Rauntímaupplýsingar um matvælasvik
ESB og EFTA-ríkin hafa vakandi auga með matvælasvikum og halda úti upplýsingavefnum RASFF.
RASFF (Rapid Alert System for Food and Feed) viðvörunarkerfi Evrópusambandsins og EFTAríkjanna fyrir matvæli og fóður birtir á RASFF Window-vefnum stöðugt uppfærðar upplýsingar um matvælasvik. Þau eru býsna algeng og snerta flestar þjóðir heims en engin viðvörun hefur borist vegna Íslands á yfirstandandi ári, hvorki sem tilkynnanda á innfluttri vöru né framleiðanda.
Kennir ýmissa grasa
Sem ný dæmi um matvælasvik má af handahófi nefna sveppaeitur í heslihnetukjörnum frá Georgíu, varnarefnaleifar í sykureplum frá Egyptalandi, listeríu í dönskum silungshrognum og fiskibollum frá Danmörku, listeríu í Cervelaspylsum frá Frakklandi, sveppaeitur í ristuðum pistasíuhnetum frá Tyrklandi og Íran og tvenns konar sveppavarnarefni í hrísgrjónum frá Indlandi.
Þá fundust varnarefnaleifar í fersku grænu chili frá Kambódíu, skordýraeitur í cumin-kryddi frá Indlandi, meinvirkar bakteríur í kjöthakki frá Belgíu, salmonella í kjúklingakjöti frá Úkraínu og nautakjöti frá Lettlandi, snertidýraeyðir (Pýridaben) í grænum baunum frá Kenía, Bacillus circulans-gerlamengun í mjólk frá Þýskalandi og listeríusýking í kjúklingi frá Belgíu.
Vírbútar í gnocchi
Ýmislegt nýlegt og enn framandlegra rekur á fjörur í lista tæplega átján þúsund atriða matvælasvika, allt frá árinu 2012. Þar á meðal antrakínónur úr kassíafræum í mate-te frá Sýrlandi, klórpýrifos í grænum ólífum frá Marokkó, kvikasilfur í sverðfiski frá Spáni, plastagnir í frosnum fiskibollum frá Skandinavíu, litarefnahrúgu í sykurpúðum frá Kína, blýmengun í eldhússigtum frá Indlandi, taugaeitur í fæðubótarefni frá Póllandi, kóleru í marineruðum forelduðum kjúklingaspjótum frá Hollandi og vírbúta í gnocchi frá Serbíu.
Tengslanet Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna um öryggi matvæla og neytendavernd á sér langa sögu en RASFF-leitarvefurinn fyrir almenning var opnaður árið 2009.
Á Íslandi er það Matvælastofnun sem sér um að vakta viðvörunarkerfið og senda tilkynningar, sem þá berast til annarra Evrópuríkja, ef hættulegar vörur finnast hér á markaði.
Sjá nánar á webgate.ec.europa.eu/rasff-window.
