Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Anna María Flygenring, formaður Geitfjárræktarfélags Íslands, í góðum félagsskap.
Anna María Flygenring, formaður Geitfjárræktarfélags Íslands, í góðum félagsskap.
Mynd / smh
Fréttir 1. júlí 2021

Óviðunandi þjónusta sláturhúsanna við geitabændur

Höfundur: smh

Á bænum Hlíð í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, býr Anna María Flygenring, formaður Geitfjárræktarfélags Íslands, ásamt manni sínum, Tryggva Steinarssyni. Þau reka þar kúabú með 45 mjólkandi kúm auk þess að vera með nokkrar litlar aukabúgreinar; á annan tug landnámshænsna, allnokkur hross, sjö huðnur og kiðlinga, þrjátíu kindur og eina forystuær sem nýlega bar tveimur lömbum.

Anna María gaf nýverið kost á sér til áframhaldandi formennsku í Geitfjárræktarfélaginu og segir margt áhugavert í deiglunni hjá geitabændum. Hún gagnrýnir sláturleyfishafa fyrir óviðunandi þjónustu við geitabændur og efast um að ný reglugerð, sem heimilar slátrun í minni geita- og sauðfjárhúsum, gagnist geitabændum mikið.

„Geitum hefur aðeins verið að fjölga að undanförnu, sumsé geitabændum sem eru með lítinn frístundabúskap með geitur. Félagsmönnum okkar hefur hins vegar ekki fjölgað og ég kann ekki skýringu á því af hverju þessir geitabændur skila sér ekki til okkar því það eru alls kyns hagsmunir sem félagið berst fyrir. Þá erum við líka með okkar fína merki, Afurð, sem við létum hanna fyrir okkur árið 2019 og félagsmenn fá að nota á sínar afurðir,“ segir Anna María.

Geitabændum hefur fjölgað mjög frá árinu 2004 þegar þeir voru einungis 40, en á síðasta ári voru þeir komnir í 119 samkvæmt Mælaborði landbúnaðarins. Á sama tíma hefur fjöldi geitfjár farið úr 422 í 1.621. Enn er íslenski geitastofninn skilgreindur í mikilli útrýmingarhættu, en Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna telur búfjárstofna í slíkri hættu þar sem kvendýr eru færri en 4.200.

Byrjaði með þrjár geitur 

„Ég byrjaði með þrjár geitur, eiginlega bara að gamni mínu og vegna þess hversu áhugaverð mér fannst þessi tegund. Mér fannst ég líka þurfa að gera eitthvað í þágu íslensku geitarinnar, þegar útlitið var sem verst á Háafelli,“ segir Anna María um upphaf geitfjárræktar í Hlíð. Hún vísar til þess neyðarástands sem skapaðist í greininni á Íslandi með rekstrarerfiðleikum á langstærsta geitabúi landsins árið 2014. Hún segir gleðiefni að Jóhanna B. Þorvaldsdóttir, geitabóndi á Háafelli, hafi aftur gefið kost á sér í stjórn félagsins á aðalfundinum, en hún sat í stjórn í mörg ár og gegndi einnig formennsku.

„Það má segja að við Tryggvi hæfum formlegan kúabúskap hér árið 1981. Tryggvi er með ræturnar hér í Hlíð en ég hafði engar beinar tengingar í landbúnað þegar ég tók ákvörðun um að fara í Bændaskólann á Hvanneyri. Ég hef rætur í Hafnarfirði og Reykjavík, en bjó líka úti á landi; til dæmis Hveragerði, Stykkishólmi og Dalvík. Svo er þetta krókaleið sem skilar mér hingað. Mamma hafði verið hér kaupakona, sem var í gegnum frænda okkar. Þá var ekki verknám inni í náminu, en kennarinn minn, Magnús B. skólastjóri, sagði mér að ég yrði að kunna að mjólka og það lærði ég hér í Hlíð í gegnum kunningsskap mömmu við foreldra Tryggva.

Á Hvanneyri fann ég mig vel í öllu búfjárhaldi – ekki síst með hrossin – og ég hef byggt á þeirri undirstöðu í allri ræktun; hvort heldur í kringum skepnurnar eða jarðrækt og garðyrkju.“

Mjaltaþjónn settur upp

„Stærstu breytingarnar í okkar búskap voru þegar við keyptum mjaltaþjón fyrir það sem við köllum enn þá „nýja fjósið“, en er reyndar að verða 21 árs. Þá þótti þetta mjög fullkomið, með kjarnfóðurbási, lausagöngu auðvitað og mjaltagryfju. Á þeim tíma var nú frekar neikvætt viðhorf gagnvart þessum tækniframförum. Við fengum margar spurningar um hvort kýrnar færu í kjarnfóðurbásinn – hvort þær ætu yfirhöfuð mélið – og hvort þær færu upp á legubásana. Sumsé þarna var mikil tortryggni sem breyttist svo yfir í jákvæðni á mjög stuttum tíma. Við fengum mjög marga í heimsókn til að skoða fjósið og það varð heilmikið félagslíf í rauninni hér í sveitinni í kringum þessar breytingar okkar.

Það var Arnar Bjarni Eiríksson í Landstólpa sem sá um uppsetningu á mjaltaþjóninum og stóð fyrir ýmsum uppákomum með nautgriparæktarfélaginu, til dæmis fræðslufundum og ferðum.“

Þau Anna María og Tryggvi hafa haldið sínum búskap í svipaðri stærð frá því að „nýja fjósið“ var tekið í gagnið. „Ástæðan er að jörðin ber einfaldlega ekki stærri búskap,“ útskýrir Anna María. „Það er eiginlega enginn möguleiki fyrir okkur að stækka túnin, við erum aðkreppt má segja. Aðaltúnin okkar liggja hér niður að Stóru-Laxá, en svo erum við með lakari tún hér hærra í landinu.  Þar er bratti, enda situr landið hér utan í hlíð sem bærinn heitir eftir – í um 140 metra hæð yfir sjávarmáli. En hér er mjög góður jarðvegur, gjarnan veðursælt – jafnvel oft betra en niðri við Árnes – og rennandi vatn í öllum hólfum.“

Mismunandi prjónaband í ýmsum litbrigðum með ólíkri áferð; unnið úr geitafiðu, ull af forystukind og sauðfé. Mynd / smh

Einstök geitafiða

Anna María hefur mikinn áhuga á ull og ullarvinnslu – bæði af íslenska sauðfénu en auðvitað ekki síður geitafiðunni. Hún segist hafa verið heppin þegar henni bauðst að taka þátt í félagsstarfi kvenna sem vinna ull og prjóna í Þingborg, rétt austan við Selfoss.

„Ég hef farið með reyfi í Uppspuna, til hennar Huldu, og látið vinna fyrir mig mitt eigið band. Mér finnst það skemmtilegt og það gefur mér mikið að geta framleitt mitt eigið prjónaband og vísað á kindina sem það er komið af. En maður finnur að fólk er ekki mjög viljugt að borga mikið meira fyrir slíkt upprunavottað band, sem ég skil ekki, því þetta er miklu dýrara í framleiðslu fyrir okkur. Maður fer kannski með eitt til þrjú reyfi í einu í vinnslu, jafnvel í tveimur eða þremur litategundum, og það kostar bara eðlilega meira en vinnsla á stærri skala eins og til dæmis hjá Ístex. 

Fólk skilur ekki í hverju verðmunurinn er fólginn og ber saman kannski verð á vörunum okkar saman við léttlopa frá Ístex, sem kostar kannski einn þriðja af því sem við myndum þurfa að fá fyrir okkar band – bara til að standa undir kostnaði. Ég myndi segja að við þyrftum að fá að lágmarki 1.500 krónur fyrir 50 grömm,“ segir Anna María, sem selur sitt band og stundum eigin prjónavörur í Þingborg. Hún bendir áhugasömu fólki um ull og prjónaskap á að haldinn verður viðburðurinn Ullarvika 2021 í haust á vegum nokkurra aðila á Suðurlandi.

Anna María segir að fiðan sé svo í rauninni allt annað dæmi.  Fyrir nokkrum árum var ekki tækjabúnaður á Íslandi til að vinna fiðuna í prjónaband og hana þurfti að senda úr landi til vinnslu. En með tilkomu Uppspuna opnuðust tækifæri fyrir geitabændur að láta vinna fiðuna fyrir sig með minni fyrirhöfn og tilkostnaði. „Við erum alltaf að reyna að vekja meiri athygli á geitafiðunni og fræða fólk og bændur um vinnsluna á henni. „Við tökum nú þátt hér á Hlíð í gerð fræðslumyndbands um vinnslu á geitafiðu, aðallega dóttir okkar, Guðný Stefanía Tryggvadóttir, en ég er til aðstoðar. Þetta er gert í tengslum við geitfjárnámskeið sem Birna Kristín Baldursdóttir er að setja á laggirnar við Landbúnaðarháskóla Íslands. Okkar hlutverk er að kenna og sýna kembingu á geitunum og feril fiðunnar að því að verða úrvals hráefni til að vinna úr.“

Fiðan losnar á vorin og eru geiturnar þá kembdar

„Það er miklu meiri vinna við fiðuna en kindaullina og þú færð minna út úr henni. Bæði þarf að hreinsa hana og svo er ferlið í gegnum vélarnar snúnara. Þannig verður hún að vera miklu dýrari,“ segir Anna María.

Hún segir að fiðan sé takmörkuð auðlind á Íslandi, lítið framboð sé yfirleitt af þessu einstaklega fíngerða og mjúka efni. „Það selst allt strax sem er í boði á Íslandi. Það er í raun merkilegt hversu góð íslenska fiðan er, því geitin hefur ekki verið ræktuð vegna hennar – hún var alltaf aðallega ræktuð til mjalta.“ 

Afurðir geitarinnar 

Sem fyrr segir var hannað merki fyrir félagið árið 2019, sem vörur félagsmanna sem eru til sölu geta borið.

„Ég held að það gildi það sama um kjötið sem hefur verið í boði, að það seljist bara allt upp líka. En við höfum lent í ákveðnum vandræðum varðandi þjónustu sláturhúsanna við okkur. Stærri sláturhúsin velja dagana sem þeir vilja slátra fyrir okkur, en ég undanskil Hvammstanga sem mér skilst að þjónusti Háafell vel. 

Svo er okkur gert að taka allt kjöt heim, til dæmis. Þau taka ekkert í umboðssölu frá okkur eins og þau gera fyrir aðrar svokallaðar hefðbundnar búgreinar. Svo ég segi aðeins frá minni neikvæðu reynslu af þjónustu sem ég fékk hjá Sláturhúsi Vesturlands í Borgarnesi síðasta haust. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum, því ég bað um að fá að taka stökurnar mínar heim en þær hurfu og voru ekki afgreiddar samkvæmt minni beiðni. Að mestu leyti gekk ágætlega að vinna kjötið samkvæmt minni beiðni, en þó ekki alveg eins og ég bað um. Ég held að sauðfjárbændur létu nú í sér heyra ef tveir skrokkar týndust bara í sláturhúsinu, að þeir fengju þá ekki einu sinni og ekki borgað fyrir þá. Því stökurnar sem glötuðust hjá mér geta verið jafnmikils virði og tveir lambsskrokkar að lágmarki. Síðan hafa verið erfiðleikar í fláningu á geitaskrokkunum og við höfum líka fengið til baka skemmdar stökur, því það er vissulega erfiðara að flá þá. Þannig að við höfum kannski ekki mjög góða sögu að segja af viðskiptum okkar við sláturhúsin. En þau verða að bæta sig í þessu því við erum að borga sérstaklega fyrir vinnsluna og heimtöku á geitunum, eins og borgað er fyrir heimtöku á lömbunum.“ 

Boðið upp á einn slátrunardag í september

Anna María bendir á að það sé einnig talsvert óheppilegt að geta ekki byrjað geitaslátrun fyrr, til dæmis snemma í ágúst og ekki seinna en um miðjan ágúst, því hafrar sem fæddir eru um miðjan febrúar eru þá að verða kynþroska og það hefur mikil neikvæð áhrif á bragðgæðin. „Sláturfélag Suðurlands gaf bara upp einn dag í september sem okkur var heimilt að láta slátra hjá þeim sem er auðvitað ekki nógu gott fyrir kjötafurðir af höfrum sem eru fæddir snemma. Sumir geitabændur þurfa að láta gelda snemmfædd hafurskið, sem auðvitað eykur á kostnað.

Síðan er eitt mjög brýnt mál sem snýr að ráðuneytinu og við höfum ákaft kallað eftir, en það er að setja í reglugerð skyldu á herðar sláturhúsanna að viðhafa kjötmat. Eins og staðan er í dag þá er þeim ekki skylt að meta kjöt af geitum – þótt flestir geri það og skili mati – og það er ástæðan fyrir því að engar sláturtölur eru til um geitakjöt í dag – til dæmis á Mælaborði landbúnaðarins. Ekkert innlegg er í sláturhúsin og því engar raunverulegar tölur um kjötframleiðslu.“

Heimaslátrunarreglugerð mun lítið gagnast geitabændum

Nú hefur verið gefin út reglugerð sem heimilar heimaslátrun í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum. Anna María sér ekki fyrir sér að reglugerðin breyti miklu hvað varðar möguleika geitabænda til að bjarga sér sjálfir. „Ólafur Þór Hilmarsson hjá Matís kom í heimsókn á aðalfund okkar til að útskýra fyrir okkur hvernig reglugerðin virkaði, enda ekki vanþörf á því. Þar rann upp fyrir okkur að þetta reynist vera allt öðruvísi en gert var ráð fyrir. Okkur sýnist þarna vera allt of stífar og flóknar reglur fyrir svo umfangslitla starfsemi sem slátrun á geitum er. Ég hef ekki trú á því að geitabændur munu almennt skoða þennan möguleika.

Þrátt fyrir allt held ég nú að það sé bjart yfir greininni og hef sjaldan verið eins bjartsýn. Ef ég væri að byrja í búskap núna er ég viss um að ég byrjaði bara með um 50 geitur sem ég myndi mjólka til ostagerðar – því það er líka gríðarleg eftirspurn eftir honum – og framleiðslu á öðrum mjólkurvörum eins og ís og skyri. Þar eru miklir möguleikar,“ segir Anna María Flygenring í Hlíð.

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...