Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Sturtað var fiskhausum við dyr Alþingishússins til að mótmæla
stöðvun strandveiða.
Sturtað var fiskhausum við dyr Alþingishússins til að mótmæla stöðvun strandveiða.
Mynd / Skjáskot
Fréttir 21. júlí 2023

Ráðherra ekki haggað

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Smábátasjómenn höfðu ekki erindi sem erfiði þrátt fyrir mótmæli þeirra við stöðvun strandveiða 12. júlí.

Trillukarlar söfnuðust saman á Austurvelli 15. júlí í tilraun til að fá ákvörðun um stöðvun strandveiða hnekkt. Krafðist fundurinn þess að ríkisstjórnin brygðist við „tilhæfulausu banni við strandveiðum“ og mótmælti harðlega „fullyrðingum matvælaráðherra að öllum veiðiheimildum hafi verið ráðstafað á sama tíma og miðin allt í kringum landið eru yfirfull af þorski“. Sagði í ályktun að gríðarlegir hagsmunir væru í húfi „þar sem bann við strandveiðum sviptir eitt þúsund manns atvinnu sinni og snertir því um þrjú þúsund fjölskyldur um land allt. Ákvörðun um bann hefur því að engu eitt af meginmarkmiðum laga um stjórn fiskveiða að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu.“ Krafist var 4.000 tonna aukningar á strandveiðikvótanum.

Matvælaráðuneytið birti fyrr í mánuðinum reglugerð í Stjórnartíðindum um breytingu á reglugerð um strandveiðar. Þar er kveðið á um að Fiskistofa skuli fella úr gildi leyfi til strandveiða, frá sama tíma og strandveiðar eru stöðvaðar með auglýsingu í Stjórnartíðindum.

Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða leysa smábátasjómenn út strandveiðileyfi sem gilda á til ágústloka, 48 róðrardaga, 12 daga í hverjum mánuði, á tímabilinu maí til ágúst. Fiskistofa ákvað að stöðva strandveiðar 12. júlí á grundvelli þess að sýnt þætti að leyfilegum heildarafla yrði náð að loknum veiðum þann dag. Þrátt fyrir mótmæli Landssambands smábátaeigenda, LS, mátu Fiskistofa og matvælaráðuneytið það svo að afli yrði það nálægt hámarkinu að ekki væri forsvaranlegt að bæta við degi.

LS fór fram á að aflaviðmið yrði hækkað um 4.000 tonn en við því var ekki orðið. Í áskorun stjórnar LS til matvælaráðherra var vísað til mikilvægis strandveiða og áhuga á þeim. Eigi það jafnt við um sjómenn, fiskkaupendur, vinnsluaðila og eftirspurn frá mörkuðum. „Stjórn LS vekur athygli ráðherra á að veiðiheimildir til VS-afla [afli sem landaður er utan aflamarks þess skips sem veiðir aflann og rennur andvirði aflans í Verkefnasjóð sjávarútvegs./ Innsk.blm.] í þorski hafa ekki verið fullnýttar á undanförnum árum og verða það ekki á yfirstandandi fiskveiðiári. Strandveiðar til ágústloka leiða því ekki til þess að afli verði umfram það sem ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar kveður á um.“ ... „Stjórn LS minnir á að samkvæmt ákvæði laga um stjórn fiskveiða er hverju skipi heimilt að stunda strandveiðar í 12 veiðidaga innan hvers mánaðar mánuðina maí, júní, júlí og ágúst. Jafnframt að „Á hverju fiskveiðiári er ráðherra heimilt að ráðstafa aflamagni í óslægðum botnfiski skv. 5. mgr. 8. gr. sem nýtt skal til veiða með handfærum á tímabilinu frá 1. maí til 31. ágúst samkvæmt sérstökum leyfum Fiskistofu. Aflamagn sem tiltekið er í reglugerð sem ráðherra getur breytt. Með skírskotun til þessa er það óásættanlegt að strandveiðar standi einungis yfir í hluta tímabilsins.“ segir í áskorun LS til stjórnvalda.

Gjörningur var framinn við Alþingishúsið aðfaranótt 12. júlí til að mótmæla stöðvun strandveiðanna. Sturtaði Guðlaugur Jónasson handfærasjómaður þá fiskhausum framan við aðaldyr þinghússins og stillti upp skilti, undirritað af „Handfærasjómönnum Íslands“, þar sem kostir strandveiða voru tíundaðir. Svo sem að veiðarnar séu umhverfisvænstu fiskveiðar sem Íslendingar stundi, 700 manns missi atvinnuna, um sé að ræða brot á úrskurði mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og kolefnisspor strandveiða sé 500 sinnum minna en kolefnisspor veiða sem stundaðar eru með botntrollum. Minnt er á að smábátaveiðar og sauðkindin hafi gert Ísland byggilegt og spurt hvort stjórnvöldum standi á sama um umhverfismál og komandi kynslóðir.

– Sjá nánar á síðu 16. í nýjasta tölublaði Bændablaðsins

Skylt efni: strandveiði

Sama sláturhús sektað þrisvar
Fréttir 17. maí 2024

Sama sláturhús sektað þrisvar

Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á sv...

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna
Fréttir 17. maí 2024

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga af rekstri félagsins á árinu 2023 reyndist rúml...

Vorverkum bænda seinkar
Fréttir 16. maí 2024

Vorverkum bænda seinkar

Veturinn sem leið var sá kaldasti frá vetrinum 1998 til 1999, samkvæmt tíðindum ...

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Fréttir 16. maí 2024

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
Fréttir 16. maí 2024

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði

Grunnur undir kornþurrkstöð í Eyjafirði er nú að taka á sig mynd í landi Laugala...

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu
Fréttir 16. maí 2024

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu

Kúabændur á starfssvæði Auðhumlu mega gera ráð fyrir arðgreiðslu frá samstæðunni...

Vetnisknúin skip í smíðum
Fréttir 15. maí 2024

Vetnisknúin skip í smíðum

Smíði er hafin á tveimur vetnis­ skipum á vegum Samskipa. Áætlað er að þeim verð...

Drómasýki í hrossum
Fréttir 13. maí 2024

Drómasýki í hrossum

Drómasýki er vaxandi vandamál í íslenskri hrossarækt. Til stendur að stofna star...