Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Íslensk náttúra leikur stórt hlutverk í bókinni og hér má sjá Christínu og Hremmsu í vatnsleikfimi.
Íslensk náttúra leikur stórt hlutverk í bókinni og hér má sjá Christínu og Hremmsu í vatnsleikfimi.
Mynd / Gígja Dögg
Fréttir 7. september 2016

Óður til íslenska hestsins

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Horseplay – Training and Riding the Young Icelandic Horse er ný bók eftir Helgu Thoroddsen reiðkennara. Bókin fjallar um íslenska hestinn og þjálfun hans. 
 
Í bókinni eru sjö kaflar og fjalla fimm þeirra almennt um íslenska hestinn, sögu hans, eiginleika, gangtegundir og þjálfun. Tveir síðustu kaflarnir fjalla síðan ítarlega um margvíslegar aðferðir sem hægt er að nýta sér við fortamningar og frumtamningar á íslenskum hestum. 
 
„Ég hef unnið með og átt hesta síðan ég var unglingur og það má segja að í bókinni hafi verið safnað saman reynslu og aðferðafræði sem ég hef tileinkað mér í gegnum tíðina í starfi og leik með hestum.
Bókinni er ætlað að skírskota til mjög breiðs hóps, allt frá algjörum byrjendum til þeirra sem hafa töluverða reynslu og langar að vinna með unga hesta þó svo að aðferðafræðin sem kynnt er geti vel gagnast þeim sem eru að temja og þjálfa eldri hross. Þetta er gamalt og nýtt í bland en aðaláherslan er að benda á leiðir til að temja og þjálfa hesta sem mest við náttúrulegar aðstæður,“ segir Helga en hún er m.a. höfundur Knapamerkja, sem er stigskipt nám í hestamennsku sem nýtur mikilla vinsælda meðal hestamanna.
 
Eftir að hafa haft lífsviðurværi af því að stunda reiðkennslu, rækta, temja og selja hesta í um tuttugu ár segist Helga hafa haft mikla þörf fyrir að koma reynslu sinni og áherslum í hestamennsku á framfæri. „Ég fann líka að það stefndi í að ákveðnu tímabili í lífi mínu væri að ljúka og langaði til að skrásetja þá aðferðafræði sem var leiðarljós mitt í tamningum og þjálfun hrossa um árabil. Í gegnum kennslu mína á Hólum hafði ég einnig uppgötvað að ég sameina að nokkru leyti gamla og nýja tíma sem hestamanneskja og fannst þar af leiðandi gott að draga reynsluna saman á einn stað öðrum til upplýsinga en þó ekki síður fyrir mig sjálfa. Markmiðið var að gefa út fallega bók sem væri óður til íslenska hestsins, aðgengileg mörgum, hagnýt og nokkuð tímalaus og ég held að það hafi tekist býsna vel.”
 
Fagmenn fram í fingurgóma
 
Í nokkur ár hafði Helgu dreymt um að mynda feril í tamningum og draga upp heildarmynd frá upphafi til enda. „Þetta hafði ég oft rætt við tamningastelpurnar mínar en aldrei fundið réttu aðstæðurnar, yfirleitt of mikið að gera í brauðstritinu til að fara í svona gæluverkefni! Svo er líka dýrt að vera með fagmenn í vinnu en svona verk gengur ekki upp nema með hæfileikaríku og vel menntuðu fólki. Mestu áskoranirnar voru að finna tíma þar sem allir gætu verið með – ljósmyndarar, tamningafólk, góðir hestar í tamningu og síðast en ekki síst að veðrið væri í lagi.“ 
 
Með þrautseigju og útsjónarsemi tókst á endanum að búa til aðstæður og tíma til að vinna verkið. „Allt gekk upp, þökk sé jákvæðu viðhorfi og ódrepandi dugnaði þeirra sem tóku þátt og eiga svo sannarlega heiður skilinn. Textann skrifaði ég svo á hlaupum á milli annarra verka svo segja má með réttu að þetta hafi verið hjáverk,“ segir Helga. Að bókinni kemur hópur af fólki sem hún segist einstaklega heppin að hafa fengið að vinna með. „Ég er svo heppinn að hafa haft í kringum mig frábært fólk til að vinna með. Gígja Dögg, einn fremsti hestaljósmyndari landsins og þótt víðar væri leitað, er sambýliskona sonar míns, Helga, og var svo elskuleg að ljá þessu verki alla sína krafta og snilld og án hennar hefði bókin ekki orðið svipur hjá sjón. Helgi sonur minn er líka býsna snjall með myndavélina og á nokkrar ótrúlega fallegar og sérstakar myndir í bókinni auk þess að hafa eytt ómældum tíma í alls kyns reddingar til að hlutirnir gætu gengið upp. Maðurinn minn Gunnar var svo kletturinn á bak við tjöldin sem sá um járningar, hesthús, girðingar og bara allt sem upp á vantaði í dagsins önn. Síðast en ekki síst er svo tamningakonan okkar til margra ára, Christína Mai, knapi og þjálfari í bókinni og það má líka segja að án hennar hefði bókin heldur ekki orðið að því sem varð enda er hún einstaklega metnaðarfull og fagleg í sinni vinnu auk þess að fara einstaklega vel á hesti. Frá vinnu minni við Knapamerkin var ég svo í góðu sambandi við Susan Harris listakonu, en hún teiknar hesta af einstakri snilld og hefur myndskreytt margar þekktar hestabækur. Ég setti markið hátt og lofaði henni að ráða ferðinni við teiknivinnuna og sé ekki eftir því enda teikningarnar í bókinni afar fallegar og vel gerðar. Ég hafði líka góð tengsl við Tómas Tómasson, grafískan hönnuð, og hann setti upp bókina af miklum metnaði og tókst að uppfylla markmið mitt um að hún væri ekki bara hagnýt heldur líka falleg. Þannig að það má segja að ég hafi verið einstaklega heppin með mannskap en kannski líka dugleg og útsjónarsöm að ná öllu þessu liði saman og virkja það til góðra verka. Það var ekki alltaf auðvelt en tókst á endanum. Til að klára svona hugsjónaverk þarf oft að vera býsna ýtinn en ég held að allir hafi fyrirgefið mér eftirgangsmunina þegar bókin rann úr prentsmiðjunni,“ segir Helga.
 
Aðkallandi þörf á efni um íslenska hestinn á erlendum tungumálum
 
Bókin er aðeins á ensku, en Helga segist þar vera að svara köllun eftir efni um íslenska hestinn á erlendum tungumálum. „Í gegnum vinnu mína við Knapamerkin hafði ég oft fengið þá beiðni hvort ekki stæði til að setja efnið yfir á önnur tungumál þannig að ég var mjög meðvituð um þörfina fyrir efni um íslenska hestinn á öðrum tungumálum en íslensku. Ég ákvað því að hafa bókina á ensku til að svara þessari þörf.
Ég er í miklum tengslum við erlenda hestamenn og fannst þetta rökrétt, sérstaklega vegna þess að mér veitist mjög létt að skrifa á ensku og á marga vini sem voru tilbúnir að lesa yfir og gefa góð ráð. Ég setti mér það markmið að þegar bókin í núverandi mynd hefur selst þannig að komið sé nokkurn veginn upp í kostnað þá fer maður kannski að huga að þýðingum yfir á önnur tungumál. Það er býsna dýrt að gefa út bækur og það er kannski með þetta eins og hestamennskuna, þetta gerir enginn fyrir peninga heldur af ástríðu. Það er allavega þannig í mínu tilfelli. Sumir kaupa sér dýra hluti, eða hesta, ég gaf út bók!“ segir Helga en hægt er að nálgast bókina í bókabúðum og hestabúðum eða beint í gegnum höfundinn. Heimasíða bókarinnar er horseplay.is.

6 myndir:

Starfshópur um stofnun þjóðgarðs
Fréttir 9. september 2024

Starfshópur um stofnun þjóðgarðs

Drífa Hjartardóttir hefur verið skipuð formaður starfshóps sem á að undirbúa og ...

Atrenna að minni losun landbúnaðar
Fréttir 6. september 2024

Atrenna að minni losun landbúnaðar

Í uppfærðri aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, sem kynnt var í vor og e...

Verkefnisstjórn loftslagsaðgerða
Fréttir 6. september 2024

Verkefnisstjórn loftslagsaðgerða

Ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum var kynnt um miðjan júní. Nýlega var skipuð ve...

Nýr hornsteinn lagður að Sögu
Fréttir 5. september 2024

Nýr hornsteinn lagður að Sögu

Lagður var nýr hornsteinn að húsinu sem lengst af gekk undir nafninu Bændahöllin...

Upplýsingasíða um riðuvarnir
Fréttir 5. september 2024

Upplýsingasíða um riðuvarnir

Karólína Elísabetardóttir í Hvammshlíð, frumkvöðull í riðumálum, hefur tekið sam...

Hálfíslenskur bóndi á lífrænu búi
Fréttir 5. september 2024

Hálfíslenskur bóndi á lífrænu búi

Á ferð sinni um Jótland hitti Magnús Halldórsson, umsjónarmaður Vísnahorns Bænda...

Viðfangsefnin spanna alla virðiskeðjuna
Fréttir 5. september 2024

Viðfangsefnin spanna alla virðiskeðjuna

Matís gaf Grænmetisbókina út í sumar, sem er heildstætt vefrit um margar hliðar ...

Óviðjafnanleg fágun
Fréttir 5. september 2024

Óviðjafnanleg fágun

Bændablaðið fékk til prufu EQE SUV rafmagnsbílinn frá Mercedes Benz. Um er að ræ...

Brögðóttur Aðalsteinn
10. september 2024

Brögðóttur Aðalsteinn

Heimsframleiðslan 37 milljarða virði
10. september 2024

Heimsframleiðslan 37 milljarða virði

Manstu vorið?
10. september 2024

Manstu vorið?

Af hverju lífræni dagurinn?
10. september 2024

Af hverju lífræni dagurinn?

Berjaflóra Íslendinga
10. september 2024

Berjaflóra Íslendinga