverjar eru.
 
Í ársbyrjun 2014 krafðist Sindri Sigurgeirsson, formaður Bænda­samtaka Íslands, þess að reglur um upprunamerkingar yrðu teknar upp strax en ekki beðið með það fram í desember eins og þá stóð til. Einnig að þær reglur næðu til merkinga á mjólkurvörum. Skemmst er frá að segja að lítið gerðist í málinu nema það sem gert var að frumkvæði fyrirtækja. Það var þó framkvæmt með mjög mismunandi hætti og án þess að það væri stutt af reglugerð.  
 
ESB reglugerðin virðist taka af öll tvímæli en er ekki virt
 
Samkvæmt lið 2.a í 26. grein reglugerðar ESB nr. 1169/2011, sem innleidd var innan ESB með reglugerð nr. 1294/2014, skal merkja matvæli með upplýsingum um rétt upprunaland eða upprunastað ef skortur á slíkum upplýsingum gæti villt um fyrir neytendum hvað varðar uppruna matvælanna. Þar segir:
„Þetta á einkum við ef upplýsingar sem fylgja matvælunum eða merkingin í heild gefur í skyn að matvælin séu upprunnin í öðru landi eða á öðrum stað. Þá skal taka fram á umbúðum þegar upprunaland eða upprunastaður matvæla er gefinn upp, en uppruni megininnihaldsefnisins er ekki sá sami. Þá skal einnig gefa upp upprunaland eða upprunastað megininnihaldsefnisins eða gefa upp að uppruni þess sé annar.“
 
Eins og margoft hefur komið fram í fréttum virðist verulegur mis­brestur á þessu á umbúðum vöru sem flutt hefur verið til Íslands. Hefur kjúklingakjöt sem pakkað er í Danmörku sérstaklega verið nefnt í því sambandi. Miklir kjötflutningar þvert á landamæri Evrópu hafa líka valdið tortryggni vegna ítrekaðra frétta af misferli og blekkingum þar sem t.d. hrossakjöt hefur verið selt sem nautakjöt í tilbúnum réttum.  
Þá birti Matvælastofnun m.a. á vef sínum í nóvember 2013 að fram hafi komið fullyrðingar um að innflutt kjúklingakjöt væri selt sem ferskt og  í umbúðum íslenskra framleiðenda í verslunum hér á landi. Bent var á í máli MAST að heiti og staðsetning fyrirtækja sem eru ábyrg fyrir vörunni segði ekki til um uppruna hennar.
 
Reglur um lyfjaleifar í matvöru í undirbúningi
 
„Neytendur verða betur upplýstir en það vilja þeir ef marka má könnun sem gerð var 2014 en þar sögðu 83% að það skipti þá máli að vita upprunalandið. Þá setti ég einnig af stað vinnu um hvernig upplýsa megi neytendur um lyfjaleifar í matvöru, vonandi koma fram tillögur um það fljótlega,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson um reglugerðardrögin.
 
Samkvæmt ákvæðum EES samningsins ber að tilkynna reglugerðina til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Berist ekki neikvæð umsögn innan þriggja mánaða getur Ísland látið reglugerðina taka gildi. Miðað við þessar forsendur er reiknað með að reglugerðin taki gildi um miðjan janúarmánuð 2017. Matvælafyrirtæki fá þannig tíma til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að uppfylla kröfur reglugerðarinnar.
 
Skýr krafa neytenda
 
Í könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir SA, SI, SVÞ, SAF, BÍ og NS í júlí 2014 kom fram að rúmlega tveir þriðju landsmanna telja að það sé óásættanlegt að upprunalands hráefnis sé ekki getið á umbúðum unninna matvæla. Dæmi um slíkar afurðir eru innfluttar svínasíður, reyktar og sneiddar niður, t.d. í beikon. Samkvæmt gildandi reglum telst land vera upprunaland ef umtalsverð umbreyting vörunnar hefur þar átt sér stað. Tæpur helmingur telur slíkar merkingar algerlega óásættanlegar og fjórðungur telur þær að litlu leyti ásættanlegar. Aðeins tíundi hver telur skort á upplýsingum vera að mestu eða öllu leyti í lagi.
 
Í skoðanakönnun meðal kjósenda sem birt var í Bændablaðinu í sumar koma fram að 88,3% þeirra töldu að það skipti öllu, mjög miklu eða frekar miklu máli að upplýsingar um uppruna séu á umbúðunum. Þá vilja 82,3% kjósenda fremur íslenskt kjöt en erlent. Einungis 1,2% vildi frekar erlent kjöt. Vandi kjósenda hefur þó verið mikill misbrestur á upprunamerkingum matvælanna. Ný reglugerð mun vonandi taka af öll tvímæli í þessum efnum. 
Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...